Neikvæð niðurstaða en við erum jákvæð!

Lovísa Jónsdóttir

Í byrjun mánaðarins voru birtar rekstrarniðurstöður bæjarins fyrir fyrstu sex mánuði ársins.
Því miður er niðurstaðan sú að bæjarfélagið var rekið með tæplega milljarð í mínus, sem er 500 milljón krónum meiri halli en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun bæjarins.

Verðbólgan bítur
Eins og gefur að skilja þá vega verðbætur vegna aukinnar verðbólgu á árinu þyngst í þessari miklu hækkun enda Mosfellsbær með næst hæsta skuldahlutfallið af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu árið 2021 eða 134%, sem í krónum talið þýðir 1.391.595 kr. á íbúa.
Gjaldfærður kostnaður vegna reiknaðra verðbóta af langtímalánum á fyrstu sex mánuðum ársins er 466 m.kr. hærri en gert var ráð fyrir. Því miður er ekki útlit fyrir annað en að verðbólgan haldist há það sem eftir lifir árs þannig að ljóst er að árið 2022 er þungt í rekstri bæjarfélagsins.

Anna Sigríður Guðnadóttir

Stór verkefni
Nýr meirihluti, sem tók við þann 1. júní, fékk stór verkefni í vöggugjöf. Þar má til dæmis nefna viðgerðir á Kvíslarskóla. Kostnaður bæjarfélagsins vegna þess verkefnis féll ekki til á fyrstu sex mánuðunum nema að litlu leyti og er því ekki í þessari rekstrarniðurstöðu.
Það er því ljóst að það hefur ekki mikla þýðingu að fara mikinn í aðdraganda kosninga um vel rekið sveitarfélag þegar viðnám þess við stórum verkefnum er ekki meira en raun ber vitni. Við rekstur samfélags, þar sem skylduverkefnin eru mýmörg, er það ein af frumskyldum kjörinna fulltrúa að sýna ábyrgð í meðferð sameiginlegra sjóða samfélagsins. Það verður því að gera raunhæfa áætlun til framtíðar til að bæta stöðuna.

Framtíðarsýnin
Rekstrarniðurstaðan sýnir okkur ótvírætt að sýn meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar um sterka atvinnustefnu fyrir Mosfellsbæ er gríðarlega mikilvæg. Engin slík stefna hefur verið gerð fyrir bæinn þar sem kjörnir fulltrúar í samvinnu við atvinnurekendur í bænum, íbúa og aðra hagaðila draga fram skýra sýn og markmið til framtíðar í málaflokknum.
Möguleikum sveitarfélaga til tekjuöflunar eru takmörk sett af löggjafanum og þess vegna verðum við að nýta öll þau tækifæri sem við höfum. Það er sýn okkar að sterkt atvinnulíf laði fleiri íbúa að bænum og skapi þannig fjölbreytt og blómlegt líf í bæjarfélaginu.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Spennandi tímar
Í málefnasamningi meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar er kveðið á um að ný nefnd, Atvinnu- og nýsköpunarnefnd, taki til starfa, nefnd sem mun á kjörtímabilinu vinna markvisst að málaflokknum. Við lítum svo á að jafn mikilvægt sé að fela ákveðinni nefnd skýrt umboð til að móta stefnuna og að vinna með stjórnsýslunni til þess að hægt verði að ná árangri í málaflokknum.
Það eru til dæmis vonbrigði að ekki hafi byggst upp fjölbreytt starfsemi á Tungumelum sambærileg þeirri sem við höfum á sama tíma séð byggjast upp á Esjumelum. Þessu viljum við breyta.
Á kjörtímabilinu hefst ein umfangsmesta uppbygging sem ráðist hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu í áraraðir, uppbygging Blikastaðalandsins. Fyrsti áfanginn í þeirri uppbyggingu er einmitt uppbygging atvinnusvæðis sem er gríðarlega vel staðsett auk þess sem stefnt er að uppbyggingu þar sem sjálfbærni og umhverfisvernd er í fyrirrúmi. Við teljum að mörg fyrirtæki vilji taka þátt í uppbyggingu á slíku svæði en það gerist ekki af sjálfu sér.

Sérstaðan
Við viljum líka hampa sérstöðu Mosfellsbæjar sem heilsueflandi samfélags. Samfélags sem hefur þá sérstöðu á höfuðborgarsvæðinu að nánast allir íbúar eru í mikilli nálægð við náttúruna, lífsgæði sem sífellt verða verðmætari.
Þessi sérstaða Mosfellsbæjar er að okkar mati vannýtt auðlind sem við viljum beina sjónum okkar að. Í undirbúningi er stofnun Áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins og sjáum við mikil tækifæri í því að vinna á þeim vettvangi að nýsköpun og þróun Mosfellsbæjar sem áfangastaðar. Hér er til mikils að vinna og mun ný nefnd Atvinnu- og nýsköpunar vinna ötullega að þessum málum.

Jákvæðnin að leiðarljósi
Á sama tíma og við finnum til mikillar ábyrgðar vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem rekstrarniðurstaða fyrstu sex mánuði ársins svo sannarlega sýnir, þá trúum við engu að síður á að framtíð Mosfellsbæjar sé björt og vaxandi.
Við munum halda áfram að takast á við þau stóru verkefni sem lágu fyrir okkur í upphafi kjörtímabilsins en ekki síður munum við stefna ótrauð að því, með jákvæðnina að leiðarljósi, að styrkja enn frekar undirstöður bæjarfélagsins þannig að við verðum betur í stakk búin til þess að takast á við áskoranir framtíðarinnar

Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar
Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar