Það skiptir máli hver stjórnar

Eva Magnúsdóttir

Þann 5. febrúar næstkomandi ganga Sjálfstæðismenn að kjörborðinu og velja fólk sem stillt verður upp á lista flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.
Það eru forréttindi fyrir flokkinn að geta valið úr svo miklum fjölda af hæfileikaríku fólki sem vill vinna fyrir bæinn okkar. Ein þeirra er Kolbrún Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi til margra ára, lýðheilsufræðingur með menntun í stjórnun menningarstofnana, kennari, núverandi formaður fræðslunefndar og fyrrverandi formaður fjölskyldunefndar. Þessi mikla menntun og reynsla í farteskinu gerir Kolbrúnu hæfasta til þess að leiða þann lista sem Sjálfstæðismenn munu tefla fram í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Auk mikillar og fjölbreyttrar menntunar þá er reynsla af því að takast á við fjölbreytta málaflokka og takast á við stjórnsýsluna mikilvæg þeim sem ætla sér að vera leiðandi í bæjarfélagi eins og Mosfellsbæ.
Skýr framtíðarsýn, metnaður, eldmóður og rótgróin væntumþykja fyrir bænum eru hennar leiðarljós og ég held að mörg okkar deili þeirri framtíðarsýn sem Kolbrún hefur teiknað upp fyrir Mosfellsbæ. Eða svo notuð séu hennar orð: „Framtíðartækifærin felast í sterkri tengingu við náttúruna og er Mosfellsbær þar fremstur í flokki sveitarfélaga hvað þau tækifæri varðar. Tækifæri í sjálfbærri matvælaframleiðslu og grænni nýsköpun er hér allt í kringum okkur og er draumurinn að í Mosfellssbæ verði byggður upp öflugur bændamarkaður í bland við matarupplifun í jafnvel mathöll sem enga á sér líka. Matarupplifun í bland við menningu og listir er eftirsóknarverð upplifun fyrir alla fjölskylduna.“ Þetta er framtíð sem ég vil fyrir Mosfellsbæ. Ef við sem trúum því að Mosfellsbær sé bærinn þar sem við ætlum að ala upp börnin okkar og byggja upp okkar líf í sátt og samlyndi við náttúruna þá er Kolbrún rétti kosturinn.
Þegar fólk sem hefur lengi verið við stjórnvölinn ákveður að hætta skapast rými fyrir aðra að komast að. Þegar Haraldur ákvað að bjóða sig ekki fram sem oddvita flokksins eftir að hafa leitt Mosfellsbæ í gegnum gríðarlega stækkun, þróun og uppbyggingu, skapaðist svigrúm fyrir aðra að bjóða sig fram til verksins. Framboð til oddvita flokkisns þýðir þó alls ekki að við séum að velja okkur bæjarstjóra, þvert á móti, í þessu prófkjöri erum við að velja um hver verður oddviti Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Hvort sigurvegarinn verður bæjarstjóraefni er síðari tíma ákvörðun alls listans og kallar fyrst og fremst á að Sjálfstæðismenn sigri í kosningunum í vor.
Ég hvet alla Sjálfstæðismenn til þess að taka þátt í prófkjörinu og velja þann aðila til forystu sem hefur mikla reynslu og hefur tekið þátt í að byggja upp Mosfellsbæ frá 2010 með ábyrga fjármálastjórn að leiðarljósi. Kolbrún hefur skýra framtíðarsýn og vill byggja upp græna atvinnuvegi í Mosfellsbæ þar sem náttúran nær að blómstra í sátt og samlyndi við íbúana. Hún hefur tekið þátt í að byggja upp skóla og tómstundir þar sem börnin okkar njóta bestu menntunar og tómstunda sem völ er á. Kolbrún er leiðtogi framtíðarinnar fyrir Mosfellssbæ, á því leikur enginn vafi.

Eva Magnúsdóttir, ráðgjafi og fyrrverandi formaður
fræðslunefndar og varabæjarfulltrúi í Mosfellsbæ.

Lista- og menningarfélag Mosfellinga

Davíð Ólafsson

Eins og fram kom í síðasta Mosfellingi, verður hugarflugsfundur þeirra sem áhuga hafa á stofnum Lista- og menningarfélags Mosfellinga, fimmtudaginn 20. janúar 2022 kl. 20.00.
Í ljósi aðstæðna, þá verður um fjarfund að ræða og mun slóð á fjarfundinn birtast á facebook-síðu Lista- og menningarfélagsins sem fer í loftið nú í vikunni. Facebook-síðan mun bera heitið Lista- og menningarfélag Mosfellinga.
Áréttað skal hér að hugmyndin með félaginu er að efla menningar- og listastarfsemi í Mosfellsbæ og stuðla að auknu framboði og fjölbreytileika í menningar- og listalífi bæjarins.

Davíð Ólafsson

Allt í rusli?

Úrsúla Jünemann

Ég tel mig vera einn af þeim mörgu Mosfellingum sem eru meðvitaðir um umhverfismál. Þess vegna flokka ég úrgang eins og hægt er og fer reglulega í móttökustöð Sorpu hér í bænum. En ekki er alltaf létt að gera rétt. Flokkun plasts og móttaka þess er til dæmis eitthvað sem má bæta.
Mér finnst asnalegt að þurfa að nota plastpoka til að flokka plast í og hef ég þann háttinn á að vera með margnota poka undir plast sem ég sturta svo úr í gám á móttökustöðinni. Það hefur hingað til gengið vel, en plastgámurinn sem hefur nýlega verið settur upp þarna er ekki með hlerum sem er hægt að loka heldur opinn. Þegar ég fór síðast með plastið mitt og ætlaði að skila þá fauk allt jafnóðum á móti mér aftur og ég hljóp um allar trissur að safna því aftur saman. Svæðið þarna í kringum móttökustöðina er allt í rusli, mest plasti sem hefur fokið úr þessum óhentuga gámi. Til hvers að safna og skila ef þetta er svona? Móttökugámar sem eru á nokkrum stöðum í bænum til að taka á móti plasti og gleri eru ekki heldur mjög hentugir. Það gengur með glerið, en að reyna að troða plastinu inn í þetta þrönga gat er oft ógerandi, sérlega þegar það er vindur.
Gráa tunnan mín heima er yfirleitt næstum tóm því við flokkum gler, plast, málma og erum með jarðgerð út í garði undir lífrænan úrgang. Þá kemur það fyrir að sorphirðumönnum finnst ekki taka því að trilla tunnunni okkar út á götu. Skiljanlegt. Fyrir mér mætti tæma sjaldnar, og þeir sem framleiða mikið af rusli og nenna ekki að flokka ættu að fá kost á að fá sér auka tunnu og borga fyrir hana. Ekki nema réttlátt fyrir aukna þjónustu.
Góðir bæjarbúar: Reynum nú þegar nýja árið er gengið í garð að hugsa vel um umhverfið okkar. Hvað getum við gert til að minnka magn ruslsins frá heimilinu? Hvernig er best að flokka og skila? Getum við passað okkur á því að lokin á ruslutunnunum séu föst á þannig að ekki fjúki úr þeim? Getum við kennt börnunum okkar með góðri fyrirmynd að vera ekki að henda rusli á viðavangi? Getum við nú loksins safnað saman síðustu leifunum af flugeldum okkar og koma þeim á viðeigandi stað?
Bærinn okkar er allt of fallegur til þess að allt sé í rusli. Gleðilegt nýtt ár.

