Umhverfið er okkar

Michele Rebora

Michele Rebora

„Umhverfið er okkar,“ stendur fremst á nokkrum trukkum sem keyra mörgum sinnum á dag í gegnum bæinn okkar með baggaðan úrgang á leið í urðun í Álfsnes. Í raun eru mun fleiri bílar sem leggja leið sína þangað en um 150 þúsund tonn af úrgangi verða urðuð í Álfsnesi í ár.
Eitt stykki skemmtiferðaskip af stærstu gerð sem leggst að bakkanum hér í Reykjavík, svona til að setja þessar risastærðir í samhengi. Um 80 þúsund tonn af úrgangi til viðbótar eru svo keyrð í Álfsnes til endurnýtingar, til dæmis í jarðgerð og landmótun.
Á síðustu árum hafa mikilvæg skref verið stigin til að draga úr urðun úrgangs frá höfuðborgarsvæðinu og við getum glaðst yfir því að Mosfellsbær hefur verið virkur þátttakandi í þeim öllum, í góðu samstarfi við SORPU: blátunna við hvert heimili fyrir allan pappír og pappa, plastsöfnun í poka í gráu tunnuna, grenndargámar fyrir gler. Unnið er að enn stærri áfanga með byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar til að meðhöndla allan lífrænan hluta úr heimilissorpi og endurheimta úr honum bæði orku (metan) og næringarefni (jarðvegsbætir).
En betur má ef duga skal. Lykillinn felst fyrst og fremst í að draga úr myndun úrgangs: nota minna, nýta betur, henda minna.
Þar getum við öll lagt okkar lóð á vogarskálar, það þarf ekki að vera mikið eða flókið. Byrjum núna um hátíðirnar:
– Sneiðum framhjá óþörfum umbúðum. Notum fjölnota poka.
– Eldum passlega. Nýtum afgangana. Gleymum ekki fuglunum.
– Kaupum ekki drasl og óþarfa hluti. Gefum hluti sem endast. Gefum upplifun. Gefum af tímanum okkar.
Umhverfið er okkar, svo sannarlega. Pössum upp á það, saman.
Gleðileg jól!

Michele Rebora
Aðalmaður Vina Mosfellsbæjar í umhverfisnefnd.

Höldum gleðileg jól

Sveinn Óskar Sigurðsson

Sveinn Óskar Sigurðsson

Nú þegar jólin nálgast og aðventan lýsir okkur inn í nýja tíma er rétt að líta örstutt til baka og þakka þann stuðning sem bæjarbúar veittu Miðflokknum í síðustu kosningum til sveitastjórnar.
Hann var ómetanlegur og markmið okkar, sem skipuðum lista flokksins hér í Mosfellsbæ, er að vinna vel fyrir bæjarbúa og tryggja málefnalega og innihaldsríka umræðu.

Fjölskyldan er sú eining sem mikilvægust er öllum og sérstaklega börnum. Friður á heimilum er grunnur að velferð, árangri og ánægju. Fyrirgefningin er eitt af grunngildum kristilegs siðgæðis og trúar. Nú þegar Ísland tekur örum breytingum og þar með bærinn okkar er mikilvægt að opna hjarta sitt og skynja hvað maður getur gert betur.

Við verðum engu að síður að gæta að því að minnsta einingin í samfélaginu, fjölskyldan, nái endum saman og geti búið að börnunum, tryggt framtíð þeirra og velsæld. Það gerist ekki ef áhugi er takmarkaður og fjármagn af skornum skammti. Sameinuðu þjóðirnar hafa löngum stuðlað að því að bæta hag fólks þar sem það býr við mikla fátækt og örbirgð.
Ef allt þrýtur verður að bregðast við, hjálpa. Sú hjálp verður ávallt að miðast við getu þess sem hjálpar, vilja og þor. Við höfum bæði vilja og þor Íslendingar þó svo að við viljum einnig tryggja öðru fólki í landinu velferð.
Miðflokkurinn vill hjálpa, hlúa að og líkna. Til þess að geta gert það verður að tryggja að aðbúnaður og grunnur samfélagsins sé sterkur, að fjármunum sé ekki sóað að óþörfu og það nýtt illa. Því miður er ekki svo að allir nýti fjármuni vel og mörg dæmi eru um það.
Nú skulum við kenna börnum okkar að gleðin og góðir siðir séu mikilvægir þættir sem og fyrirgefningin sem er ómissandi. Mismunandi trúarhópar hafa slíkt í sínum trúarbrögðum og vilja gæta að því að tryggja sátt í samfélaginu. Því þarf ekki sérstaka siðmennt til þó siðfræðin sé mikilvæg og gagnrýnin hugsun.

Dæmisagan um miskunn, iðrun og fyrirgefningu er ekki eitthvað gamalt og úrelt. Fyrir fáeinum vikum gat undirritaður sýnt nokkrum ungmennum hér í bænum hvað fyrirgefning gengur út á. Allir gengu frá með frið í hjarta, nýjan vinskap og lærdóm. Það var vel og enginn, get ég fullyrt, er hamingjusamari en sá sem fyrirgefur. Við Mosfellingar eigum frábært ungt og upprennandi fólk sem er og verður okkur öllum til sóma. Þau eru sprotar lífsins. Gleðileg jól.
Megi góður Guð og aðrar góðar vættir vera með ykkur yfir jólin og um alla tíð.
Virðingarfyllst,

Sveinn Óskar Sigurðsson, fulltrúi Miðflokksins
í bæjarráði og bæjarstjórn Mosfellsbæjar

