Sameinumst um heilsueflandi samfélag

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú styttist heldur betur í sveitarstjórnarkosningar og áherslur og stefnuskrár framboða í bænum hafa litið dagsins ljós.
Það er virkilega ánægjulegt að sjá að flestir flokkar, ef ekki allir, leggja áherslu á lýðheilsumál og áframhaldandi uppbyggingu Heilsueflandi samfélags hér í Mosfellsbæ með einum eða öðrum hætti. Í því samhengi er vert að rifja upp að nú eru liðin 10 ár frá því að Mosfellsbær, fyrst allra sveitarfélaga, hóf formlegt samstarf við Embætti landlæknis og heilsuklasann Heilsuvin í Mosfellsbæ um uppbyggingu Heilsueflandi samfélags hér í bæ.

Samvinna er lykilatriði
Til að ná árangri við slíka uppbyggingu er lykilatriði að allir hagaðilar stefni að því sameiginlega markmiði að auðvelda fólki að taka heilsusamlegar ákvarðanir og lifa heilbrigðu lífi.
Rannsóknir hafa sýnt að áhrifaþættir heilbrigðis felast m.a. í geðrækt og líðan, mataræði, hreyfingu og útivist sem saman skapa lífsgæði okkar auk umhverfis- og efnahagslegra þátta. Stjórnvöld þurfa að taka tillit til heilsu við allar stefnumótandi ákvarðanir í samfélaginu varðandi t.d. skóla-, umhverfis-, íþrótta, tómstunda-, samgöngu-, skipulags-, atvinnu-, menningar- og öldrunarmál.
Íbúar þurfa jafnframt að vera virkir þátttakendur og grípa eða benda á öll þau tækifæri sem hægt er að nýta til að byggja hér upp fyrirmyndarsamfélag sem leggur áherslu á vellíðan og lífsgæði íbúa. Samvinna allra, að ógleymdu frumkvæði, er lykillinn að árangri.

Lýðheilsustefna
Nú hefur Lýðheilsustefna Mosfellsbæjar litið dagsins ljós og hafa þar verið hnýttir saman þræðir þeirrar miklu vinnu við uppbyggingu Heilsueflandi samfélags í bænum okkar undanfarin ár.
Næsta mál á dagskrá er að bretta upp ermar og sameinast um kraftmikla innleiðingu þeirrar stefnu sem talar að sjálfsögðu við allar aðrar meginstefnur bæjarins. Það mun renna enn styrkari stoðum undir þann heilsubæ sem bærinn okkar sannarlega er og tryggja nauðsynlega framþróun á öllum sviðum.

Ávinningur allra
Uppbygging Heilsueflandi samfélags er ávinningur fyrir alla og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að hver króna sem varið er í heilsueflingu og forvarnir skilar sér margfalt til baka til samfélagsins svo ekki sé minnst á bætta heilsu og aukin lífsgæði allra, þar liggja raunverulegu verðmætin.
Leggjumst öll á árarnar til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu Heilsueflandi samfélags í bænum okkar því við hljótum öll að vilja búa í samfélagi þar sem áhersla er lögð á vellíðan og lífsgæði allra íbúa.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­fræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Vond vinnubrögð

Guðmundur Hreinsson

Við Mosfellingar urðum vitni að óvönduðum og vondum vinnubrögðum á síðasta fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 4. maí.
Þar var til umfjöllunar og afgreiðslu leynisamningur við Arion banka um uppbyggingu á Blikastaðalandinu, samningur sem ekki mátti sýna eða ræða úti í samfélaginu fram að setningu fundarins.
Við hjá Vinum Mosfellsbæjar, þar með talinn bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar, erum ekki efnislega á móti því að Blikastaðalandið sé byggt upp heldur á móti þeim óvönduðu vinnubrögðunum sem voru viðhöfð. Það er fáheyrt að svo risastórt mál sé dregið upp úr hatti núverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í lok kjörtímabilsins og það án allrar kynningar eða umræðu úti í samfélaginu og keyrt í gegnum bæjarstjórn með valdi. Íbúar Mosfellsbæjar fengu enga aðkomu og voru ekki spurðir álits, þrátt fyrir að lýðræðisstefna Mosfellsbæjar mæli fyrir um að svo skuli vera í svo stórum málum sem þessu.

Stefán Ómar Jónsson

Í fljótu bragði þá sýnist okkur að þessi samningur getur ekki verið annað en bara viljayfirlýsing þar sem innihald hans framselur skipulagsvald til þriðja aðila og er það að okkar mati í hæsta máta ósiðlegt og ekki eftir laganna bókstaf. Samningurinn bindur hendur kjörinna fulltrúa langt fram í tímann.
Þéttleiki byggðar í Blikastaðalandi verður samkvæmt samningnum helmingi meiri en í Helgafellslandinu og mætti líkja við að settar yrðu 4 – 5 hæðir ofan á hverja blokk í Helgafellshverfinu og þykir nú mörgum nóg um þéttleika þess hverfis. Svona mikill þéttleiki, er það það sem við viljum?
Samningurinn gengur svo langt að hann formar ítarlega skipulag svæðisins að næsta bæjarstjórn og næstu bæjarstjórnir verða eins konar afgreiðslunefndir fyrir þá sem kaupa samninginn af Arion banka, afgreiðslunefndir sem munu lítil eða engin áhrif hafa um byggðaþróun landsins.
Kæru íbúar Mosfellsbæjar, við hjá Vinum Mosfellsbæjar erum andstæðan við svona vinnubrögð. Við viljum að allt sé uppi á borðum. Þess vegna lagði bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar til að málinu yrði frestað svo hægt væri að skoða það og kynna, en meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna felldi þá tillögu.
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar greiddi atkvæði einn gegn samþykkt samningsins vegna skorts á lýðræðislegum vinnubrögðum og skorts á að kynna svo stóra ákvörðun meðal íbúa bæjarins.