Úrsúla Jünemann

Umhverfismál í forgangi

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Árið 2019 varð vitundarvakning í umhverfismálum á meðal almennings hér sem annars staðar.
Loftslagsverkföll ungmenna vöktu alþjóð til hugsunar um mikilvægi þess að haga lífi okkar á þann veg að það hafi sem minnst raskandi áhrif á umhverfið. Þegar rætt er um þessi mál er augljóst að umbætur þurfa að eiga sér stað í stóra samhenginu og getum við sem erum í umhverfisnefnd Mosfellsbæjar haft þar áhrif. En margt smátt gerir eitt stórt.
Í umhverfisnefnd höfum við sett fram nýja umhverfisstefnu sem við erum stolt af og verður vonandi hvatning fyrir bæinn að fylgja eftir og gera betur í umhverfismálum. Því lengi má gott bæta.

Mosfellsbær ætlar að halda áfram að vera til fyrirmyndar og sem hvatning fyrir önnur sveitarfélög til að fylgja okkur eftir í umhverfismálum. Því eins og vitað er þá er eftirsóknarvert að búa í bæ sem er til fyrirmyndar og býður upp á fallegt og vel snyrt umhverfi. Það er eftirsóknarvert að ala upp börn sem geta leikið sér úti í náttúrunni þar sem upplifunin er sveit í bæ eins og við bæjarbúar höfum hér í nærumhverfi okkar.

Það eru okkur Mosfellingum sem búum hér forréttindi að geta labbað út frá heimilum okkar í náttúruperlur hér allt í kring. Nefni ég sem dæmi Blikastaðahringinn, þar er hægt að sjá fuglalífið og í Leiruvogi selina. Ganga Álafosskvosina upp með fossinum, meðfram ánni í gegnum skóginn hjá Reykjalundi þar sem maður er eins og í útlöndum að mér finnst. Göngur upp á Helgafell, Úlfarsfellið og fleiri staði án þess að setjast upp í bíl og keyra. Græn svæði og náttúruperlur eru eitt af því sem gefur lífinu lit til að njóta lífsins.

Ég ætla að leggja mitt af mörkum til að bæta umhverfið mitt og væri gaman að fá aðra bæjarbúa í lið með mér. Endurgjöf frá bæjarbúum þar sem þeir benda á tækifæri til umbóta er mikilvæg.
Ég myndi vilja sjá bæjarskrifstofuna og aðrar stofnanir í bænum hætta með pappa- og plastglös og bjóða frekar upp á fjölnota bolla ásamt því að hvetja fólk til að koma með sína eigin bolla á fundi eða viðburði.
Starfsmenn í áhaldahúsinu hafa breytt ýmsu til hins betra. En skipt hefur verið út bensíndrifnum verkfærum í batteríisverkfæri. Fjárfest hefur verið í nýjum rafmagnsbíl sem notaður verður í garðyrkju og til tæmingar rusladalla. Þau hafa einnig unnið markvisst að því að minnka plastnotkun.
Þetta eru allt skref til batnaðar og vonum við að á árinu 2022 verði enn fleiri skref tekin til sjálfbærrar framtíðar í Mosfellsbæ.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Jarðhitagarður

Heitavatnsleiðslan til Reykjavíkur var einangruð með reiðingi og hænsnaneti.

Bjarki Bjarnason

Á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 8. desember sl. var samþykkt að vinna að og undirrita viljayfirlýsingu milli bæjarins og Veitna ohf. um jarðhitagarð í Reykjahverfi.
Málið hafði verið í undirbúningi um nokkurt skeið og á sér góðar og gildar sögulegar forsendur sem hér verður gerð grein fyrir í stuttu máli.

Vatn er heitt
Tvö lághitasvæði eru í Mosfellsbæ, í Reykjahverfi og Mosfellsdal. Á fyrri öldum þótti það enginn sérstakur kostur að hafa sjóðheita hveri í sínu nágrenni, þar var að vísu hægt að baka brauð en Íslendinga skorti verkþekkingu til að fullnýta vatnið, til dæmis til húshitunar. Í jarðabók frá byrjun 18. aldar er aðeins getið um heitt vatn á einni bújörð í Mosfellshreppi, í Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal, þar segir stutt og laggott: „Vatn er heitt.“ Ekki verður séð hvort sá jarðhiti sé talinn til búdrýginda eða ekki. Flestir hverirnir og laugarnar í Mosfellssveit voru of heitar til að hægt væri nýta þær til baða, þó er Reykjalaug nefnd í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 18. öld, Reykjalaug var hlaðin baðlaug og er leifar hennar að finna undir akveginum heim að Reykjum.

Heita vatnið breytti Íslandi
Á 20. öld eygði framfarasinnað fólk óþrjótandi möguleika í virkjun jarðhitans, til húshitunar, baða og ylræktar. Jarðhitinn var virkjaður, bæði í Reykjahverfi og Mosfellsdal, og vatninu dælt til höfuðborgarinnar – eða eins og Halldór Laxness orðar það í Innansveitarkroniku: „Vatnið var leitt suður í víðum bunustokkum með þeim árángri að slík ókjör af sjóðheitu baðvatni koma á hvert nef í Reykjavíkurborg að annað eins er óþekt á jörðinni nema í Petrópavlofsk á Kamsjötku.”
Heita vatnið gjörbreytti Reykjavík og jarðhitinn hefur haft stórkostleg áhrif á allt samfélagið. „Bunustokkarnir” eru að vísu ekki sýnilegir lengur en enn streymir vatn í stórum stíl til borgarinnar. Reyndar er lítill hluti af gamla stokknum varðveittur á sínum stað, við veitingahúsið Barion í miðbæ Mosfellsbæjar. Dælustöðin á Reykjum (neðan við Reykjalund) er enn í notkun en ekki lengur opin fyrir gesti líkt og hún var um langt skeið, þar er ekki lengur boðið upp á volgan sopa úr borholu 13.