Árið sem er að líða

Margrét Lúthersdóttir

Margrét Lúthersdóttir

Á sama tíma og við hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ óskum ykkur gleðilegrar hátíðar viljum við þakka fyrir samstarfið og árið sem er að líða. Starf deildarinnar hefur farið víða á liðnu ári og tekið breytingum í samræmi við breytta íbúasamsetningu.
Sjálfboðaliðar deildarinnar prjónuðu fyrir börn í Hvíta-Rússlandi og hælisleitendur á Íslandi, þeir aðstoðuðu börn við lestur og heimanám, liðsinntu og studdu við flóttafólk á svæðinu, héldu úti skiptifatamarkaði víðsvegar, heimsóttu gestgjafa, rufu félagalega einangrun og brugðust við neyð þegar þess þurfti.
Svæði deildarinnar er viðamikið og lifandi. Deildin hefur vaxið á árinu úr 60 sjálfboðaliðum upp í 100 og starfið í samræmi. Við munum halda áfram með þau fjölmörgu verkefni sem taka mið af þörfum nærsamfélagsins auk þess sem við hyggjumst efla þá starfsemi er snýr að innflytjendum, ungmennum og eldri borgurum.
Við erum fyrst og fremst þakklát sjálfboðaliðum okkar því án þeirra væri framkvæmd verkefna okkar ekki möguleg. Þeim sem styrkja starfið með félagsgjöldum eða annars konar framlagi kunnum við einnig miklar þakkir fyrir. Við erum hrærð, stolt og full af þakklæti og vonumst til að eiga í farsælu samstarfi á komandi ári.
Vilji fólk styðja enn meira við starf Rauða krossinn á Íslandi er hægt að gerast Mannvinur. Þeir greiða mánaðarlegt framlag sem nýtist í ýmiskonar hjálparstarf Rauða krossins á innlendum og erlendum vettvangi.
Hafið það sem allra best um hátíðarnar og hlúið hvert að öðru, þannig byggjum við betra samfélag.

Fyrir hönd Rauða krossins í Mosfellsbæ,
Margrét Lúthersdóttir, deildarstýra

Lýðræði og mannréttindi varða okkur öll

Margrét Guðjónsdóttir

Margrét Guðjónsdóttir

Ein af meginkröfum okkar tíma er aukið lýðræði, samráð og upplýsingar um athafnir stjórnvalda.
Þar gegna sveitarfélög mikilvægu hlutverki og ber að tileinka sér markvissar aðferðir til íbúasamráðs. Þau mega aldrei missa sjónir af því að þeirra hlutverk er að taka ákvarðanir út frá mati á heildarhagsmunum.

Lýðræðis- og mannréttindanefnd hefur verið sett á stofn hjá Mosfellsbæ. Nefnd þessi er ný og er henni falið að fara með verkefni lýðræðis- og mannréttindamála fyrir hönd bæjarstjórnar eftir því sem nánar er kveðið á um í samþykkt bæjarstjórnar svo og í samræmi við lög um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994.
Auk þess fer nefndin með jafnréttismál eftir því sem kveðið er nánar um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. lög nr. 10/2008. Nefndin sinnir lýðræðismálum sem áður voru á borði bæjarráðs svo og jafnréttismálum sem voru á borði fjölskyldunefndar.

Það er m.a. hlutverk og verkefni nefndarinnar að gera tillögur til bæjarstjórnar um stefnu Mosfellsbæjar í lýðræðis- og mannréttindamálum og jafnframt að hafa eftirlit með að stefna bæjaryfirvalda í málaflokknum sé haldin á hverjum tíma með því að leggja reglubundið mat á stöðu málaflokksins og gera þá tillögur um úrbætur ef á þarf. Nefndinni er einnig falið að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar eigi þannig jafnan möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.

Það er eitt af markmiðum Vina Mosfellsbæjar að virkja lýðræðið með opinni, gegnsærri og gagnvirkri stjórnsýslu og því fögnum við stofnun þessarar nefndar.
Ég óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi árum.

Margrét Guðjónsdóttir
Varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar og aðalmaður í lýðræðis- og mannréttindanefnd.

Við vetrarsólhvörf

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason

Um þessar mundir er skammdegið í algleymingi og sól lágt á lofti.
En á morgun verða vetrarsólhvörf, þá verður tafli tímans snúið við og lífgjafi okkar allra hækkar á himni, jafnt og þétt. Fram undan eru jól og áramót og mikil eftirvænting og tilhlökkun liggur í loftinu, ekki síst hjá yngstu kynslóðinni.
Á þessum tímamótum viljum við undirrituð horfa fram á veginn mót hækkandi sól og nefna nokkur mál sem eru ofarlega á baugi á vettvangi bæjarmálanna.

Fjárhagsáætlun
Fyrir skemmstu var fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar samþykkt í bæjarstjórn og er hún bindandi fyrir næsta ár og stefnumótandi fyrir árin 2020-2022. Ljóst er af áætluninni að þar fer saman ábyrg fjármálastjórn, metnaður og vilji til að styrkja grunnstoðir sveitarfélagsins enn frekar. Áætlunin tekur mið af málefnasamningi V- og D-lista sem gerður var eftir kosningarnar síðastliðið vor.

Ný menningarstefna
Núna stendur yfir vinna við nýja menningarstefnu fyrir Mosfellsbæ þar sem meðal annars verður fjallað um málefni félagsheimilisins Hlégarðs. Þessi vinna byggir að hluta til á niðurstöðum frá opnum íbúafundi sem haldinn var síðastliðið haust en þar komu fram ýmsar áhugaverðar hugmyndir um menningarmál í sveitarfélaginu.

