Nokkur orð um fjárhagsáætlun og kaffisopa

Anna Sigríður Guðnadóttir

Fjárhagslegt umhverfi sveitarfélaganna hefur einkennst af mikilli óvissu undanfarin 2 ár af orsökum sem við öll þekkjum.
Á covid-tímum varð reksturinn vandasamari og tekjur lækkuðu. En eins og fyrirliggjandi fjárhagsáætlun 2022 sýnir þá er fjárhagur sveitarfélagsins að komast á betra ról fyrr en menn töldu að væri mögulegt í upphafi faraldurs, tekjufallið er að skila sér hraðar til baka og tekjur að nálgast það sem var fyrir faraldur. Mosfellingum heldur áfram að fjölga og þar með skila sér auknar tekjur í kassann. En fjölgun íbúa fylgir líka aukin þjónustuþörf. Auðvitað er ýmislegt gott að finna í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun sem allir flokkar í bæjarstjórn geta skrifað undir. En fjárhagsáætlunin er ekki unnin í samstarfi og þ.a.l. hafa flokkar í minnihluta ekki tækifæri til að koma sínum áherslu­atriðum að.

Tíu dropa útsvarslækkun til heimabrúks
Áherslur í fjárhagsáætlun endurspegla pólitíska afstöðu þeirra stjórnmálaflokka sem hana leggja fram, þ.e. Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Lækkun útsvarsprósentu um 0,04 prósentustig frá leyfilegu hámarki er pólitísk aðgerð til að tikka í box skattalækkana hjá Sjálfstæðisflokknum og VG töltir með. Eins og við Samfylkingarfólk höfum margoft bent á skiptir þessi lækkun í raun engu máli fyrir einstaka útsvarsgreiðendur. Þannig heldur útsvarsgreiðandi sem er með 500.000 krónur á mánuði eftir aukalega 200 krónum sem duga fyrir kaffibolla á bensínstöðinni. Bæjarbúinn með 2.000.000 á mánuði getur farið í bakaríið og fengið sér kaffi og með því. Þetta smellpassar við hugmyndafræði sjálfstæðismanna.

Ólafur Ingi Óskarsson

Meirihlutinn ákveður nú sjötta árið í röð að innheimta ekki fullt útsvar. Árið 2022 þýðir það 24 milljónum minna í kassann. Lauslega reiknað eru það ríflega 100 milljónir sem meirihlutinn hefur afþakkað inn í rekstur bæjarins á þessum árum. Í ljósi þess að ábati einstakra útsvarsgreiðenda er lítill sem enginn telur Samfylkingin að í stækkandi sveitarfélagi hefði verið skynsamlegra og til ábata fyrir samfélagið í heild að nýta þessa fjármuni í brýn verkefni s.s. aukinn stuðning og sérfræðiþjónustu innan skólakerfisins, aukinn kraft í umhverfis- og loftslagsmálin eða til að auka stuðning við þau sem höllustum fæti standa í okkar samfélagi, svo einhver dæmi séu nefnd.
Sveitarfélögin í landinu halda því fram með réttu að ríkið hafi ekki látið fylgja nægilega fjármuni með flutningi verkefna frá ríkinu til sveitarfélaganna. Má þar nefna grunnskólann og málefni fatlaðs fólks. Reyndar hefur komið fram í umræðunni að 9 milljarða vanti inn í málflokk fatlaðs fólks frá ríkisvaldinu. Á það er bent að tekjumöguleikar sveitarfélaganna séu mun takmarkaðri en ríkisvaldsins enda geta sveitarfélög ekki ákveðið nýja skatta eins og ríkið. Þannig séu sveitarfélögin að nýta fjármuni sem ættu að fara í annað til að halda upp lögbundinni þjónustu í þessum málaflokkum. Á móti þessum rökum hafa heyrst, m.a. frá framámönnum í ríkisstjórn Sjálfstæðismanna, VG og Framsóknar, að það sé holur hljómur í kröfum sveitarfélaganna um aukin fjárframlög þegar sveitarfélögin fullnýti ekki útsvarsheimildina. Við tökum undir þá skoðun framámanna ríkisstjórnarinnar því þegar öllu er á botninn hvolft þá koma fjármunir til þessara mikilvægu samfélagsverkefna alltaf af sköttum borgaranna.
Lækkun útsvars um 0,04 prósentustig er sýndarmennska í heimabyggð sem flækir málin í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Ólafur Ingi Óskarsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Eigum við ekki öll rétt á að vera eins og við erum, eins ólík og okkur var ætlað að vera!

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Í litlu þorpi úti á landi þar sem ég er alin upp þá vorum við krakkarnir reglulega minntir á að kurteisi kostar ekkert. Einnig að taka tillit til annarra, þótt ólík séum.
Mér þótti þetta ægileg klisja þegar mamma mín sagði þetta við mig, en eftir að ég varð eldri þá skildi ég meininguna og hef alltaf lagt mig fram um að fara eftir þessu því eitt af höfuðgildum í mínu lífi er að koma vel fram við aðra og sýna þeim kurteisi, hlýju og kærleika.

Allir eiga rétt á að vera nákvæmlega eins og þeir eru og eiga að fá að blómstra á sínum forsendum. Sýnum öðru fólki virðingu, því fjölbreytileikinn geri okkur betri. Við verðum sterkara samfélag og betri bær fyrir vikið.

Hvers vegna eru sumir þannig að þeir þurfa alltaf að gera lítið úr öðrum og bera ekki virðingu fyrir fólki sem er ekki eins og þeir sjálfir? Við getum ekki breytt öðrum en við getum breytt viðhorfi okkar til annarra. Við eigum ekki að vera neikvæð heldur taka fólki eins og það er og sýna öllum virðingu og hlýju.

Erum við ekki á rangri braut ef okkur finnst við vera yfir aðra hafin og vera klárari en aðrir? Sýnum öðrum kærleika og tillitsemi því allt er þetta ákvörðun okkar sjálfra, hvernig við ætlum að koma fram, hvernig ætlum við að hafa daginn okkar, góðan, jákvæðan og skemmtilegan eða leiðinlegan, neikvæðan og fúlan.
Ef við reynum að horfa jákvæðum augum á það sem dagurinn ber í skauti sér og ákveðum að við ætlum að vera hamingjusöm þá mun dagurinn sannarlega verða betri.

Mig langar að vekja athygli á þessu þar sem mér finnst fólk of oft sýna öðrum óvirðingu, jafnvel niðurlægingu og skrifa ljóta hluti án þess að hugsa um hvaða afleiðingar það getur haft. Sýnum frekar öðrum tillitsemi og kurteisi. Reynum að sýna kærleika og brosa til ókunnugra því „bros getur dimmu í dagsljós breytt“.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Framsókn til framtíðar

Halla Karen Kristjánsdóttir

Kæri sveitungi, eins og flestum íbúum Mosfellsbæjar er kunnugt þá verða sveitarstjórnarkosningar þann 14. maí 2022.
Spennandi tími er fram undan og hægt að hafa góð og mikil áhrif. Við framsóknarfólk ætlum okkur að sjálfsögðu að mæta sterk til leiks og höfum nú þegar hafið kosningaundirbúning. Það er tilhlökkun í okkar fólki og kominn tími til aðgerða og sóknar og gera góðan bæ enn betri.
Þann 17. ágúst sl. var haldinn aðalfundur Framsóknarfélags Mosfellsbæjar og ný stjórn kosin:
Stjórnin er þannig skipuð: Halla Karen Kristjánsdóttir formaður, Þorbjörg Sólbjartsdóttir varaformaður, Örvar Jóhannsson ritari, Kjartan Helgi Ólafsson gjaldkeri og Leifur Ingi Eysteinsson meðstjórnandi. Varamenn: Eygló Harðardóttir og Sigurður E. Vilhelmsson.
Á félagsfundi okkar 10. nóvember sl. var svo tekin ákvörðun um að við röðun á framboðslista okkar fyrir kosningarnar í vor verði notast við uppstillingu. Á fundinum var einnig skipuð uppstillingarnefnd sem þegar hefur tekið til starfa og er það Ævar Sigdórsson sem leiðir starf nefndarinnar.
Við viljum hvetja alla sem hafa áhuga á að koma á fundi hjá okkur, mæta í gönguferðir eða taka þátt í starfinu með okkur á einn eða annan hátt, til að láta sjá sig á auglýstum viðburðum eða hafa samband við okkur til að tryggja að raddir sem flestra heyrist.
Þín rödd er mikilvæg og þú skiptir máli fyrir bæjarfélagið. Það er okkur mikilvægt að eiga gott samráð og samvinnu við ykkur bæjarbúa.
Við erum traust og heiðarleg, ætlum að vera með gleðina í fyrirrúmi og látum hana drífa verkin áfram og heilbrigða skynsemi ráða ferðinni.

Framsóknarkveðja
Halla Karen Kristjánsdóttir formaður

Jólaskógurinn í Hamrahlíð

Björn Traustason

Jólatrjáasalan í Hamrahlíð við Vesturlandsveg hefst laugardaginn 11. desember klukkan 13:00.
Jólasveinar munu mæta á svæðið og verður því fjör í Jólaskóginum í Hamrahlíðinni. Bæjarstjórinn mun höggva fyrst tréð auk þess sem Mosfellskórinn syngur nokkur lög. Jólatrjáasalan er fyrir löngu orðinn fastur liður í undirbúningi jólanna hjá mörgum íbúum Mosfellsbæjar og nærsveitunga. Það er skemmtileg hefð að skunda í skóginn og velja sér fallegt tré.
Oft er það nú þannig að því meiri vinna og tími sem fer í að velja tréð, því meiri merkingu hefur það í stofunni. Í Hamrahlíðinni er nægt úrval af blágreni, sitkagreni og stafafuru sem verður vinsælla jólatré með hverju árinu sem líður. Hvetjum við því sem flesta að mæta í fjallið og skoða úrvalið í skóginum. Einnig er í boði að velja sér tré úr rjóðrinu þar sem eru tré sem hafa verið felld úr skógum félagsins.

Með kaupum á jólatrjám er stutt við starf Skógræktarfélags Mosfellsbæjar, en mest af starfsemi félagsins er unnið í sjálfboðavinnu. Hluti af ágóða jólatrjáasölunnar er nýttur til að gróðursetja allt að 30 tré fyrir hvert selt tré. Með kaupum á mosfellskum jólatrjám er því verið að stuðla að aukinni skógrækt innan Mosfellsbæjar.
Hluti af þessum trjám eru gróðursett milli annarra trjáa og vaxa því upp í skjóli, og hluti gróðursettur í ný svæði sem auka þar með flatarmál skóga innan sveitarfélagsins. Þessar gróðursetningar gefa af sér útivistarskóga, viðarnytjar og framtíðarjólatré. Með hverju seldu jólatré er því margþættur ávinningur svo ekki sé minnst á kolefnisbindingu með trjágróðri. Búast má við að af þessum 30 trjám sem gróðursett eru fyrir hvert selt tré, muni 15 halda áfram vexti og þar með binda kolefni næstu áratugina. Hin 15 trén munu ýmist deyja í æsku, verða nýtt sem grisjunarviður eða verða að framtíðarjólatrjám.
Jólaskógurinn er því sjálfbær, það bætast fleiri tré við en eru tekin út. Þetta er einnig í takti við nýjustu áherslur ríkisstjórnarinnar um aukna skógrækt til að ná markmiðum um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. Það þurfa allir að taka höndum saman til að ná þessu markmiði. Þar skiptir auðvitað mestu að við drögum sem mest úr losun.
Kaup á íslenskum jólatrjám eru góð leið til að taka þátt í bindingu á móti losun. Það sem skiptir þó mestu máli er að þið getið mætt til okkar í jólatrjáasöluna í Hamrahlíðina og valið ykkur jólatré úr skóginum eða rjóðrinu og notið svo jólanna við furu- eða greniilminn. Gleðilega aðventu.

Björn Traustason
Formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar

Covid-19 stöðuskýrsla fjölskyldusviðs

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Frá því Covid-19 skall á með öllum þeim ósköpum sem því hefur fylgt hefur skapast umræða í þjóðfélaginu um að heimilisofbeldi hafi aukist mikið og tilkynningum til barnaverndar fjölgað.
Heilu fréttatímarnir voru undirlagðir og mikið gekk á á höfuðborgarsvæðinu í þessum málum, en þar var þó aðallega verið að vísa til fjölgunar í öðrum sveitarfélögum því á sama tíma í Mosfellsbæ sáum við ekki merkjandi aukningu í þessum sömu tilkynningum.
Við byrjuðum að fjalla sérstaklega um þessi mál á fundum okkar í fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar, upplýsingum var safnað fyrir nefndina og fékk málið heitið „Covid-19 stöðuskýrsla fjölskyldusviðs“. Þessi skýrsla var fyrst lögð fram á 293. fundi fjölskyldunefndar 19. maí 2020. Þar var ekki að sjá sýnilega aukningu í þeim málefnum sem fjallað hafði verið um í fréttum. Á fundi nefndarinnar nr. 292 sem haldinn var 17. mars var farið yfir mál sviðsins vegna Covid-19 áhrifa og tryggt að allir skjólstæðingar Mosfellsbæjar fengju nauðsynlega þjónustu og gerðar yrðu ráðstafanir til að tryggja bæði starfsmönnum og notendum þjónustu fyllsta öryggi vegna aðstæðna. Það tókst og eiga starfsmenn fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar hrós skilið fyrir góðan undirbúning og skipulag.

Síðan fyrsta skýrslan var lögð fram í maí 2020 höfum við á hverjum fundi nefndarinnar lagt hana fram og við fylgst með og rýnt í þær upplýsingar sem liggja fyrir hverju sinni. Starfsmenn fjölskyldusviðs hafa á sama tíma unnið ötullega að því að hlúa að þeim einstaklingum og fjölskyldum sem um er fjallað.

Það sem er einna ánægjulegast að segja frá er að þrátt fyrir fjölgun samþykktra umsókna um fjárhagsaðstoð milli áranna 2019–2020 lítur út fyrir að árið 2021 þurfi um 24% færri einstaklingar fjárhagsaðstoð. Það er frábært þegar fólk kemst aftur út á vinnumarkaðinn eftir alls konar áföll. Á sama tíma sjáum við að atvinnulausir Mosfellingar eru óðum að nálgast 2019 tölurnar en áður en Covid-19 skall á var þegar byrjað að halla undan fæti á vinnumarkaðinum og Mosfellingar fengu sinn skerf af því eins og aðrir. Þegar mest var voru 569 Mosfellingar á atvinnuleysisskrá, í mars 2021, en voru í september 2021 komnir niður í 297. Fæstir atvinnulausir Mosfellingar voru 124 í janúar 2019 og má því segja að enn er töluvert í land.

