Signý Sigtryggsdóttir hefur starfað sem dagmamma í 37 ár, lengst af í Mosfellsbæ. Hún tók á móti mér með þéttu handabandi og bros á vör er ég bankaði upp á hjá henni á heimili hennar í Hulduhlíð. Hún er lífsglöð kona, orðheppin með eindæmum og það þarf ekki að vera lengi í návist hennar til að sjá að þarna er mikill skörungur á ferð, röggsamur og skipulagður.
Signý lætur sig yngstu kynslóðina varða enda búin að starfa lengi sem dagmamma. Hún segist vinna skemmtilegustu vinnu í heimi og myndi með engu móti vilja skipta um starfsvettvang.
Signý Sigtryggsdóttir er fædd 12. nóvember 1956 á Litlu Reykjum í Reykjahverfi í Þingeyjarsýslu. Foreldar hennar eru þau Aðalbjörg Jónsdóttir og Sigtryggur Árnason en þau eru bæði látin. Signý á tvær eldri systur, þær Kristrúnu og Árnínu Laufeyju og yngri bróður, Þráinn Ómar.
Foreldrarnir alltaf heima
„Reykjahverfi er lítil sveit rétt sunnan við Húsavík. Við systkinin áttum frábæra æsku, foreldrarnir bændur og alltaf heima. Ég lék mér að dúkkum fram að fermingu og er sennilega enn að finna mig í dúkkuleik. Það er skrýtið til þess að hugsa að við vorum byrjuð að keyra dráttarvélar 12 ára og hjálpa til við hin ótrúlegustu störf.
Þegar ég var að snúa á traktornum þá söng ég alltaf hástöfum og stundum held ég að ég hafi ekki haft hugmynd um hvað ég var að gera, ég lifði mig svo inn í sönginn.
Ég hef alltaf átt stóran draum, að vera með engiltæra og fallega söngrödd og geta sungið ein á sviði. Ég er löngu búin að átta mig á að þessi draumur minn mun ekki rætast,” segir Signý og skellihlær.
Stóð og potaði í súkkulaði
„Ég fór í skóla að Laugum í Reykjadal, var tvo vetur í skóla í Öxarfirði en útskrifaðist sem gagnfræðingur á Akureyri árið 1974.
Um sumarið starfaði ég í Súkkulaðiverksmiðjunni Lindu við hin ýmsu störf. Stundum stóð ég við færibandið en á því voru fullt af járnmótum með súkkulaði sem ég potaði í svo það myndu ekki myndast loftgöt. Síðan „tromplaði“ þetta inn í kæli og endaði að lokum sem dýrindis súkkulaðipakkar á borðum landsmanna.”
Flutti á Bessastaði
„Einn daginn sá ég auglýst þjónustustarf á Bessastöðum, þetta var í tíð Kristjáns Eldjárns forseta. Ég sótti um og fékk starfið, sagði skilið við súkkulaðið og flutti til Bessastaða. Upphaflega var ég ráðin í eitt ár en árin urðu þrjú.
Forsetahjónin voru yndislegar manneskur og það var gaman að vinna þarna. Ég bjó á staðnum ásamt ráðskonunni, Sigrúnu Pétursdóttur, sem er einstaklega yndisleg kona.”
Hellti í glösin að sveitamanna sið
„Á Bessastöðum þurfti að passa upp á að allt væri hreint og fínt, pússa silfrið og annað slíkt. Mér fannst gestamóttökurnar skemmtilegastar, þá þurftum við að vera í svörtum kjól með hvítan kappa, svuntu og hvítt stykki á handleggnum og svo var þjónað til borðs.
Ég var nú ekkert sérlega vel að mér í veislumenningunni á þessum tíma enda ekki nema 17 ára.
Eitt sinn var fín veisla í gangi og ég átti að fara inn með silfurbakka með kristalsglösum á með allskonar tegundum af vínum. Ég hellti í glösin og eins og sveitamanna er siður þá voru glösin ansi vel full, þar með talin koníaksglösin sem ég fyllti alveg upp að barmi. Sem betur fer náðu æðri konur að stoppa mig af áður en ég trillaði með herlegheitin inn til gestaskarans.”