Bryndís Brynjarsdóttir

Bryndís Brynjarsdóttir

Skipulagsmál og umhverfið
Brátt hefst endurskoðun á aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030. Sveitarfélagið stækkar ört, enn frekari uppbygging er fram undan og þörf á að endurskoða aðalskipulagið. Við þá vinnu verða umhverfismálin höfð að leiðarljósi og tekið mið af grænum svæðum, bæði stórum og smáum.
Við Mosfellingar búum einstaklega vel að göngustígum og fræðsluskiltum, tímans tönn hefur nagað sum þeirra en fyrirhugað er að endurnýja þau skilti sem verst eru útleikin.
Vinna við nýja umhverfisstefnu Mosfellsbæjar stendur yfir en þar verður tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Fræðslumál
Fræðslumálin eru umfangsmikil í rekstri allra sveitarfélaga og á næstu árum verður kapp lagt á að efla enn frekar þennan málaflokk hér í Mosfellsbæ. Fjárframlög til fræðslumála verða stóraukin á árinu 2019 og nemur sú hækkun um 17% á milli ára.
Mikilvægt er að gera skólunum okkar kleift að bregðast við því síkvika umhverfi sem þeir starfa í og koma til móts við mismunandi þarfir nemenda. 21. öldin býr við breytt landslag hvað varðar atvinnuhætti framtíðarinnar og við því þarf að bregðast með breyttum kennsluháttum, án þess þó að kasta grunnþáttum menntunar fyrir róða.
Brátt verður fyrsti áfangi Helgafellsskóla tekinn í notkun. Umgjörð skólans er framsækin og hefur til að bera allt sem prýðir nútímalega skólabyggingu, aðbúnaður nemenda og starfsfólks verður fyrsta flokks og ýmsar áhugaverðar lausnir verða í innra skipulagi skólans sem og við útfærslu á skólalóð.
Í málefnasamningi meirihluta bæjarstjórnar er kveðið á um verulega lækkun leikskólagjalda, frá og með næsta hausti munu þau lækka um 5% og aftur síðar á kjörtímabilinu.

Við viljum að lokum óska öllum Mosfellingum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Bjarki Bjarnason, bæjarfulltrúi VG og forseti bæjarstjórnar.
Bryndís Brynjarsdóttir, varabæjarfulltrúi og formaður VG-Mos.

Af hverju?

Arnar Hallsson

Arnar Hallsson

Að birta skoðanir mínar hefur verið mér fjarlægt til þessa, en lengur get ég ekki setið hjá. Ég hef starfað í bænum í rúmt ár og kynnst hluta fólksins í Aftureldingu, mannvirkjum og aðstöðunni að Varmá.
Að þjálfa meistaraflokk karla í knattspyrnu hefur fært mér mikla ánægju. Meistaraflokkurinn samanstendur að miklu leyti af uppöldum leikmönnum. Sumir krakkanna í bænum þekkja þá með nafni og krakkarnir hreinlega elska að geta heilsað strákunum í liðinu og vera heilsað til baka með nafni. Yngri flokkar og meistaraflokkar félagsins mynda órjúfanlega heild. Meistaraflokkurinn skapar mikilvægar fyrirmyndir í nærumhverfi barnanna og krakkarnir veita ómetanlega endurgjöf til leikmannanna. Íþróttalíf er sameiningartákn og er hluti menningar hverfa og bæjarfélaga hérlendis.
Nýlega gaf ég mér tíma í að lesa stefnu bæjarins í íþrótta- og tómstundamálum. Þar kemur m.a. fram að gildi bæjarins séu: Virðing, Jákvæðni, Framsækni, Umhyggja. Ennfremur er þar fullyrt að í Mosfellsbæ sé frábær aðstaða og framúrskarandi íþrótta- og tómstundastarfsemi. Starfsemin er vissulega blómleg á mörgum sviðum, á því leikur enginn vafi. Aðstaðan er hins vegar því miður allt annað en frábær.
Eins og sumir bæjarbúar vita þá lék meistaraflokkur karla í knattspyrnu í 2. deild á síðustu leiktíð og ferðaðist vítt og breitt um landið. Ég get því fullyrt kinnroðalaust að mun smærri bæjarfélög um allt land sinna íþróttastarfi af meiri virðingu, framsækni og umhyggju en gert er í Mosfellsbæ. Ef við horfum á aðstöðuna í bæjarfélögum í kringum okkur t.d. Kaplakrika í Hafnarfirði, Ásgarð í Garðabæ, Kórinn og Fífuna í Kópavogi þá kemur samanburðurinn illa út. Ef horft er til aðstöðunnar á Sauðárkróki, í Grindavík og á Húsavík, mun smærri bæjarfélög með mun færri iðkendur, er samanburðurinn pínlegur.
Íþróttamannvirki að Varmá í eigu Mosfellsbæjar eru í slíkri niðurníðslu að leit er að öðru eins. Keppnisvöllurinn er ónýtur, grasrótin er að mestu dauð og völlurinn ónothæfur. Frjálsíþróttabrautin er stórskemmd og í mikilli niðurníðslu. Tungubakkasvæðið er orðið að nothæfu beitilandi fyrir hross en vart nothæft til íþróttaiðkunar því það er svo óslétt að iðkendum beinlínis stafar hætta af. Búningsklefum hefur ekki verið haldið við í áraraðir og anna engan veginn þeirri fjölbreyttu og miklu íþróttastarfsemi sem er í gangi í bænum. Ungir knattspyrnuiðkendur mega mæta fullklæddir á æfingar og geta ekki farið í sturtu að þeim loknum. Búningsaðstaða meistaraflokks karla og kvenna í knattspyrnu er með því óþrifalegra og sorglegra sem finnst hérlendis. Búningsklefi meistaraflokks karla í handknattleik er sennilega gróðrarstía myglu því fúgunni í sturtuklefanum hefur fyrir löngu skolað burt. Rétt er að halda því til haga að nýlega var skipt um gervigras á æfingavelli félagsins og að sama skapi rétt að láta fylgja að það var þá eitt elsta og versta gervigras landsins.
Mikið er talað um uppbyggingu á fjölnota íþróttahúsi sem eigi að breyta öllu. Já, það mun breyta miklu til að börnin geti hreinlega stundað knattspyrnu en verði ekki vísað frá sökum skorts á plássi til æfinga. En að mínu viti er bygging hússins sennilega þremur árum á eftir þörfinni og snertir ekkert á því hroðalega búningsklefahallæri sem í gangi er né því að engin félagsaðstaða er til staðar að Varmá.
Sé stefna bæjarins svo skýr, gildi bæjarins svo háleit og sé vilji bæjarbúa til öflugs íþróttastarfs svo mikill þá hljóta áleitnar spurningar að vakna. Af hverju er ástandið svo slæmt? Af hverju er framsæknin engin? Af hverju er virðing bæjaryfirvalda fyrir starfinu svo lítil? Af hverju er nauðsynlegu viðhaldi mannvirkja vísað í nefndir? Og síðast en ekki síst hvernig getur íþrótta- og félagsstarfið blómstrað ef hvergi er hægt að setjast niður á félagssvæðinu og upplifa okkur í sama liðinu eða hreinlega þrífa sig eftir æfingar?
Af hverju skiptir þetta allt máli? Í mínum huga er orsakasamhengið einfalt. Umhverfið mótar sjálfsmynd okkar og sjálfsmyndin mótar sjálfstraust okkar og sjálfstraustið hefur afgerandi áhrif á árangurinn.
Þetta eru mínar skoðanir og má ekki túlka sem skoðanir þeirra sem í forsvari eru fyrir Aftureldingu.

