Skipulag og andmæli til heimabrúks

Ljósmynd tekin frá tjaldstæði Mosfellsbæjar yfir í átt að Esjunni.

Sveinn Óskar Sigurðsson

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, þ.e. á fundi skipulagsnefndar nr. 453 þann 19. janúar 2018, var samþykkt harðorð bókun um áform Reykjavíkurborgar að koma fyrir mengandi iðnaði á Esjumelum.
Fund þennan sátu: Bryndís Haraldsdóttir, Bjarki Bjarnason, Theódór Kristjánsson, Samson Bjarnar Harðarson, Júlía Margrét Jónsdóttir og Gunnlaugur Johnson sem áheyrnarfulltrúi. Að auki sat Ólafur Melsteð skipulagsfulltrúi fundinn sem staldraði reyndar stutt við sem starfsmaður Mosfellsbæjar og starfar nú á Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar sem verkefnastjóri skipulagsfulltrúa.
Í bókun nefndarinnar segir m.a.: ,,Skipulagsnefnd Mosfellsbæjar lýsir yfir áhyggjum sínum vegna fyrirhugaðrar stækkunar á athafnasvæði á Esjumelum norðan við Leirvogsá. Nefndin mótmælir því ef koma skal mengandi iðnaður með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa í Mosfellsbæ og nágrenni. Slík starfsemi væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur því svæðið er skipulagt sem athafnasvæði en ekki iðnaðarsvæði.“
Í bókun nefndarinnar er svo m.a. minnst á áformaða moltugerð, Leirvogsá sem dýrmæta laxveiðiá og útivistarperlu. Það er því greinilegt að nefndarmönnum var mikið niðri fyrir enda stutt í kosningar.
Á bæjarstjórnarfundi númer 709 var þessi dagskrárliður samþykktur með öllum atkvæðum bæjarstjórnarmanna, þ.e. með 9 atkvæðum. Þann bæjarstjórnarfund sátu: Bjarki Bjarnason, Rúnar Bragi Guðlaugsson, Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, Haraldur Sverrisson, Hafsteinn Pálsson, Theódór Kristjánsson, Anna Sigríður Guðnadóttir, Ólafur Ingi Óskarsson og Sigrún H. Pálsdóttir ásamt fundarritaranum Arnari Jónssyni. Því er greinilegt að mikil samstaða var um að mótmæla þessum áformum Reykjavíkurborgar harðlega.
Á síðari fundi skipulagsnefndar númer 457 þann 16. mars 2018 sátu allir sem sátu á fyrrnefndum fundi. Þar voru teknir fyrir og samþykktir dagskrárliðirnir nr. 3 um aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 um breytta afmörkun landnotkunar, og nr. 4 einnig um aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 en sérstaklega um iðnað og aðra landfreka starfsemi sem nefndin gerði réttilega athugasemd við. Það er í góðum takti við harðorða bókun nefndarinnar á 453. fundi nefndarinnar frá því í janúar.
Á fundi svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins (SSH) 2. mars 2018, sem Bryndís Haraldsdóttir sat fyrir hönd Mosfellsbæjar, var þrátt fyrir allt samþykkt undir 5. dagskrárlið áform Reykjavíkurborgar um „endurskilgreiningu landnotkunarheimilda á einstökum“ atvinnusvæðum og engin athugasemd gerð um það af hálfu fulltrúa Mosfellsbæjar, síður en svo. Bókun nefndarinnar er eftirfarandi: „Svæðisskipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við verklýsinguna enda verði horft til greiningar svæðisskipulagsnefndar um landþörf iðnaðar- og athafnasvæða á höfuðborgarsvæðinu öllu. Mikilvægt er að viðhafa gott samstarf allra sveitarfélaganna þegar kemur að staðsetningu á starfsemi sem hefur ónæði í för með sér.“
Gufuðu andmælin öll upp? Síðar á 83. fundi svæðisskipulagsnefndarinnar 4. maí 2018 var tekin fyrir 2. dagskrárliður þar sem fulltrúi VSÓ kynnti frumniðurstöður úttektar á athafna- og iðnaðarsvæðum innan vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins. Ekki er annað séð á bókun nefndarinnar í heild sinni, þar sem 2 fulltrúar Mosfellsbæjar sátu rétt fyrir kjördag, að kynningunni og áformunum hafi verið fagnað.
Nú er svo komið að ágætt fyrirtæki, sem vissulega gætir sinna hagsmuna, hefur reist malbikunarstöð á Esjumelum. Markmiðið var að um væri að ræða mengunarlausa stöð þar sem illa nýtt metan frá Sorpu gerði stöðina grænni en hún annars yrði. Fregnir herma að enn hafi ekkert orðið úr þeim áformum þar sem Sorpa getur ekki afhent með góðu móti nægt metan í því magni sem til þarf svo þurrka megi fylliefnið í malbikið án þess að dregið sé úr afköstum.
Eftir stendur fyrir okkur Mosfellinga að útsýnið er orðið allt annað „þökk“ sé mótmælum meirihlutans í bæjarstjórn o.fl. Svo virðist sem gufan hafi hér stigið mönnum til höfuðs.

Sveinn Óskar Sigurðsson, fulltrúi Miðflokksins í bæjarráði og bæjarstjórn Mosfellsbæjar og á sæti í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins (SSH) fyrir Mosfellsbæ.