Framsókn til framtíðar

Halla Karen Kristjánsdóttir

Kæri sveitungi, eins og flestum íbúum Mosfellsbæjar er kunnugt þá verða sveitarstjórnarkosningar þann 14. maí 2022.
Spennandi tími er fram undan og hægt að hafa góð og mikil áhrif. Við framsóknarfólk ætlum okkur að sjálfsögðu að mæta sterk til leiks og höfum nú þegar hafið kosningaundirbúning. Það er tilhlökkun í okkar fólki og kominn tími til aðgerða og sóknar og gera góðan bæ enn betri.
Þann 17. ágúst sl. var haldinn aðalfundur Framsóknarfélags Mosfellsbæjar og ný stjórn kosin:
Stjórnin er þannig skipuð: Halla Karen Kristjánsdóttir formaður, Þorbjörg Sólbjartsdóttir varaformaður, Örvar Jóhannsson ritari, Kjartan Helgi Ólafsson gjaldkeri og Leifur Ingi Eysteinsson meðstjórnandi. Varamenn: Eygló Harðardóttir og Sigurður E. Vilhelmsson.
Á félagsfundi okkar 10. nóvember sl. var svo tekin ákvörðun um að við röðun á framboðslista okkar fyrir kosningarnar í vor verði notast við uppstillingu. Á fundinum var einnig skipuð uppstillingarnefnd sem þegar hefur tekið til starfa og er það Ævar Sigdórsson sem leiðir starf nefndarinnar.
Við viljum hvetja alla sem hafa áhuga á að koma á fundi hjá okkur, mæta í gönguferðir eða taka þátt í starfinu með okkur á einn eða annan hátt, til að láta sjá sig á auglýstum viðburðum eða hafa samband við okkur til að tryggja að raddir sem flestra heyrist.
Þín rödd er mikilvæg og þú skiptir máli fyrir bæjarfélagið. Það er okkur mikilvægt að eiga gott samráð og samvinnu við ykkur bæjarbúa.
Við erum traust og heiðarleg, ætlum að vera með gleðina í fyrirrúmi og látum hana drífa verkin áfram og heilbrigða skynsemi ráða ferðinni.

Framsóknarkveðja
Halla Karen Kristjánsdóttir formaður