Mikið áunnist í fræðslumálum

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Fræðslumál eru stærsti málaflokkur sveitarfélagsins okkar en árlega fara um 60% af rekstrarkostnaði Mosfellsbæjar í málaflokkinn.
Á þessu kjörtímabili sem nú er að líða hefur mikil áhersla verið lögð á skólamálin og þrátt fyrir að kórónuveiran hafi lagst þungt á sveitarfélögin hefur þjónustan verið aukin í Mosfellsbæ. Ástæðan er að hér hefur verið haldið vel utan um fjármál og rekstur bæjarins.

Áherslan á fræðslumálin
Þessu kjörtímabili fer senn að ljúka og er vert að skoða hvað hefur áunnist í fræðslumálum á tímabilinu. Í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna var lögð mikil áhersla á að standa við bakið á okkar skólum og fagfólki, en þar stendur:
Menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins og D- og V-listi leggja megináherslu á öflugt og metnaðarfullt skólastarf. Miklar breytingar hafa átt sér stað í leik- og grunnskólum á síðustu áratugum, í kjölfar aukinna væntinga samfélagsins til skólakerfisins. Um leið eru stöðugar breytingar á þörfum nemenda. Heilbrigt skólaumhverfi stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan nemenda og starfsfólks.

Eftirfarandi voru áherslur D- og V-lista sem koma fram í málefnasamningi flokkanna:
Sama gjald frá 12 mánaða aldri – Foreldrar barna sem njóta þjónustu hjá Mosfellsbæ greiða sama gjald frá 12 mánaða aldri sama hvort barnið er hjá dagforeldri eða á leikskóla.
12 mánaða börn fá pláss á leikskólum – Nýr árgangur er kominn á leikskólana og eru 125 pláss á ungbarnadeildum. Leikskólinn Hlíð er nú ungbarnaleikskóli. Leikskólaplássum var fjölgað og eru nú 933 pláss í boði.
Lækka leikskólagjöld um 25% – Leikskólagjöld hafa lækkað um 5% á ári síðan 2018.
Bæta skólaþjónustuna – Ráðgjöf skólaþjónustunnar hefur verið efld með fleiri stöðugildum sálfræðinga og auknu stöðugildi talmeinafræðings. Meiri samvinna við fjölskyldusvið og barnavernd.
Átak í upplýsingatæknimálum – Spjaldtölvur og krómbækur eru nú í hverjum grunnskóla. Sérstakur ráðgjafi fenginn til að innleiða rafræna kennsluhætti. Leiðtogateymi nú í hverjum skóla.
Endurbætur skólahúsnæðis – Öll skólamannvirki skimuð og miklar endurbætur gerðar, sérstaklega í Varmárskóla.
Endurskoðun menntastefnu – Unnið er að endurskoðun menntastefnu og verður rafrænt Íbúaþing nú á laugardaginn. Innleiðing á stefnunni hefst byrjun árs 2022.
Helgafellsskóli heildstæður 200 daga skóli – Í upphafi skólaárs var fullbúinn skóli tekinn í notkun og 200 daga skóli hefur verið innleiddur á yngsta stigi.
Fjölga stöðugildum í Listaskólanum – Stöðugildum í Listakólanum hefur verið fjölgað á undanrörnum árum.

Eins og sést á upptalningunni hér á undan hefur gengið vel að framkvæma þau stefnumál sem kynnt voru af meirihlutanum í upphafi kjörtímabilsins og eru þau öll orðin eða alveg að verða að veruleika.

Áframhaldandi uppbygging
Áfram verður haldið með uppbyggingu í Mosfellsbæ og hefur m.a. verið tekin ákvörðun um byggingu leikskóla í Helgafellshverfi sem hefst á næsta ári. Í drögum að fjárhagsáætlun til ársins 2025, sem nú er til umræðu í bæjarstjórn og nefndum, er gert ráð fyrir byggingu íþróttahúss við Helgafellsskóla og nýrri þjónustubyggingu við íþróttahúsið að Varmá. Í þjónustubygginguinni er m.a. gert ráð fyrir nýju anddyri, búningsaðstöðu og aðstöðu fyrir Aftureldingu. Höldum áfram að gera góðan bæ betri.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi
og formaður fræðslunefndar.