Árni Páll Árnason

Það er þörf fyrir jafnaðarflokk

Árni Páll Árnason

Árni Páll Árnason

Í aðdraganda þessara kosninga er að sjá miklar fylgissveiflur og umrót.
Flest bendir til að núverandi stjórnarflokkar missi meirihluta sinn í næstu kosningum og að líklega verði meira en helmingur þingmanna nýir. Það er mikilvægt hafa við þær aðstæður rótgróinn og reynslumikinn umbótaflokk sem byggir á 100 ára sögu samfélagsumbóta og vill breytingar, en hefur líka reynslu af því að koma breytingum í gegn – og líka stundum af því að ná þeim ekki í gegn. Samfylkingin er þannig flokkur.
Við vitum hvernig á að koma málum áfram og vitum líka á hverju góður umbótahugur getur strandað. Og það sem mestu skiptir er að við höfum alltaf sett almannahagsmuni framar sérhagsmunum í öllum okkar verkum. Við erum stolt af okkar arfleifð og erum alltaf jafnaðarmenn – ekki bara fyrir kosningar.

Til að sýna fram á þetta vil ég nefna eina dæmisögu: Þegar ég kom á minn fyrsta kosningafund í Mosfellsbæ fyrir kosningarnar 2007 var það mér áfall að heyra að aldraðir íbúar Mosfellsbæjar væru fluttir hreppaflutningum norður á Dalvík eða austur á Kirkjubæjarklaustur á öldrunarstofnanir, því ekkert hjúkrunarheimili væri í bænum. Þegar ég settist í stól félagsmálaráðherra vorið 2009 var það mér forgangsverkefni að koma framkvæmdum við byggingu hjúkrunarheimila af stað, en ekkert fé var til í ríkissjóði.
Til að leysa það mál stóð ég fyrir lagabreytingum sem tryggðu að Íbúðalánasjóður gæti fjármagnað 100% lán til slíkra bygginga. Það varð að veruleika og bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ tóku þann bolta og fóru strax af stað í uppbyggingu á hjúkrunarheimilinu Hömrum. Það stendur í dag sem frábær minnisvarði um að það er hægt að gera góða hluti þótt illa ári og það er hægt að setja mannbótarverkefni í forgang á erfiðum tímum.
En þessi saga sýnir líka að það skiptir á endanum öllu máli að hafa stjórnmálaafl við landsstjórnina sem finnur færa leið. Þess vegna bið ég ykkur um að setja krossinn við S í kosningunum 29. október.

Árni Páll Árnason
Höfundur skipar 1. sæti á lista
Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Grímur Sæmundsen

Tölum um ferðaþjónustuna

Grímur Sæmundsen

Grímur Sæmundsen

Vart hefur fjölgun innlendra sem erlendra ferðamanna farið fram hjá nokkrum íbúa Mosfellsbæjar frekar en í öðrum bæjarfélögum.
Verslun og viðskipti hafa aukist svo um munar, í matvöruverslunum og eldsneytisstöðvum svo eitthvað sé nefnt. Gististaðir og afþreying hvers konar dafna vel í sveitarfélaginu eins og svo mörgum öðrum um allt land. Enda fara ferðamennirnir víða og skila tekjum og lífga uppá bæjarbrag.

Stóraukinn fjöldi erlendra ferðamanna hefur svo sannarlega skilað miklu í þjóðarbúið. Gjaldeyristekjur eru áætlaðar á þessu ári um 440 milljarðar króna og er gert ráð fyrir að greinin skili um 70 milljörðum beint í ríkissjóð í formi skatta og gjalda á þessu ári. Atvinnuleysi er víðast hvar horfið vegna uppgangs ferðaþjónustunnar og meirihluti allra fjárfestinga í byggingastarfsemi tengjast atvinnugreininni.

Ríkið dregur lappirnar
Ferðaþjónustan hefur brugðist hratt við til að taka á móti sívaxandi straumi ferðamanna. Þannig hefur atvinnuvegauppbyggingin verið með mesta móti en fjárfestingar í gistirýmum, bílaleigubílum, flugvélum og öðru tengdu ferðaþjónustu vega nú um 20% af allri atvinnuvegafjárfestingu í landinu.

Helga Árnadóttir

Helga Árnadóttir

Það sama verður því miður ekki sagt um fjárfestingu eða uppbyggingu á vegum ríkisins. Óverulegum fjármunum er varið til að mæta auknu álagi vegna ferðamanna. Sem dæmi má nefna að 60 ár eru síðan jafn lágu hlutfalli af landsframleiðslu hefur verið varið til vegakerfisins. Úrbætur á vinsælum ferðamannastöðum tefjast árum saman. Þá sárvantar mörg sveitafélög tekjustofna til að mæta auknum umsvifum, bæði til fjárfestinga og rekstrar.