Arnar Hallsson þjálfari
meistaraflokks karla í knattspyrnu.

Uppbygging í Helgafellshverfi – fjölgun íbúða og stóraukin umferð

Á myndinni má sjá grófar útlínur 4. áfanga í Helgafellshverfi.

Á myndinni má sjá grófar útlínur 4. áfanga í Helgafellshverfi.

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Gríðarmikil uppbygging hefur átt sér stað í Helgafellshverfi undanfarin ár. Hver byggingin á fætur annarri hefur risið í hverfinu og er breytingin mikil frá hruni þegar eitt fjölbýlishús stóð efst í landinu auk nokkurra stakra húsa.
Auk mikilla framkvæmda við uppbyggingu íbúðahúsnæðis í hverfinu er bygging Helgafellsskóla í fullum gangi og ráðgert er að hann hefji starfsemi í upphafi næsta árs.
Upphaflega var gert ráð fyrir rúmlega 1.000 íbúðum í Helgafellshverfi. Eftir hrun fór að lifna aftur yfir nýbyggingarframkvæmdum og hefur Mosfellsbær nú þegar samþykkt fjölgun íbúða um um það bil 150 samkvæmt yfirliti sem var lagt fram á 470. fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar þann 26. október síðastliðinn. Fjölgun íbúða í hverfinu frá fyrstu skipulagsáætlunum er því um 15%.
Senn líður að því að uppbygging á 4. áfanga í Helgafellshverfi hefjist. Íbúar í Helgafellshverfi kannast eflaust við þá miklu umferð sem hefur verið samfara uppbyggingunni; umferð vörubifreiða, steypubifreiða og alls kyns annarra bifreiða sem tengjast uppbyggingu í hverfinu beint.
Þegar framkvæmdir hefjast við 4. áfanga verður það ekki bara umferð bifreiða sem tengjast uppbyggingunni, heldur einnig umferð bifreiða þeirra fjölmörgu íbúa sem fluttir eru í Helgafellshverfi og einnig umferð bifreiða til og frá nýjum Helgafellsskóla sem staðsettur er í miðju hverfinu. Eins og þeir sem hverfið þekkja vita er enn sem komið er aðeins ein aðalleið inn og út úr Helgafellshverfi, um Álafossveg.
Það er því mjög brýnt að fundin verði önnur aðkoma fyrir umferð sem tengist uppbyggingu áfangans, þannig að sú umferð þurfi ekki að fara í gegum íbúðahverfið og framhjá nýjum skóla.

Stefán Ómar Jónsson
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar
og aðalmaður í skipulagsnefnd

Skýrar áherslur í fræðslumálum

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

17% aukning fjármagns á milli ára

Mosfellsbær er fjölskylduvænn bær og eftirsóknarverður til búsetu. Fjárhagsáætlun 2019 – 2022 ber þess merki að við mætum nú nýjum áskorunum og bætum verulega í svo skólar Mosfellsbæjar geti veitt sem allra besta þjónustu. Á það við leikskóla, grunnskóla og frístundaselin. Nú erum við að uppskera og verður starfsfólki og stjórnendum seint fullþakkað að hlúa vel að stofnunum Mosfellsbæjar.

