Covid-19 stöðuskýrsla fjölskyldusviðs

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Frá því Covid-19 skall á með öllum þeim ósköpum sem því hefur fylgt hefur skapast umræða í þjóðfélaginu um að heimilisofbeldi hafi aukist mikið og tilkynningum til barnaverndar fjölgað.
Heilu fréttatímarnir voru undirlagðir og mikið gekk á á höfuðborgarsvæðinu í þessum málum, en þar var þó aðallega verið að vísa til fjölgunar í öðrum sveitarfélögum því á sama tíma í Mosfellsbæ sáum við ekki merkjandi aukningu í þessum sömu tilkynningum.
Við byrjuðum að fjalla sérstaklega um þessi mál á fundum okkar í fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar, upplýsingum var safnað fyrir nefndina og fékk málið heitið „Covid-19 stöðuskýrsla fjölskyldusviðs“. Þessi skýrsla var fyrst lögð fram á 293. fundi fjölskyldunefndar 19. maí 2020. Þar var ekki að sjá sýnilega aukningu í þeim málefnum sem fjallað hafði verið um í fréttum. Á fundi nefndarinnar nr. 292 sem haldinn var 17. mars var farið yfir mál sviðsins vegna Covid-19 áhrifa og tryggt að allir skjólstæðingar Mosfellsbæjar fengju nauðsynlega þjónustu og gerðar yrðu ráðstafanir til að tryggja bæði starfsmönnum og notendum þjónustu fyllsta öryggi vegna aðstæðna. Það tókst og eiga starfsmenn fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar hrós skilið fyrir góðan undirbúning og skipulag.

Síðan fyrsta skýrslan var lögð fram í maí 2020 höfum við á hverjum fundi nefndarinnar lagt hana fram og við fylgst með og rýnt í þær upplýsingar sem liggja fyrir hverju sinni. Starfsmenn fjölskyldusviðs hafa á sama tíma unnið ötullega að því að hlúa að þeim einstaklingum og fjölskyldum sem um er fjallað.

Það sem er einna ánægjulegast að segja frá er að þrátt fyrir fjölgun samþykktra umsókna um fjárhagsaðstoð milli áranna 2019–2020 lítur út fyrir að árið 2021 þurfi um 24% færri einstaklingar fjárhagsaðstoð. Það er frábært þegar fólk kemst aftur út á vinnumarkaðinn eftir alls konar áföll. Á sama tíma sjáum við að atvinnulausir Mosfellingar eru óðum að nálgast 2019 tölurnar en áður en Covid-19 skall á var þegar byrjað að halla undan fæti á vinnumarkaðinum og Mosfellingar fengu sinn skerf af því eins og aðrir. Þegar mest var voru 569 Mosfellingar á atvinnuleysisskrá, í mars 2021, en voru í september 2021 komnir niður í 297. Fæstir atvinnulausir Mosfellingar voru 124 í janúar 2019 og má því segja að enn er töluvert í land.

Varðandi tilkynningar til barnaverndar hefur verið ákveðin fylgni milli íbúafjölgunar og tilkynninga og þrátt fyrir að um 12% aukning hafi verið milli 2019–2020 lítur út fyrir að árið 2021 verði aukning um 5%. Á sama tíma stefnir í að tilkynningum um heimilisofbeldi fækki um 22% milli áranna 2020-2021 sem er gott.
Ég minni á að á heimasíðu Mosfellsbæjar á mos.is er gulmerktur hnappur „Ég er barn og hef áhyggjur“. Þar geta börn sent inn tilkynningu ef þau þekkja einhvern sem þarf á aðstoð að halda og komið ábendingum til starfsmanna barnaverndar þar sem fullum trúnaði er heitið. Allar þær upplýsingar sem hafa komið fram hér að ofan eru aðgengilegar á heimasíðu Mosfellsbæjar, mos.is, undir fundargerðum fjölskyldunefndar og hvet ég íbúa að kynna sér þær.
Ég óska öllum Mosfellingum gleðilegrar hátíðar, árs og friðar og förum varlega um jólin í faðmi okkar nánustu.

Rúnar Bragi Guðlaugsson
bæjarfulltrúi og formaður fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar