Rauði krossinn heiðraður í Kærleiksvikunni

kærleiksvikarki

Kærleiksvikan fór fram í Mosfellsbæ 11.–17. febrúar. Þriðjudaginn 12. febrúar fór fram hátíðarstund í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ þar sem Rauði krossinn var heiðraður fyrir þeirra frábæra sjálfboðaliðastarf.
Þá hélt Þorgrímur Þráinsson fróðlegt erindi sem nefndist „Erum við að gera okkar besta?“ Skólakór Varmárskóla söng nokkur lög auk þess sem vinnustofa Skálatúns var með kærleiksgjafir til sölu.

Sérstakar þakkir til Ásgarðs
„Við viljum koma á framfæri sérstökum þökkum til allra þeirra sem tóku þátt í Kærleiksvikunni. Sérstakar þakkir fá Ásgarðsmenn fyrir smíðagripinn „faðmlag“ sem við veittum Rauða krossinum í Mosfellsbæ í ár og einnig mikið þakklæti fyrir alla gripina sem við höfum veitt síðastliðin ár.“
Kærleiksvikan var nú haldin í 10. skipti og ætla núverandi skipuleggjendur að láta þar við sitja. Óskað er eftir arftökum þeirra sem hefðu áhuga á að taka við keflinu.

Óska eftir áhugasömum arftökum
„Veitir okkur nokkuð af því að auðga kærleiksrík samskipti?“ segir Vigdís Steindórsdóttir sem er skipuleggjandi vikunnar ásamt þeim Oddnýju Magnúsdóttur og Jóhönnu B. Magnúsdóttur.
„Við þökkum öllum sem lagt hafa verkefninu lið fyrir framlag og samstarf og þar er efst í huga móttökurnar í Blik Bistro & Grill á spákaffinu síðastliðinn laugardag. Þar var virkilega kærleikur að verki.“