„Betri“ veg um Kjalarnes? Nei, takk!

Sigurjón Benediktsson

Sigurjón Benediktsson

Undarleg umræða er í gangi um Vesturlandsveg um Kjalarnes. Heilu fundirnir eru haldnir þar sem íbúar Kjalarness gráta úr sér augun og eru engir eftirbátar alvöru landsbyggðarvælara að norðan.
Stjórnmálamenn sjá auðvitað tækifæri í aumingjadómnum og mæta og klappa á bakið á Kjalnesingum, svona til að hressa þá, og þiggja kaffi og kleinur um leið.

Hvert er vandamálið?
Það vita allir að vegir eru ekki líklegir til að skapa vandamál. Eru einfaldlega leið milli A og B sem einhverjir snillingar hanna og aðrir byggja. Vandamálið er umferðin. Fjöldi rennireiða sem fer milli A og B. Það er því snilldarlausn að hafa vegi þannig að sem fæstir fari þá. Þar hefur vel til tekist á Kjalarnesinu og því undarlegt að vera væla yfir vegi sem sannarlega minnkar umferð ökutækja. Hefur sannað gildi sitt. Bætir þannig mannlíf á nesinu. Minnkar mengun og hávaða.

Fyrir hverja?
Það er erfitt að skilja að einhverjir ferðamenn, sem eru hér aðeins sem dægurflugur, skuli stjórna umræðu um vegi og samgöngur. Held að þeir geti bara farið Kjósarskarðsveg ef þá langar út úr borginni. Við, sem viljum vera í friði og ró á Kjalarnesinu, kærum okkur sköllótta um þessa ferðamenn. Verða þeir hér eftir fimm ár ? Eftir 10 ár? Enginn veit.

Gæfusporið?
Þegar Kjalarneshreppur hinn forni var innlimaður í borg óttans héldu einhverjir að það væri mikið gæfuspor. Einu sporin sem það hjónaband hefur getið af sér, eru sporin í veginum um Kjalarnesið. Reyndar er það svo, að afar gott er að hjóla í þessum sporum og er ég viss um að hin frægi Hjólmar mun leggja til að gefa öllum íbúum Kjalarness hjól til að minnka umferðina og auka yndi íbúa. Auk þess veitir ekki af að róa niður þær þúsundir grísa og mikinn fjölda fiðurfjár sem bíða örlaga sinna á nesinu góða. Hávaðinn fer illa í verur á endalausum válista.

Hvað næst?
Kjalarnesið var frægt fyrrum fyrir ástir og umburðarlyndi. Þar var á sama tíma ein fyrsta kirkja landsins reist og eitt stærsta hof sem sögur fara af hérlendis. Nú eru Kjalnesingar helst þekktir fyrir málaferli og landamerkjadeilur sem og angan af svínaskít og hænsnadriti. Uppgangur er aðallega í landbúnaðargeiranum. Stundum leiðir það til niðurgangs. Svín og hænsn eru aðall Kjalarnessins. En það er önnur saga.

Sigurjón Benediktsson
Esjuhofi Kjalarnesi