Aukið fjármagn til skólanna og stoðþjónustan bætt
Í heild er áætlað að fjárframlög vegna fræðslumála á árinu 2019 nemi um 50% af útgjöldum bæjarfélagsins til málaflokka og er aukningin um 17% á milli ára og mikil áhersla lögð á að bæta stoðþjónustuna.
Í skólastefnu Mosfellsbæjar kemur fram að öll börn eigi að fá nám við hæfi í leik- og grunnskólum en foreldrar hafi einnig val um sérskóla. Á síðasta skólaári fór af stað verkefni í Lágafellsskóla þegar Fellið var sett á laggirnar. Markmið þess verkefnis er að mæta þörfum barna sem eiga við tilfinninga- og hegðunarvanda að etja auk námserfiðleika.
Nú í haust fóru af stað sambærileg verkefni í Varmárskóla sem hlotið hafa heitin Atómstöðin, Gerpla og Heimsljós. Hlutverk þessara þriggja úrræða er ólíkt en öll hafa þau að markmiði, líkt og Fellið, að mæta þörfum barna á námi við hæfi. Áfram verður stutt við uppbyggingu og þróun á þessum úrræðum innan skólanna. Einnig hefur verið lögð áhersla á að bæta skólabrag og bæta þannig líðan nemenda.
Um 11% barna í leikskólum Mosfellsbæjar eru af erlendum uppruna og um 9% í grunnskólum. Í Varmárskóla er kominn vísir að nýbúadeild og verður haldið áfram að styðja við þá þróunarvinnu sem þar á sér stað undir stjórn fagfólks.

Helstu áherslur í fjárhagsáætlun 2019 – 20122
• Skólastefna Mosfellsbæjar endurskoðuð
• Stoðþjónustan efld
• Upplýsinga- og tæknimál í grunn- og leikskólum verði áfram efld
• Fjölgað um stöðugildi í Listaskólanum til að sinna kennslu úti í grunnskólunum
• Hefja rekstur í fyrsta áfanga Helgafellsskóla í ársbyrjun.

Leikskólagjöld lækka
Í fjárhagsáætlun 2019 er áfram bætt við dagvistunarþjónustu fyrir yngstu bæjarbúana með því að bæta við 20 plássum á ungbarnadeildum Hlíðar og Huldubergs.
Í fjárhagsáætlun 2018 lækkuðu dagvistargjöldin fyrir yngstu börnin þannig að frá og með 13 mánaða aldri greiða foreldrar samkvæmt gjaldskrá gildandi leikskólagjalds óháð því hvort að barnið sé í leikskóla á vegum Mosfellsbæjar, einkareknum leikskóla eða hjá dagforeldri. Almenn gjaldskrá leikskóla mun lækka um 5% frá hausti 2019.

Um nýjan Helgafellsskóla
Að lokum er mikilvægt að minnast á nýjan grunnskóla í Helgafellshverfinu. Fyrsti áfangi skólans verður tekinn í notkun um næstu áramót en þá hefja 1.-5. bekkur nám við skólann auk einnar deildar í leikskóla þar sem eru 5 ára börn. Árið þar á eftir verður skólinn fyrir 1.–6. bekk og heldur þannig áfram upp í 10. bekk. Við upphaf skólaársins 2019-2020 er áætlað að annar áfangi byggingarinnar verði tilbúinn.
Það er bjart framundan og Mosfellsbær að stækka og blómstra sem aldrei fyrr. En hér hefur aðeins verið nefndur hluti af þeim góðu verkefnum sem framundan eru. Höldum áfram að hlúa að því sem okkur er kærast.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
formaður fræðslunefndar Mosfellsbæjar

Viltu stuðla að aukinni kolefnisbindingu með kaupum á íslensku jólatré?

Björn Traustason

Björn Traustason

Íslendingar geta lagt sitt af mörkum til að auka bindingu og minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Við getum minnkað losun með því að keyra bílinn minna, nota minna plast, minnkað matarsóun og fleira. Við getum einnig stuðlað að aukinni bindingu koltvísýrings úr andrúmslofti.
Skógrækt og landgræðsla stuðla að aukinni bindingu og endurheimt votlendis stuðlar að minni losun frá mýrum. Við getum tekið þátt í ýmsum leiðum til að kolefnisjafna okkur, en sú leið sem lítið hefur verið rætt um er að stuðla að aukinni kolefnisbindingu með kaupum á íslenskum jólatrjám. Íslensk jólatré eru að mestu leyti greni og fura, en það eru trjátegundir sem binda töluvert mikið kolefni þar sem þetta eru yfirleitt hraðvaxta tegundir.
Algengt er að fyrir hvert jólatré sem keypt er séu gróðursett 30 tré í staðinn. Búast má við að 15 af þeim séu aftur tekin sem jólatré eða verði fyrir áföllum, grisjuð burt o.s.frv. Það þýðir að hin 15 ná að vaxa og verða jafnvel yfir 20 metrar á hæð þegar fullum vexti er náð eftir áratugi.
Reikna má með að meðaljólatréð sé búið að binda tæpt kíló af kolefni á vaxtarskeiði sínu. Þau tré sem plantað er í staðinn munu á vaxtarskeiði sínu binda yfir 5 tonn af kolefni. Með kaupum á íslensku jólatré er því verið að stuðla að framtíðar kolefnisbindingu upp á a.m.k. 5 tonn kolefnis! Meðalstór fjölskyldubíll sem ekinn er 17.000 km á ári losar 2150 kg af koltvísýringi út í andrúmsloftið á hverju ári og samsvarar það 580 kg af hreinu kolefni út í andrúmsloftið. Þetta þýðir að kaup á einu jólatré stuðlar að framtíðar kolefnisbindingu á við 9 ára akstur bíls!
Að sjálfsögðu eru margir óvissuþættir í þessu reikningsdæmi, en það er hins vegar engin óvissa falin í því að þú getur farið út í Hamrahlíðarskóg, keypt þér í íslenskt jólatré og stuðlað þannig að bindingu kolefnis til framtíðar. Er það ekki flott jólagjöf?
Jólatrjáasala Skógræktarfélags Mosfellsbæjar hefst sunnudaginn 9. desember kl. 13 með opnun jólaskógarins í Hamrahlíð. Hvetjum við alla til að mæta og taka þátt í skemmtuninni – og að sjálfsögðu að kaupa íslenskt tré úr skóginum.