Guðmundur Hreinsson skipar 2. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar
Stefán Ómar Jónsson er bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Skipulag fyrir fólk

Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir

Mosfellsbær er, í stóra samhenginu, tiltölulega nýorðinn bær. Fyrir ekki svo löngu vorum við ennþá Mosfellssveit og ímynd bæjarins er enn þann dag í dag einhvers konar sveit í borg. Fullkomið jafnvægi þess að búa nálægt öllu sem borg hefur upp á að bjóða en á sama tíma anda djúpt að sér í grænu umhverfi.
Mosfellsbær hefur stækkað mikið og í vaxandi bæ þarf að huga að ýmsu. Ef við viljum halda í þá ímynd sem bærinn okkar hefur þarf að vanda til verka.

Húsnæðismál eru stórt mál í Mosfellsbæ og verður áfram, ekki síst fyrir ungar fjölskyldur. Gríðarleg uppbygging hefur þegar farið fram og áform eru um uppbyggingu á Blikastaðalandi. Ótal tækifæri felast í því þegar nýtt hverfi er skipulagt frá grunni. Tækifæri til að gera meira en bara að setja niður þéttan fjölda íbúðarhúsa sem öll eru eins. Þétting byggðar er af hinu góða fyrir umhverfið, en það má ekki ganga of langt, það getur haft áhrif á lífsgæði og lýðheilsu fólksins sem byggir hverfin.
Stefna Vinstri grænna er skýr þegar kemur að því að öll hverfi skuli hafa þjónustu í göngufæri og græn svæði. Gera skal ráð fyrir heilnæmu umhverfi og öllu því sem gefur lífinu gildi, leikvöllum, svæði til útivistar og samveru. Hverfi er nefnilega meira en bara íbúðin sem þú býrð í og bæjarskipulag á að þjóna fólkinu sem þar býr en ekki öfugt. Skólar og leikskólar skulu vera vel staðsettir og þeim þurfa að fylgja lóðir sem gera yngstu kynslóðunum auðvelt að vaxa og dafna og rannsaka heiminn í kringum sig.

Garðar Hreinsson

Í takt við að leggja áherslu á að skapa fjölbreytta flóru af þjónustu í heimabæ þarf að huga að því að til staðar séu fjölbreytt atvinnutækifæri, svo ekki þurfi allir að sækja sér atvinnu út fyrir bæjarmörkin.
Við Vinstri græn viljum leggja áherslu á að gera íbúum bæjarins kleift að stunda áhugaverð störf í nærumhverfinu ásamt því að styðja við bakið á fyrirtækjum í bænum. Stuðla þarf að sveigjanlegum vinnumarkaði meðal annars með störfum án staðsetningar og fjarvinnukjörnum þar sem einyrkjar eða litlir samstarfshópar geta leigt sér skrifstofurými og fundarherbergi til skemmri og lengri tíma. Skapandi og líflegt vinnuumhverfi sem þetta styrkir böndin milli fólks í ólíkum atvinnugreinum og býr til tækifæri til nýsköpunar og samstarfs. Styrkja þarf græn störf, m.a. við uppbyggingu grænna svæða sem efla ferðaþjónustu og náttúruvernd.

Í Mosfellsbæ eru ótal tækifæri þar sem mikilvægt er að vanda til verka þar sem uppbygging samræmist þörfum fólksins í takt við umhverfisstefnu bæjarins og loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins. Við Vinstri græn erum tilbúin í þá vinnu. Göngum lengra í Mosfellsbæ.

Höfundar sitja á lista Vinstri grænna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Mosfellsbæ. Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir, formaður VG í Mosfellsbæ situr í 2. sæti og Garðar Hreinsson situr í 5. sæti.

Strætóleiðir og almenningssamgöngur

Guðmundur Hreinsson

Það er ljóst að Borgarlínan komi ekki upp í Mosfellsbæ fyrr en um eða upp úr árinu 2030. Eigum við að bíða eftir umbótum á almenningssamgöngum eða eigum við gera eitthvað strax?
Við hjá Vinum Mosfellsbæjar viljum kasta fram þeirri hugmynd hvort ekki væri hagkvæmara að stóru dísel strætisvagnarnir sem nú ganga á milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar fari eingöngu um Vesturlandsveg í Háholt og til baka um Vesturlandsveg.
Í stað þess að þræða þröngar íbúðagötur með tilheyrandi mengun og sliti á götum. Í innanbæjarakstri verði þess í stað notast við litla, umhverfisvæna söfnunarvagna sem verði í stanslausum ferðum um hverfin, safni saman farþegum og skili í Háholt þar sem stærri vagnar taka við og flytji fólk áfram til Reykjavíkur.
Þessa söfnunarvagna má svo nýta áfram þegar Borgarlínan kemur. Við fyrstu sýn gæti þessi aðferð lækkað kostnað Mosfellsbæjar til almenningssamgangna, aukið þjónustustig og síðast en ekki síst minnkað kolefnisspor þessarar þjónustu. Vinir Mosfellsbæjar vilja beita sér fyrir því að hugmyndin verði skoðuð í samráði við notendur þjónustunnar og íbúa alla í anda íbúalýðræðis.

Viljum við ekki öll vera vinir – umhverfisins?

Guðmundur Hreinsson skipar 2. sætið hjá Vinum Mosfellsbæjar

Eflum skólaþjónustuna í Mosfellsbæ

Örlygur Þór Helgason

Hvernig er Mosfellsbær að standa sig á landsvísu við að veita nemendum, foreldrum og skólum þann stuðning sem þarf svo að almenn vellíðan og námsframvinda sé í hávegum höfð?
Þann 28. maí 2019 tók gildi ný reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 444/2019. Þar er kveðið á að skólaþjónustan eigi að vera stuðningur við nemendur og foreldra í leik- og grunnskólum. Skólaþjónustu ber að veita fjölbreytta ráðgjöf og stuðning til foreldra og þeirra nemenda sem glíma við sálfræðilegan, þroskafræðilegan, félagsfæðilegan eða hreyfifræðilegan vanda. Oft birtist þessi vandi í formi virkni, félagslegri færni, hegðun, tilfinningavanda, samskipta- eða einbeitingarvanda svo eitthvað sé nefnt
Seinni liðurinn í reglugerðinni snýr að því að veita beri skólum og starfsmönnum þeirra stuðning og ráðgjöf eftir því sem við á í formi kennslufræðilegra leiðbeininga og aðstoðar.
Á skólaskrifstofunni í Mosfellsbæ starfar mjög öflugur hópur fagfólks hvert á sínu sviði en því miður of fáliðuð miðað við fólksfjölgun í bæjarfélaginu síðustu ár. Markvisst þarf að finna leiðir til að stytta greiningartímann, hafa greiðan aðgang að meðferðarúrræðum og fagaðilum svo hægt sé að vinna strax á þeim þáttum sem einstaklingurinn þarfnast hverju sinni. Æskilegast væri að hafa þjónustuna sem mest í nærumhverfi.
Svo að efla megi skólaþjónustuna enn frekar er mikilvægt að ráða sérhæfðan verkefnastjóra sem myndi skipuleggja og klára innleiðinguna sem byrjað var á við að tölvu- og tæknivæða leik- og grunnskólana í formi kennslu á hugbúnað og þeim möguleikum sem hægt er að nýta við kennslu.
Einnig þyrfti að ráða annan verkefnisstjóra sem myndi sjá um að efla lestur, fjölbreytta kennsluhætti, fjölbreyttara samskólaval á eldri stigum grunnskóla í Mosfellsbæ og vera stuðningur í að byggja upp og innleiða öflugt tengslanet fyrir atvinnutengt nám svo eitthvað sé nefnt. Við höfum því kjörið tækifæri til að gera enn betur í þessum málum í Mosfellsbæ.
Að auki má velta þeirri spurningu upp hvað er verið að gera fyrir afburðarnemendur? Er það nægjanlegt sem gert er?
Við þurfum fleira sérhæft fagfólk inn í skólaþjónustuna til að aðstoða nemendur og aðstandendur þeirra sem og að vera kennslufræðilegur stuðningur við skólana inn í langa framtíð.

Örlygur Þór Helgason
Sérkennari við Kvíslarskóla
Skipar 2. sæti á M-lista Miðflokksins í Mosfellsbæ

Heilsubaðstaður og heilsueflandi samfélag

Ómar Ingþórsson

Sundlaugarnar í Mosfellsbæ eru mikið notaðar og þekkt að gestir komi frá Reykjavík til þess að fara í Lágafellslaug þar sem laugin hentar notendum með ólíkar þarfir og þykir barnvæn.
Hún er hins vegar líka þekkt fyrir vel heppnuð ilmsaunukvöld, þar sem færri komast að en vilja. Margt hefur verið vel gert en lengi má gera gott betra. Samfylkingin telur nauðsynlegt að marka stefnu til næstu ára, þegar kemur að laugum og baðmenningu innan bæjarins.
Eins og margir vita er Mosfellsbær eitt mesta lághitasvæði landsins og ekki margir áratugir síðan það voru opnir hverir víða um sveitina. Hitaveituvatnið er því partur af sögu bæjarins og margir kannast við myndir af innilauginni í Álafossi og 50 metra straumlauginni í Varmá ofan við Álafossinn sjálfan. Svo ekki sé minnst á upphaf ylræktar í landinu í Reykjahverfi um 1930.
Á síðustu árum hafa risið baðstaðir í tengslum við ferðaþjónustu víða um land og er ekkert lát á því. Umræða um uppbyggingu á slíkum stað í Mosfellsbæ hefur hins vegar verið lítil.
Á námsárum mínum erlendis vann ég við rannsókn hvað varðar hönnunarforsendur á heilsubaðstöðum og heimsótti tugi þeirra víða um heim og sá að ein af bestu staðsetningum á slíkum stað á Íslandi væri í Mosfellsbæ. Ástæðan er að slíkir staðir þurfa að vera á jaðarsvæðum þéttbýlis, oftast í tengslum við vatn og skóg. Landslagið má móta, en nálægðin við Reykjavík er atriði sem allir hinir baðstaðirnir sem eru að rísa út á landi hafa ekki.
Mosfellsbær hefur því söguna, heitavatnið, landslagið og um fram allt, nálægðina við höfuðborgarsvæðið. Uppbygging á heilsubaðstað tikkar í öll box hvað varðar heilsusamlegt samfélag, en slík uppbygging tikkar líka í box atvinnusköpunar og framtíðartekna fyrir bæjarfélagið.

Stefnumörkun
Atvinnuuppbygging getur verið stefnumörkuð og oft í hendi sveitarstjórnarfólks hvaða starfsemi byggist upp innan sveitarfélagsins og hver alls ekki. Stefnumörkun og framtíðarhugsun í skipulagi er grundvallaratriði í stefnu Samfylkingarinnar. Í stefnuleysi stýrir enginn því sem byggist upp í bænum.
Með því að afmarka sérafnotasvæði innan bæjarins má bjóða fjárfestum að koma og byggja upp þjónustu eins og heilsubaðstað með möguleika á frekari uppbyggingu heilsuhótels á viðkomandi svæði. Það væri stefnumörkuð sérvalin atvinnuuppbygging. Í þessu tilfelli skiptir ekki miklu máli hvort land væri í einkaeigu eða í eigu bæjarins, það samtal yrði bara að taka. Spurningin er bara hvernig atvinnuuppbyggingu og þjónustustarfsemi vilja bæjarbúar sjá í bænum. Fjármögnunin væri á hendi fjárfesta en bærinn yrði að vinna forvinnuna til þess að fjármagnið komi inn í bæjarfélagið.
En hvað sem af verður er kannski best að líta okkur nær á þessu kosningavori og byrja á því að lengja opnunartíma okkar núverandi sundlauga í samræmi við laugar í Reykjavík og að hlusta á óskir sundlaugagesta til þess að gera sundlaugarnar okkar enn betri.
Viljum við fara enn lengra og byggja heilsubaðstað er vilji það eina sem þarf. Við verðum hins vegar að segja það svo eftir því verði tekið, restin er útfærsluatriði sem verður leyst.
Settu x við S á kjördag.

Ómar Ingþórsson, skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar

Ég vil eldast í Mosfellsbæ

Halla Karen Kristjánsdóttir

Flest viljum við lifa lengi en enginn vill verða gamall. Hvert aldursskeið hefur sinn sjarma og maður þarf stöðugt að minna sig á að njóta þess hlutverks sem maður hefur á hverjum tíma. Það er jafnframt mikilvægt á öllum þessum aldurskeiðum að við finnum að við höfum tilgang, finnum að það sé hlustað á okkur, að við skiptum máli og njótum virðingar.
Þegar kemur að þjónustu hins opinbera við eldra fólk þá eru þarfirnar jafn ólíkar og á öðrum aldursskeiðum. Við þurfum nefnilega að gæta þess að skilgreina fólk ekki eingöngu út frá aldri. Þrátt fyrir að fólk sé komið á eftirlaunaaldur þá er fjölbreytni innan þess hóps af ýmsum toga.
Sumir eru hraustir líkamlega en aðrir ekki, sumir eru mjög vel á sig komnir andlega en aðrir síður. Sumir eru vel staddir fjárhagslega og aðrir ekki. Sumir eiga mikið bakland í sínum fjölskyldum og maka en aðrir eru ekki svo lánsamir. Þessar lýsingar geta átt við um fólk á öllum aldri. Þannig má færa rök fyrir því að aldur sé afstæður.

Aldursvænt samfélag
En hvað er það sem málið snýst um þegar kemur að þjónustu við eldra fólk? Jú, þar er af nægu að taka. Húsnæðismál, heilbrigðisþjónusta, félagslíf, aðstöðumál og kjaramál svo tekin séu dæmi. Auk þess mætti nefna aðkomu eldra fólks að stjórnkerfinu og ákvarðanatöku þar.

Aldís Stefánsdóttir

Framsókn leggur áherslu á að ráðist verði í allsherjar endurskipulagninu á þjónustu við eldra fólk. Aukin samvinna innan kerfisins yrði leiðarljósið í þeirri vinnu. Afraksturinn þarf að vera persónumiðuð og sveigjanleg þjónusta. Fólk fengi þannig þá þjónustu sem það þarf en ekki bara þjónustu sem hentar kerfinu að veita. Innleiða þarf tæknilausnir sem nú þegar eru til þannig að þjónustan sé skilvirk, hröð og aðgengileg.
Annað lykilatriði sem er nauðsynlegt að nefna í þessu sambandi og þeir þekkja sem að málum hafa komið er samvinna ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að þjónustu við eldra fólk.
Samskipti um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustuíbúða í gegnum óhagnaðardrifin leigufélög. Samskipti um heilbrigðisþjónustu sem þarf að veita inni á heimilum og samskipti um kjör eldra fólks svo eitthvað sé nefnt. Það er mikilvægt að sveitastjórnarfólk beiti sér stöðugt fyrir því að hægt sé að veita framúrskarandi nærþjónustu og að þau hafi frumkvæði að uppbyggilegu samtali við ríkið í málaflokknum.
Framsókn í Mosfellsbæ treystir sér til að vera leiðandi í þeirri kerfisbreytingu sem þarf að eiga sér stað og lýst hefur verið stuttlega í þessari grein. Við treystum okkur til að hafa frumkvæði, setja okkur inn í málin og vinna ötullega að því að það verði gott að eldast í Mosfellsbæ.
Við treystum okkur til að eiga samstarf við hagsmunasamtök eldra fólks til að raddir þeirra fái að heyrast og til að þau geti áfram haft áhrif á það hvernig samfélagið okkar þróast. Við trúum því nefnilega að þjónusta við eldra fólk sé fjárfesting í framtíðinni.
Ef þú vilt líka vera hreyfiafl í þínu samfélagi settu þá x við B í kosningunum 14. maí.

Halla Karen Kristjánsdóttir, 1. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ
Aldís Stefánsdóttir, 2. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Af hverju skiptir skipulagið máli?

Lovísa Jónsdóttir

Hefur þú skoðanir á því hvernig umhverfið í kringum þig og fjölskylduna þína er í bænum? Vissir þú að nú stendur yfir vinna við endurskoðun aðalskipulags Mosfellsbæjar, þar sem verið er að ákveða skipulag bæjarins, þar með talið hvernig umhverfi þitt, verður?
Er það ekki nokkuð eðlileg krafa í nútímasamfélagi að íbúar geti komið að þessu ferli og komið athugasemdum sínum á framfæri áður en búið er að vinna mest alla vinnuna?
Ólíkt núverandi meirihluta teljum við í Viðreisn aðkomu íbúa mikilvæga. Við teljum það mikilvægt að raddir sem flestra heyrist svo að meiri sátt ríki um skipulagið í bænum.

Óánægja með skipulagsmál
Í þjónustukönnun sem Gallup framkvæmir í sveitarfélögum á hverju ári kemur skýrt fram að ánægja með skipulagsmál, almennt í sveitarfélaginu, hefur minnkað marktækt á þessu kjörtímabili. Það fer því ekki á milli mála að hér er verk að vinna og við í Viðreisn viljum breyta þessu.

Valdimar Birgisson

Undirgöng við Sunnukrika
Við viljum að umhverfið okkar sé öruggt. Þess vegna viljum við skoða umferðaröryggi í bænum alveg sérstaklega.
Eins og margir íbúar hafa sennilega orðið varir við þá eru framkvæmdir hafnar við frárein af Vesturlandsvegi inn í Sunnukrika. Ein fyrirsjáanleg afleiðing þess að beina umferðinni þarna inn í Krikahverfið er meiri umferð fram hjá Nettó til móts við Krikaskóla og yfir gönguleið barnanna í hverfinu á leið í skóla og tómstundir.
Sama hætta er til staðar við Álafossveg þar sem göngustígurinn sem liggur meðfram Vesturlandsveginum fer yfir Álafossveginn, nokkrum metrum frá afrein Vesturlandsvegarins inn í Helgafellshverfið. Á þessum tveimur stöðum þarf að okkar mati að gera undirgöng. Við þurfum ekki að bíða eftir alvarlegu slysi, við getum byrgt brunninn áður en barnið fellur í hann.