Varðandi tilkynningar til barnaverndar hefur verið ákveðin fylgni milli íbúafjölgunar og tilkynninga og þrátt fyrir að um 12% aukning hafi verið milli 2019–2020 lítur út fyrir að árið 2021 verði aukning um 5%. Á sama tíma stefnir í að tilkynningum um heimilisofbeldi fækki um 22% milli áranna 2020-2021 sem er gott.
Ég minni á að á heimasíðu Mosfellsbæjar á mos.is er gulmerktur hnappur „Ég er barn og hef áhyggjur“. Þar geta börn sent inn tilkynningu ef þau þekkja einhvern sem þarf á aðstoð að halda og komið ábendingum til starfsmanna barnaverndar þar sem fullum trúnaði er heitið. Allar þær upplýsingar sem hafa komið fram hér að ofan eru aðgengilegar á heimasíðu Mosfellsbæjar, mos.is, undir fundargerðum fjölskyldunefndar og hvet ég íbúa að kynna sér þær.
Ég óska öllum Mosfellingum gleðilegrar hátíðar, árs og friðar og förum varlega um jólin í faðmi okkar nánustu.

Rúnar Bragi Guðlaugsson
bæjarfulltrúi og formaður fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar

Mosfellsbær og friðun Blikastaðakróar/Leiruvogs

Sara Hafbergsdóttir

Við Íslendingar stöndum í þeirri bjargföstu trú að náttúra landsins sé fögur, hrein og tær. Er það svo alls staðar?
Ég stend í þeirri trú að Mosfellsbær sé mjög fallegur bær, náttúran og fjöllin allt um kring og fegurð vatna, lækja, áa og hafs sem umlykur okkur.
Nýlega tók ég sæti í Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis (HK) fyrir Mosfellsbæ. Þegar maður tekur við ábyrgð sem þessari vill maður leggjast yfir allt og lesa sér til. Það gerði ég og sá mér til mikillar undrunar niðurstöðu mengunarmælinga í viðamikilli og stórmerkilegri ársskýrslu heilbrigðiseftirlitsins fyrir árið 2019.
Á bls. 24 (mynd 28) blasti við mér súlurit sem sýndi fjölda saurkólígerla á hverja 100 millilítra vatns (saurkólíg/100ml) á nokkrum stöðum í Mosfellsbæ. Þar bar hæst súla við fornan stað hér í Mosfellsbæ sem ber heitið Hestaþinghóll. Hvar er það? Ég varð hugsi og fann út að þessi staður hefur slegið öll met í Mosfellsbæ hvað þessa tegund mengunar varðar.
Ég las mér til og fann frétt á vef RÚV frá því 15. júlí 2017 þar sem fjallað var um mikla saurkóligerlamengun á baðstaðnum í Nauthólsvík. Þá mældust þar 99 saurkólíg/100ml. Reyndist þetta meira en venja er á þessum þekkta baðstað höfuðborgarbúa. Sama ár, þ.e. 20. júlí 2017, birtist frétt á mbl.is um saurkólígerlamengun í Varmá, ánni okkar sem búið er að friða. Sú frétt gekk út á m.a. það að 14. júlí, þ.e. skömmu áður en fréttin birtist, var mikill fiskidauði í Varmá ásamt því að benda á mikla saurkólígerlamegnun. Þá mældust 760 til 1000 saurkólíg/100ml.
Þá var sagt í sömu frétt að reglugerð um fráveitur og skólp fyrir útivistarsvæði á fjölda saurkólígerla í að minnsta kosti 90% tilfella eigi að vera undir 100 saurkólíg/100ml miðað við lágmark 10 sýni (reglugerð nr. 450/2009). Hestaþinghóll er þar sem Varmá rennur út í Blikastaðakró/Leiruvoginn okkar hér í Mosfellsbæ og út á haf. Mosfellsbær, ásamt Reykjavíkurborg og með aðstoð Umhverfisstofnunar, auglýstu áform um friðun í sumar á Blikastaðakró/Leiruvogi (nær frá Geldinganesi í Reykjavík til botns Leiruvogs í Mosfellbæ).
Frestur til að skila athugasemdum var gefinn til 10. ágúst 2021 og er það lágmarksfrestur eða 4 vikur. En hve mikil er mengunin við Hestaþinghól? Hún hefur verið að slá upp í um eða yfir 2400 saurkólíg/100ml (mynd 27 í skýrslu HK) og að meðaltali hafa mælingar síðustu ár legið frá 400 til allt að 700 saurkólíg/100ml.
Þarna við Hestaþinghól fer barnafólk í göngutúra allt árið um kring, fólk með gæludýr sín og sjálft til að njóta fegurðarinnar. Þó fólk baði sig hugsanlega ekki þarna gætu gæludýr gert það. Aðskotahlutir sem berast í fjöruna gætu því verið mengaðir. En er ekki hér eitthvað í meiriháttar ólagi ef þetta er orðið að viðvarandi ástandi?
Mengun hér við ströndina slær út allar mælingar á höfuðborgarsvæðinu og í þokkabót ætlar Mosfellsbær að kalla eftir friðun á hafsvæði, lífríki þess og hafsbotns sem bærinn sjálfur stendur að því að menga sem mest. Samkvæmt gögnum Umhverfisstofnunar var svæðið þarna skráð á náttúruminjaskrá 1978, Varmárósar friðlýstir 1980 ásamt endurskoðun til aukinnar friðunar árið 2012 og nú í ár 2021. Svo má minnast á fitjasefið blessaða sem þarna vex við Hestaþinghól sem er friðuð háplöntutegund á válista.
Ég veit að efni þessarar greinar minnar er ekki beint kræsilegt og mæli ég því eindregið með lestri hennar áður en kristileg hátíð okkar nær hámarki með dýrindis máltíð, hlátri, gleði og söng.
Gleðilega hátíð og farsælt komandi ár.

Sara Hafbergsdóttir
Fulltrúi Miðflokksins í Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis

Mikið áunnist í fræðslumálum

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Fræðslumál eru stærsti málaflokkur sveitarfélagsins okkar en árlega fara um 60% af rekstrarkostnaði Mosfellsbæjar í málaflokkinn.
Á þessu kjörtímabili sem nú er að líða hefur mikil áhersla verið lögð á skólamálin og þrátt fyrir að kórónuveiran hafi lagst þungt á sveitarfélögin hefur þjónustan verið aukin í Mosfellsbæ. Ástæðan er að hér hefur verið haldið vel utan um fjármál og rekstur bæjarins.

Áherslan á fræðslumálin
Þessu kjörtímabili fer senn að ljúka og er vert að skoða hvað hefur áunnist í fræðslumálum á tímabilinu. Í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna var lögð mikil áhersla á að standa við bakið á okkar skólum og fagfólki, en þar stendur:
Menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins og D- og V-listi leggja megináherslu á öflugt og metnaðarfullt skólastarf. Miklar breytingar hafa átt sér stað í leik- og grunnskólum á síðustu áratugum, í kjölfar aukinna væntinga samfélagsins til skólakerfisins. Um leið eru stöðugar breytingar á þörfum nemenda. Heilbrigt skólaumhverfi stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan nemenda og starfsfólks.