Lærði smurbrauðstækni á Sögu
Árið 1977 flutti Signý til Reykjavíkur og fór að læra smurbrauðstækni á Hótel Sögu. „Það var eiginlega sjokk að koma á svona stóran vinnustað eftir rólega heimilislífið á Bessó. Eftir að ég lauk námi fór ég að vinna á kaffistofunni í Norræna húsinu.
Á þessum tíma var ég búin að kynnast manninum mínum, Garðari Vigni Sigurgeirssyni, en hann starfar hjá Eimskip. Við eignumst frumburðinn Sindra Örn 1978 og Árna Rúnar 1982. Við eigum fimm barnabörn.”
Eitt af okkar gæfusporum
„Árið 1979 gerðist ég dagmamma, það kom til vegna þess að mig langaði til að vera lengur heima með Sindra. Það sama var með Árna þegar hann fæddist, ég hélt áfram að passa börn. Mér fannst æðislegt að geta verið heima.
Árið 1992 var komið að því að skipta um húsnæði og sem betur fer þá lentum við hér í Mosfellsbæ sem var eitt af okkar gæfusporum.
Á þessum tíma tíðkaðist í bæjarfélaginu að leyfi til daggæslu var ekki gefið út nema fyrir ákveðinn barnafjölda svo allar sem í stéttinni störfuðu höfðu fullt hús. Frekar úrelt hugsun en þá fór ég út á vinnumarkaðinn og var þar í nokkra mánuði. Umsókn mín var samt inni og ég beið í ofvæni eftir að komast í starfið aftur og það varð úr.”
Dagarnir í föstum skorðum
„Dagmömmustarfið er ekki neinn leikur, það er mikil vinna og ekki hægt að sinna því í neinum hjáverkum. Dagarnir hjá mér eru löngu komnir í fastar skorður.
Þegar þessar litlu mannverur mæta fá þær hafragraut og upp úr tíu fer ég með þær út í garð. Það er ótrúlega hressandi og þau koma inn rjóð, þreytt og sæl.
Oft tek ég upp gítarinn og syng fyrir þau í smástund. Fyrst þegar þau eru að byrja í pössun verða þau skelfingu lostin yfir þessu gauli í mér, grípa fyrir augun og bresta í grát. Ég tel að besta aðferð til að róa barn sé að syngja fyrir það.”
Tilbreyting í leik og starfi
„Áður fyrr fóru börn seinna í leikskóla og voru þar af leiðandi eldri, þá föndraði ég mikið með þeim. Í dag geri ég það aðeins fyrir jólin en það er mjög takmarkað sem hægt er að láta eins árs gamalt barn eða yngra gera.
Áður hafði ég alltaf jólaball, jólasveinn mætti og dansaði með okkur en í síðasta sinn sem ég hélt ball urðu börnin svo hrædd við jólasveininn að það lá við að ég yrði að útvega áfallahjálp. Ég breytti því til og hef bara einn jóladag þar sem ég býð foreldrum í kakó og smákökur og börnin fá eitthvað gott í gogginn, þetta er svona smá tilbreyting í leik og starfi.
Ef vel liggur á mér á vorin og sólin lætur sjá sig hef ég stundum haldið garðpartý, þá eru blöðrur og húllumhæ.”
Félagsskapurinn mannbætandi
„Ég hef sungið lengi með Mosfellskórnum og það er ótrúlega skemmtilegt, í kórnum er einstaklega fjörugt og yndislegt fólk,“ segir Signý aðspurð um áhugamálin. „Svo er auðvitað alltaf eitthvað meira um að vera í kringum svona gaul.
Ég gerðist félagi í Lionsklúbbnum Úu fyrir nokkrum árum og ég mæli eindregið með þeim félagsskap, hann er mannbætandi.
Ég fór að stunda sund fyrir mörgum árum síðan og fer á hverjum degi í laugina. Þetta er mín stóra fíkn fyrir utan kaffibollann,“ segir Signý að lokum er við kveðjumst.
Mosfellingurinn 31. mars 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs