Ég elska að búa í Mosó

Hrafnhildur Gísladóttir

Bæjarhátíðir eru haldnar víðsvegar um allt land og ein af þeim skemmtilegustu er haldin hér í bænum okkar. Í túninu heima, bæjarhátíð Mosfellinga, verður að veruleika dagana 26. til 28. ágúst eftir þriggja ára bið.
Eins og áður verður margt spennandi í boði á vegum einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélagsins.Hátíðin dregur nafn sitt af minningar-skáldsögu Halldórs Laxness, en þar segir hann í kafla 19, „Maður verður listamaður á því einu að vanda smáatriðin – alt hitt gerir sig sjálft.“ Í þeim anda langar mig, fyrir hönd Menningar- og nýsköpunarnefndar Mosfellsbæjar að hvetja íbúa til að vera með viðburði sem lífga upp á stemninguna, leggja sitt af mörkum við að skreyta bæinn, taka þátt í viðburðum og taka vel á móti gestum.

Við í Menningarnefnd höfum fengið það skemmtilega verkefni að ferðast um bæinn okkar á laugardaginn til að skoða skreytingar og velja best skreytta húsið og götuna.
Einnig hefur nefndinni verið falið að velja bæjarlistamann Mosfellsbæjar árið 2022 úr tilnefningum bæjarbúa. Verður tilkynnt um hver hlýtur þann heiður við hátíðlega athöfn í Hlégarði sunnudaginn 28. ágúst og hvetjum við Mosfellinga til að fjölmenna.

Fjölbreytt menning og skemmtilegt mannlíf auðgar lífið og bætir geðheilsuna. Við sem höfum nýlega hafið störf í Menningar- og nýsköpunarnefnd erum mjög spennt fyrir næstu árum og hlökkum til að vinna með bæjarbúum að því að efla menningarstarf og auka sýnileika þess sem bæjarbúar eru að gera og hafa upp á að bjóða.

Ég elska Mosó. Þannig byrjar lag sem sungið hefur verið í leikhúsi Leikfélags Mosfellssveitar. Mér finnst það eiga svo vel við hér og geri það að tillögu minni að brekkusöngsstjóri læri lagið og Mosfellingar læri texta og svo syngjum það saman í brekkunni í Álafosskvos föstudagskvöldið 26. ágúst.

Ég elska mosó að morgni
Ég elska mosó um kvöld
Ég elska mosó í roki þegar rignir
Ég elska Mosó um nætur þegar lygnir

Ég elska mosó á daginn
Allan daginn út og inn
Ég elska mosó
Ég elska að búa í mosó
Þar finn ég hjartsláttinn

Lag: I love paris
Texti: Sóla

Hrafnhildur Gísladóttir
Formaður Menningar- og nýsköpunarnefndar Mosfellsbæjar