Grár miðbær
Helsta einkenni miðbæjar Mosfellsbæjar í dag eru grá torg, gráar götur og grá bílastæði. Það má helst líkja miðbænum okkar við Skeifuna sem ekki getur talist okkur til framdráttar. Við í Viðreisn viljum breyta þessu. Við viljum miðbæ þar sem mannlíf, menning og græn svæði gera umhverfið aðlaðandi og umfram allt þá viljum við byrja á því að hlusta á hvaða hugmyndir bæjarbúa hafa um miðbæinn okkar.

Vesturlandsvegur í stokk
Framtíðarsýn okkar í Viðreisn er að Vesturlandsvegurinn, sem sker bæinn okkar í tvennt, verði lagður í stokk. Við viljum að bærinn verði ein heild. Í stað þjóðvegar sem klýfur Mosfellsbæ kæmi frábært svæði til uppbyggingar til framtíðar og getur styrkt allt umhverfi miðbæjarins til að verða enn líflegri.
Hugmyndir Vegagerðarinnar um framtíð Vesturlandsvegarins í gegnum bæinn okkar er að byggja upp mörg mislæg gatnamót. Þó svo að slíkar framkvæmdir gætu létt á umferðarhnútum á álagstímum þá eru þær ekki til þess fallnar að gera umhverfið fallegra eða minnka mengun, hvað þá að bæta bæinn okkar og gera hann heildstæðari. Við viljum bæta mannlífið í bænum okkar.
Þú getur breytt – Veldu Viðreisn.

Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar í Mosfellsbæ
Valdimar Birgisson, bæjarfulltrúi Viðreisnar í Mosfellsbæ

Fab Lab smiðja, skapandi vettvangur nýsköpunar fyrir skólasamfélagið

Arna Hagalíns

Í heimi þar sem tækninni fleygir fram á ógnarhraða er mikilvægt að stuðla að tækniþróun skólanna og undirbúa nemendur fyrir framtíðina með því að gera starfsumhverfi skólanna enn betra.
Einn þáttur í því er að halda áfram að stuðla að snjöllum skólum og skapa vettvang til nýsköpunar.

Skólasamfélagið kallar eftir nýjum leiðum í kennslu þar sem samþætting námsgreina og fjölbreyttir kennsluhættir geti meðal annars mæst á vettvangi tækni og nýsköpunar. Okkur þykir mikilvægt að svara þessu ákalli.

Annars vegar teljum við að það yrði frábært fyrir skólasamfélagið okkar hér í Mosfellsbæ að hafa aðgang að Fab Lab smiðju, en Fab Lab smiðja er sköpunar- og tæknismiðja útbúin tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er, þar sem einstaklingum eru gefin tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.

Elín María Jónsdóttir

Að fá hugmynd, setja sér markmið og sjá hana verða að veruleika er geggjuð tilfinning. Að fylgjast með nemendum sínum fá hugmynd, hvetja þá til að setja sér markmið og fylgjast með þeim þróa og skapa sína hugmynd þar til hún verður að veruleika en enn betri tilfinning. Tilfinningin er eins og heimurinn sé ósigrandi og hindranir verða bara eitthvað sem við lærum að finna lausn á.
Við Sjálfstæðismenn ætlum því, á næsta kjörtímabili, að opna Fab Lab smiðju með stafrænum tækjum og tólum sem gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.

Hinn þátturinn er að halda áfram að stuðla að snjöllum skólum, en það er áframhaldandi átak í upplýsingatæknimálum skólanna þar sem áherslan verður að styðja áfram við upplýsingateymi kennara og stjórnenda innan skólanna.
Við viljum sjá til að þess að þeir hafi áframhaldandi aðgang að verkefnastjóra til að hafa umsjón með upplýsingatæknimálum og búnaði innan skólanna. Við teljum það góða leið til að styðja við kennarann í starfi og styrkja hann þannig til að nýta tækin og tæknina í kennslu. Við viljum gera betur í að undirbúa nemendur fyrir framtíðina og stuðla að því að þau verði ekki bara neytendur tækninnar heldur líka notendur.

Arna Hagalíns og Elín María Jónsdóttir,
frambjóðendur á lista Sjálfstæðisflokksins

fyrir komandi kosningar 14. maí.

Viðhalds er þörf

Ólafur Ingi Óskarsson

Það er öllum hollt að hreyfa sig. Hjá flestum er það hluti af almennri heilsubót. Hreyfing getur verið alls konar og kallar á mismunandi aðstæður.
Mörgum dugar að ganga um eða hlaupa í okkar fallegu náttúru eða bara á gangstéttum og göngustígum bæjarins. Fyrir aðra þarf að byggja upp aðstöðu.
Það er ekki lögbundið verkefni sveitarfélaga að byggja og reka íþróttamannvirki en hins vegar teljum við það vera sjálfsagt verkefni þeirra til að styðja við gott og blómlegt mannlíf.

Borðaklippingar
Það hefur þótt gott nesti fyrir stjórnmálamenn að fara í kosningar með loforð um metnaðarfull íþróttamannvirki eða að taka í notkun eitt eða fleiri slík korteri fyrir kosningar.
En þegar búið er að byggja þá tekur hversdagurinn við, rekstur mannvirkjanna og líka viðhald sem verður þeim mun kostnaðarsamara eftir því sem þau eldast. Það er hins vegar ekki jafn líklegt til vinsælda að skipuleggja viðhald. Því fylgja engar skóflustungur eða borðaklippingar að viðstöddum ljósmyndurum.