Eftirfarandi voru áherslur D- og V-lista sem koma fram í málefnasamningi flokkanna:
Sama gjald frá 12 mánaða aldri – Foreldrar barna sem njóta þjónustu hjá Mosfellsbæ greiða sama gjald frá 12 mánaða aldri sama hvort barnið er hjá dagforeldri eða á leikskóla.
12 mánaða börn fá pláss á leikskólum – Nýr árgangur er kominn á leikskólana og eru 125 pláss á ungbarnadeildum. Leikskólinn Hlíð er nú ungbarnaleikskóli. Leikskólaplássum var fjölgað og eru nú 933 pláss í boði.
Lækka leikskólagjöld um 25% – Leikskólagjöld hafa lækkað um 5% á ári síðan 2018.
Bæta skólaþjónustuna – Ráðgjöf skólaþjónustunnar hefur verið efld með fleiri stöðugildum sálfræðinga og auknu stöðugildi talmeinafræðings. Meiri samvinna við fjölskyldusvið og barnavernd.
Átak í upplýsingatæknimálum – Spjaldtölvur og krómbækur eru nú í hverjum grunnskóla. Sérstakur ráðgjafi fenginn til að innleiða rafræna kennsluhætti. Leiðtogateymi nú í hverjum skóla.
Endurbætur skólahúsnæðis – Öll skólamannvirki skimuð og miklar endurbætur gerðar, sérstaklega í Varmárskóla.
Endurskoðun menntastefnu – Unnið er að endurskoðun menntastefnu og verður rafrænt Íbúaþing nú á laugardaginn. Innleiðing á stefnunni hefst byrjun árs 2022.
Helgafellsskóli heildstæður 200 daga skóli – Í upphafi skólaárs var fullbúinn skóli tekinn í notkun og 200 daga skóli hefur verið innleiddur á yngsta stigi.
Fjölga stöðugildum í Listaskólanum – Stöðugildum í Listakólanum hefur verið fjölgað á undanrörnum árum.

Eins og sést á upptalningunni hér á undan hefur gengið vel að framkvæma þau stefnumál sem kynnt voru af meirihlutanum í upphafi kjörtímabilsins og eru þau öll orðin eða alveg að verða að veruleika.

Áframhaldandi uppbygging
Áfram verður haldið með uppbyggingu í Mosfellsbæ og hefur m.a. verið tekin ákvörðun um byggingu leikskóla í Helgafellshverfi sem hefst á næsta ári. Í drögum að fjárhagsáætlun til ársins 2025, sem nú er til umræðu í bæjarstjórn og nefndum, er gert ráð fyrir byggingu íþróttahúss við Helgafellsskóla og nýrri þjónustubyggingu við íþróttahúsið að Varmá. Í þjónustubygginguinni er m.a. gert ráð fyrir nýju anddyri, búningsaðstöðu og aðstöðu fyrir Aftureldingu. Höldum áfram að gera góðan bæ betri.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi
og formaður fræðslunefndar.

Skólaþing Mosfellsbæjar

Hulda M. Eggertsdóttir

Mosfellsbær bauð til skólaþings á dögunum til að endurskoða skólastefnu Mosfellsbæjar. Væntanlega til að bæta brag og gefa þeim sem veita og nýta þjónustuna tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Frábært framtak.
Ég ákvað að skella mér, svona bara til þess að breyta heiminum. Þetta var vel skipulagt, búið að raða foreldrum í hópa eftir aldri barns. Ég lenti í frábærum hóp foreldra. Mér kom skemmtilega á óvart erindi Ingvar Hrannars Ómarssonar kennara og frumkvöðuls. Hann talaði um að það væri ekki lengd skjátíma heldur hvað væri verið að vinna í á skjánum sem skipti öllu. Spurningarnar voru helst til of margar og því var oft erfitt að klára að svara þeim á stuttan og einfaldan hátt. Bestar fundust mér spurningarnar um hvernig myndi ég breyta og bæta ef ég réði öllu. Og hin spurningin sem mér fannst betri og betri eftir því sem leið á frá þinginu, eru framúrskarandi skólar í Mosfellsbæ?
Það var augljóst að foreldrunum var mjög umhugað um velferð barnanna sinna. Það kom fram að þeir vildu starfsfólk sem væri hlýtt í viðmóti og myndaði tengsl við börnin. Að börnunum liði vel í skólanum, að þau lærðu góða siði, væru kurteis og til fyrirmyndar. Þá var mér hugsað til allra barnanna sem líður illa í skólanum og eru ókurteis.
Það er verið að gera mjög margt gott í skólastarfinu í Mosfellsbæ en engu foreldri á svæðinu fannst einhver skóli í Mosfellsbæ framúrskarandi, það virtist koma nærstöddum á óvart. En eftir sem ég hugsa þessa spurningu betur þá hef ég vissulega upplifað framúrskarandi fólk í skólanum. Framúrskarandi er eitthvað sem er eftirtektarvert og vel gert.
Mér finnst ekkert merkilegt að kennari kenni nemanda sem er sterkur fyrir og sá nemandi sé hæstur í öllu og finnist gaman að læra. Það sem mér finnst framúrskarandi eru kennarar eins og íþróttakennararnir í Varmárskóla sem fá nemendur sem finnst erfitt að fara í sund og íþróttir til að fá áhuga og gleði á því að fara í sund og íþróttir. Það er töluvert auðveldara að læra það sem liggur vel fyrir manni heldur en það sem er erfitt. Að geta mætt nemandanum þar sem hann er staddur, með mildi og gleði. Að vekja áhuga á því sem verið er að læra. Það er gífurlegur kraftur í því að upplifa að vera mætt þar sem maður er staddur, að sett séu raunhæf markmið, vakinn sé áhugi. Að upplifa að það sé traust, að kennarinn hafi trú á viðkomandi. Það er framúrskarandi kennsla.
Mér fannst mikið til nýja skólastjórans í Varmárskóla koma þegar hún sagði að mestu skipti að börnum liði vel og að þau lærðu að taka þátt í samfélagi. Það væri hægt að googla Pýþagórasregluna. Tækniframfarir eru gríðarlega hraðar og hlutirnir eru að breytast hratt.
Ég tel að við þurfum að endurhugsa hvernig við kennum börnunum okkar og hvað við þurfum að kenna þeim. Ég tel að svarið sé ekki að bæta stanslaust á nemendur, kennara og foreldra. Við þurfum að breyta um viðhorf og aðferðir.
Ef ég réði öllu í skólastefnu Mosfellsbæjar þá myndi ég byrja á því að senda starfsfólk á námskeið í virkri hlustun. Það kostar ekki mikið og skilar miklum árangri. Það veldur svo mikilli streitu að upplifa að það sé ekki hlustað, að vera ekki mætt þar sem maður er staddur. Þetta er ekki flókið en mjög skilvirkt. Byrja skólann kl. 9, minnka streitu hjá nemendum, kennurum og foreldrum. Sleppa heimanámi. Gera skapandi lærdómi hærra undir höfði. Finna leiðir til að fá sem mest fyrir minnst erfiði. Finnar eru að fá góðar niðurstöður úr Pisa könnunum. Kenna gagnrýna hugsun, sköpunarkraft, samkennd og sjálfsvirðingu. Hætta að reyna að troða öllum í litla þrönga boxið. Virkja kraftinn, ekki bæla niður.
Sumir kennarar eru framúrskarandi og eru alveg með þetta en skólakerfið er ekki með þetta almennt. Ég vona heitt og innilega að menntastefna Mosfellsbæjar sem verður kynnt verði framúrskarandi.

