Hamrahlíðarskógurinn

Guðjón Jensson

Hamrahlíðarskógurinn er stolt okkar Mosfellinga. Fjölmargir erlendir ferðamenn aka framhjá Hamrahlíðinni og þarna er einna best hægt að sjá hversu góðan árangur unnt er að ná í skógrækt á Íslandi.
Fyrir framsýni og dugnað frumherjanna var hafist í þetta góða starf á sínum tíma en plöntun mun hafa hafist 1957 eða á öðru ári eftir að Skógræktarfélagið í Mosfellssveit var stofnað.
Þarna í hlíðinni hafa yfir 1.000.000 trjáplantna verið plantað á þeim 65 árum sem nú eru liðin og árangur verður að teljast mjög góður. Mest hefur verið plantað af stafafuru, sitkagreni og ösp en þarna eru auk þess fjölmargar aðrar tegundir að finna sem þrifist hafa misvel. Má t.d. nefna að í fyrstu var plantað um 8.000 birkiplöntum en nú hafa fáar lifað af enda sótti sauðfé bænda stíft í spilduna.
Eftir að ég fluttist frá Reykjavík ásamt unnustu minni í ársbyrjun 1983 í Mosfellssveitina var eitt af fyrstu verkunum okkar að ganga til liðs við Skógræktarfélagið. Við tókum mjög oft þátt í sjálfboðaliðastarfi við útplöntun og sitthvað annað tengt starfinu eins og við árlegu jólatrjáasöluna.
Vorið 1983 var plantað aðallega stafafuru norðan við núverandi bílastæði og þar sem rafmagnslínan liggur meðfram hitaveitustokknum. Má sjá vöxtinn í dag en nokkuð af trjánum hefur mátt þoka til að trufla ekki rafmagnsflutninginn. Fyrir mörgum árum hefði mátt huga að setja línuna í jörð til að tryggja betur öryggi en margt hefur verið láta mæta afgangi við framkvæmdir eins og gengur.
Eftir að börnin okkar komu til sögunnar þá voru þau tekin með og tóku þátt í gróðursetningum með okkur. Er fátt ungum börnum jafn hollt og að vera í sem nánustu tengslum við gróðurinn sem vex upp fyrir tilstuðlan þeirra. Þau læra með móðurmjólkinni að virða náttúruna og gróður landsins, víða vex viðkvæmur meiður sem eftir atvikum er orðið að vöxtulegu tré eða visnað sem annað.
Þessi grein er ágrip af stærri grein sem birtast mun í Skógræktarritinu sem Skógræktarfélag Íslans gefur út.

Guðjón Jensson