Sunna Arnardóttir

Stefnuleysi
Það dregur verulega úr notkunarmöguleikum og öryggi notenda þessara dýru mannvirkja ef viðhaldi er ábótavant. Því miður er þetta orðin staðan hjá okkur víða þrátt fyrir að margt sé í góðu lagi.
Á fundi sem Öryrkjabandalagið og Landssamtökin Þroskahjálp boðuðu nýverið til hér í bæ og buðu fulltrúum allra framboða í Mosfellsbæ til, kom fram að lyfta ætluð fötluðum í íþróttamiðstöðinni að Varmá hafi verið biluð í mjög langan tíma. Fólki sem bundið er við hjólastól og á erindi í íþróttamiðstöðina er rennt inn um neyðarútgang til að komast inn í húsið. Það er ekki mikil virðing sem fötluðu fólki er sýnd með því.
Mosfellsbær státar af mörgu framúrskarandi íþróttafólki í ýmsum íþróttagreinum, þar á meðal í frjálsum íþróttum. Árið 1989 var tekinn í notkun í Mosfellsbæ fullkomnasti frjálsíþróttavöllur landsins.
Í kjölfarið varð mikill uppgangur í íþróttinni hér í bæ og blómlegt starf. Því er það þyngra en tárum taki að síðan 2011 hafi þessi glæsilegi völlur ekki uppfyllt kröfur til að halda stærri mót, s.s. Íslands- eða landsmót.
Vegna hvers var það, jú vegna skorts á viðhaldi! Margt af okkar fremsta frjálsíþróttafólki æfir nú og keppir með félögum í öðrum sveitarfélögum. Því miður er þetta ekki eina dæmið. Fjölmörg dæmi eru líka um að ekki hafi verið fjárfest í búnaði til nota í íþróttamannvirkjum okkar, búnaði sem myndi auka notagildi þeirra.
Það er mikill ábyrgðarhluti að eigur okkar íbúanna séu látnar grotna niður vegna skorts á eðlilegu viðhaldi og endurbótum.

Stefna til framtíðar
Þróttmikið íþróttastarf fyrir alla, óháð aldri, efnahag og félagslegum aðstæðum eflir og auðgar samfélagið og hefur jákvæð áhrif á lýðheilsu. Öflugt starf byggir á góðri aðstöðu og það er hlutverk bæjaryfirvalda að sjá til þess að sú aðstaða sé fjölbreytt, góð og mæti þörfum. Aðstöðunni þarf síðan að halda við og bæta jafnt og þétt svo hún haldi gildi sínu.
Nauðsynlegt er að móta stefnu til framtíðar um uppbyggingu íþróttasvæða í bænum, þar með talið viðhald, stefnu sem unnið er eftir. Það mun Samfylkingin gera fái hún til þess afl eftir kosningar.
Settu x við S á kjördag.

Ólafur Ingi Óskarsson, skipar 2. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar
Sunna Arnardóttir, skipar 6. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar

Hvernig líður börnunum okkar?

Lára Þorgeirsdóttir

Undanfarin ár hefur gengið á ýmsu í lífi okkar allra. Margir upplifðu stóran skell þegar heimsfaraldur Covid 19 skall á af miklum þunga.
Fólk er í eðli sínu missterkt til að takast á við erfiðleika í lífinu en ég þori að fullyrða að Covid hefur haft áhrif okkur öll, ekki síst börnin okkar. Það hlýtur að vera erfitt að vera barn á þessum tímum og taka þátt í umræðum um hluti sem börn eiga ekki að þurfa að taka þátt í og hafa áhyggjur af hlutum sem börn eiga heldur ekki að þurfa að hafa áhyggjur af. Mörg þeirra hafa haft áhyggjur af sínu nánasta fólki, verið hrædd um að smita afa sína og ömmur eða aðra nátengda.
Mikil umræða hefur verið um bólusetningar barna og maður heyrir þau tala um kosti og galla bólusetninga eins og þau heyra fullorðna fólkið gera. Börn hafa ítrekað verið send í sóttkví, smitgát, sýnatökur, þau smitast, þau orðið veik ásamt því að þurfa að þola annað álag þessum faraldri samfara.
Við verðum nú sem aldrei fyrr að leggja við hlustir og heyra hvað börnin hafa að segja. Hvernig líður börnunum okkar?
Samhliða því að hlusta á raddir barna gefst tækifæri til að efla umræður um hag barna og tryggja að sú umræða byggist í grunninn á öryggi barna, velferð þeirra og menntun. Mikilvægt er að skólakerfið taki vel í óskir barna en samhliða tryggi að gæði náms séu ávallt í fyrirrúmi, að öll umgjörð skóla taki vel á móti öllum börnum. Þannig getum við bæði átt gott og gefandi samtal um skóla framtíðar.
Hvers vegna eru börn hér á landi látin bíða í marga mánuði eftir greiningu á fjölþættum vanda sínum? Hvers vegna er börnum og aðstandenum þeirra ekki tryggður greiður aðgangur að þeirri þjónustu sem þeim ber að fá?
Ótal skýrslur hafa verið unnar um mikilvægi málaflokks barna með fjölþættan vanda en lítið hefur áorkast. Við mjökumst í rétta átt en enn er langt í land og börn á mikilvægum ferli í þroska sínum geta ekki beðið.
Nýleg skýrsla um stöðu barna með fjölþættan vanda, unnin af stjórnendum í barnavernd á höfuðborgarsvæðinu, fjallar m.a. um hve óskaplega lengi málaflokkurinn hefur verið vanræktur. Margt hefur áunnist en einhvern veginn virðast stjórnvöld vera bæði of sein, á eftir og oftar en ekki illa undirbúin undir að taka við börnum með fjölþættan vanda. Getið er í skýrslunni um fundi með þáverandi velferðarráðherra 2012 en nú eru liðin 10 ár.
Árið 2020 er málið enn í brennidepli með tilliti til þarfa og þjónustu við þessi börn. Enn liggur þó ekki ljóst fyrir hvar kostnaður vegna þjónustu við börn með fjölþættan vanda skuli liggja og ekki eru enn fyrir hendi þau fjölbreyttu úrræði sem ljóst er að þurfa að vera til staðar. Skýrslan er góð en er þetta nóg?
Bætum hag allra barna óháð stétt og stöðu.

