Meir um mat

heilsa31jan19

Í síðasta pistli velti ég fyrir mér úrvali matsölustaða í Mosfellsbæ. Mér finnst vera svigrúm til bætinga á því sviði, fyrst og fremst vegna þess að við langflest borðum það sem á disk okkar er lagt. Þannig erum við alin upp og það er auðveldast og þægilegast að grípa það sem hendi er næst. Ég er staddur í mekka skyndibitastaðanna, Bandaríkjunum. Hér er allt morandi í ódýrum skyndimatarstöðum – KFC er áberandi, McDonalds er að gera góða hluti virðist vera og Tacostaðir eru áberandi. Svo eru hér ný nöfn (fyrir okkur gestina allavega) sem segjast ekki vera skyndibitastaðir, en eru það samt. Farmer Boys til dæmis. Hamborgarastaður stofnaður 1981 af hressum bræðrum á bóndabæ. Það kæmi mér ekki á óvart að sjá Farmer Boys í Mosfellsbæ, kynnta til leiks sem ferskan hamborgarastað sem afgreiddi borgarana sína hratt og seldi ódýrt, en væri samt ekki skyndibitastaður.

En þar sem við erum stödd má líka finna dæmi um hið gagnstæða, matsölustaði og sérstaklega matvörubúðir sem leggja mikla áherslu á hollustu og heilbrigði. Loma Linda Market er þannig matvöruverslun. Gott úrval af ferskum ávöxtum og grænmeti, mikið úr heimahéraði. Mjög lítið, nánast ekkert, af draslmat og nammi. Í staðinn fyrir að vera með nammibar eru í Loma Linda Market stórir hnetu og fræbarir. Mitt uppáhald þessir barir, mikið úrval og hver og einn ákveður sinn skammt sjálfur. Búðin er á háskólasvæðinu, tengd Loma Linda University, sem kennir fyrst og fremst heilbrigðistengdar greinar. Við erum búin að rölta um háskólasvæðið, hitta fólk og skoða okkur um. Það er áberandi að það eru engir nammisjálfsalar hérna, ekki verið að selja kók og pepsí. Matsölustaðirnir og búðirnar sem tengjast háskólanum bjóða upp á hollan og góðan mat, ekkert annað. Og hvað gerir fólk þá? Fær sér hollan og góðan mat. Þetta er ekki flókið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 31. janúar 2019