Hulda M. Eggertsdóttir
Foreldri skólabarna í Mosfellsbæ

Fimm leiðir í átt að vellíðan!

Berta Þórhalladóttir

Langt síðan síðast, Berta hér að skrifa. Það er frábært að sjá hvað Mosfellingar eru duglegir að hreyfa sig. Þar sem ég brenn fyrir því að miðla því hvað veitir okkur vellíðan þá langaði mig að deila með ykkur fimm leiðum sem eru byggðar á rannsóknum í átt að aukinni vellíðan.
Eflaust vita margir af þessum leiðum en það er hollt og gott að minna sig á!

1. Mynda tengsl
– Við höfum þörf fyrir að mynda tengsl við fólkið í kringum okkur. Hvort sem það er fjölskyldan, vinir, vinnufélagar eða nágrannar. Það getur aukið hamingjuna að bjóða góðan daginn og brosa til náungans.

2. Að hreyfa sig
– Öll hreyfing er af hinu góða, hvort sem það er göngutúr, að rækta garðinn, dansa eða mæta í ræktina. Með því að æfa með hóp af fólki eða vinum þá aukum við líkurnar á því að við hreyfum okkur oftar.

3. Að taka eftir
– Höldum áfram að vera forvitin, tökum eftir því hvernig umhverfið breytist þegar veturinn skellur á. Verum vakandi fyrir því hvað er að gerast í kringum okkur og hvernig okkur líður.

4. Að prófa nýja hluti og skora á okkur sjálf
– Prófum að fara nýja leið í vinnuna, skráum okkur á nýtt námskeið eða ef til vill breytum okkar hefðbundnum venjum eins og að setjast á nýjan stað við matarborðið. Það getur verið skemmtilegt að prófa nýja hluti og enn fremur getur það leitt til jákvæðra áhrifa á vellíðan okkar og sjálfstraust.

5. Gefum af okkur
– Að gefa af sér þarf ekki að kosta neitt. Í einföldustu mynd getur það verið að brosa til náungans, segja eitthvað fallegt við vini okkar, sýna þakklæti eða gefa af tíma okkar. Það getur jafnframt verið gott að muna eftir því að vera góður við sjálfan sig og hrósa sér af og til.

Rannsóknir sýna að lítilsháttar aukning á vellíðan getur hjálpað okkur að blómstra í lífinu og það að gefa þessum þáttum gaum getur styrkt okkur í þeirri vegferð.
Að lokum má ég til með að segja ykkur frá námskeiði sem ég mun leiða í World Class Mosfellsbæ, sem heitir Súperform! Þar munum við styrkja tengslabönd okkar með því að æfa saman í hóp, skorum á okkur með því að prófa nýja hluti og styrkjum sjálfstraust okkar.
Þetta er 6 vikna námskeið sem hefst þann 1. nóvember næstkomandi.
Æfingar fara fram á mánu-, miðviku- og föstudögum kl. 17:30. Föstudagstíminn mun fara fram í heitum sal og er í mýkri kantinum þar sem hann er tileinkaður sjálfsumhyggju.
Ef þetta er eitthvað sem heillar þig þá er hægt að skrá sig á námskeiðið hjá World Class.

Hvatningarkveðja,
Berta Þórhalladóttir

Menntastefna Mosfellsbæjar í mótun

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Bærinn stækkar og börnum fjölgar.

Umhyggja og vellíðan eru orð sem heyrðust á skólaþinginu sem haldið var í Helgafellsskóla þann 11. október síðastliðinn. Þar sátu fulltrúar foreldra og lögðu fram sínar hugmyndir í vinnu við endurskoðaða menntastefnu Mosfellsbæjar. Fyrr þennan sama dag höfðu nemendur og kennarar sagt sínar skoðanir og lagt sitt af mörkum við mótun stefnunnar.
Stefnan sem nú er í mótun byggist á Skólastefnu Mosfellsbæjar frá 2010 en sú stefna gaf nýjan og metnaðarfullan tón þar sem raddir barna voru í hávegum hafðar. Þar sýndi Mosfellsbær mikið frumkvæði. Stefnan er einnig, líkt og aðrar stefnur sem gerðar hafa verið, byggð á heildarstefnumótun Mosfellsbæjar þar sem mótuð var framtíðarsýn og áherslur fyrir sveitarfélagið.
Bærinn hefur stækkað og börnum fjölgað og mikilvægt að sem flestir komi að gerð stefnunnar því þannig náum við sátt um hverjar áherslurnar eiga að vera í skólastarfi í okkar bæ. Þann 6. nóvember verður haldið íbúaþing í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ og hvetja bæjaryfirvöld Mosfellinga til þátttöku á þinginu.

Fulltrúi frá hverjum skóla
Vinna við stefnuna hófst í maí sl. og á stefnan, samkvæmt áætlun, að verða tilbúin til útgáfu og innleiðingar í byrjun árs 2022. Öll vinna og utanumhald um nýja menntastefnu er í höndum verkefnateymis og Ragnheiðar Agnarsdóttur ráðgjafa. Í verkefna­teyminu eru fulltrúar frá hverjum skóla bæjarins ásamt fulltrúa frá frístundaseli.

Stöðug þróun
Þótt skólar séu í eðli sínu íhaldssamar stofnanir er stöðug þróun í gangi og sífellt verið að skoða hvernig mæta megi börnum betur í skóla fjölbreytileikans. Til að hefja þessa endurskoðun á menntastefnu voru lagðar fram nokkrar spurningar til umræðu og má nefna; hver eru og verða okkar meginviðfangsefni næstu 3-5 árin? Hvernig ætlum við að mæta áskorunum? Hver eiga gildi skólastarfs að vera? Hver eru markmið skólastarfsins? Hvernig getum við lagt mælikvarða á árangur daglegs starfs? Hvernig birtum við og miðlum mælikvörðum? Hvernig tölum við meira um það sem vel er gert? Getum við sýnt meiri samstöðu þegar upp koma áskoranir í skólastarfinu? Hver er sérstaða skólastarfs í Mosfellsbæ?
Þetta eru mikilvægar spuringar og er ég sannfærð um að við náum góðri sátt um hvert við stefnum í fræðslumálum í Mosfellsbæ.

Fræðslumál í forgangi
Nú í tíð Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna hafa skólamálin ávallt verið í forgangi. Fyrir utan vinnu við menntastefnuna eru ótal mörg verkefni á dagskrá. Í kjölfar mikillar fjölgunar íbúa í bæjarfélaginu á síðastliðnum árum hefur verið byggður nýr grunnskóli í Helgafelli og á næsta ári verður byggður nýr leikskóli í sama hverfi.
Eins árs gömul börn er okkar nýi árgangur á ungbarnadeildum sem hefur kallað á miklar breytingar á leikskóladeildum og leikskólalóðum. Má nefna að leikskólinn Hlíð er nú eingöngu ungbarnaleikskóli en þar fer fram gríðarlega faglegt og fallegt starf með okkar yngsta fólki. Einnig má nefna átak í upplýsingatæknimálum og síðast ekki síst miklar endurbætur á skólahúsnæði og íþróttamiðstöðvum svo eitthvað sé nefnt.

