UMFUS lætur gott af sér leiða

umfus2

UMFUS ákvað á dögunum að halda kóte­lettu-styrktarkvöld fyrir sína menn í ungmennafélaginu Ungir sveinar. Um 40 karlar í karlaþrekinu voru saman komnir þann 1. apríl þar sem fólk gæddi sér á smjörsteiktum kótelettum með öllu tilheyrandi í golfskálanum í Mosfellsbæ.
Ákveðið var að ágóðinn rynni í gott málefni og varð fyrir valinu ung fjölskylda í Litlakrika. Ísfold Kristjánsdóttir, Þórður Birgisson og synir þeirra þrír eru nýflutt heim frá Danmörku en Ísfold hefur barist við krabbamein að undanförnu.

Kemur sér vel í baráttunni
Það er því von UMFUS-manna að ágóðinn komi sér vel í komandi baráttu en alls söfnuðust 310.000 kr. á kvöldinu. Þeir vilja koma sérstökum þökkum til Kjötbúðarinnar, Ölgerðarinnar og Golfklúbbs Mosfellsbæjar fyrir þeirra framlag. Öll innkoma rann því beint í málefnið.
Elías Níelsson er þjálfari hópsins og skoraði á formennina að standa fyrir kótelettukvöldi sem síðar var breytt í styrktarkvöld og hópurinn lét gott af sér leiða.
Á myndinni má sjá formennina Guðleif Kristinn Stefánsson og Gísla Pál Davíðsson afhenda fjölskyldunni styrkinn. Fyrir framan ungu hjónin standa synirnir þrír, Vésteinn, Ævar og Þrándur.

Skóflustunga á Hlíðavelli

hlidavollur

Það var stór stund fyrir Golfklúbb Mosfellsbæjar þegar tekin var fyrsta skóflustungan að nýrri íþróttamiðstöð GM sem mun standa miðsvæðis á Hlíðavelli.
Það var myndarlegur hópur ungra kylfinga klúbbsins sem fékk það verkefni að taka sameiginlega fyrstu skóflustunguna að nýju mannvirki undir handleiðslu þjálfara síns, Sigurpáls Geirs Sveinssonar, íþróttastjóra GM.
Þegar húsið verður allt komið í gagnið mun verða til aðstaða fyrir börn og ungmenni í Mosfellsbæ að æfa sína íþrótt alfarið í heimabyggð við bestu mögulegu aðstöðu.
Jarðavegsframkvæmdir eru nú þegar hafnar og mun verða líflegt um að litast á svæðinu í vor. Gert er ráð fyrir því að eiginlegar byggingarframkvæmdir hefjist í vor en klúbburinn stefnir að því að flytja inn í fyrsta hluta hússins vorið 2017.

Sumarpistill

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Það er allt að gerast þegar þessi pistill er skrifaður. Axl Rose var rétt í þessu að taka að sér söngvarahlutverkið í AC/DC og Ólafur Ragnar er búinn að boða blaðamannafund seinna í dag, örugglega til að bjóða okkur að vera forsetinn okkar áfram. Axl og ÓRG eiga það sameiginlegt að fara sínar eigin leiðir og vera frábærir sviðsmenn. Þeir hafa báðir náð miklum árangri og þegar þeir opna munninn þá hlustar fólk. Ég veit ekki hvort þeir þekkjast, en er viss um að ef þeir hittust myndu þeir finna ýmislegt að spjalla um. Sviðsframkomu og hlýnun jarðar til dæmis. Og hvað hvað hafa þeir félagar með sumarið að gera? Alveg heilan helling.

Sumarið er tíminn! Tíminn til að láta vaða, gera það sem mann langar til. Láta hluti gerast. Ekki pæla í hvað öðrum finnst, fólk hefur svo margar og mismunandi skoðanir á hlutunum að maður gerði ekkert annað en að snúast í hringi ef maður ætlaði að fara eftir öllu því sem aðrir vilja að maður geri. Ef þig langar að bjóða þig fram í forsetann, syngja á sviði með AC/DC, labba berfættur upp á Reykjafell, skrá þig í Hvíta Riddarann, ferðast á mótorhjóli um landið eða klifra í trjám fyrir sólarupprás, láttu vaða. Ekki láta okkur hin stoppa þig.

Ég er sjálfur mjög spenntur fyrir íslenska sumrinu, ætla að fá sem mest út úr því. Ég ætla að ferðast með mínu fólki, labba á fjöll, synda í ám og sjó, grilla silung sem ég hef sjálfur veitt með berum höndum, sjá fótboltaliðin mín sigra leiki í sól og blíðu, æfa utandyra, slá gras, rækta jarðarber, laga tröppurnar, byggja pall og skýli. Hugsanlega eitthvað fleira. Toppurinn væri svo að fara á tónleika í Álafosskvosinni og sjá Axl Rose á sviði. Hilmar, getur þú ekki gengið í það mál?

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 20. apríl 2016

Mosfellingum boðið í leikhús

leikhus

Á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 21. apríl kl. 15 verður barnaleikritið Ævintýraþjófarnir frumsýnt í Bæjarleikhúsinu.
Í tilefni þess að Leikfélag Mosfellssveitar var valið bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2015 langar leikfélaginu að þakka fyrir sig og því er öllum bæjarbúum, ungum sem öldnum, boðið á sýninguna.