Lára Þorgeirsdóttir, kennari við Varmárskóla.
Skipar 7. sæti á M-lista Miðflokksins fyrir komandi sveitastjórnarkosningar

Kjósum V-listann!

Bjarki Bjarnason

Þegar þetta er ritað eru rúmar tvær vikur til sveitarstjórnarkosninga, kjörfundur fer fram í Lágafellsskóla laugardaginn 14. maí. Sjö listar eru í framboði og verður kosið um 11 sæti í bæjarstjórn Mosfellsbæjar, fulltrúum verður fjölgað um tvo í samræmi við aukinn íbúafjölda bæjarins.
Kosningabaráttan er að komast í algleyming, framboð og frambjóðendur keppast við að kynna sig og sín stefnumál. Þetta er um margt áhugaverður tími, kosningar eru tímamót og við horfum í senn til baka og fram í tímann, um leið og við nýtum okkur þann lýðræðislega rétt að velja þá sem við treystum best til að stjórna bæjarfélaginu næstu fjögur árin.

Sjö málaflokkar
Hér í Mosfellsbæ hafa vinstri-græn boðið fram undir eigin merkjum frá árinu 2006 og allar götur síðan hefur hreyfingin sett mark sitt á stjórn sveitarfélagsins. Á framboðslista VG eru 22 Mosfellingar með ólíkan bakgrunn en hafa áþekka sýn á samfélagið. Við viljum stuðla að því að samfélag okkar hér í Mosfellsbæ sé fjölskylduvænt, umhverfisvænt og byggist á félagslegu réttlæti og samfélagslegri ábyrgð. Stefnuskrá V-listans hvílir á þessum grunni og skiptist í sjö hluta sem eru:
Fræðslumál.
Íþrótta- og tómstundamál.
Velferðarmál.
Jafnréttis- og lýðræðismál.
Menningar- og ferðamál.
Skipulags-, atvinnu- og umhverfismál.
Fjármál.

Meðal stefnumála V-listans er að lengja opnunartímann í sundlaugum bæjarins, auka framboð á félagslegum íbúðum, gera leikskólann gjaldfrjálsan, vinna aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og skipuleggja Hafravatnssvæðið fyrir aukna útivist.
Menningarmál eru okkur einnig ofarlega í huga og vill V-listinn láta vinna heildarstefnu um rekstur á mannvirkjum sem tengjast menningarstarfsemi í bæjarfélaginu.

VG-stofan og fjölskylduskemmtun
Vinstri-græn hafa opnað VG-stofuna í miðrýminu í Kjarna, þar er tekið á móti gestum þriðjudaga – föstudaga kl. 16-18 og kl. 13-16 laugardaginn 7. maí. Og næstkom­andi laugardag, 30. apríl, verður efnt til mikillar fjölskylduhátíðar í Álafosskvos, meðal annars verður farið í ratleik, spilað bingó og kynt undir grillinu. Þangað er að sjálfsögðu allir velkomnir.
Hér að framan var getið um þau tímamót sem kosningar eru. Við erum stöðugt „að meta stöðuna“ eins og tekið er til orða, horfa um öxl og fram á veginn.
Gleymum því þó ekki að njóta andartaksins og dagsins – gleðilegt sumar, kæru Mosfellingar!

Bjarki Bjarnason, skipar 1. sæti V-listans í kosningunum 14. maí.

Sveitarstjórnarmál sem ólympíugrein

Elín Anna Gísladóttir

Sveitarstjórnarkosningar eru líkt og Ólym­píuleikarnir haldnar fjórða hvert ár.
Kannski eru þessir viðburðir ekki svo ólíkir. Órjúfanlegur hluti af þeim báðum er keppni þar sem einstaklingar og lið etja kappi og einhverjir standa uppi sem sigurvegarar og aðrir með sárt ennið. En ef kosningar til sveitarstjórnar yrðu fullgild ólympíuíþrótt er gaman að ímynda sér hvaða þættir geta ráðið því hver stendur uppi með gullið.

Fólkið
Það sem skiptir hvað mestu máli eru einstaklingarnir sem eru í framboði. Listarnir eru auðvitað mannana verk og ekki betri eða verri en nöfnin sem eru á þeim.
Þetta á sérstaklega við í bæjarstjórnarkosningum líkt og í Mosfellsbæ þar sem aðeins eru ellefu fulltrúar í bæjarstjórn og vægi hvers því talsvert. Því ætti kjósandinn að spyrja sig hvaða einstaklinga hann vill sjá með gullmedalíu um hálsinn og takast á við þá ábyrgð sem fylgir að stjórna sveitarfélagi með heiðarleikann að leiðarljósi.

Ölvir Karlsson

Málefnin
Þá skipta málefnin auðvitað miklu máli en í þeim felast ákvarðanatökur sem geta haft veruleg áhrif á íbúa sveitarfélagsins. Þau eru jafn mörg og þau eru ólík en þess þarf að gæta að gullið má ekki vera of dýru verði keypt.
Má þá benda á mikilvægi þess að sýna ábyrgð í fjármálum sveitarfélaga og umgangast fjármuni almennings af virðingu. Einng eru umhverfismál eitt af stóru viðfangsefnum dagsins í dag og því er stefna sveitarfélaga í þeim málaflokki gríðarlega mikilvæg. Því þarf að hafa umhverfismál í huga við stefnumótun og ákvarðanatöku sveitarfélaga með það að markmiði að sporna við hlýnun jarðar og gæta að umhverfinu.

