Lífrænn úrgangur er auðlind

Brynja Guðmundsdóttir

Mosfellingar bíða eflaust spenntir eftir að innleiðing á samræmdu úrgangsflokkunarkerfi höfuðborgar­svæðisins líti dagsins ljós og verði að veruleika. En hingað til hefur ekki verið samræmi milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í þessum málum.
Lagt er til að almenn sorphirða muni skiptast í lífrænan eldhúsúrgang, blandað heimilissorp, pappír/pappa og plast. Fyrir okkur Mosfellinga er viðbótarflokkun á lífrænum úrgangi mikið framfaraskref.
Hingað til hefur lífrænn úrgangur verið urðaður með blönduðu heimilissorpi en við niðurbrot á lífrænum úrgangi myndast metangas sem við urðun fer óbeislað út í andrúmsloftið, en þess má geta að metan er um 25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur.
Megnið af heimilissorpi sem endar í gráu tunnunni er lífrænn úrgangur og með því að meðhöndla lífræna hlutann rétt, spörum við útblástur og drögum verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ein afurð vinnslunnar er afar næringarríkur jarðvegsbætir sem notaður er við uppgræðslu landsins og skógrækt sem bindur einnig koltvísýring. Flokkunin hefur ekki einungis mikinn umhverfisávinning heldur verður til í ferlinu hágæða eldsneyti, metan, sem hægt er að nota í ýmsum tilgangi.
Vonandi verður flokkun á lífrænum úrgangi hluti af venjum heimila sem allra fyrst, því það er til mikils að vinna.
Það er allra hagur að skerða ekki möguleika komandi kynslóða og með þessum greinaskrifum vil ég hvetja heimili bæjarins til dáða í að minnka framleiðslu á sorpi og flokka rétt, því það þarf bara vilja og getu til að bæta við nýjum og góðum venjum.
Enginn getur allt en allir geta eitthvað!

Brynja Guðmundsdóttir
Áhugamanneskja um umhverfismál