Úrlausnarefnin blasa við um allt land og það er ekki síst á valdi Alþingis – fjárveitingavaldsins – að taka til hendinni. Um er að ræða almannagæði sem heyra undir hið opinbera og nægar eru tekjurnar til að ráðast í brýnar úrbætur sem þola enga bið. Tækifærin mega ekki fara forgörðum.

Fundur í Mosfellsbæ 10. október
Í aðdraganda þingkosninga verða Samtök ferðaþjónustunnar með opna fundi í öllum kjördæmum með oddvitum stjórnmálaflokkanna til að fara yfir stöðuna.
Málefni Mosfellsbæjar og annarra sveitarfélaga í Suðvesturkjördæmi verða tekin fyrir á fyrsta fundinum í þessari fundaröð, en hann verður haldinn í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar þann 10. október næstkomandi kl. 20.

Umræðuefnið er staða ferðaþjónustunnar almennt og sérstaklega í Suðvesturkjördæmi og hvaða hugmyndir oddvitar flokkanna hafa um að tryggja eðlilegan vöxt og viðgang atvinnugreinarinnar í sátt við land og þjóð. Ætla þeir að sitja hjá eða bretta upp ermar? Allir eru velkomnir og það verður heitt á könnunni.

Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Betra og réttlátara heilbrigðiskerfi – fyrir alla

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Við göngum til þingkosninga 7 mánuðum fyrr en áætlað var í kjölfar uppljóstrana um þátt æðstu íslensku stjórnmálamanna í Panamaskjölunum. Þær afhjúpuðu að hinir ríku og áhrifamiklu komu sér undan því að greiða með sanngjörnum hætti til skattkerfisins, í sameiginlega sjóði okkar allra.

Það er góðs viti að almenningur hafi mótmælt því þegar efnamikið fólk veigrar sér við því að borga sanngjarnan hlut í samneyslu okkar allra. Að þess sé krafist að hér sé samfélag þar sem við borgum öll skattana okkar, líka hinir ríku. Skattana sem renna í uppbyggingu á innviðum samfélagsins.

Íslendingum hefur ofboðið fleira á þessu kjörtímabili sem tengist skiptingu opinberra fjármuna og skorti á uppbyggingu og framtíðarsýn. Fólki hefur ofboðið fjársveltið á heilbrigðiskerfinu; að hlutfall opinberra fjármuna í heilbrigðiskerfið hafi farið ört lækkandi síðustu ár þrátt fyrir batnandi afkomu ríkissjóðs eftir Hrunið. Og fólk gerir kröfu um að þetta breytist. Tæpar 87 þúsund undirskriftir vitna um það.

Það er ekki skrítið að fólk geri skýrar kröfur um róttækar breytingar þegar kemur að heilbrigðiskerfinu. Ný skýrsla McKinsley sýnir að á Íslandi er lægra hlutfalli þjóðartekna varið til heilbrigðismála en á Norðurlöndunum, að Finnlandi undanskilið, og hefur lækkað stöðugt frá árinu 2003. Húsakostur Landspítalans er löngu úr sér genginn, stenst ekki gæðakröfur og ekki hefur verið staðið við áform um uppbyggingu spítalans. Álag fer stöðugt vaxandi og mönnun af hálfu sérfræðilækna er ófullnægjandi.

Til að rétta þessa skekkju af vilja Vinstri græn að árið 2020 verði heildarútgjöld til heilbrigðismála 10,6% af vergri landsframleiðslu. Það viljum við gera með því að auka opinber framlög úr 7,17% af VLF árið 2015 í 9% árið 2020. Til samanburðar voru árið 2015 opinber framlög til heilbrigðismála 9,27% í Svíþjóð , 8,91% í Danmörku, 8,47% í Noregi og 7,28 í Finnlandi.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum leggja það til að ný ríkisstjórn ráðist strax í að breyta þessu, að fyrsta verkefnið verði að móta aðgerðaráætlun um það hvernig þessum markmiðum verður náð og að sú áætlun liggi fyrir innan þriggja mánaða.
En það skiptir öllu máli hvernig við förum með opinbera fjármuni og við verðum að gæta þess að stýringu þeirra verði breytt. Undanfarin ár hafa fjárframlög til sérgreinalækninga vaxið ótæpilega meðan sjúkrahús og heilsugæsluþjónusta hafa setið eftir. VG mun beita sér fyrir því að snúa þeirri þróun við að á síðustu árum hafi fjölgun lækna fyrst og fremst orðið á einkastofum og æ fleiri aðgerðir og læknisverk hafi færst frá sjúkrahúsum á einkastofur sérgreinalækna. Sú þróun hefur m.a. verið gagnrýnd af Landlækni enda hefur þetta grafið undan mönnun á sjúkrahúsunum sem hafa mætt niðurskurði alltof lengi.
Látum heilsugæsluna fara að virka sem raunverulegan fyrsta valkost og eflum sérgreinalækningar inni á sjúkrahúsunum. Vindum svo okkur í að klára byggingu nýs Landspítala með viðunandi vinnuaðstæðum fyrir lækna, heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga.

