Helgafellshverfi í mikilli uppbyggingu

Deiliskipulag 5. áfanga Helgafellshverfis sem er í auglýsingu.

Ásgeir Sveinsson

Uppbygging í Helgafellshverfi er komin vel á veg, fjöldi fólks er fluttur á svæðið og glæsilegur grunnskóli farinn að þjónusta nýja íbúa Mosfellsbæjar.
Hið stóra hverfi hefur að mestu byggst upp í samræmi við rammaskipulag sem samþykkt var af bæjarstjórn Mosfellsbæjar árið 2005. Fyrsti áfangi var miðsvæði hverfisins sem jafnan nefndist „Augað“. Þar er vönduð og þétt byggð næst þjónustunni. Síðan hafa tveir vel heppnaðir áfangar fullbyggst í kjölfarið, 2. og 3. áfangi.
Framkvæmdir í 4. áfanga Helgafellshverfis hófust árið 2020 og er það Byggingafélagið Bakki ehf. sem sér um uppbyggingu á því svæði. Byggðarmynstur 4. áfanga einkennist helst af sérbýli bæði sem einbýli og raðhús en einnig verður úrval eigna í smærri tveggja og þriggja hæða fjölbýlishúsum.

Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar þann 21. október sl. var samþykkt að setja í auglýsingu deiliskipulag fyrir 5. áfanga Helgafellshverfis. Í 5. áfanga er gert ráð fyrir að verði um 150 íbúðareiningar, mestmegnis einbýlis-, par- og raðhús. Auk þess verða nokkur lágreist tveggja hæða fjölbýli neðst í áfanganum. Þannig njóta allar lóðir útsýnis og sólarátta. Síðan er svo gert ráð fyrir í skipulaginu lóð undir 5 íbúða búsetukjarna fyrir fólk með fötlun. Hönnun skipulagsins hefur tekist einstaklega vel og þá sérstaklega að laga það vel að umhverfinu í kring. Það er því óhætt að segja að 4. og 5. áfangi Helgafellshverfis verði mjög góð viðbót við það glæsilega hverfi sem hefur verið að byggjast upp í suðurhlíðum Helgafells.

Helga Jóhannesdóttir

Markmið deiliskipulags hverfisins eru meðal annars að móta byggð sem sé til þess fallin að stuðla að góðu mannlífi, tryggja góð tengsl við umhverfið og gott fyrirkomulag stíga, gatna og opinna svæða. Byggð mun auk þess stuðla að góðri skjólmyndun fyrir svæðið í heild. Gata hins nýja áfanga mun bera heitið Úugata, eftir persónunni Úu úr bókinni Kristnihald undir Jökli eftir Halldór Laxness.
Mosfellsbær er eigandi þessa landskika og mun því sveitarfélagið annast úthlutun nýrra lóða á næsta ári. Það þykir frekar sjaldgæft því eins og margir vita er mikið land innan landamerkja Mosfellsbæjar í einkaeigu.

6. áfangi næstur í röðinni
Uppbygging mun svo halda áfram og því hefur verið ákveðið að auglýsa skipulagslýsingu fyrir 6. áfanga Helgafellshverfis. Um er að ræða nyrsta hluta hverfisins fyrir norðan Ásahverfið og er þar gert ráð fyrir 90 nýjum sérbýliseignum.
Auk ofangreindra áfanga er svokölluð Helgafellstorfa á skipulagi Helgafellshverfisins, en það er svæði í kringum Helgafellsbæina gömlu. Þar er gert ráð fyrir byggð í framtíðinni.
Í framhaldi af nýbyggðum glæsilegum Helgafellsskóla þar sem er bæði grunn- og leikskóli, hefur verið ákveðið að byggja annan leikskóla í hverfinu. Áætlað er að hann verði svo tilbúinn árið 2023. Verða þessar frábæru byggingar barna og ungmenna hjarta hverfisins.
Það er ánægjulegt að geta aukið framboð lóða fyrir íbúðahúsnæði í Mosfellsbæ. Þetta fallega hverfi er með frábæra staðsetningu, sérstaklega fjölbreytt og fallegt, þar sem stutt er í náttúru Mosfellsbæjar, góðar gönguleiðir, skóla og aðra þjónustu.

Ásgeir Sveinsson
formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar.
Helga Jóhannesdóttir
nefndarmaður í skipulagsnefnd.