Meðfylgjandi eru töflur sem sýna fjölgun leik- og grunnskólabarna sl. 10 ár. Þetta eru okkar mikilvægustu verkefni og verða áfram.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir,
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar

Skipulag og andmæli til heimabrúks

Ljósmynd tekin frá tjaldstæði Mosfellsbæjar yfir í átt að Esjunni.

Sveinn Óskar Sigurðsson

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, þ.e. á fundi skipulagsnefndar nr. 453 þann 19. janúar 2018, var samþykkt harðorð bókun um áform Reykjavíkurborgar að koma fyrir mengandi iðnaði á Esjumelum.
Fund þennan sátu: Bryndís Haraldsdóttir, Bjarki Bjarnason, Theódór Kristjánsson, Samson Bjarnar Harðarson, Júlía Margrét Jónsdóttir og Gunnlaugur Johnson sem áheyrnarfulltrúi. Að auki sat Ólafur Melsteð skipulagsfulltrúi fundinn sem staldraði reyndar stutt við sem starfsmaður Mosfellsbæjar og starfar nú á Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar sem verkefnastjóri skipulagsfulltrúa.
Í bókun nefndarinnar segir m.a.: ,,Skipulagsnefnd Mosfellsbæjar lýsir yfir áhyggjum sínum vegna fyrirhugaðrar stækkunar á athafnasvæði á Esjumelum norðan við Leirvogsá. Nefndin mótmælir því ef koma skal mengandi iðnaður með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa í Mosfellsbæ og nágrenni. Slík starfsemi væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur því svæðið er skipulagt sem athafnasvæði en ekki iðnaðarsvæði.“
Í bókun nefndarinnar er svo m.a. minnst á áformaða moltugerð, Leirvogsá sem dýrmæta laxveiðiá og útivistarperlu. Það er því greinilegt að nefndarmönnum var mikið niðri fyrir enda stutt í kosningar.
Á bæjarstjórnarfundi númer 709 var þessi dagskrárliður samþykktur með öllum atkvæðum bæjarstjórnarmanna, þ.e. með 9 atkvæðum. Þann bæjarstjórnarfund sátu: Bjarki Bjarnason, Rúnar Bragi Guðlaugsson, Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, Haraldur Sverrisson, Hafsteinn Pálsson, Theódór Kristjánsson, Anna Sigríður Guðnadóttir, Ólafur Ingi Óskarsson og Sigrún H. Pálsdóttir ásamt fundarritaranum Arnari Jónssyni. Því er greinilegt að mikil samstaða var um að mótmæla þessum áformum Reykjavíkurborgar harðlega.
Á síðari fundi skipulagsnefndar númer 457 þann 16. mars 2018 sátu allir sem sátu á fyrrnefndum fundi. Þar voru teknir fyrir og samþykktir dagskrárliðirnir nr. 3 um aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 um breytta afmörkun landnotkunar, og nr. 4 einnig um aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 en sérstaklega um iðnað og aðra landfreka starfsemi sem nefndin gerði réttilega athugasemd við. Það er í góðum takti við harðorða bókun nefndarinnar á 453. fundi nefndarinnar frá því í janúar.
Á fundi svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins (SSH) 2. mars 2018, sem Bryndís Haraldsdóttir sat fyrir hönd Mosfellsbæjar, var þrátt fyrir allt samþykkt undir 5. dagskrárlið áform Reykjavíkurborgar um „endurskilgreiningu landnotkunarheimilda á einstökum“ atvinnusvæðum og engin athugasemd gerð um það af hálfu fulltrúa Mosfellsbæjar, síður en svo. Bókun nefndarinnar er eftirfarandi: „Svæðisskipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við verklýsinguna enda verði horft til greiningar svæðisskipulagsnefndar um landþörf iðnaðar- og athafnasvæða á höfuðborgarsvæðinu öllu. Mikilvægt er að viðhafa gott samstarf allra sveitarfélaganna þegar kemur að staðsetningu á starfsemi sem hefur ónæði í för með sér.“
Gufuðu andmælin öll upp? Síðar á 83. fundi svæðisskipulagsnefndarinnar 4. maí 2018 var tekin fyrir 2. dagskrárliður þar sem fulltrúi VSÓ kynnti frumniðurstöður úttektar á athafna- og iðnaðarsvæðum innan vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins. Ekki er annað séð á bókun nefndarinnar í heild sinni, þar sem 2 fulltrúar Mosfellsbæjar sátu rétt fyrir kjördag, að kynningunni og áformunum hafi verið fagnað.
Nú er svo komið að ágætt fyrirtæki, sem vissulega gætir sinna hagsmuna, hefur reist malbikunarstöð á Esjumelum. Markmiðið var að um væri að ræða mengunarlausa stöð þar sem illa nýtt metan frá Sorpu gerði stöðina grænni en hún annars yrði. Fregnir herma að enn hafi ekkert orðið úr þeim áformum þar sem Sorpa getur ekki afhent með góðu móti nægt metan í því magni sem til þarf svo þurrka megi fylliefnið í malbikið án þess að dregið sé úr afköstum.
Eftir stendur fyrir okkur Mosfellinga að útsýnið er orðið allt annað „þökk“ sé mótmælum meirihlutans í bæjarstjórn o.fl. Svo virðist sem gufan hafi hér stigið mönnum til höfuðs.

Sveinn Óskar Sigurðsson, fulltrúi Miðflokksins í bæjarráði og bæjarstjórn Mosfellsbæjar og á sæti í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins (SSH) fyrir Mosfellsbæ.

Helgafellshverfi í mikilli uppbyggingu

Deiliskipulag 5. áfanga Helgafellshverfis sem er í auglýsingu.

Ásgeir Sveinsson

Uppbygging í Helgafellshverfi er komin vel á veg, fjöldi fólks er fluttur á svæðið og glæsilegur grunnskóli farinn að þjónusta nýja íbúa Mosfellsbæjar.
Hið stóra hverfi hefur að mestu byggst upp í samræmi við rammaskipulag sem samþykkt var af bæjarstjórn Mosfellsbæjar árið 2005. Fyrsti áfangi var miðsvæði hverfisins sem jafnan nefndist „Augað“. Þar er vönduð og þétt byggð næst þjónustunni. Síðan hafa tveir vel heppnaðir áfangar fullbyggst í kjölfarið, 2. og 3. áfangi.
Framkvæmdir í 4. áfanga Helgafellshverfis hófust árið 2020 og er það Byggingafélagið Bakki ehf. sem sér um uppbyggingu á því svæði. Byggðarmynstur 4. áfanga einkennist helst af sérbýli bæði sem einbýli og raðhús en einnig verður úrval eigna í smærri tveggja og þriggja hæða fjölbýlishúsum.

Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar þann 21. október sl. var samþykkt að setja í auglýsingu deiliskipulag fyrir 5. áfanga Helgafellshverfis. Í 5. áfanga er gert ráð fyrir að verði um 150 íbúðareiningar, mestmegnis einbýlis-, par- og raðhús. Auk þess verða nokkur lágreist tveggja hæða fjölbýli neðst í áfanganum. Þannig njóta allar lóðir útsýnis og sólarátta. Síðan er svo gert ráð fyrir í skipulaginu lóð undir 5 íbúða búsetukjarna fyrir fólk með fötlun. Hönnun skipulagsins hefur tekist einstaklega vel og þá sérstaklega að laga það vel að umhverfinu í kring. Það er því óhætt að segja að 4. og 5. áfangi Helgafellshverfis verði mjög góð viðbót við það glæsilega hverfi sem hefur verið að byggjast upp í suðurhlíðum Helgafells.

Helga Jóhannesdóttir

Markmið deiliskipulags hverfisins eru meðal annars að móta byggð sem sé til þess fallin að stuðla að góðu mannlífi, tryggja góð tengsl við umhverfið og gott fyrirkomulag stíga, gatna og opinna svæða. Byggð mun auk þess stuðla að góðri skjólmyndun fyrir svæðið í heild. Gata hins nýja áfanga mun bera heitið Úugata, eftir persónunni Úu úr bókinni Kristnihald undir Jökli eftir Halldór Laxness.
Mosfellsbær er eigandi þessa landskika og mun því sveitarfélagið annast úthlutun nýrra lóða á næsta ári. Það þykir frekar sjaldgæft því eins og margir vita er mikið land innan landamerkja Mosfellsbæjar í einkaeigu.

6. áfangi næstur í röðinni
Uppbygging mun svo halda áfram og því hefur verið ákveðið að auglýsa skipulagslýsingu fyrir 6. áfanga Helgafellshverfis. Um er að ræða nyrsta hluta hverfisins fyrir norðan Ásahverfið og er þar gert ráð fyrir 90 nýjum sérbýliseignum.
Auk ofangreindra áfanga er svokölluð Helgafellstorfa á skipulagi Helgafellshverfisins, en það er svæði í kringum Helgafellsbæina gömlu. Þar er gert ráð fyrir byggð í framtíðinni.
Í framhaldi af nýbyggðum glæsilegum Helgafellsskóla þar sem er bæði grunn- og leikskóli, hefur verið ákveðið að byggja annan leikskóla í hverfinu. Áætlað er að hann verði svo tilbúinn árið 2023. Verða þessar frábæru byggingar barna og ungmenna hjarta hverfisins.
Það er ánægjulegt að geta aukið framboð lóða fyrir íbúðahúsnæði í Mosfellsbæ. Þetta fallega hverfi er með frábæra staðsetningu, sérstaklega fjölbreytt og fallegt, þar sem stutt er í náttúru Mosfellsbæjar, góðar gönguleiðir, skóla og aðra þjónustu.

Ásgeir Sveinsson
formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar.
Helga Jóhannesdóttir
nefndarmaður í skipulagsnefnd.

Forn klukkuómur frá 9. öld í Mosfellsdalnum

Björn Pétursson

Ævaforn kirkjuklukka í Mosfellskirkju frá frumkristni á Íslandi.

Mosfellsdalurinn hefur verið sögusvið merkra atburða sem tengjast kristninni, allt frá kristnitökunni á Íslandi er Grímur Svertingjason lögsögumaður að Mosfelli er skírður, þegar kristnin var lögtekin á Alþingi, en hann var giftur Þórdísi Þórólfsdóttir bróður- og stjúpdóttur Egils Skallagrímssonar, lét Grímur fljótlega reisa kirkju að Hrísbrú um 1001-1002, en sú kirkja er síðan ofan tekin að Hrísbrú, er Grímur hafði látið gera og kirkja reist að Mosfelli, lætur Þórdís þá flytja Egil Skallagrímsson til kirkju að Mosfelli.

Hundrað og tuttugu árum fyrr verður atburður, sem átti eftir að tengja sögu kirkjunnar á Mosfelli við landnámsmanninn Örlyg Hrappsson, sem nemur land í landnámi Helga Bjólu Ketilssonar frænda síns, sem gefur honum land milli Mógilsár og Ósvifslækjar á Kjalarnesi um 880, reisir hann þar kirkju kennda við Esjuberg, hefst þá sagan sem tengir kirkjuna kennda við Esjuberg frá um 880 og kirkjuna á Mosfelli um 1523.

Landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson kemur til Ísland frá Iona á Suðureyjum við vesturströnd Skotlands, en áður ákveður hann þó að mennta sig í hinum virta klausturskóla Kólumba á Iona, ásamt Kolli fóstbróður sínum, en frá árinu 865 var klaustrið á Iona á suðureyjum við vesturströnd Skotlands, nefnilega undir stjórn ábóta sem hét Federach mac Cormaic, hann leggur honum til kirkjuviðinn til að reisa kirkjuna kennda við Esjuberg; gullpening, vígða mold til að leggja undir hornstafi kirkjunnar, plenarium (írska messubók) og járnklukku vígða, en járnklukkan góða, er sú sem vefur saman söguþráð kirkjunnar sem kennd er við Esjuberg og kirkjunnar á Mosfelli.

Járnklukkan vinstra megin við altarið í nýju Mosfellskirkjunni, vígð 4. apríl 1965.

Járnklukkan góða er sú sama sem Halldór Kiljan Laxness skrifar um í Innansveitarkroniku bls 179–180, er hann lýsir kirkjuklukkunni (járnklukkunni) sem kom úr Mosfellskirkju eldri (1852-1888) og segir m.a :
Ramböldin eru fest ofan í klukkuhöfuðið með digrum koparlykkjum og mynda sexálma krónu (6–skipta) er klukkan hrjúf áferðar; hvorki kólfur né króna steypt, aðeins óvandlega hamrað.
Skrautrendur tvær sem ganga kringum bumbuna (krónuna), uppi og niðri í meira lagi skakkar, gerðar í mótið fríhendis eftir auganu.
Fróðleg væri að vita hvar svona klukka hafi verið steypt síðan fyrir árið 1000, en að dómi fornleifafræðinga virðist hún vera frá níundu öld, var klukkan fest upp í kórnum vinstra megin við altarið í þessari nýju kirkju á Mosfelli vígð 4. apríl 1965.
„Það er einginn efi á því að þessi klukka geymir hljóm síðan úr fornöld.
Tónn hennar er mikill í sér, lángur og skær og dvín titrandi.
Presturinn sagðist ætla að hríngja henni sjálfur við barnaskírnir af því hljómurinn í henni væri svo fallegur meðan hann væri að deyja út.“

Ferðalag kirkjuklukkunnar (járnklukkunnar) úr kirkjunni kenndri við Esjuberg um 1269-1275, hefst þegar Árni Þorláksson Skálholtsbiskup (1269-1298) tekur kirkjuklukkuna (járnklukkuna) um 1269, er hafði verið spillt af ryði, lét búa og líma öll blöðin í kjölinn, en eftir viðgerðina í Skálholti um 1275 fer kirkjuklukkan (járnklukkan) að Hofi á Kjalarnesi í hálf kirkjuna og er hún þar til um 1523, þegar Ögmundur Pálsson verður Skálholtsbiskup (1521-1541), færist þá kirkjuklukkan (járnklukkan) frá hálf kirkjunni að Hofi á Kjalarnesi í Mosfellskirkju frá um 1523, en hverfur þá af sjónarsviðinu, og verður aftur sýnileg, þegar hún birtist í klukkuturninum á Mosfellskirkju eldri (1852–1888).

Kirkjuklukkan (járnklukkan) hverfur síðan aftur af sjónarsviðinu 1888, er saga hennar þekkt úr Innansveitarkroniku Halldórs Kiljan Laxness, þar til hún birtist síðan aftur í nývígðri Mosfellskirkju 4. apríl 1965, þar sem hún er fest upp vinstra megin við altarið, en þarna er hún með sinn fornaldarhljóm frá 9. öld, sem óskilgetið barn, sem bíður þess að uppruni hennar verði sannaður, og telst þá vera elsta kirkjuklukka Íslands um 1150 ára.

Björn Pétursson

Helgafellshverfi – nýir áfangar og nýr vegur

Stefán Ómar Jónsson

4. áfangi
Eins og íbúar í Helgafellshverfi hafa eflaust orðið varir við eru hafnar framkvæmdir við 4. áfanga í Helgafellshverfi og miðar þeim vel í höndunum á traustum byggingaraðila, Byggingarfélaginu Bakka ehf.

5. áfangi
Á síðasta fundi skipulagsnefndar var til umræðu uppbygging á 5. áfanga í Helgafellshverfi og er sá áfangi alfarið á hendi Mosfellsbæjar, bæði að skipuleggja og í framhaldinu að úthluta þeim lóðum sem þar verða til.
Í 5. áfanga er ráðgert að íbúðir verði í fjölbýlishúsum, raðhúsum, parhúsum, einbýlishúsum auk búsetukjarna og verða áformin kynnt íbúum og hagsmunaaðilum svo sem skipulagslög gera ráð fyrir.

Vegtenging austur úr Helgafellshverfi
Á þessum sama fundi skipulagsnefndar varð umræða um vegtengingu austur úr Helgafellshverfi þar sem fulltrúi Vina Mosfellsbæjar lét bóka eftirfarandi. „Fulltrúi Vina Mosfellsbæjar minnir á að hann hefur í tvígang flutt tillögu um að þegar verði hafinn undirbúningur að gerð vegar austur úr Helgafellslandi og mun fylgja þeim tillöguflutningi eftir“.
Vegur austur úr Helgafellshverfi er á aðalskipulagi Mosfellsbæjar, vegurinn er ráðgerður og nauðsynlegur og hefjast þarf handa við undirbúning lagningar hans svo fljótt sem verða má.

Stefán Ómar Jónsson,
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar.

Ófærð í Mosfellsbæ

Sveinn Óskar Sigurðsson

Í nýliðnum mánuði kom fram í fréttum að fyrrverandi forseti Íslands kæmist ekki lengur með góðu móti í reglulegan göngutúr um Mosfellsbæ.
Ástæða þess er að samgöngumannvirki fyrir gangandi til og frá heimili hans meðfram Varmá væru ekki aðeins torfær heldur ófær. Hafði Varmáin blessunin bólgnað nokkuð og flæddi yfir bakka sína. Forsetinn fyrrverandi reyndi að fara með löndum og birti athugasemd sína á Twittersíðu sinni á enskri tungu. Stillti hann athugasemdum sínum í hóf en engu að síður fengu þær heimsathygli.
Í 3. ml. 3. mgr. yfirmarkmiða 6. kafla um staðarmótun og landslagsvernd, sem lesa má í tillögu Skipulagsstofnunar til umhverfis- og auðlindaráðherra að landsskipulagsstefnu (2015-2026) frá í febrúar sl., segir: „Eins getur húsum, götum í þéttbýli, vegum í sveitum og útivistarstígum verið þannig fyrir komið að fólki gefist tækifæri til að skynja og öðlast nýja sýn á landslag viðkomandi svæðis.“ Þessi texti á vel við hvað umhverfið meðfram Varmá varðar.

Svo virðist sem bæjaryfirvöld hafi eitthvað tjáð sig um málið. Segir sagan að ástæðan fyrir því að útivistarstígurinn væri forsetanum fyrrverandi ófær sé sú að íbúar við Varmá vildu ekki fórna landi sínu svo hemja mætti á sem væri á náttúruminjaskrá.
Svo virðist sem að deilur hafi staðið í áraraðir og Mosfellsbær ákveðið að friða ána alla árið 2012 til að lægja öldurnar. En Varmá tók þessu greinilega fálega enda flæðir hún enn yfir bakka sína, nú víðs fjarri heimili fyrrverandi forsenda landsins eða í um 300 metra fjarlægð. Fullyrt er að einhver skýrsla hafi verið tekin af forsetanum fyrrverandi af hálfu Mosfellsbæjar en engar spurnir eru af henni og hún líklega flotið hjá kerfinu í vorleysingum.

Mynd tekin við göngustíg á bökkum Varmár í Mosfells­bæ. Ljósmyndari: Ólafur Ragnar Grímsson, fv. forseti Íslands og íbúi í Mosfellsbæ.

Fyrir leikmenn, m.a. þá sem ekki hafa komið nálægt opinberri stjórnsýslu svo nokkru nemi, virðist sem þarna þurfi tvo til þrjá vaska menn með skóflu í tvo til þrjá daga svo leysa megi vandann. En það þarf víst að bíða eftir skýrslunni.
Samkvæmt forstöðumanni Þjónustu- og samskiptadeildar Mosfellsbæjar, sem er jafnframt staðgengill bæjarstjóra í erfiðum málum, er Varmá á náttúruminjaskrá eins og að framan er getið.
Ekki má lesa úr þeirri tilvitnun, sem finna má á vef Fréttablaðsins 17. september 2021, annað en að fyrrverandi þjóðhöfðingi okkar verði að búa við torfæra stíga mun lengur en vænta mátti. Sama á einnig við um aðra bæjarbúa sem bregða sér reglulega í göngutúra í Mosfellsbæ.
Rétt er hér að ítreka að friðun árinnar allrar gekk í gildi 2012 en gildandi deiliskipulag, sem gerir ráð fyrir útivistarstíg með Varmánni, er frá árinu 2004. Því hefði verið í lófa lagið, þ.e. í tíð fyrri meiri hluta Sjálfstæðisflokks og VG, að koma málum þannig fyrir að göngustígar séu fremur færir en torfærir og hvað þá ófærir. Til að tryggja upplýsingaflæði og gagnsæi gagnvart bæjarbúum hefur bærinn merkt stíga torfæra.
Reikna má með að rosknir íbúar Mosfellsbæjar þurfi nú að ráða til sín fjallaleiðsögumenn áður en haldið er í göngutúr um bæinn, a.m.k. meðfram Varmánni.
Mosfellsbær rekur hér metnaðarfulla stefnu sem byggir á verkefninu Heilsueflandi samfélagi. Þar er sérstök áhersla lögð á hreyfingu og útivist. Ítrekað er mikilvægi þess að „einstaklingar á öllum aldri hafi tækifæri til að þroskast í leik og starfi, að hægt sé að bæta hið manngerða og huga að félagslegu umhverfi íbúa.“
Um lífsgæði segir: „Hér er einnig komið inn á heilsusamlegt húsnæði og umhverfi fyrir alla.“. Yfir þessu verkefni er stýrihópur sem ætti að standa með forsetanum fyrrverandi og þrýsta á úrbætur áður en vetur konungur gengur í garð. Það er ekki auðsamið við hann þegar allt frýs.

Sveinn Óskar Sigurðsson, fulltrúi Miðflokksins
í bæjarráði og bæjarstjórn Mosfellsbæjar.