Jólakveðja, Björn Traustason
Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar

Njótum samverunnar

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú nálgast jólin óðfluga og aðventan er rétt handan við hornið. Flestir virðast sammála um að það besta við þessa hátíð ljóss og friðar sé samvera með fólkinu sem maður elskar.
Fólk fer ýmsar leiðir til að njóta samvistanna, skreyta, baka, borða góðan mat, spila, leika sér úti og svo mætti lengi telja.

„Samverudagatal“
Hvernig væri t.d. að gera dagatal fyrir þessi jól sem snérist um leiki, hreyfingu og samveru fjölskyldunnar? Leyfa öllum í fjölskyldunni að taka þátt í gerð þess í sameiningu og síðan fengi hver og einn að vera með einn dag sem kæmi hinum á óvart?
Hægt væri að hafa vasaljósagöngu, skautaferð, spilakvöld, baksturkvöld, kósýkvöld, stjörnuskoðun og ýmislegt fleira spennandi í dagatalinu. Dagatal sem þetta þarf ekki að kosta krónu en það er alveg klárt að það skapar skemmtilegar samverustundir og dýrmætar minningar.

Samvera í jólapakkann?
Það er um að gera að huga tímanlega að jólagjöfum svo það sem á að gleðja skapi ekki streitu hjá þeim sem gefur. Ef við ætlum að kaupa jólagjafir þá er sjálfsagt að versla eins mikið í heimabyggð og hægt er og svo má líka hugsa hvort maður geti búið til jólagjafir sjálfur.
Margir eiga nóg af öllu og þá er spurning hvort gjafakort á upplifun af einhverju tagi sé ekki málið? Og hvað með samveru í jólapakkann?
Ég minnist þess t.d. með hlýju þegar við fengum gjafakort upp á kvöldverðarboð með heimagerðu lasagna frá syni okkar, það var toppurinn þau jólin!

Verum meðvituð um hvað við þurfum og reynum að vera nægjusöm og hófstillt. Aðventan og jólin eiga að snúast um samveru, vináttu og kærleik. Hlúum að því og þá erum við að gefa okkur sjálfum og fólkinu í kringum okkur bestu gjafirnir sem hægt er að hugsa sér. Njótum samverunnar.

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Hraður heimur – Mikilvægi skólaráðs og foreldrafélags

Lilja Kjartansdóttir

Lilja Kjartansdóttir

Skólum í Mosfellsbæ fer ört fjölgandi samhliða íbúafjölgun.
Fyrir þessari fjölgun hlýtur að vera ástæða en bæjarfélagið laðar til sín fjölda fólks árlega sem að stórum hluta er barnafólk, en almennt er vel haldið utan um skóla bæjarins – það hefur fræðslunefnd verið kynnt á undanförnum vetri þar sem undirrituð er nýr áheyrnarfulltrúi.
Við lifum í heimi þar sem tækninni fleygir hraðar fram en mínútunum. Til þess að halda í við þennan hraða heim er mikilvægt að fylgjast sífellt með skólahaldi ásamt öryggi, aðbúnaði og velferð nemenda, en því hlutverki gegnir skólaráð skólanna samkvæmt reglugerð um skólaráð við grunnskóla.
Skólaráð starfar í náinni samvinnu við stjórn foreldrafélags en vert er að minnast einnig á mikilvægi þess félags því það tryggir meðal annars samvinnu heimili og skóla, þá tvo staði sem barnið eyðir mestum tíma sínum á og mikilvægt er að samhljómur sé þar á milli.
Barnið lærir það sem fyrir því er haft, bæði í skólanum og heima fyrir. Það að aðilar í þessum ráðum séu sífellt á tánum tryggir starfsumhverfi starfsfólks og nemenda og styður við foreldra, og með því má auka gæði skólahalds, starfs- og námsferla svo um munar.

Lilja Kjartansdóttir
áheyrnarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar í fræðslunefnd