Ævintýraþjófarnir er nýtt barnaleikrit byggt á gömlum íslenskum ævintýrum skrifað af Maríu Guðmundsdóttur og Brynhildi Sveinsdóttur ásamt leikhópi og leikstjóra. Þegar nokkrir félagar frétta af elstu og dýrmætustu ævintýrabók Íslendinga sem inniheldur öll þau ævintýri sem Íslendingar hafa skrifað, ætla þau heldur betur að græða.
Þau brjótast inn í Sögusafnið þar sem bókin hefur verið varðveitt í mörg hundruð ár til þess að stela henni og selja dýrum dómi. En þegar þau koma inn í sögusafnið hefur það ófyrirsjáanleg áhrif og þau uppgötva leyndardóma ævintýranna.

Sýningartímar:
Fimmtudaginn 21. apríl kl. 15
Fimmtudaginn 21. apríl kl. 17
Sunnudaginn 24. apríl kl. 15
Sunnudaginn 24. apríl kl. 17
Aðgangur er ókeypis á allar sýningar. Miðapantanir í síma 566 7788.

Lumar þú á ævintýri eða langar til þess að skrifa nýtt ævintýri?
Leikfélag Mosfellssveitar safnar ævintýrum í Ævintýrabókina og hvetur alla sem koma að sjá sýninguna, bæði börn og fullorðna, til að skrifa ævintýri og koma með í leikhúsið. Ævintýrunum verður safnað saman í Ævintýrabókina og þau varðveitt fyrir alla áhugasama til að lesa um ókomin ár. Ævintýrin mega vera um hvað sem er og nú gildir bara að leyfa ímyndunaraflinu að njóta sín. Ekki gleyma að myndskreyta.

Menningarvor haldið þrjú þriðjudagskvöld

menningarvor

Árlegt Menningarvor í Bókasafni Mosfellsbæjar fer fram þrjá þriðjudaga í apríl, 12., 19., og 26. Dagskráin er fjölbreytt og spennandi og hefst að venju kl. 20:00. Aðgangur er ókeypis. Dúettinn Hundur í óskilum ríður á vaðið þriðjudagskvöldið 12. apríl. Færeyjakvöld verður haldið 19. apríl þar sem Davíð Samúelsson segir frá Færeyjum og Jógvan Hansen og Karl Olgeirsson sjá um tónlist. Að lokum er komið að Rússlandskvöldi 26. apríl. Alevtina Druzina og Árni Bergmann ræða um Rússland og um tónlist sjá Natahalía Druzin Halldórsdóttir, Anna Guðný Guðmundsdóttir og fleiri.

Nánari upplýsingar um Menningarvor má finna hér.

Sagði skilið við súkkulaðið og flutti til Bessastaða

mosfellingurinn_signy

Signý Sigtryggsdóttir hefur starfað sem dagmamma í 37 ár, lengst af í Mosfellsbæ. Hún tók á móti mér með þéttu handabandi og bros á vör er ég bankaði upp á hjá henni á heimili hennar í Hulduhlíð. Hún er lífsglöð kona, orðheppin með eindæmum og það þarf ekki að vera lengi í návist hennar til að sjá að þarna er mikill skörungur á ferð, röggsamur og skipulagður.
Signý lætur sig yngstu kynslóðina varða enda búin að starfa lengi sem dagmamma. Hún segist vinna skemmtilegustu vinnu í heimi og myndi með engu móti vilja skipta um starfsvettvang.

Signý Sigtryggsdóttir er fædd 12. nóvember 1956 á Litlu Reykjum í Reykjahverfi í Þingeyjarsýslu. Foreldar hennar eru þau Aðalbjörg Jónsdóttir og Sigtryggur Árnason en þau eru bæði látin. Signý á tvær eldri systur, þær Kristrúnu og Árnínu Laufeyju og yngri bróður, Þráinn Ómar.

Foreldrarnir alltaf heima
„Reykjahverfi er lítil sveit rétt sunnan við Húsavík. Við systkinin áttum frábæra æsku, foreldrarnir bændur og alltaf heima. Ég lék mér að dúkkum fram að fermingu og er sennilega enn að finna mig í dúkkuleik. Það er skrýtið til þess að hugsa að við vorum byrjuð að keyra dráttarvélar 12 ára og hjálpa til við hin ótrúlegustu störf.
Þegar ég var að snúa á traktornum þá söng ég alltaf hástöfum og stundum held ég að ég hafi ekki haft hugmynd um hvað ég var að gera, ég lifði mig svo inn í sönginn.
Ég hef alltaf átt stóran draum, að vera með engiltæra og fallega söngrödd og geta sungið ein á sviði. Ég er löngu búin að átta mig á að þessi draumur minn mun ekki rætast,” segir Signý og skellihlær.

Stóð og potaði í súkkulaði
„Ég fór í skóla að Laugum í Reykjadal, var tvo vetur í skóla í Öxarfirði en útskrifaðist sem gagnfræðingur á Akureyri árið 1974.
Um sumarið starfaði ég í Súkkulaðiverksmiðjunni Lindu við hin ýmsu störf. Stundum stóð ég við færibandið en á því voru fullt af járnmótum með súkkulaði sem ég potaði í svo það myndu ekki myndast loftgöt. Síðan „tromplaði“ þetta inn í kæli og endaði að lokum sem dýrindis súkkulaðipakkar á borðum landsmanna.”