Hugsjónin
Þá er ákveðin pólitísk hugsjón á bak við stjórnmálasamtök sem endurspeglast í ólíkum markmiðum stjórnmálaflokkanna. Þessar pólitísku hugsjónir hafa áhrif á stjórnmálasamtök hvort sem það er á sveitarstjórnarstigi eða í landsmálunum.
Því er ekki hægt að skilja á milli landsmála og sveitarstjórnarmála að öllu leyti. Þetta hefur í för með sér að stuðningur við ákveðin stjórnmálasamtök á sveitarstjórnarstigi rennir styrkari stoðum undir þau á landsvísu og þá vegferð sem þau eru á, t.d. hvaða hagsmuni þau eru að berjast fyrir.
Það sem er samt best við þessa Ólympíuleika er að þú lesandi góður ert sá sem ræður úrslitum. Viðreisn setur almannahagsmuni framar sérhagsmunum. Þú getur breytt því sem þú vilt.
Veldu Viðreisn.

Elín Anna Gísladóttir og Ölvir Karlsson.
Höfundar skipa 3. og 4. sæti á lista Viðreisnar í Mosfellsbæ.

Ný Framsókn fyrir Mosfellsbæ

Örvar Jóhannsson

14. maí nk. göngum við til kosninga og fáum tækifæri til að nýta mikilvægustu mannréttindi sem við höfum, réttinn til að velja sjálf það fólk sem kemur til með að stýra málefnum samfélagsins okkar til næstu 4 ára.
Ég gaf kost á mér til að taka sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum og var treyst fyrir 4. sæti listans.
Ég er 38 ára, bý ásamt eiginkonu minni og 3 börnum í Helgafellshverfinu, þar höfum við búið síðan árið 2019. Ég er fæddur og uppalinn á Seyðisfirði og bjó þar óslitið þar til við fjölskyldan fluttum í Mosfellsbæ. Okkur hefur hvergi liðið betur en einmitt hér. Ég brenn fyrir það að hér búum við sem best að börnunum okkar, auk ýmissa annarra þátta sem ég og við í Framsókn munum kynna á næstu vikum.
Í nútímasveitarfélögum verður ákall bæjarbúa og krafan um það að þjónustan sé veitt um leið og eftir henni er kallað sífellt háværari. Stærsti þjónustuveitandi flestra einstaklinga er vafalítið lögheimilissveitarfélag hvers og eins. Það er því mikilvægt að til að mæta ákalli og kröfum bæjarbúa að sveitarfélagið sé stöðugt á tánum þegar kemur að nýtingu tæknilausna og þróunar í samskiptamiðlum við þá vinnu.
Í þessu sambandi tel ég mikilvægt að ávallt sé tryggt að vefsíða sveitarfélagsins sé góð og aðgengileg upplýsingaveita. Innra svæði vefsins fyrir íbúa, þ.e. „Mínar síður“, sé gagnvirkt svæði þar sem íbúar geta nálgast í rauntíma allar upplýsingar um þá þjónustu sem innskráður íbúi greiðir af til sveitarfélagsins. Ekki ósvipað því sem sjá má við kaup á lyfjum skv. lyfseðli, þar sem kemur fram annars vegar hlutur sjúklings af kostnaðinum og hins vegar hluti sjúkrasamlags.
Í ábendingakerfinu sem á vefnum er, fengist við innsendingu úthlutað málsnúmeri þar sem á hverjum tíma er hægt að nálgast upplýsingar um stöðu málsins í stjórnkerfinu, þ.e. ekki eingöngu stöðu eins og móttekið, í vinnslu, o.s.frv. heldur ítarlegri eftir atvikum, t.d. á borði hvaða nefndar, þjónustusviðs eða jafnvel ákveðins starfsmanns sveitarfélagsins málið er.
Ég tel mikilvægt að í þjónustu sveitarfélagsins við íbúa, sé stöðugt fylgst með tækniþróun til að þjónusta á hverjum tíma sé ávallt með því besta sem völ er á. Slíkri þróun fylgja vissulega alltaf einhver útgjöld, en líklegt er að til lengri tíma felist í raun sparnaður í því að endurnýja kerfin örar frekar en að vera stöðugt að greiða af og viðhalda eldri, oft á tíðum óskilvirkum kerfum, sem þrátt fyrir að hafa talist góð og gagnvirk á sínum tíma, eru einfaldlega börn síns tíma.
Ég er reiðubúinn til að leggja mitt af mörkum næstu fjögur árin til að gera okkar yndislega bæ enn betri. Ég er ávallt reiðubúinn að taka samtalið um hugmyndir og útfærslur úr öllum áttum og vinna að góðum málum sama frá hverjum þau koma.
Við á lista Framsóknar í Mosfellsbæ óskum eftir því að þú hugsir til okkar í kosningunum þann 14. maí og setjir X við B á kjördag.

Örvar Jóhannsson skipar 4. sæti B-lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Mætum á völlinn

Jón Fannar Árnason

Fótboltasumarið er hafið. Í sumar er Afturelding með lið í Bestu deild kvenna og Lengjudeild karla.
Síðasta sumar komst kvennalið Aftureldingar upp í Bestu deildina með því að lenda í öðru sæti á eftir KR í Lengjudeildinni. Stórkostlegur árangur og núna er næsta skref að standa sig vel í Bestu deildinni.
Karlalið Aftureldingar er að hefja sitt fjórða tímabil í röð í Lengjudeildinni eftir að hafa komist upp úr 2. deildinni árið 2018. Liðið hefur gert vel í að halda sæti sínu í deildinni síðustu þrjú ár og núna er kominn tími til að gera enn betur.
Undirritaður var staddur á leik Aftureldingar og Vængja Júpíters í Mjólkurbikar karla föstudagskvöldið 22. apríl og þar var mjög góð mæting. Vonandi heldur það áfram í sumar að við Mosfellingar styðjum við bakið á okkar fólki. Þau þurfa svo sannarlega á því að halda.

Verum dugleg að mæta á völlinn í sumar að styðja okkar fólk.
Áfram Afturelding!

Jón Fannar Árnason
Tómstunda- og félagsmálafræðingur