Sitthvað um trjárækt

Úrsúla Jünemann

Úrsúla Jünemann

Við hjónin fluttu í Mosfellssveit fyrir 35 árum, keyptum lítið raðhús í Arnartanganum.
Ég man fyrstu árin okkar á nýja staðnum og hversu skelkuð ég var oft þegar óveðrin gengu yfir á veturna og ég var alltaf að bíða eftir að rúðurnar myndu splundrast þegar þær bylgjuðust út og inn. Þá var lítið um hávaxinn gróður og frekar skjóllítið. Við búum ennþá á sama staðnum en í dag er mjög skjólgott hérna og maður finnur varla fyrir óveðrum lengur. Hvað veldur? Jú, í flestum görðum hér í kring eru tré, sum jafnvel há og krónumikil. Austan við Arnartanga er þreföld röð af háum og fallegum öspum sem tekur allan mátt úr austanrokinu sem er aðalóveðursáttin hér.
Í Varmárskólanum þar sem ég vann lengi vel var oft erfitt að hafa börnin úti í frímínútunum. Það var nefnilega efnisnáma austan við skólann og í hvassviðri var mikið sandfok yfir svæðið, alveg inn í Holtahverfið. Þá var ekki verandi úti. Í dag er þarna fallegt útivistarsvæði, svonefndur Ævintýragarður sem býður upp á marga möguleika. Bærinn hefur gert mjög gott á sínum tíma að kaupa þetta land og græða upp. Sandfok og skaflamyndun við skólann og í Holtahverfinu heyrir að mestu sögunni til.
Það er vitað mál að ræktun á skógi og skjólbeltum hefur veruleg áhrif á nærveðrið. Og svo tölum við ekki einu sinni hér um alla kolefnisbindingu sem skógræktin skapar. „Græni trefillinn” á höfuðborgarsvæðinu tekur á sig betri og betri mynd. Þar leggja bæjarfélögin sitt af mörkum að græða upp og skapa skjól á stærri skalanum.
Víðar í bæjarlandinu okkar vaxa upp myndarlegir skógar. Skógræktarfélagið okkar hefur mestan heiðurinn af því. En undanfarið hefur bærinn einnig komið að þessu. Það er ekki lengur á færi fámenns hóps áhugamanna að sinna öllu því sem fellur til við umhirðu skógana.
Skiptar skoðunar eru um það hvar á að rækta tré og hvaða tegundir. Hávaxin tré eins og ösp og greni eiga ekki allstaðar heima. Ekki í litlum görðum og ekki á stöðum þar sem við viljum njóta útsýnisins. Ösp og greni eru hins vegar afar gagnleg til skjólmyndunar á opnum svæðum, þau vaxa hratt og þola flest allt. Til að losna við leiðinlega fræullaþekju frá öspunum má passa sig á að nota karlkyns plöntur. Öspin er nefnilega sérbýlistré, sem sagt annaðhvort karl eða kona.
Þeir sem vilja ekki há tré í görðunum sínum ættu að huga vel að tegundarvali. Ekkert er ljótara en að sjá tré sem er búið að „kolla“, saga ofan af. Og öspin sem er búið að misþyrma þannig „þakkar fyrir sig“ með því að mynda ótal rótarskot.
Þar sem ég á heima er örstutt á göngustíg með frábæru útsýni á Esju og Leiruvoginn. Þarna geng ég oft við sólarlag eða stjörnubjartan himin og norðurljós. Á svona stöðum á ekki að planta trjám sem munu skyggja fyrir útsýni. Því miður hafa menn þarna plantað, meira af kappi en forsjá, sitkagreni sem eru núna að ná metrahæð. Eftir nokkur ár munu þau spilla útsýninu. Þá er hætta á að menn taki lögin í sínar hendur og fella eða skemma þessi tré. Nú þegar ber svolítið á því. Metra há tré eru verðmæt og hægt væri að flytja þau annað, á staði þar sem vantar skjól, t.d. við skóla, leikvelli og útikennnslusvæði. Eða allavega leyfa skógræktarfélaginu að taka fallegustu trén og selja sem jólatré og bjarga þar með verðmætum.
Það má segja að skógrækt á Íslandi sé að slíta barnskónum. Hún er ennþá ung grein en á sér greinilega mikla framtíð. Fagþekkingin er að aukast og aðferðir verða sífellt betri og árangursríkari.
Mosfellsbærinn okkar er fallegur og grænn bær með marga möguleika til útivistar. Höldum áfram að rækta skóg og bæta landið á þar til heppilegum stöðum með heppilegum tegundum.

Úrsúla Jünemann, kennari á eftirlaunum, leiðsögumaður og náttúruvinur.

Munum að njóta augnabliksins

Berta Þórhalladóttir

Berta Þórhalladóttir

Nú fer senn að líða að jólum og lífsgæðakapphlaupið eykst til muna. Stressið og álagið færist í aukana og við þeytumst um göturnar eins og sjálfvirk vélmenni sem varla eru til staðar.
Við mætum í vinnuna og eigum við þá eftir að versla inn, útbúa mat, taka til og að sinna börnunum okkar. Ekki má gleyma að jólin nálgast og þá bætast við hin ýmsu verkefni eins og að skreyta, versla jólagjafirnar, hitta vini og ættingja í jólaboðum og mæta ef til vill á jólaskemmtanir.

Hér koma tvö atriði sem gott er að vera meðvitaður um áður en álagið yfirtekur gleðina í lífinu.
1. Staldra við til að njóta augnabliksins. Oft á tíðum erum við föst í daglegri rútínu, þá getur gleymst að anda inn og út og fanga þau einstöku augnablik sem skipta okkur máli.
Ég mæli því eindregið með að stoppa og staldra við, allavega einu sinni á dag og vera meðvitaður um það sem þú ert að gera hér og nú. Því oftar sem við náum að tileinka okkur að staldra við eitt augnablik, standa eða líta upp frá þeim verkefnum sem við erum að takast á við, þá verður okkur ljóst mikilvægi þess að vera meðvitaður um umhverfið og okkur sjálf.

2. Sjálfsrækt. Í nútímasamfélagi gleymum við oft að hlúa að sjálfum okkur, við erum svo upptekinn af að þóknast öðrum, hugsa um börnin, makann, hitta vini og vinnufélaga. Ég er ekki að segja að þetta sé ekki mikilvægur þáttur en það er einnig mikilvægt að hlúa vel að sjálfum sér. Sérstaklega þegar við erum undir miklu álagi.
Sjálfsrækt þarf alls ekki að taka langan tíma en getur skipt sköpum fyrir andlega heilsu. Dæmi um sjálfsrækt er að fara í göngutúr, lesa góða bók, fara í heitt bað eða skella sér í ræktina.
Ég vona þetta komi að góðum notum fyrir ykkur í jólagleðinni – munum að njóta hverrar stundar.
Yfir og út.

Berta Þórhalladóttir
Kennir Tabata í World Class Mósó á þriðjudögum og fimmtudögum kl: 18:20.