Flutti á Bessastaði
„Einn daginn sá ég auglýst þjónustustarf á Bessastöðum, þetta var í tíð Kristjáns Eldjárns forseta. Ég sótti um og fékk starfið, sagði skilið við súkkulaðið og flutti til Bessastaða. Upphaflega var ég ráðin í eitt ár en árin urðu þrjú.
Forsetahjónin voru yndislegar manneskur og það var gaman að vinna þarna. Ég bjó á staðnum ásamt ráðskonunni, Sigrúnu Pétursdóttur, sem er einstaklega yndisleg kona.”

Hellti í glösin að sveitamanna sið
„Á Bessastöðum þurfti að passa upp á að allt væri hreint og fínt, pússa silfrið og annað slíkt. Mér fannst gestamóttökurnar skemmtilegastar, þá þurftum við að vera í svörtum kjól með hvítan kappa, svuntu og hvítt stykki á handleggnum og svo var þjónað til borðs.
Ég var nú ekkert sérlega vel að mér í veislumenningunni á þessum tíma enda ekki nema 17 ára.
Eitt sinn var fín veisla í gangi og ég átti að fara inn með silfurbakka með kristalsglösum á með allskonar tegundum af vínum. Ég hellti í glösin og eins og sveitamanna er siður þá voru glösin ansi vel full, þar með talin koníaksglösin sem ég fyllti alveg upp að barmi. Sem betur fer náðu æðri konur að stoppa mig af áður en ég trillaði með herlegheitin inn til gestaskarans.”

Lærði smurbrauðstækni á Sögu
Árið 1977 flutti Signý til Reykjavíkur og fór að læra smurbrauðstækni á Hótel Sögu. „Það var eiginlega sjokk að koma á svona stóran vinnustað eftir rólega heimilislífið á Bessó. Eftir að ég lauk námi fór ég að vinna á kaffistofunni í Norræna húsinu.
Á þessum tíma var ég búin að kynnast manninum mínum, Garðari Vigni Sigurgeirssyni, en hann starfar hjá Eimskip. Við eignumst frumburðinn Sindra Örn 1978 og Árna Rúnar 1982. Við eigum fimm barnabörn.”

Eitt af okkar gæfusporum
„Árið 1979 gerðist ég dagmamma, það kom til vegna þess að mig langaði til að vera lengur heima með Sindra. Það sama var með Árna þegar hann fæddist, ég hélt áfram að passa börn. Mér fannst æðislegt að geta verið heima.
Árið 1992 var komið að því að skipta um húsnæði og sem betur fer þá lentum við hér í Mosfellsbæ sem var eitt af okkar gæfusporum.
Á þessum tíma tíðkaðist í bæjarfélaginu að leyfi til daggæslu var ekki gefið út nema fyrir ákveðinn barnafjölda svo allar sem í stéttinni störfuðu höfðu fullt hús. Frekar úrelt hugsun en þá fór ég út á vinnumarkaðinn og var þar í nokkra mánuði. Umsókn mín var samt inni og ég beið í ofvæni eftir að komast í starfið aftur og það varð úr.”

Dagarnir í föstum skorðum
„Dagmömmustarfið er ekki neinn leikur, það er mikil vinna og ekki hægt að sinna því í neinum hjáverkum. Dagarnir hjá mér eru löngu komnir í fastar skorður.
Þegar þessar litlu mannverur mæta fá þær hafragraut og upp úr tíu fer ég með þær út í garð. Það er ótrúlega hressandi og þau koma inn rjóð, þreytt og sæl.
Oft tek ég upp gítarinn og syng fyrir þau í smástund. Fyrst þegar þau eru að byrja í pössun verða þau skelfingu lostin yfir þessu gauli í mér, grípa fyrir augun og bresta í grát. Ég tel að besta aðferð til að róa barn sé að syngja fyrir það.”

Tilbreyting í leik og starfi
„Áður fyrr fóru börn seinna í leikskóla og voru þar af leiðandi eldri, þá föndraði ég mikið með þeim. Í dag geri ég það aðeins fyrir jólin en það er mjög takmarkað sem hægt er að láta eins árs gamalt barn eða yngra gera.
Áður hafði ég alltaf jólaball, jólasveinn mætti og dansaði með okkur en í síðasta sinn sem ég hélt ball urðu börnin svo hrædd við jólasveininn að það lá við að ég yrði að útvega áfallahjálp. Ég breytti því til og hef bara einn jóladag þar sem ég býð foreldrum í kakó og smákökur og börnin fá eitthvað gott í gogginn, þetta er svona smá tilbreyting í leik og starfi.
Ef vel liggur á mér á vorin og sólin lætur sjá sig hef ég stundum haldið garðpartý, þá eru blöðrur og húllumhæ.”