Gerum söguna sýnilega
Eins og hér hefur verið rakið tengist virkjunarsaga Reykjavíkur okkur Mosfellingum náið og það eru gildar ástæður til að halda henni á lofti, bæði fyrir samtímafólk og komandi kynslóðir. Þess vegna hugsa Mosfellsbær og Veitur ohf. sér til hreyfings í þessum efnum, í því samhengi er horft til landspildu við Reyki, hún er í eigu Veitna ohf. og notuð sem snúningsreitur fyrir almenningsvagna. Þarna eru miklir möguleikar til að gera þessari merku sögu góð skil, um leið verður jarðhitagarðurinn til prýði fyrir umhverfið. Vaxandi umferð almennings er um þetta svæði; þarna hefjast og enda fjallgöngur um nágrennið, meðal annars á Reykjaborg og að Bjarnarvatni.
Fegrum umhverfið og gerum söguna sýnilega.

Bjarki Bjarnason,
forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.

Áramótaheit og svikin loforð

Michele Rebora

Fyrstu dagar janúarmánaðar einkennast gjarnan af góðum fyrirheitum: fólk kappkostar að lofa sjálfu sér og öðrum að gera meira af sumu og minna af öðru, að verða betri en síðast. Þessu athæfi svipar mjög til síðustu vikna fyrir kosningar, þegar flokkar og framboðslistar lofa öllu fögru.
Áramótaheit og kosningaloforð eru að sjálfsögðu hið besta mál, séu þau sett fram af einlægni og viðkomandi ætli sér að vinna að þeim. Þau þurfa jafnframt að vera raunhæf og byggjast á staðreyndum.
Eitt af „áramótaheitum“ Sjálfstæðisflokksins hér í bænum var að losa Mosfellinga við urðunarstaðinn í Álfsnesi, fyrir lok árs 2020. Sumarið 2020 var ljóst að ekki myndi verða af þeirri lokun og skrifuðu fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu undir nýjan viðauka við eigendasamkomulag SORPU þar sem kveðið var á um að skarpt yrði dregið úr urðun sorps og henni alfarið hætt í árslok 2023. Strax í september 2020, tveimur mánuðum eftir undirskrift viðaukans, var magn urðaðs úrgangs komið yfir 80.000 tonn, samanborið við þau 79.000 sem gert var ráð fyrir að urðuð yrðu í heild sinni á árinu. Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu SORPU fyrir árið 2020 var heildarmagn móttekins úrgangs á urðunarstaðinn 177.000 tonn, þar af 105.255 tonn í urðun eða rúmum 30% meira en gert var ráð fyrir á því ári.
Svipaða sögu er að segja fyrir árið 2021, í október var magn í urðun komið yfir 89.000 tonn en leyfilegt magn fyrir allt árið samkvæmt viðauka við eigendasamkomulagið átti að vera 55.000 tonn.
Ein af aðgerðunum sem nefndar eru í viðauka til að minnka urðun var lokun Gýmis haustið 2020. Bæjarstjóri Mosfellsbæjar hrósaði sérstaklega sigri varðandi lokun „stærsta klósetts norðan Alpafjalla“, eins og hann kaus sjálfur að kalla Gými. Vert er að minnast þess að þessi yfirbyggða móttaka á lyktarsterkum úrgangi, Gýmir, var sett upp nokkrum árum áður fyrir tilstuðlan Mosfellsbæjar sem liður í baráttu við lyktarmengun frá urðunarstaðnum.
Undirritaður spurði á fundi bæjarstjórnar í lok september 2020 hvað gera ætti við þann úrgang sem farið hafði í Gými fram að því, t.d. sláturúrgang frá alifuglabúum í Mosfellsbæ. Bæði bæjarstjórinn og fulltrúi bæjarins í stjórn SORPU til margra ára, bæjarfulltrúinn Kolbrún Þorsteinsdóttir, fullyrtu að hann myndi fara í Gas- og jarðgerðarstöð fyrir árslok 2020. Í árslok 2020 var reyndar ekki búið að setja upp í GAJA þann búnað sem þurfti til þess að taka á móti sláturúrgangi og hefur mér vitanlega enn ekki verið gert. Móttaka á slíkum úrgangi er þar að auki ekki heimil samkvæmt gildandi starfsleyfi GAJA.
Það er gott að setja sér markmið en þau verða að vera raunhæf og viðeigandi. Það er ekki nóg að segjast ætla að loka urðunarstaðnum. Ábyrgð sveitarfélaga á meðhöndlun úrgangs, bæði gagnvart íbúum og atvinnulífi, hverfur ekki við að segja það.
Sorpmál eru flókin en þau skipta okkur öll miklu máli bæði út frá fjárhagslegu og umhverfislegu sjónarmiði. Áramótaheit okkar, Vina Mosfellsbæjar, er að halda áfram að hafa áhuga á þessum málaflokki, að stuðla að yfirvegaðri umræðu sem byggist á staðreyndum, Mosfellingum og öðrum íbúum höfuðborgarsvæðisins til heilla.

Michele Rebora
Aðalmaður Vina Mosfellsbæjar í umhverfisnefnd

Viltu hafa áhrif? – Taktu þátt!

Erna Björg Baldursdóttir

Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar.
Gengið er í garð enn eitt kosningaárið og að þessu sinni eru það bæjarstjórnarkosningar sem haldnar verða í maímánuði. Fram undan eru frjóir og skemmtilegir tímar þar sem stjórnmálaflokkarnir sem bjóða fram í bæjarstjórnarkosningunum ydda stefnu sína og ákveða hvaða málefni skuli leggja höfuðáherslu á í kosningabaráttunni.
Við í Samfylkingunni leggjum mikla áherslu á að stefnumótun framboðsins fari fram í breiðu og opnu samtali við flokksmenn og annað stuðningsfólk jafnaðarstefnunnar. Þess vegna er núna akkúrat tækifærið fyrir áhugasamt félagshyggjufólk að koma og taka þátt í samræðum og ákvörðunum fyrir kosningarnar í vor.
Málefnin sem eru undir í sveitarstjórnarmálum eru af ýmsum toga en eiga það langflest sameiginlegt að snerta líf fjölskyldnanna í bænum með beinum hætti. Þar getum við nefnt leik- og grunnskóla, húsnæðismál, ýmsa þjónustu fyrir eldri borgara, skipulagsmál í nærumhverfinu og þjónustu við fatlað fólk svo snert sé á nokkrum stórum málaflokkum. Til að bærinn okkar þróist og eflist á jákvæðan hátt er nauðsynlegt að raddir íbúanna heyrist og á þær sé hlustað. Ekki bara fyrir kosningar heldur alltaf.
Ef þú lesandi góður hefur áhuga á að taka þátt í mótun og þróun bæjarins okkar og ert félagshyggjumegin í litrófi stjórnmálanna þá er gott tækifæri núna á næstu mánuðum að mæta til leiks hjá okkur og taka þátt í skemmtilegu og frjóu flokksstarfi með góðum hópi jafnaðarfólks.
Ég hvet allt félagshyggjufólk sem hefur áhuga á að leggja sínar hugmyndir og úrlausnir inn í umræðuna um betra samfélag að kíkja til okkar í Samfylkingunni – jafnaðarmannaflokki Íslands, fylgjast með fundarboðum á Facebooksíðunni okkar, Samfylkingin í Mosfellsbæ, og mæta í opið hús á laugardagsmorgnum í félagsheimili okkar að Þverholti 3.
Einnig má senda á mig fyrirspurnir á póstfangið erna@lagafell.com og það má hringja í mig í síma 8694116.

