Björguðu manni frá drukknun í lauginni

lagafellslaug

Karl­maður á þrítugs­aldri var hætt kom­inn í Lága­fells­laug á mánudagskvöld þegar hann fannst meðvitundarlaus á botni laugarinnar. Maðurinn hafði verið að synda kafsund. Atvikið átti sér stað um kvöldmatarleytið og var margt fólk í lauginni á þeim tíma. Sundlaugargestur kom auga á manninn og aðstoðaði við að koma honum að sundlaugarbakkanum. Í kjölfarið komu starfsmenn með hjartastuðtæki og annan viðeigandi búnað og hófu endurlífgun. Þeim til aðstoðar kom svo sjúkraflutningamaður sem var meðal gesta laugarinnar. Maðurinn var kominn til meðvitundar þegar sjúkrabíll kom á staðinn og er í dag á góðum batavegi. Ljóst er að starfsmenn og gestir brugðust hárrétt við aðstæðum auk þess sem sjúkrabíll var mættur á svæðið eftir tvær mínútur frá slökkvistöðinni á Skarhólabraut.