Félagsskapurinn mannbætandi
„Ég hef sungið lengi með Mosfellskórnum og það er ótrúlega skemmtilegt, í kórnum er einstaklega fjörugt og yndislegt fólk,“ segir Signý aðspurð um áhugamálin. „Svo er auðvitað alltaf eitthvað meira um að vera í kringum svona gaul.
Ég gerðist félagi í Lionsklúbbnum Úu fyrir nokkrum árum og ég mæli eindregið með þeim félagsskap, hann er mannbætandi.
Ég fór að stunda sund fyrir mörgum árum síðan og fer á hverjum degi í laugina. Þetta er mín stóra fíkn fyrir utan kaffibollann,“ segir Signý að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 31. mars 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Samhjálp byggir ný hús í Hlaðgerðarkoti

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar í heimsókn.

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar í heimsókn.

Á þessu ári eru 43 ár síðan Samhjálp keypti Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal af Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og byrjaði rekstur meðferðarheimilis þar.
Hluti af húsakynnum Hlaðgerðarkots er kominn til ára sinna og þarfnast aukins viðhalds. Einnig er stefnt að því að fjölga innlagnarýmum vegna mikillar þarfar og eftirspurnar. Í Hlaðgerðarkoti eru að staðaldri um 30 manns í meðferð og að jafnaði eru 80 til 90 á biðlista.
Yfir 50% skjólstæðinga Hlaðgerðarkots eru á aldursbilinu 18 til 39 ára. Á síðustu árum hefur ungt fólk leitað æ ríkari mæli meðferðar í Hlaðgerðarkoti. Því miður annar Hlaðgerðarkot ekki þeim mikla fjölda sem þangað leitar.

Markmiðið að hefjast handa í sumar
Samhjálp stóð fyrir landssöfnun á Stöð 2­ 21. nóvember sl. og söfnuðust þar um 80 milljónir fyrir nýjum byggingum. Stór hluti upphæðarinnar eru loforð um efni og vinnu þegar framkvæmdir hefjast og á byggingastiginu.
Nú er verið að hanna nýju húsin og vinna að teikningum og er markmiðið að hefjast handa við framkvæmdir í sumar.
Samhjálp félagasamtök hafa starfað að góðgerðarmálum og hjálparstarfi í rúm 40 ár með góðum árangri og hafa allan þann tíma staðið vaktina fyrir það fólk sem minna má sín og hefur átt við áfengis- og vímuefnavanda að stríða.
Á vegum samtakanna eru rekin nokkur úrræði og um 80 manns er tryggð næturgisting hjá Samhjálp á hverri nóttu allan ársins hring.
Á Kaffistofu Samhjálpar eru matargestir að jafnaði um 200 á dag allt árið um kring. Á síðasta ári gaf Samhjálp yfir 67 þúsund máltíðir á Kaffistofunni.
Samtökin reka einnig eftirmeðferðar- og áfangaheimilin Brú og Spor og stuðningsheimili að Miklubraut 18.
Síðastliðið haust heimsóttu fulltrúar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar Hlaðgerðarkot og kynntu sér aðbúnað.

Skólastarf hefst á ný í Brúarlandi í haust

bruarland

Í haust tekur til starfa útibú frá Varmárskóla í Brúarlandi. Skólavist í Brúarlandi verður valkvæð fyrir nemendur í 1. og 2. bekk Varmárskóla og verður tekið á móti 35-40 nemendum í haust.
Starfsemin er fyrsta skrefið í stofnun nýs skóla sem mun rísa í Helgafellslandi. Stefnt er að því að hefja skólastarf í Helgafellsskóla haustið 2018.

Heildstæður skóladagur
Þórdís Eik Friðþjófsdóttir, kennari við Varmárskóla, hefur verið ráðin til að stýra starfinu í Brúarlandi. Þórdís er reynslumikill kennari á yngsta stigi.
Starfsemi í Brúarlandi mun byggja á skólastefnu-, námsskrá og skóladagatali Varmárskóla. Þar verður boðið upp á heildstæðan skóladag, stoðþjónustu, mötuneyti og frístund. Samvinna verður á milli bekkjardeilda í Brúarlandi og Varmárskóla þar sem nemendur fara saman í íþróttir og nýta útikennslusvæðið.

Opið hús næsta fimmtudag
Brúarland er sögufrægt hús í Mosfellsbæ en þar hefur verið starfræktur skóli í áratugi. Unnið hefur verið að endurbótum á aðstöðunni bæði inni og úti til að taka á móti ungum nemendum og verið er að skipuleggja næstu skref.
Boðið verður upp á opið hús fimmtudaginn 7. apríl kl. 18-20 í Brúarlandi. Þar verður skólastarfið kynnt og foreldrum boðið að hitta skólastjórnendur og skoða aðstöðuna.
Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að hafa samband við Þórönnu skólastjóra (thoranna@varmarskoli.is) eða Þórdísi Eik (thordiseik@varmarskoli.is) ef einhverjar spurningar vakna.