Erna Björg Baldursdóttir,
formaður Samfylkingarinnar i Mosfellsbæ.

Gerum gott betra

Ásgeir Sveinsson

Á líðandi kjörtímabili hef ég sinnt fjölmörgum skemmtilegum og krefjandi störfum í farsælum og sterkum meirihluta D- og V-lista í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.
Ég sækist nú eftir umboði til að sinna þessum störfum áfram og leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Ég er formaður bæjarráðs, bæjarfulltrúi, formaður skipulagsnefndar, hef setið í stjórn strætó BS, samstarfsnefnd skíðasvæða og sit einnig í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins.
Það gengur vel í bænum, ánægja íbúa mælist í hæstu hæðum ár eftir ár, bærinn blómstrar og dafnar og það er eftirsótt að flytja í Mosfellsbæ.

Látum verkin tala
Mosfellsbær stendur vel fjárhagslega, þökk sé ábyrgri fjárhagsstjórn undanfarinna ára og þrátt fyrir mikið tekjufall vegna Covid-19 hafa framkvæmdir í Mosfellsbæ aldrei verið meiri, bæði nýframkvæmdir, viðhald og endurnýjun eigna. Þessi uppbygging mun halda áfram næstu misseri og ár.
Álögur á íbúa hafa verið lækkaðar, m.a. fasteignaskattar á íbúða- og atvinnuhúsnæði, álögur á barnafólk hafa lækkað verulega m.a. vegna 25% lækkunar leikskólagjalda á kjörtímabilinu og ungbarnadeildir hafa verið opnaðar á leikskólum, þannig að nú fá flest 12 mánaða börn í Mosfellsbæ dagvistarpláss.
Skólamálin eru einn allra mikilvægasti þáttur í samfélagi okkar, mikil áhersla hefur verið lögð á þau af meirihlutanum á þessu kjörtímabili í Mosfellsbæ og mun ný menntastefna Mosfellsbæjar styrkja þá faglegu vinnu enn frekar.
Skipulagsmálin eru á fullri ferð og uppbygging í Mosfellsbæ heldur áfram. Bærinn okkar mun halda áfram að stækka en ég mun standa vörð um að sérkenni Mosfellsbæjar „sveit í borg“ muni halda sér. Lögð verður áhersla á grænar og vistvænar áherslur og að við pössum vel upp á náttúruna allt í kringum okkur.

Lýðheilsa fyrir alla aldurshópa
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag með Aftureldingu sem hornstein í okkar frábæra íþrótta- og útivistarbæ. Ég mun áfram leggja mikla áherslu á aðstöðumál og að stutt verði áfram duglega við íþróttafélögin og við lýðheilsumál fyrir fólk á öllum aldri. Eldri borgurum fer hratt fjölgandi og á líðandi kjörtímabili hefur verið lögð mikil áhersla að mínu frumkvæði á lýðheilsumál eldri borgara í Mosfellsbæ. Úrval af fjölbreyttri skipulagðri hreyfingu hefur aukist verulega fyrir þann aldurshóp að minni tilstuðlan.

Sterk forysta skiptir máli
Margar af mínum áherslum fyrir síðustu kosningar fengu góðan hljómgrunn og urðu að verkefnum sem hafa verið eða eru í framkvæmd á þessu kjörtímabili. Ég hef brennandi áhuga á velferð Mosfellsbæjar og Mosfellinga og ég læt verkin tala. Víðtæk reynsla mín og þekking sem stjórnandi og leiðtogi í viðskiptalífinu, starf mitt sem formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi auk reynslu af mannauðs- og félagsmálum hafa reynst mér vel í minni vinnu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og munu gera áfram.
Ég er stoltur af því að vera hluti af kraftmiklum, vinnusömum hópi bæjarfulltrúa í meirihluta D- og V-lista sem hefur staðið að þessari vinnu ásamt frábæru starfsfólki Mosfellsbæjar, bæði í stjórnsýslunni og úti í stofnunum bæjarins. Ég hlakka til að halda áfram að sinna þessum verkefnum það sem eftir er þessa kjörtímabils og á næsta kjörtímabili.
Þess vegna býð ég mig fram í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri 5. febrúar næstkomandi og treysti á þinn stuðning.

Ásgeir Sveinsson.
Frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.

Hvort er Mosfellsbær að gleyma eða hunsa viðhald á gang­stéttum í rótgrónum hverfum?

Kári Sigurðsson

Stundum fer ég út að hlaupa, ég hleyp hvorki hratt né langt.
Oftast segi ég við sjálfan mig áður en ég fer út að hlaupa „taktu því bara rólega Kári minn“ og reyni ég að fylgja því eftir.
Ég keypti mér hlaupaskó fyrir ekki svo löngu sem eru gerðir fyrir hlaup á malbiki. Þar sem ég bý í Mosfellsbæ, í gömlu, rótgrónu hverfi hefði ég betur átt að kaupa mér utanvegahlaupaskó þrátt fyrir að ætla að hlaupa hérna innanbæjar.
Gangstéttir innan sumra hverfa Mosfellsbæjar eru í hræðilegu ásigkomulagi. Oftar en ekki er ég að hlaupa á gangstétt og reynir þá þyrnirunni að fella mig sem vex úr 15 ára gamalli sprungu á gangstéttinni.
Guð hjálpi mér ef ég skyldi svo mæta annarri manneskju á þessum kindastígum. Ef svo færi þyrfti ég annaðhvort að fleygja mér inn í næsta garð eða hreinlega út á götu.
Mosfellsbær er fallegur bær og eftirsóttur staður til að búa á fyrir ungar fjölskyldur. Leikskólar í Mosfellsbæ eru í fremstu röð og komast flestir inn á ungbarnadeild í kringum eins árs aldur barns.
Hinsvegar þarf að fara mjög varlega með þetta blessaða barn út að labba og helst að vera reiðubúinn að fleygja vagninum inn í næsta garð við fyrstu mannamót.
Af hverju þarf þetta að vera svona?

Kári Sigurðsson
Gefur kost á sér í annað sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.

Við áramót

Haraldur Sverrisson

Nýársávarp bæjarstjóra Mosfellsbæjar

Kæru Mosfellingar!
Það er góður siður við áramót að líta um öxl, rifja upp það sem gekk vel og ekki síður skoða hvað mun mæta okkur á nýju ári.
Árið 2021 var í raun gjöfult ár þótt annað árið í röð þyrftum við að glíma við afleiðingar kórónuveirunnar í okkar daglega lífi. Efnahagslífið tók að rétta úr kútnum, atvinnuleysi fór minnkandi og hagur sveitarfélaganna batnaði lítillega. Við eigum þó nokkuð í land með að ná okkar styrk frá því áður en veiran skæða fór að herja á okkur. Þegar þessi orð eru skrifuð eru smittölur í hæstu hæðum og víðtækar samkomutakmarkanir í gildi. En góðu fréttirnar eru þær að hlutfall smitaðra sem þurft hafa á sjúkrahúsinnlögn að halda er mun lægra en áður í faraldrinum og álit sérfræðinga er að það sé því að þakka hversu hátt hlutfall þjóðarinnar hefur látið bólusetja sig. Bólusetning er besta vörnin gegn Covid-19. Ég hef þá trú að þrátt fyrir háar smittölur þessa dagana þá verði ekki langt að bíða eftir því að þessi faraldur verði að mestu leyti yfirstaðinn.

Metnaðarfull áætlun og þjónustan varin
Líkt og á árinu 2020 reyndi mikið á skipulag starfsemi Mosfellsbæjar á árinu 2021. Það hefur verið mikið um sóttvarnarreglur og samkomutakmarkanir á árinu og veiran komið og farið ef svo má segja. En þrátt fyrir það hefur tekist að halda úti órofinni starfsemi sveitarfélagsins og þjónustan hefur verið varin.
Það hefur oft á tíðum ekki verið einfalt verk en starfsfólk og stjórnendur Mosfellsbæjar hafa staðið vaktina af einstakri eljusemi, ábyrgð og festu. Það eru mikil verðmæti fyrir samfélagið okkar hér hversu vel hefur tekist til við rekstur og þjónustu bæjarins á þessu krefjandi tímum. Fyrir það vil ég þakka starfsfólki bæjarins kærlega fyrir.

Fjárhagsáætlunin fyrir árið 2022 er metnaðarfull. Í henni er gert ráð fyrir að afgangur verði af rekstri bæjarins sem nemi rúmum 200 m.kr. Það er viðsnúningur frá síðustu tveimur árum þegar töluverður halli hefur verið á rekstrinum sem orsakaðist að mestu vegna tekjufalls í þjóðfélaginu vegna kórónuveirunnar. Fjárfestingar verða í sögulegu hámarki en gert er ráð fyrir að fjárfest verði fyrir rúmar 2.900 m.kr. á árinu 2022.
Þar ber hæst að hafist verður handa við byggingu nýs 120 barna leikskóla í Helgafellshverfi, byggingu íþróttahúss við Helgafellsskóla og nýja þjónustubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá. Þetta eru dæmi um framkvæmdir sem haldast þétt í hendur við öra stækkun sveitarfélagsins. Allt er þetta gert til þess að mæta þörfum íbúa í nútíð og framtíð og á þátt í að auka lífsgæði og velferð þeirra.
Á nýju ári munu álögur á íbúa og fyrirtæki ekki hækka að raungildi og lækka í nokkrum tilfellum. Þjónusta við íbúa hefur eflst jafnt og þétt og þar er sígandi lukka best. Sú fyrirhyggja og ráðdeild sem sýnd hefur verið er ástæða þess að við sjáum aftur fram á bjartari tíma í rekstri bæjarins en við verðum áfram að vera vakandi yfir rekstrinum. Ég vil leyfa mér að taka byggingu Helgafellsskóla, sem nú er komin í rekstur, sem dæmi um ráðdeild en skólinn var afhentur á réttum tíma og kostnaðurinn var 2% undir kostnaðaráætlun. Slíkur árangur næst ekki af sjálfu sér og liggur ekki hjá einum einstaklingi heldur vaskri sveit starfsmanna og stjórnenda.

Persónuleg tímamót
Í haust tók ég þá ákvörðun að gefa ekki kost á mér til endurkjörs í bæjarstjórn í kosningunum sem eru fram undan. Ég mun því láta af störfum sem bæjarstjóri í vor. Ég hafði leitt hugann að því fyrir fjórum árum að þetta kynni að verða mitt síðasta kjörtímabil í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Ég hef verið bæjarstjóri frá árinu 2007, lengst allra sem gegnt hafa þessu embætti í Mosfellsbæ. Það hefur verið einstakur heiður að fá að gegna þessu starfi allan þennan tíma og fá að vinna fyrir samfélagið hér í Mosfellsbæ.
Íbúum hefur fjölgað um helming á þessum tíma og gríðarleg uppbygging átt sér stað. Heildarfjárfesting bæjarfélagsins nemur rúmlega 23 milljörðum króna á tímabilinu. Allt hefur þetta verið unnið á sterkum grunni samstarfs við samstarfsflokk okkar og skýrri framtíðarsýn okkar um það hvað Mosfellsbær stendur fyrir. En þess má geta að á þessu tímabili hefur Mosfellsbær mótað sér heildarstefnu með gildum bæjarins, framtíðarsýn og stefnuáherslum og svo hefur stefnumótun átt sér stað í öllum málaflokkum á grundvelli þessarar heildarstefnu.

Fjárfestingin er að stofni til í skóla- og íþróttamannvirkjum og ef litið er yfir farinn veg þá má segja að eftirfarandi beri hæst:
Af skólamannvirkjum má nefna byggingu 2. og 3. áfanga Lágafellsskóla, stækkun Huldubergs, byggingu Krikaskóla, Framhaldsskólans, Höfðabergs og Leirvogstunguskóla. Nýjasta skólamannvirkið er svo Helgafellsskóli sem er stærsta einstaka framkvæmdin sem Mosfellsbær hefur ráðist í.

Af íþrótta- og tómstundamannvirkjum má nefna byggingu Lágafellslaugar, nýtt gras og stúka á gervigrasvöllinn, byggingu fimleikahúss og tengibyggingu með félags- og skrifstofuaðstöðu fyrir Aftureldingu, stækkun golfvallarins og nýs golfskála, reiðhöll Hestamannafélagsins Harðar, nýtt skátaheimili og svo síðast en ekki síst, fjölnota knattspyrnuhúsið okkar Fellið.

Á sviði velferðarmála má nefna stækkun félagsmiðstöðvar eldri borgara á Hlaðhömrum, byggingu hjúkrunarheimilisins Hamra og stofnsetningu áfangaheimilisins Króks, heimilis fyrir börn og frístundaklúbbsins Úlfsins.

Það sem er mjög mikilvægt í þessu samhengi er að af þessum 23 milljörðum sem varið hefur verið í þessar fjárfestingar hefur því sem næst helmingur fjárins komið úr rekstrinum sjálfum eða sem veltufé frá rekstri. Það er einstakur árangur á alla mælikvarða.

En mest um vert er að bæjarbúar eru stoltir af sínu sveitarfélagi, þeir standa vörð um samfélagið og sú þjónusta sem við veitum er í fremstu röð samkvæmt mælingum. Það er mikill heiður að vera treyst fyrir því að vera bæjarstjóri og vinna þannig fyrir samfélagið hér í Mosfellsbæ. Ég hef notið hvers dags og er afar þakklátur fyrir að hafa verið treyst fyrir þessu verkefni. Ég mun gegna starfi bæjarstjóra af trúmennsku þar til í vor þegar kjörtímabilinu lýkur.

Framtíðin er björt í Mosfellsbæ og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir sem fyrr.

Gleðilegt og gæfuríkt nýtt ár kæru Mosfellingar.

Haraldur Sverrisson
Bæjarstjóri

Af hverju hreyfum við okkur!

Berta Þórhalladóttir

„Ef hreyfing væri til í pilluformi þá væri það mest ávísaða lyf í heimi“
Hreyfing snýst um svo miklu meira en að líta vel út. Hreyfing er verkfæri og tól sem getur hjálpað okkur að stuðla að bættri vellíðan. Hreyfing á ekki að vera kvöð og er ég talsmaður þess að maður eigi að finna sér þá hreyfingu sem veitir ánægju og tilhlökkun. Það er vissulega mikilvægt að styrkja sig og iðka þolæfingar, en númer eitt, tvö og þrjú er það að finna sér afþreyingu sem þú hefur gaman af. Þegar við höfum gaman þá verður hreyfingin auðveldari og einfaldar það fyrir okkur að koma hreyfingunni í fasta venju!

Það ættu allir að geta fundið skemmtilega afþreyingu við sitt hæfi í dag, þar sem úrvalið hjá okkur á klakanum er svo fjölbreytt og svo margt flott í boði. Þegar hreyfingin er svo orðin að fastri venju, þá má gjarnan fara að huga að hvað við getum gert til að bæta hana og okkur í leiðinni.
Þegar við stundum heilsusamlega hreyfingu þá stuðlum við að bættri heilsu, vellíðan og betri lífsgæðum. Við getum í kjölfarið minnkað líkur á kvíða og þunglyndi, verndað okkur frá hinum ýmsum sjúkdómum.
Einu sinni hélt ég að maður yrði að fá blóðbragð í munninn til þess að ég gæti kallað mína hreyfingu æfingu. En sem betur fer þá veit ég betur í dag!
Öll hreyfing er af hinu góða og númer eitt, tvö og þrjú er einfaldlega að hreyfa sig. Það skiptir ekki jafn miklu máli hvernig við hreyfum okkur eða hversu mikið við náum að svitna á meðan á æfingu stendur! Og æfingin þarf ekki standa yfir langan tíma í senn, þar sem talið er að 30 mínútna hreyfing á dag, 5 daga vikunnar geti skipt sköpum fyrir okkur. Ef þú átt ekki hálftímann, brjóttu hann þá niður í þrisvar sinnum 10 mín., hér og þar yfir daginn. Hugsum í lausnum, því jú, öll hreyfing skiptir okkur máli.
Munið að líkaminn okkar spyr ekki um aldur og fyrri störf þegar hreyfing er annars vegar, heldur mun hormónakerfið okkur losa um vellíðunarhormón um leið og við byrjum að hreyfa okkur.
Hvernig væri að hreyfa sig í dag og sjá hvort það losni ekki úr læðingi.
Þú hefur engu að tapa, en þú gætir haft margt að vinna!

Hvatningarkveðja,
Berta Þórhalladóttir.

