Snjallsímabann hefur gengið vonum framar

Nýjar skólareglur tóku gildi í eldri deild Varmárskóla um áramótin.

Nýjar skólareglur tóku gildi í eldri deild Varmárskóla um áramótin.

Um áramótin tóku í gildi nýjar skólareglur um notkun snjall­síma á skólatíma í eldri deild Varmárskóla. Ákvörðunin var tekin í samráði við nemendafélag skólans og er hluti af verkefninu Betri skólabragur.
„Þegar þessi hugmynd kom upp þá funduðum við með nemendaráði skólans. Þau voru tilbúin að koma með okkur í þetta verkefni og við unnum þetta í raun með þeim. Þau gengu svo í allar stofur og kynntu nýju reglurnar fyrir samnemendum sínum,“ segir Þórhildur Elfarsdóttir skólastjóri Varmárskóla.

Hafa keypt borðtennisborð og fótboltaspil
Nýju símareglurnar eru þær að ekki má vera í síma á göngum skólans eða í kennslustofum nema að kennari gefi til þess sérstakt leyfi. Brjóti nemandi símareglurnar er síminn tekinn og afhentur aftur í lok skóladags.
„Þetta hefur gengið ljómandi vel, eiginlega betur en við þorðum að vona. Skólinn hefur komið til móts við nemendur í þessu verkefni og keypt inn ný leiktæki eins og borðtennisborð og fótboltaspil. Auðvitað hefur þetta reynst nemendum miserfitt en ég held að í heildina séu allir ánægðir með þetta, bæði nemendur, kennarar og foreldrar.“

Líf á göngunum í frímínútum
„Skólabragurinn hefur breyst mikið og nota krakkarnir tímann í að leika, spila og lesa. Ein ástæðan fyrir því að við fórum í þessar breytingar var að við upplifðum að í frímínútum voru allir í sínum síma og einu samskiptin voru kannski þegar þau voru að sýna hvert öðru eitthvað í símanum. Núna er meira líf á göngunum og meiri hávaði sem er jákvætt í þessu samhengi,“ segir Þórhildur að lokum.