Keppa í þungarokki í Hlégarði

tungarokk

Föstudagskvöldið 8. apríl verður hljómsveitakeppnin Wacken Metal Battle haldin Hlégarði. Um er að ræða keppni álíka og Músiktilraunir, þar sem nokkrar hljómsveitir taka þátt. Sveitin sem sigrar hlýtur þátttökurétt fyrir Íslands hönd á stærstu þungarokkshátíð heims, Wacken Open Air í Þýskalandi.
„Wacken er smábær í Norður-Þýskalandi sem telur rétt um 2.000 íbúa en bærinn umturnast á hverju sumri þegar 80.000 manns mæta á svæðið og hlusta á kanónur þungarokksins spila,“ segir Þorsteinn Kolbeinsson, skipuleggjandi. „Wacken hefur síðan 2004 boðið óþekktum hljómsveitum, sem eru ungar og ekki komnar með útgáfusamning, að mæta og spila og fá þar með alveg gríðarlega kynningu. Ísland hefur verið í þessari keppni síðan 2009, 30 þjóðir halda undankeppni í sínum löndum og lokakeppnin fer fram á Wacken, þar sem sigursveitin fær vegleg verðlaun.“

Dimma lýkur kvöldinu
Í ár keppa sex sveitir í úrslitum og mun 15 manna alþjóðleg dómnefnd ásamt áhorfendum velja sigurvegarann. Það er til mikils að vinna en auk vinninga hér heima þá mun sigursveitin taka þátt í lokakeppninni í Þýskalandi ásamt fulltrúum frá 29 öðrum þjóðum. Hljómsveitirnar sem taka þátt í ár eru: Aeterna, Auðn, Churchhouse Creepers, Grave Superior, Lightspeed Legend, og While My City Burns. Sérstakur gestur kvöldsins er svo hljómsveitin Dimma, sem hefur stimplað sig rækilega inn sem ein stærsta þungarokkssveit landsins. Húsið opnar kl. 19. Hægt er að nálgast miða á tix.is en allar frekari upplýsingar um þennan viðburð er að finna á Facebook-síðunni Wacken Metal Battle Iceland.

30 dagar

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Ég er á degi fjögur í 30 daga áskorun þegar þessi Mosfellingur kemur út. Ég elska áskoranir, svo lengi sem þær eru líklegar til þess að gera manni gott. Þessi áskorun gengur út á mataræði, að borða ákveðnar fæðutegundir og sleppa öðrum á sama tíma.
Ég tek þátt í áskoruninni til þess að komast að því hvort mér líði enn betur ef ég sleppi því að borða fæðutegundir sem ég hef borðað talsvert mikið af undanfarið. Ég hef grun um það, eina leiðin til þess að komast að því er að prófa það á sjálfum mér.

Ráðleggingar um mataræði eru margar og mismunandi í dag. Ég er nýbúinn að lesa tvær bækur um mataræði. Önnur sannfærði mig um að ég ætti að fasta á hverjum degi, borða mikið af ávöxtum og grænmeti og helst láta allar dýraafurðir eiga sig. Hin sannfærði mig um að ég ætti að vera rólegur í ávöxtunum, borða mikið af grænmeti og talsvert mikið af dýraafurðum.
Höfundar beggja bóka rökstuddu sitt mál vel, ég trúði þeim báðum þótt þeir væru innilega ósammála hvor öðrum. Ég á vin sem fylgir þriðju leiðinni, hann er grjótharður á því að hún sé sú eina rétta. Hann hefur líka náð að sannfæra mig með rökum um það.

Staðan í dag er einfaldlega sú að það er enginn einn ótvíræður sannleikur með mataræði, það sem hentar einum þarf ekki að henta öðrum. Besta leiðin til þess að finna það mataræði sem hentar þér, kæri lesandi, er að prófa sig áfram. Velja eina leið og fylgja henni í 25-30 daga. Meta hvað gerir þér gott, hvað ekki.
Ekki láta aðra trufla þig á meðan. Fólk á eftir að freista þín, bjóða þér kökusneið eða kókosbollu. Segðu bara nei takk. Haltu svo áfram að prófa þig áfram. Finndu þína leið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 31. mars 2016

Það er geðveikt að grínast í Mosó

midisland

Grínhópinn Mið-Ísland þarf vart að kynna en hann hefur ráðið lögum og lofum í íslensku uppistandi undanfarin ár. Mið-Ísland frumsýndi nýtt uppistand í byrjun árs og þann 31. mars næstkomandi ætlar hópurinn að troða upp í Hlégarði í Mosfellsbæ.
„Það er geðveikt að grínast í Mosó. Þar sleit ég grínbarnsskónum,“ segir Mosfellingurinn Dóri DNA, einn af meðlimum hópsins. Auk hans koma fram á sýningunni þau Ari Eldjárn, Björn Bragi, Jóhann Alfreð og Anna Svava, en hún kemur í stað Bergs Ebba sem er búsettur í Kanada um þessar mundir.
„Við höfum aðeins einu sinni áður verið með sýningu í Mosó og það eru mörg ár síðan. Ég hlakka mikið til,“ segir Dóri.

Uppistand sem slegið hefur í gegn
Óhætt er að segja að nýja uppistandið hafi slegið í gegn en sýningin fékk fimm stjörnur í DV á dögunum og hefur hópurinn sýnt fyrir fullum Þjóðleikhúskjallara fimm sinnum í viku frá því í byrjun árs. Fjöldi sýninga er að nálgast 50 og gestafjöldinn er kominn yfir átta þúsund. „Þetta er búið að ganga ótrúlega vel og við erum þakklát fyrir viðtökurnar,“ segir Dóri.
Síðustu tvær uppistandssýningar Mið-Íslands voru sýndar á Rúv og þá hafa meðlimir hópsins verið duglegir að koma fram á hinum ýmsu viðburðum. Dóri segir að á sýningunni í Hlégarði verði allir grínistarnir með nýtt efni. „Þetta verður ferskt svo það brakar. Ég lofa góðri skemmtun.“ Miðasala fer fram á Miði.is.

Fjölbreytileikinn í fyrirrúmi

fanneydogg

Fanney Dögg Ólafsdóttir snyrtifræðimeistari og eigandi snyrti-, nudd- og fótaaðgerðastofunnar Líkama og sálar segir ávinning af varanlegri förðun vera svipmeira útlit sem undirstrikar fegurð einstaklingsins.

Varanleg förðun eða förðun framtíðarinnar er byltingarkennd meðferð sem felst í innsetningu lita undir yfirborð húðar til þess að skerpa línur andlits og undirstrika fegurð. Meðferðirnar eru tiltölulega sársaukalitlar og eru ávallt gerðar í samráði við viðskiptavini bæði hvað varðar litaval og lögun.
Ein af þeim sem hefur ástríðu fyrir förðun sem þessari er Fanney Dögg Ólafsdóttir, snyrtifræðimeistari, en hún notar liti frá Nouveau Contour sem hafa verið prófaðir fyrir litastöðuleika, öryggi og útkomu og teljast þeir bestu á markaðnum í dag.

Fanney Dögg er fædd í Reykjavík 21. september 1981. Foreldrar hennar eru þau Hugrún Þorgeirsdóttir snyrti-, nudd- og fótaaðgerðafræðingur og Ólafur Sigurjónsson verslunarstjóri Kaupfélags Skagfirðinga. Fanney Dögg á eina systur, Jónu Björgu, sem er fædd 1979.

Alltaf líf og fjör hjá afa og ömmu
„Ég er alin upp í Mosfellsbæ og vil hvergi annars staðar eiga heima. Björg föðuramma mín og Sigurjón afi bjuggu í næstu götu við okkur og það var dásamlegt að fá að alast upp svona nálægt þeim.
Ansi oft fylgdi okkur systrum stór vinahópur sem mætti í Álmholtið til þeirra og þar var alltaf líf og fjör og vel tekið á móti öllum.“

Kafaði gjörsamlega niður á botn
„Á mínum yngri árum var maður mikið út að leika í hinum ýmsu leikjum eða að renna sér í brekkunni fyrir neðan Lágholtið.
Áður en Sorpa kom til sögunnar þá voru ruslagámar rétt hjá hesthúsahverfinu. Ég gekk gjarnan þangað, fór upp í gámana og kafaði gjörsamlega niður á botn og fann alltaf einhverja flotta hluti sem ég tók að sjálfsögðu með mér heim,“ segir Fanney Dögg og skellir upp úr.
„Foreldrar mínir voru lítt hrifnir af þessu uppátæki mínu, hvað þá að gjöfunum sem ég færði þeim eftir hverja ferð.“

Týpísk nútíma fjölskylda
„Ég gekk í Varmárskóla og fór síðan í Gaggó Mos. Við æskuvinkonurnar höfum haldið hópinn og ég er einstaklega heppin að eiga frábærar og traustar vinkonur.
Foreldrar mínir skildu þegar ég var fimmtán ára. Þau eignuðust síðan nýja maka og í kjölfarið eignaðist ég sjö stjúp­systkini svo mín nánasta fjölskylda stækkaði ansi mikið. Þetta er þessi týpíska nútíma fjölskylda,”“segir Fanney Dögg og brosir. „Allt er þetta dásamlega gott og skemmtilegt fólk og samband okkar er gott.“

Eyddi frítíma mínum í hestamennsku
„Allan minn tíma í grunnskóla æfði ég knattspyrnu með Aftureldingu og svo var ég líka í Skólakór Varmárskóla.
Við fjölskyldan vorum í hestunum og í hesthúsinu eyddi ég öllum mínum frítíma og á frábærar minningar þaðan. Hestamennskan er yndislegt fjölskyldusport og í Herði er mikið lagt upp úr barna- og unglingastarfi.
Við í unglingahóp Harðar vorum með hestasýningu í Vestmannaeyjum 1995 þar sem við sýndum m.a. skrautsýningu, fánareið, hlýðniæfingar, hindrunarstökk og fleira. Þessi ferð var afar vel heppnuð og rataði meira að segja í blöðin.“

Flutti til Danmerkur
„Eftir gagnfræðaskólann lá leið mín á Laugarvatn þar sem ég var í tvö ár en svo flosnaði ég upp úr skóla og fór að vinna.
Sumarið 1999 flutti ég til Danmerkur og fór að læra snyrtifræði í Cidesco cosmetologskolen í Kaupmannahöfn. Þetta var skemmtilegur tími og ég varð sjálfstæðari og þroskaðri við þessa dvöl mína. Ég flutti heim eftir námið og við tók nemasamningur á Snyrtistofunni Líkama og sál, sveinsprófið klárað ég árið 2002.
Ég kláraði stúdentinn og sjúkraliðann frá Menntaskólanum við Ármúla 2005 og svo tók ég meistararéttindin í snyrtifræði 2008 og bætti svo förðunarfræðingnum við 2011 svo það er búið að vera nóg að gera.“

Bestu stundirnar fólgnar í einfaldleika
„Ég kynntist eiginmanni mínum, Guðmundi Þór Sævarssyni, sölustjóra hjá Emmess ís, árið 2007. Það má segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Við giftum okkur 2009 í Lágafellskirkju og héldum veislu í Kjósinni, frábær dagur í alla staði.
Gummi gekk dóttur minni, Andreu Rós, í föðurstað þegar hún var fjögurra ára og samband þeirra er sterkt og gott. Árið 2008 eignumst við soninn Aron Þór, en yngst er Eva Dögg, hún er fædd 2010.
Hvað finnst fjölskyldunni skemmtilegast að gera saman? „Okkur finnst gaman að ferðast innanlands sem utan, fara í sumarbústaðaferðir, göngutúra, skíði og bara hverskyns samvera. Á planinu er svo að vera með tvo hesta í húsi fram á sumar.
Það er nú ekki mikill tími aflögu í þessu hraða þjóðfélagi sem við lifum í en við reynum að nýta vel þær stundir sem við eigum saman og njóta þeirra. Oft eru bestu stundirnar fólgnar í einfaldleikanum.“

Líkami og sál 20 ára
„Snyrtistofan Líkami og sál var stofnuð af móður minni árið 1996 svo fyrirtækið verður 20 ára í ár. Ég keypti stofuna árið 2011 og nú starfar mamma hjá mér og okkur finnst dásamlegt að vinna saman. Jóna Björg systir útskrifaðist sem fótaaðgerðafræðingur s.l. haust og nú hefur hún bæst í hópinn. Auk okkar starfa tveir aðrir starfsmenn á stofunni.“

Meðferðirnar henta báðum kynjum
Er boðið upp á margar meðferðir á stofunni? „Já, hjá okkur er fjölbreytileikinn í fyrirrúmi og meðferðirnar henta bæði konum og körlum. Það er gleðilegt að segja frá því að við sjáum mikla aukningu hjá körlum sem er frábært því þeir þurfa jafn mikið á meðferðunum að halda og konur.
Í byrjun árs 2015 klárað ég mastersnám í varanlegri förðun (tattú). Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri og þarna liggur mín ástríða. Við notum liti frá Noveau Contour sem eru náttúrulegir og endast lengi. Allt er þetta framkvæmt eftir óskum hvers og eins og útkoman er eðlileg og undir­strikar fegurð einstaklingsins.
Varanleg förðun getur breytt miklu t.d. fyrir manneskjur sem hafa gisnar augabrúnir og þurfa að fara í litun mjög ört eða hafa misst hárin vegna lyfjameðferðar. Það er vert að geta þess að Tryggingastofnun tekur þátt í kostnaði sem hlýst af svona meðferðum fyrir sjúklinga.
Þetta er sem sagt nýjasta viðbótin hjá okkur og ég er stolt að geta boðið upp á þessa meðferð,“ segir Fanney Dögg að lokum er við kveðjumst.

Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Fjölbreyttni hjá Rauða krossinum

Nemendur sinna heimanámi í Þverholtinu.

Nemendur sinna heimanámi í Þverholtinu.

Hulda Margrét Rútsdóttir hefur verið ráðin í 50% starf sem verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ.
Hulda er með meistarapróf í alþjóða samskiptum og þróunarlandafræði frá háskólanum í Amsterdam og hefur síðustu ellefu ár starfað sem upplýsingafulltrúi á Gljúfrasteini-húsi skáldsins auk þess sem hún starfar við þýðingar.
Hulda hefur m.a. umsjón með sjálfboðaliðaverkefnunum Heimsóknavinir, Föt sem framlag og Heilahristingur. Þá heldur hún utan um fleiri verkefni sem eru í þróun og hefur umsjón með móttöku nýrra sjálfboðaliða og tekur þátt í átaksverkefnum.
Það er ýmislegt í gangi hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ sem er til húsa í Rauða kross húsinu að Þverholti 7.

Heilahristingur á mánudögum
Heilahristingur er heimavinnuaðstoð fyrir grunnskólanemendur. Sjálfboðaliðar sjá um að aðstoða börn við lestur og heimanám frá klukkan 15-17. Það er upplagt fyrir krakkana að koma með námsbækurnar og klára heimanámið. Andrúmsloftið er afslappað og krakkarnir fá aðstoð eftir þörfum.

Föt sem framlag á miðvikudögum
Á miðvikudögum kl. 13-16 er hópur vaskra sjálboðaliða sem prjóna, hekla og sauma föt fyrir hjálparstarf innanlands og erlendis. Garn, prjónar og efni eru á staðnum og rjúkandi kaffi og með því.

Opið hús á fimmtudögum
Opið hús frá 13-16. Öllum er frjálst að mæta til skrafs og ráðagerða eða bara til að fá sér kaffibolla.