Brotin loforð gagnvart barnafólki í Mosfellsbæ

Sveinn Óskar Sigurðsson

„Brotin loforð alls staðar, brotin hjörtu á dimmum bar, brotnar sálir biðja um far, burt, burt heim.“
Texti Bubba Morthens í samnefndu lagi lýsir stöðu fjölmargra sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, átta sig ekki á hvers vegna minna er á milli handanna og ekki sé hægt að bjóða börnum sínum betra viðurværi. Verst er þegar aðilar í samfélagi okkar gefa sig út fyrir að vera bestir til að veita bjargirnar og þeir langbestu til að gæta fjárhags ríkis og sveitarfélaga án innstæðu. Hefur það verið raunin? Já, svo sannarlega. Flestir stjórnmálamenn, þ.á m. öll vinstri stjórnin 2009-2013, voru tilbúnir að láta almenning borga verðbætur langt umfram það sem eðlilegt var. Aðeins einn aðili kom þarna til móts við fólkið í landinu, þ.e. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ásamt þeirri ríkisstjórn sem hann stýrði eftir kosningarnar 2013.
Á tímabili eftir hrun fjármálakerfisins 2008 mátti sjá fulltrúa margra flokka ganga gegn hagsmunum almennings og voru tilbúnir, jafnvel sem þingmenn og ráðherrar, að ganga ansi langt í að brjóta bæði loforð og lög í landinu gagnvart þeim sem þá áttu um sárt að binda og misstu eignir sínar og lífsviðurværi.
Nýlega kom ég í pontu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og gerði athugasemd við brotin loforð meirihlutans í Mosfellsbæ þegar kemur að leikskólagjöldum. Á fundi bæjarstjórnar númer 795, þann 8. desember 2021, vitnaði ég í loforð meirihlutans sem lesa má í málefnasamningi V- og D-lista frá 5. júní 2018 en þar segir orðrétt: ,,Við viljum: að leikskólagjöld lækki um 25% á kjörtímabilinu án tillits til verðlagshækkana.“
Þess ber að geta að undir þennan málefnasamning ritar oddviti VG og Sjálfstæðisflokksins. Hver er raunin. Jú, raunin er sú að lækkunin nam aðeins 14,3% en ekki 25% eins og lofað var. Í ræðu bæjarstjórans á fundi nr. 795 í bæjarstjórn segir aftur orðrétt (feitletrun mín):
,,Sko, varðandi þetta síðasta, lækkun leikskólagjalda þá…þá…he…þá er mér ljúft að svara því. Það vill svo bara til ágæti bæjarfulltrúi að…að það er búið að gera meira en loforðið segir til um. Loforðið segir til um það að lækka leikskólagjöld um 25% að…að…án tillits til verðlags. Það er að segja að þetta þýðir það að 25 prósentin eru ekki…eru með verðlagsbreytingum inn í. Við erum búin að lækka þau um 5% á ári og sem þýðir þá það að við erum búin að lækka þau meira og sennilega töluvert meira heldur en…heldur en þetta sem stendur í málefnasamningnum segir. Þannig að það sé nú á hreinu.“
Undir þetta tók oddviti VG og botnaði ekkert í athugasemd minni, þrátt fyrir að hafa lesið og vitnað sjálfur beint í framangreindan málefnasamning.
Hvað gengur þessu fólki til? Þess ber að geta að þeir sem keppa nú um oddvitasætið í Sjálfstæðisflokknum, formaður bæjarráðs og formaður fræðslunefndar, gerðu enga athugasemd við málflutning þennan. Hvers vegna?
Fólk sem gefur sig út fyrir að vera í stjórnmálum verður að taka ábyrgð. Þetta fólk sem að framan er getið er ekki að taka ábyrgð og beinlínis stunda það að ganga gegn eigin samningum og gera illt verra með því að svíkja loforð til kjósenda og reyna að draga fjöður yfir eigin villur, mistök og vanþekkingu.
Hér er verið að brjóta loforð á barnafólki í Mosfellsbæ. Vilja bæjarbúar kjósa slíkt fólk til framhaldandi valda.

Sveinn Óskar Sigurðsson,
bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ.

Setjum Kolbrúnu kennara í fyrsta sætið hjá Sjálfstæðisflokknum!

Ólöf Guðmundsdóttir

Það eru spennandi kosningar fram undan til bæjarstjórnar hér í Mosfellsbæ. Ég hef ákveðið að beita mér örlítið í baráttunni því ein öflugasta manneskja sem ég hef verið svo lánsöm að kynnast, hún Kolbrún G. Þorteinsdóttir, er að berjast um toppsætið í stærsta stjórnmálaaflinu í bæjarfélaginu, Sjálfstæðisflokknum.
Fyrir vinstri manneskju eins og mig hefur verið kvalafullt að fylgjast með pólitíkinni undanfarið. Máttlausri kosningabaráttu Samfylkingarinnar og ósigrum svo og stuðningi VG við persónulega viðskiptahagsmuni útgerðarfurstanna. Og þá vaknar spurningin um hvort atkvæði manns sé dæmt til að vera alltaf kastað á glæ.
Í framhaldi af þessu hef ég velt fyrir mér hvernig ég geti haft áhrif á samfélag mitt. Því hef ég ákveðið að beita mér fyrir því að koma Kolbrúnu í fyrsta sætið hjá Sjálfstæðisflokknum í þeirri von að fá öfluga framsækna konu í bæjarstjórastólinn. Hér er gott að búa og ala upp börnin sín og það hefur verið haldið vel utan um bæjarmálin hér með Sjálfstæðisflokkinn í meirihluta í bæjarstjórn. Nokkuð sem ég verð að viðurkenna hvar svo sem pólitískar línur mínar liggja.
En hvað er ég að velja fyrir mig og bæinn minn þegar ég set Kolbrúnu í 1. sætið?
Ég er að velja konu sem lýsir sjálfri sér sem „skólamanneskju“ fyrst og fremst. Ég er að velja framsækna manneskju sem vill tala við fólk til að komast að góðri niðurstöðu.
Og ekki síst þá er ég að velja formann fræðslunefndar Mosfellsbæjar til frekari áhrifa. Sjálf er ég kennari og á 3 börn í tveimur skólum í Mosó og vinn í þeim þriðja. Ég þekki marga frábæra kennara og duglegt starfsfólk innan skólanna og ég vil manneskju til frekari áhrifa sem skilur og styður þetta mikilvægasta verkefni bæjarins.
Sjáðu til lesandi góður. 60% af fé Mosfellsbæjar fer í að reka skólana og 80% af þeim sem eru á launaskrá hjá bænum eru að vinna í skólunum. Og Kolbrún er kennari sem brennur fyrir einmitt þessu langstærsta verkefni allra bæja; velferð barnanna, skólunum þar sem þau ala manninn flesta virka daga ársins og starfsfólki bæjarfélagsins sem heldur uppi þessu mikilvæga starfi. Þetta er það sem skiptir máli. Samfélög snúast fyrst og síðast um að ala upp börnin okkar. „It takes a village to raise a child“ eins og sagt er. Því er svo mikilvægt að fá manneskju í fyrsta sæti í stærsta stjórnmálaflokknum sem leggur áherslu á einmitt þetta risamál.
Þau sem sækjast eftir 1. sætinu eru hvort úr sinni áttinni.
Annars vegar er framsækinn og mælskur kennari og lýðheilsufræðingur sem vill slá skjaldborg um skólana í bænum. Hún þekkir þá út og inn sem formaður fræðslunefndar og hefur líka áratuga reynslu af bæjarpólitíkinni. Hún er skarpgreind og raunsæ með báða fætur á jörðinni en hefur aldrei gleymt að láta hjartað ráða för. Hins vegar er maður sem hefur ekki reynslu af skólamálum.
Hvar sem þú ert á hinu pólitíska litrófi, getur þú haft áhrif. Það er mikilvægt að manneskjan sem leiðir lista stærsta stjórnmálaflokksins sé með puttann á púlsinum í málaflokknum sem er svo mikilvægur fyrir okkur öll. Skelltu þér í prófkjör Sjálfstæðisflokksins og settu Kolbrúnu G. Þorsteinsdóttur í fyrsta sætið. Fyrir skólana og fjölskyldurnar. Gleðilegt ár og gleðilegar kosningar!

