Vond vinnubrögð

Guðmundur Hreinsson

Við Mosfellingar urðum vitni að óvönduðum og vondum vinnubrögðum á síðasta fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 4. maí.
Þar var til umfjöllunar og afgreiðslu leynisamningur við Arion banka um uppbyggingu á Blikastaðalandinu, samningur sem ekki mátti sýna eða ræða úti í samfélaginu fram að setningu fundarins.
Við hjá Vinum Mosfellsbæjar, þar með talinn bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar, erum ekki efnislega á móti því að Blikastaðalandið sé byggt upp heldur á móti þeim óvönduðu vinnubrögðunum sem voru viðhöfð. Það er fáheyrt að svo risastórt mál sé dregið upp úr hatti núverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í lok kjörtímabilsins og það án allrar kynningar eða umræðu úti í samfélaginu og keyrt í gegnum bæjarstjórn með valdi. Íbúar Mosfellsbæjar fengu enga aðkomu og voru ekki spurðir álits, þrátt fyrir að lýðræðisstefna Mosfellsbæjar mæli fyrir um að svo skuli vera í svo stórum málum sem þessu.

Stefán Ómar Jónsson

Í fljótu bragði þá sýnist okkur að þessi samningur getur ekki verið annað en bara viljayfirlýsing þar sem innihald hans framselur skipulagsvald til þriðja aðila og er það að okkar mati í hæsta máta ósiðlegt og ekki eftir laganna bókstaf. Samningurinn bindur hendur kjörinna fulltrúa langt fram í tímann.
Þéttleiki byggðar í Blikastaðalandi verður samkvæmt samningnum helmingi meiri en í Helgafellslandinu og mætti líkja við að settar yrðu 4 – 5 hæðir ofan á hverja blokk í Helgafellshverfinu og þykir nú mörgum nóg um þéttleika þess hverfis. Svona mikill þéttleiki, er það það sem við viljum?
Samningurinn gengur svo langt að hann formar ítarlega skipulag svæðisins að næsta bæjarstjórn og næstu bæjarstjórnir verða eins konar afgreiðslunefndir fyrir þá sem kaupa samninginn af Arion banka, afgreiðslunefndir sem munu lítil eða engin áhrif hafa um byggðaþróun landsins.
Kæru íbúar Mosfellsbæjar, við hjá Vinum Mosfellsbæjar erum andstæðan við svona vinnubrögð. Við viljum að allt sé uppi á borðum. Þess vegna lagði bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar til að málinu yrði frestað svo hægt væri að skoða það og kynna, en meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna felldi þá tillögu.
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar greiddi atkvæði einn gegn samþykkt samningsins vegna skorts á lýðræðislegum vinnubrögðum og skorts á að kynna svo stóra ákvörðun meðal íbúa bæjarins.

Guðmundur Hreinsson skipar 2. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar
Stefán Ómar Jónsson er bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar