Strætóleiðir og almenningssamgöngur

Guðmundur Hreinsson

Það er ljóst að Borgarlínan komi ekki upp í Mosfellsbæ fyrr en um eða upp úr árinu 2030. Eigum við að bíða eftir umbótum á almenningssamgöngum eða eigum við gera eitthvað strax?
Við hjá Vinum Mosfellsbæjar viljum kasta fram þeirri hugmynd hvort ekki væri hagkvæmara að stóru dísel strætisvagnarnir sem nú ganga á milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar fari eingöngu um Vesturlandsveg í Háholt og til baka um Vesturlandsveg.
Í stað þess að þræða þröngar íbúðagötur með tilheyrandi mengun og sliti á götum. Í innanbæjarakstri verði þess í stað notast við litla, umhverfisvæna söfnunarvagna sem verði í stanslausum ferðum um hverfin, safni saman farþegum og skili í Háholt þar sem stærri vagnar taka við og flytji fólk áfram til Reykjavíkur.
Þessa söfnunarvagna má svo nýta áfram þegar Borgarlínan kemur. Við fyrstu sýn gæti þessi aðferð lækkað kostnað Mosfellsbæjar til almenningssamgangna, aukið þjónustustig og síðast en ekki síst minnkað kolefnisspor þessarar þjónustu. Vinir Mosfellsbæjar vilja beita sér fyrir því að hugmyndin verði skoðuð í samráði við notendur þjónustunnar og íbúa alla í anda íbúalýðræðis.

Viljum við ekki öll vera vinir – umhverfisins?

Guðmundur Hreinsson skipar 2. sætið hjá Vinum Mosfellsbæjar