Gerum þá sjálfsögðu kröfu að hér sé fjármunum varið til uppbyggingar á heilbrigðiskerfinu en ekki skotið undan. Byggjum upp réttlátt heilbrigðiskerfi, til aukinnar velferðar fyrir alla.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
skipar efsta sæti lista VG í Suðvesturkjördæmi.

Vilhjálmur Bjarnason

Þetta er einfalt

Vilhjálmur Bjarnason

Vilhjálmur Bjarnason

Einstaklingur í Osló tekur 40 ára íbúðalán að verðmæti 26 milljónir og skv. útreikningum bankans mun hann greiða 40 milljónir til baka.
Einstaklingur í Reykjavík tekur á sama tíma 40 ára íbúðalán að upphæð 26 milljónir og skv. útreikningum bankans getur hann búist við að greiða 454 milljónir tilbaka miðað við verðbólgu síðustu 10 ára á undan.
Þetta er raunveruleikinn sem Íslendingar hafa þurft að búa við alltof lengi. Einstaklingurinn í Osló velur hinsvegar að taka lánið til styttri tíma og eftir um 25 ár er lánið uppgreitt og þar að auki hefur hann eignast fjallakofa, tvo bíla skuldlaust, bát inn í firði og erfanlegan séreignarlífeyrissparnað. Einstaklingurinn í Reykjavík er hinsvegar ennþá að greiða af láninu eftir 25 ár, er með bíl á bílalánum og fer í sumarfrí með fjölskylduna á kreditkortinu.
Það er einfalt að breyta þessu, það þarf eingöngu að afnema verðtrygginguna af lánum heimilanna og þá leið þekki ég. Verðtrygging á milli fagfjárfesta og ríkisins þarf aftur á móti að vera – eins og er í öllum þeim löndum sem við miðum okkur við – til þess að þessir aðilar sjái hag sinn í að halda verðbólgunni í skefjum. Þess vegna býð ég mig fram í annað til þriðja sætið á framboðslista Sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi.
Ég veit að hinn venjulegi sjálfstæðismaður er ekki sáttur við hvernig komið er fyrir heimilum landsins og hvernig gæðum þess er skipt. Hann vill breytingar alveg eins og hinn venjulegi Íslendingur. Ég stíg því fram fyrir börnin mín og komandi kynslóðir og vill allt gera sem í mínu valdi stendur til að breyta þessu. Ég vel að vinna að þessum málum undir grunngildum og grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins þannig að þörfum heimilanna sé mætt og tryggt að hægt sé að lifa góðu og mannsæmandi lífi í okkar auðuga og gjöfula landi.
Það er því einfalt val í prófkjörinu á laugardaginn. Ef fólk vill þessar breytingar og fá að lifa við sambærileg kjör og íbúar hinna Norðurlandanna þá mætir það í prófkjör okkar Sjálfstæðismanna og setur undirritaðan í annað til þriðja sætið.

Vilhjálmur Bjarnason, formaður Hagsmuna­samtaka heimilanna og ekki fjárfestir.

Tómas G. Gíslason

Samgönguvika í Mosfellsbæ 16 – 22. september

Tómas G. Gíslason

Tómas G. Gíslason

Dagana 16. – 22. september mun Mosfellsbær taka þátt í Evrópsku Samgönguvikunni, European Mobility Week.
Tilgangur samgönguvikunnar er að vekja athygli á vistvænum samgöngum og hvetja almenning til að nýta sér almenningssamgöngur, hjólreiðar og aðra vistvæna fararkosti.
Mosfellsbær hefur verið virkur þátttakandi í samgönguvikunni undanfarin ár og staðið fyrir margs konar viðburðum í tilefni vikunnar, bæði í Mosfellsbæ og víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við nágrannasveitarfélögin.
Mosfellsbæ vill vekja sérstaklega athygli á tveimur viðburðum í Mosfellsbæ í samgönguvikunni.