Íbúar í Mosfellsbæ ánægðir

mosoanægja

Þegar íbúar í Mosfellsbæ eru spurðir hversu ánægðir eða óánægðir þeir séu með Mosfellsbæ sem stað til að búa á eru 93% aðspurðra ánægðir eða mjög ánægðir.
Mosfellsbær er því enn eitt árið með ánægðustu íbúana í samanburði við önnur sveitarfélög og með hæstu einkunn. Þetta kemur fram í árlegri könnun Capacent þar sem mælt var viðhorf til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins.

Flestir ánægðir með íþróttaaðstöðu – fæstir við þjónustu við fatlað fólk
Alls eru 83% íbúa í Mosfellsbæ ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar og ánægja með þjónustu í leikskólum bæjarins mælist um 80%. Spurðir um þjónustu Mosfellsbæjar í heild eru 77% mjög eða frekar ánægðir.
Niðurstöður sýna að ánægja í Mosfellsbæ er í eða yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum sem spurt er um. Einn af helstu styrkleikum Mosfellsbæjar miðað við önnur sveitarfélög síðustu ár hefur verið ánægja íbúa með skipulagsmál og svo er einnig nú. Þegar spurt er um þjónustu við eldri borgara er ánægja í Mosfellsbæ einnig talsvert yfir landsmeðaltali enda hefur aðbúnaður vegna þeirra þjónustu í Mosfellsbæ verið stórbættur á síðustu misserum.

Vilja gera betur í sorphirðu
Viðhorf til þjónustu í tengslum við sorphirðu versnar marktækt á milli ára og stendur til að skoða það mál sérstaklega, segir í tilkynningu frá Mosfellsbæ. Þar gæti spilað inn í að könnunin var gerð í nóvember og desember en þá eykst þörfin fyrir sorphirðu talsvert ásamt því að veður og færð gera framkvæmd sorphirðunnar erfiðari, sérstaklega á dreifbýlli svæðum sveitarfélagsins. Einnig er eftirspurn eftir því að flokka sorp að aukast og sveitarfélagið hyggst leita leiða til að koma á móts við þá eftirspurn.

Stoltur af niðurstöðunni
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segist afar ánægður með útkomuna. „Það er gaman að enn eitt árið mælast Mosfellingar með ánægðustu íbúum landsins. Ég er afar stoltur af niðurstöðunni í heild og sérstaklega varðandi þjónustu við eldri borgara.
Hins vegar leggjum við metnað okkar í að viðhalda ánægju íbúa í öllum málaflokkum og ég hef sérstakan áhuga á að skoða viðhorf fólks varðandi þjónustu við barnafjölskyldur. Í Mosfellsbæ býr mikið af ungu fjölskyldufólki og við leggjum mikla áherslu á að veita þeim hópi framúrskarandi þjónustu hvort sem það snýr að leikskóla eða skólamálum, íþróttum eða tómstundum.“
Heildarúrtak í könnuninni er yfir 12 þúsund manns og þar af fengust svör frá 316 einstaklingum úr Mosfellsbæ.

Niðurstöður könnunarinnar í heild sinni er hægt að kynna sér á vef Mosfellsbæjar www.mos.is.

Ég er meiddur…

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Ég bögglaði hnéð á mér fyrir nokkrum vikum. Meiðsli eru algengasta afsökun fólks fyrir því að hreyfa sig ekki. Afsökun fyrir því að leggjast í kör og borða meira. Ég fann þetta hjá sjálfum mér þegar ég lenti í hnémeiðslunum. Ég vorkenndi sjálfum mér ægilega mikið og hugsaði um allt það sem ég gæti ekki gert en langaði mikið að gera. Ég leyfði mér að vera í þessu sjálfsvorkunnarástandi í 1-2 daga en reif mig svo upp úr því og minnti mig á það væri margt sem ég gæti gert þótt ég þyrfti að hvíla hnéð.

Ég tók erfiðar styrktaræfingar fyrir efri hluta líkamans, léttar liðleikaæfingar fyrir neðri hlutann. Fór í nudd, sjósund, rólega göngutúra og sitt hvað fleira. Hvíldi spretti, erfiðar styrktaræfingar fyrir neðri hluta líkamans og brasilíska jiu jitsuið. Hugsaði jákvætt, lét mig hlakka til að komast aftur í þessar æfingar og einbeitti mér að því að koma hnénu í lag.

Mín meiðsli voru bara smávægileg, en samt datt inn hjá mér vælupúkinn sem vildi henda mér upp í sófa og láta mig hanga þar og vorkenna sjálfum mér alla daga og nætur. Við verðum að taka á vælupúkanum þegar hann birtist, hálfglottandi og sigurviss. Henda honum strax af öxlinni og sem lengst í burtu frá okkur. Lesa í staðinn fréttir af fólki sem virkilega þarf að takast á við áskoranir og notar það sem hvatningu.

Ég las nýlega um Nikki Bradley. Hún er með sjaldgæft beinkrabbamein og þarf að nota hækjur alla daga. Lætur það ekki stoppa sig, langt því frá. Hún kom til Íslands í lok febrúar til að ganga á hækjum upp Hvannadalshnjúk. Ég hlakka til að lesa meira um það ævintýri. Tökum Nikki okkur til fyrirmyndar. Finnum leiðir til þess að hreyfa okkur og njótum þess að vera fersk og lifandi.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 10. mars 2016