Skólaþing Mosfellsbæjar

Hulda M. Eggertsdóttir

Mosfellsbær bauð til skólaþings á dögunum til að endurskoða skólastefnu Mosfellsbæjar. Væntanlega til að bæta brag og gefa þeim sem veita og nýta þjónustuna tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Frábært framtak.
Ég ákvað að skella mér, svona bara til þess að breyta heiminum. Þetta var vel skipulagt, búið að raða foreldrum í hópa eftir aldri barns. Ég lenti í frábærum hóp foreldra. Mér kom skemmtilega á óvart erindi Ingvar Hrannars Ómarssonar kennara og frumkvöðuls. Hann talaði um að það væri ekki lengd skjátíma heldur hvað væri verið að vinna í á skjánum sem skipti öllu. Spurningarnar voru helst til of margar og því var oft erfitt að klára að svara þeim á stuttan og einfaldan hátt. Bestar fundust mér spurningarnar um hvernig myndi ég breyta og bæta ef ég réði öllu. Og hin spurningin sem mér fannst betri og betri eftir því sem leið á frá þinginu, eru framúrskarandi skólar í Mosfellsbæ?
Það var augljóst að foreldrunum var mjög umhugað um velferð barnanna sinna. Það kom fram að þeir vildu starfsfólk sem væri hlýtt í viðmóti og myndaði tengsl við börnin. Að börnunum liði vel í skólanum, að þau lærðu góða siði, væru kurteis og til fyrirmyndar. Þá var mér hugsað til allra barnanna sem líður illa í skólanum og eru ókurteis.
Það er verið að gera mjög margt gott í skólastarfinu í Mosfellsbæ en engu foreldri á svæðinu fannst einhver skóli í Mosfellsbæ framúrskarandi, það virtist koma nærstöddum á óvart. En eftir sem ég hugsa þessa spurningu betur þá hef ég vissulega upplifað framúrskarandi fólk í skólanum. Framúrskarandi er eitthvað sem er eftirtektarvert og vel gert.
Mér finnst ekkert merkilegt að kennari kenni nemanda sem er sterkur fyrir og sá nemandi sé hæstur í öllu og finnist gaman að læra. Það sem mér finnst framúrskarandi eru kennarar eins og íþróttakennararnir í Varmárskóla sem fá nemendur sem finnst erfitt að fara í sund og íþróttir til að fá áhuga og gleði á því að fara í sund og íþróttir. Það er töluvert auðveldara að læra það sem liggur vel fyrir manni heldur en það sem er erfitt. Að geta mætt nemandanum þar sem hann er staddur, með mildi og gleði. Að vekja áhuga á því sem verið er að læra. Það er gífurlegur kraftur í því að upplifa að vera mætt þar sem maður er staddur, að sett séu raunhæf markmið, vakinn sé áhugi. Að upplifa að það sé traust, að kennarinn hafi trú á viðkomandi. Það er framúrskarandi kennsla.
Mér fannst mikið til nýja skólastjórans í Varmárskóla koma þegar hún sagði að mestu skipti að börnum liði vel og að þau lærðu að taka þátt í samfélagi. Það væri hægt að googla Pýþagórasregluna. Tækniframfarir eru gríðarlega hraðar og hlutirnir eru að breytast hratt.
Ég tel að við þurfum að endurhugsa hvernig við kennum börnunum okkar og hvað við þurfum að kenna þeim. Ég tel að svarið sé ekki að bæta stanslaust á nemendur, kennara og foreldra. Við þurfum að breyta um viðhorf og aðferðir.
Ef ég réði öllu í skólastefnu Mosfellsbæjar þá myndi ég byrja á því að senda starfsfólk á námskeið í virkri hlustun. Það kostar ekki mikið og skilar miklum árangri. Það veldur svo mikilli streitu að upplifa að það sé ekki hlustað, að vera ekki mætt þar sem maður er staddur. Þetta er ekki flókið en mjög skilvirkt. Byrja skólann kl. 9, minnka streitu hjá nemendum, kennurum og foreldrum. Sleppa heimanámi. Gera skapandi lærdómi hærra undir höfði. Finna leiðir til að fá sem mest fyrir minnst erfiði. Finnar eru að fá góðar niðurstöður úr Pisa könnunum. Kenna gagnrýna hugsun, sköpunarkraft, samkennd og sjálfsvirðingu. Hætta að reyna að troða öllum í litla þrönga boxið. Virkja kraftinn, ekki bæla niður.
Sumir kennarar eru framúrskarandi og eru alveg með þetta en skólakerfið er ekki með þetta almennt. Ég vona heitt og innilega að menntastefna Mosfellsbæjar sem verður kynnt verði framúrskarandi.

Hulda M. Eggertsdóttir
Foreldri skólabarna í Mosfellsbæ