Leiruvogurinn okkar

Úrsúla Jünemann

Loksins er búið að friðlýsa Leiruvoginn. Það var kominn tími til. Þvílík gersemi og útivistarpardís sem við eigum rétt fyrir framan nefið á okkur.
Alveg sama hvort þér finnst gaman að ganga, skokka, hjóla, vera á hestbaki eða spila golf, þetta svæði býður upp á marga möguleika. Áhugamenn í náttúruskoðun geta unað sér vel: Þetta er með bestu fuglaskoðunarsvæðum á landinu og leirurnar bjóða farfuglum, umferðafuglum og staðfuglum ríkulegt fæðuframboð. Selir halda sig sunnarlega í voginum og er gaman að fylgjast með þeim.
Fjörunar eru fjölbreyttar, þangklappir, hrúðurkarlar, margskonar skeljar og svo má lengi telja. Fjórar ár renna í voginn: Leirvogsá, Kaldakvísl, Varmá og Úlfarsá og hver þeirra hefur sín sérkenni.
En hvað þýðir svona friðlýsing? Er þetta alvara eða einungis sýndarmennska? Við Mosfellingar eigum að vera núna á varðbergi gagnvart áætlun um Sundarbrautina og hvernig hún á að vera hönnuð. Ódýrasta lausnin virðist vera að þrengja verulega að voginum og byggja brúna sem stysta. Þrengingar yfir firði hafa ekki alltaf reynst vel og hvaða áhrif þeir hafa á lífríkið. Hæst í minni er mér þegar brú var gerð yfir Kolgrafarfjörðinn á Snæfellsnesi. Í ljós kom að út- og innstreymi sjávar var ófullnægjandi þannig að súrefnismettun í firðinum var ekki nóg. Þannig drápust stórar torfur af síld og strandmengun var skelfileg.
Ódýrasta lausnin er ekki alltaf best þegar horft er til þeirra verðmæta sem gætu glatast. Leiruvogurinn mun örugglega taka miklum breytingum með fyrirhuguðum þrengingum og brú.
Framburðurinn sem árnar koma með mun væntanlega safnast fyrir við þessar þrengingar við brúna og innri vogurinn mun grynnast. Að ekki sé talað um hávaða- og sjónmengun.
Við hér í þessum fallegu útivistarbæ eigum að gera allt sem er hægt að gera til að vernda þessa paradís sem við eigum við bæjardyrnar. Möguleikinn er fyrir hendi að setja Sundabraut í göng og hlífa þannig fallega Leiruvoginum okkar. Það væri þess virði.

Úrsúla Jünemann