Ólöf Guðmundsdóttir
Mosfellingur og kennari í Varmárskóla

Breytingar á lyfjaendurnýjunum á Heilsugæslu Mosfellsbæjar

Ívar Marinó Lilliendahl

Kæru Mosfellingar
Hinn 1. janúar næstkomandi verða breytingar á ákveðnum lyfjaendurnýjunum hjá Heilsugæslu Mosfellsbæjar. Ávanabindandi sterk verkjalyf (svo kölluð ópíöt) og ávanabindandi róandi lyf (benzódíasepín) verður ekki hægt að endurnýja nema í bókuðum tíma hjá lækni. Ekki verður hægt að endurnýja lyfin á vaktinni, gegnum síma eða rafrænt gegnum Heilsuveru. Hægt verður að skrifa út lyfin til að hámarki þriggja mánaða í senn, en að þeim tíma liðnum þarf nýtt mat læknis til að ákvarða þörf á frekari meðferð.
Mikil aukning hefur verið á ávísunum slíkra lyfja á síðustu árum (sjá grein í Læknablaðinu 10. tbl. 107. árg. 2021. „Þróun lyfjaávísana á ópíóíðalyf í heilsugæslu á árabilinu 2008 til 2017“ eftir Sigríði Óladóttur og félaga). Mikilvægt er að ávísun lyfjanna sé byggð á reglubundinni skoðun og þörf á lyfjunum endurmetin reglulega. Lyfin geta valdið þreytu, minnisleysi, ávanabindingu, hægðatregðu og ógleði svo fátt sé nefnt. Einnig skerða lyfin færni fólks til aksturs í umferðinni. Þá hefur verið sýnt fram á það að lyfin séu sjaldnast gagnleg í langvinnum verkjavandamálum. Aldraðir eru í sérstakri hættu m.t.t. þessara lyfja þar sem þau auka byltu- og beinbrotahættu og auka hættu á óráðsástandi.

Hörður Ólafsson

Með þessum breytingum á ávísanakerfinu er það von okkar á Heilsugæslu Mosfellsbæjar að auka öryggi okkar skjólstæðinga og veita betri meðferð en áður.
Rannsókn frá Danmörku (Jorgensen VR. An approach to reduce benzodiazepine and cyclopyrrolone use in general practice : a study based on a Danish population. CNS Drugs. 2007;21(11):947-55) og reynsla frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Borgarnesi hafa sýnt fram á að dregið hefur úr notkun þessara lyfja með svipuðum aðgerðum.

Dæmi um lyf sem fara undir breytingarnar eru:
Ópíöt: Parkodin, Parkodin forte, Tramol, Tradolan, Oxycontin, Oxynorm, Contalgin.
Benzódíasepín: Sobril, Albrazolam, Stesolid.

Með von um góðar viðtökur og góða samvinnu.
F.h. Hg Mos

Ívar Marinó Lilliendahl læknir
Hörður Ólafsson heimilislæknir og fagstjóri lækninga

Verkefnið Járnfólkið – Rótarýhreyfingin

Sveinn Óskar Sigurðsson

Fyrir nokkrum árum hvatti viðskiptafélagi minn mig til að mæta á fund hjá Rótarýklúbbnum Þinghól sem starfræktur er í Kópavogi.
Frá þeim tíma hef ég verið meðlimur í Rótarýhreyfingunni og tek heilshugar undir orð frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, sem líkti Rótarý við „opinn háskóla“. Samhliða frábærum fyrirlestrum um allt milli himins og jarðar stuðlar Rótarý á Íslandi að fræðslu og samfélagsverkefnum sem koma öllum til góða.
Eftir að hafa séð hve öflug þessi hreyfing er, hve virkir og velviljaðir meðlimir hennar eru við að bæta samfélag sitt og koma góðu til leiðar fann ég mig innan Rótarý. Fyrir 2 árum lagði ég fyrir klúbbfélaga mína hugmynd að samfélagsverkefni. Hafði ég þá greinst með erfðasjúkdóm sem nefnist járnofhleðsla (e. Hemochromatosis) sem í eðli sínu er auðvelt að greina og meðhöndla en getur valdið miklum skaða og leitt til ótímabærra dauðsfalla sé hann ekki meðhöndlaður.
Til að greina sjúkdóminn þarf að fara í blóðpróf á næstu heilsugæslustöð og meðhöndlunin felst m.a. í því að tappa blóði reglulega af viðkomandi þar til að hlutfall járns í blóði er orðið viðunandi að mati læknis. Ef ekki er brugðist við getur þessi sjúkdómur valdið lifrarbólgu, skorpulifur og hugsanlega lifrarkrabbameini, sykursýki, skjaldkirtilssjúkdómum, getuleysi, ófrjósemi, vöðva- og liðverkjum, þunglyndi, Alzheimer, Parkinsons og aukið á gigtareinkenni.
Ég var beðinn um að halda fyrirlestra um sjúkdóminn og að loknum þeim var samþykkt samhljóða að taka upp verkefnið og vinna bækling sem dreift yrði um allt land. Verkefnahópur var settur á laggirnar og markmiðið sett um að auka vitundarvakningu á meðal almennings. Síðar kom í ljós að fjöldi félaga minna þekktu einstaklinga með þennan sjúkdóm, ættingja eða vini. Nokkrir félagar mínir í klúbbnum eru með sjúkdóminn og einn félagi minn greindist nýlega. Fyrir ári var sótt um styrk fyrir verkefnið hjá Verkefnasjóði Rótarý á Íslandi og hlaut verkefnið hæsta styrkinn sem í boði var. Vil ég þakka stjórn sjóðsins innilega fyrir þennan velvilja sem lýsir vel hugsjónum Rótarý.
Á næstu vikum munum við í Rótarý dreifa bæklingi sem ber yfirskriftina ,,Járnofhleðsla, hvað er það?“ Með þessari vitundarvakningu er ætlunin að hvetja fólk á öllum aldri, sem finnur til einkenna, að leita til síns heimilislæknis og óska eftir blóðprófi svo skera megi úr varðandi hlutfalls járns í blóði. Rétt er að benda fólki, sem á ættingja með þennan erfðasjúkdóm, á að fara í blóðpróf og fá ráðgjöf hjá sínum heimilislækni.
Við í Rótarýklúbbnum Þinghól viljum með þessu vekja fólk til vitundar en samkvæmt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna nr. 3.4 segir : „Eigi síðar en árið 2030 hafi ótímabærum dauðsföllum af völdum annarra sjúkdóma en smitsjúkdóma verið fækkað um þriðjung með fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferð og stuðlað að geðheilbrigði og vellíðan.“ Með þessu vil ég upplýsa þig og vekja athygli þína á þessu verkefni Rótarý.
Fjórpróf Rótarý: Er það satt og rétt? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs?
Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Sveinn Óskar Sigurðsson
Verkefnastjóri verkefnisins Járnfólkið hjá Rótarý og bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