Öll tiltæk tæki í snjómokstri

snjomokstur19

Mikið hefur snjóað á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu og vinna starfsmenn þjónustustöðvar Mosfellsbæjar og verktakar á þeirra vegum hörðum höndum að snjó­mokstri með öllum tiltækum tækjum.
Vinna við snjómokstur hefst að jafnaði um klukkan fjögur að morgni en unnið er að snjóhreinsun, söltun eða söndun gatna og göngustíga nær allan sólarhringinn þegar þess er þörf. Markmið þeirrar vinnu er að tryggja öryggi vegfarenda og að íbúar komist leiðar sinnar.

Áhersla lögð á stofnbrautir
„Megináhersla er lögð á að halda stofnbrautum opnum áður en aðrar götur og stígar eru hreinsuð,“ segir Tómas G. Gíslason umhverfisstjóri hjá Mosfellsbæ.
Þannig eru stofnbrautir, strætisvagnaleiðir og gönguleiðir til og frá skóla í fyrsta forgangi auk þeirra aðalgöngustíga sem tengja hverfi og skólasvæði. Að þeirri vinnu lokinni eru húsagötur ruddar og minni göngustígar.
Íbúar moki frá sínum innkeyrslum
Íbúar Mosfellsbæjar eru hvattir til að moka frá sínum innkeyrslum, enda er snjómoksturtækjum á vegum bæjarins ekki mögulegt að ryðja frá innkeyrslum í íbúagötum.
Í þeirri tíð sem nú ríkir er mikilvægt að íbúar geymi ekki bíla sína að næturlagi á eða við stofnanalóðir bæjarins. Ástæða þess er sú að slíkt getur staðið í vegi fyrir ruðningi stofnanalóða.

Sandur og salt í þjónustustöð
Nánari upplýsingar um forgangsröðun í snjómokstri má finna á heimasíðu bæjarins undir starfsemi þjónustustöðvar.
Íbúar Mosfellsbæjar geta nálgast sand og salt til hálkueyðingar utan við þjónustustöð bæjarins við Völuteig 15.

Íbúar eru enn fremur hvattir til að senda ábendingar um snjómokstur á facebook-síðu Mosfellsbæjar, á netfangið mos@mos.is eða í gegnum ábendingavef á heimasíðu bæjarins.