Leyndarmál tískunnar

Kristín Vala Ragnarsdóttir

Kristín Vala Ragnarsdóttir

Við lifum á tímum skyndibita og skynditísku. Þegar við opnum blöðin, eyðum tíma á fésbók eða vöfrum um á alnetinu er endalaust verið að kynna okkur fyrir nýjustu tísku.
Það þykir algjörlega saklaust að kaupa sér nýjasta stílinn, jafnvel þó að fataskápurinn sé troðfullur. Það eru ný mynstur, ný snið, nýir litir sem koma í búðirnar reglulega og þá finnst mörgum erfitt að vera í tísku síðasta árs. Eða hvað?

Ég þekki fólk sem kaupir nær aldrei nýjar vörur umhverfisins vegna, byrjar fyrst að skoða það sem það vantar í t.d. Kolaportinu eða búðum Rauða krossins. Margar af mínum uppáhaldsflíkum í gegnum tíðina hafa verið fundnar í búðum góðgerðasamtaka í þeim borgum sem ég hef búið í. Börnin mín ólust upp í fötum sem ég keypti fyrir lítið fé í sams konar búðum. Samt voru þau alltaf fín, enda rata föt þeirra sem eyða miklu fé í föt til t.d. Rauða krossins. Í Mosfellsbæ er haldinn reglulegur skiptimarkaður á barnafötum þar sem fólk getur komið með þær flíkur sem börnin þeirra hafa vaxið upp úr og fengið stærri flíkur sem þau passa í. Þetta er algjörlega frábært tækifæri, en mjög fáir nýta sér þennan skiptimarkað. Hvers vegna skyldi það vera? Líklega er það vegna þess að fólk gerir sér ekki grein fyrir þeim umhverfisáhrifum sem fataframleiðsla veldur.

Tökum t.d. hettupeysu úr bómull. Það þarf yfir 10.000 lítra af vatni til að framleiða peysuna! Það væri nóg drykkjarvatn fyrir 13 manns í ár! Það þarf 15.000 lítra af vatni til að framleiða gallabuxur. Fataiðnaðurinn er í topp 5 sætum þess iðnaðar sem mengar mest í heiminum – og er þar í hópi með olíuframleiðendum. Eitt hundrað milljarðar nýjar flíkur eru framleiddar árlega. Bómull er nýtt í 43% af flíkum sem eru seldar í Evrópusambandinu. Á bómullarökrum er notað skordýraeitur sem mengar vatn og er skaðlegt fyrir þá sem vinna á ökrunum. Efnin eru lituð með litarefnum sem skaða þá sem vinna við litunina og mengar vatn. Í Indónesíu, þar sem 400 fataverksmiðjur er að vinna á bökkum Citarum-ánnar, er að finna eitruðu þungmálmana kvikasilfur, kadmíum, blý og arsenik. Aralvatn í Kazakhstan hefur stórminnkað vegna áveituvatns til bómullarræktunar.

Þegar við kaupum okkur ódýran skyndibómullarbol sem er aðeins notaður í nokkur skipti og lendir síðan í gámi í Sorpu, erum við ekki að borga fyrir allan þann kostnað sem til féll við framleiðslu bolsins. Við borgum ekki fyrir umhverfisáhrifin, heilsuáhrifin eða samfélagsáhrifin. Algjör vitundarvakning er nauðsynleg til þess að fá fleiri til að hugsa sig um tvisvar áður en skroppið er í búð til að kaupa enn eina flíkina.

Á Íslandi getum við staðið okkur miklu betur, verslað í búðum sem selja notuð föt eða tekið þau í skiptimarkaði Rauða krossins. Þið eruð öll velkomin á skiptifatamarkað í húsnæði Rauða kross Mosfellbæjar í Þverholti 7 á miðvikudögum frá 13-16 (13-18 eftir áramót) þar sem unnt er að skipta á fötum á börn 12 ára og yngri. Þannig getið þið orðið umhverfisvinir og um leið kennt börnunum ykkar að láta sig umhverfið varða.
Þess má geta að fatamarkaðurinn verður einnig í Kjarna þann 1. desember ásamt fleiri góðum gestum. Tilvalið til að gera jólainnkaupin á hagkvæman og vistvænan máta.

Kristín Vala Ragnarsdóttir,
meðstjórnandi hjá Rauða kross Mosfellsbæjar

Hugleiðing um menningarmálefni

olga

Olga J. Stefánsdóttir

Kæru Mosfellingar, mig langar að byrja á því að þakka fyrir það traust sem okkur í Vinum Mosfellbæjar var veitt í kosningunum síðastliðið vor.
Nýlega fór fram fyrsti fundur í nýrri menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar, þar sem farið var yfir þau mál sem efst eru á baugi hjá nefndinni. Opinn fundur íbúa í Hlégarði í október sl., þar sem leitað var hugmynda að áherslum um menningarmál var mjög áhugaverður og verður spennandi að sjá samantekt og helstu niðurstöður þess fundar þegar sú vinna er tilbúin.
Mikilvægt er að íbúar hafi tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri í öllum aldurshópum. Það er gott að búa í Mosfellsbæ og mikilvægt að íbúar geti verið með í skoðanaskiptum í stefnumótun eins og menningarmálum þar sem það erum jú við sem búum hér sem munum taka þátt í og sækja viðburði.
Gróska í menningarmálum er flestum mikilvæg, því að búa í góðu menningarlegu samfélagi þroskar okkur, veitir gleði og minnkar samfélagslega einangrun. Einnig höfum við mörg tækifæri til nýsköpunar á sviði menningar- og atvinnumála með frjóum huga, áhuga og elju.
Óska ykkur öllum gleði og friðsældar á aðventunni.

Olga J. Stefánsdóttir
áheyrnarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar
í Menningar- og nýsköpunarnefnd