Hjólreiðaráðstefna í Hlégarði
Mosfellsbær mun í ár hýsa stóra hjólreiðaráðstefnu, „Hjólum til framtíðar“ þar sem áhersla verður sett á hjólreiðar í náttúrunni. Ráðstefnan verður haldin í Hlégarði föstudaginn 16. september kl. 10-16. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðu Landsamtaka hjólreiðamanna, www.lhm.is og þar er hægt að skrá sig til þátttöku.
Fyrir ráðstefnuna verður boðið upp á hjólreiðaferð frá Elliðaárvogi (við hjólabrýr) til Mosfellsbæjar þar sem m.a. verður hjólað á nýja samgöngustígnum undir Úlfarsfelli. Lagt verður af stað kl. 9 frá Elliðaánum og kl. 9:20 frá bílastæðinu við Bauhaus fyrir þá sem vilja slást í hópinn.

Ný hjólahreystibraut á miðbæjartorgi
Mosfellsbær í samvinnu við LexGames munu setja upp nýja hjólahreystibraut, Pump track braut, á miðbæjartorginu á meðan á samgönguvikunni stendur. Brautin hentar jafnt BMX hjólum, reiðhjólum, hlaupahjólum, hjólabrettum og línuskautum. Að samgönguvikunni lokinni verður brautin flutt á sinn varanalega stað við litla gervigrasvöllinn við íþróttamiðstöðina við Varmá.

Af öðrum viðburðum má nefna að BMX landsliðið kemur í heimsókn og sýnir listir sínar á miðbæjartorginu, Dr. Bæk mætir í bæinn og aðstoðar við reiðhjólastillingar og Bíllausi dagurinn er mánudaginn 22. september, en þá er almenningur í Mosfellsbæ hvattur til að skilja bílinn eftir heima og nýta sér aðra samgöngumáta.
Mosfellsbær mun í tilefni vikunnar einnig vekja athygli á göngu- og hjólastígakortum bæjarins og gera þau aðgengileg á heimasíðunni og á helstu þjónustustöðum í bænum, auk þess sem skólarnir í Mosfellsbæ og forsvarsmenn skólabarna eru hvattir til að taka virkan þátt í samgönguvikunni með því að skilja bílinn eftir heima.
Ég hvet alla Mosfellinga til að taka þátt í þessu árlega átaki, draga fram hjólið og njóta góðrar útiveru og heilsusamlegrar hreyfingar.
Frekari upplýsingar um Evrópsku Samgönguvikuna og ítarlegri dagskrá má finna á heimsíðu Mosfellsbæjar, www.mos.is/samgonguvika og á facebooksíðu Samgönguvikunnar.

Tómas G. Gíslason
umhverfisstjóri Mosfellsbæjar

Elín Hirst

Kvennakrónur?

Elín Hirst

Elín Hirst

Við sjálfstæðismenn trúum á frjálsa samkeppni, eftir réttum leikreglum. Við vitum að hún eykur framboð af vöru og lækkar verð. Þeir sem standa sig best dafna en hinir síður.
Við trúum líka að einkaframtakið leysi mjög mörg verkefni mun betur en ríkið og vitum jafnframt að ríkið er ennþá að vafstra í allt of mörgu. Illa reknar stofnanir, óskilvirkir eftirlitsaðilar og skortur á skilgreiningu á umfangi ríkisafskipta kallar á meira skattfé. Við trúum því að það fé sé betur komið í höndum einstaklingsins. Það er sannarlega þörf á skattalækkunum, á því leikur enginn vafi.

Á tímum samkeppni hefði mátt ætla að nú væri búið að hreinsa út óútskýrðan launamun kynjanna, óværuna sem er svo lífseig. Könnun sem BHM lét gera bendir til þess að óútskýrður launamunur kynjanna sé nú 12% þar sem hallar á konur. Meðal svarenda sem störfuðu hjá ríki og hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg jókst kynbundinn launamunur milli kannana en minnkaði meðal svarenda sem störfuðu hjá Reykjavíkurborg og einkafyrirtækjum. Já, þið tókuð rétt eftir, munur jókst innan stofnana sem lúta þeim sem settu m.a. jafnréttislögin. Þetta þýðir á mannamáli að þegar konur fara út í búð að versla fyrir launin sín þurfa þær í raun að greiða hærra verð en karlarnir fyrir hverja einustu vöru. Það sama á við um önnur útgjöld konunnar. Ennþá þarf að berjast. Gætum við til að mynda hugsað okkur átak þar sem verslanir verðmerkja vörur í karla- og kvennakrónum til þess að glöggt megi sjá hvað varan kostar miðað við kaupmátt, eftir því hvort kynið á í hlut? Þannig mætti hugsa sér að matvöruverslun verðmerkti 1 lítra af mjólk með tvennum hætti: 142 krónur og 158 kvennakrónur. Bílaumboð auglýsti fjögurra manna fólksbíl á 5,2 milljónir króna og 5,8 milljónir kvennakróna.

Eitt er víst að orðin ein duga ekki og okkur miðar ekki nægilega hratt í jafnréttisátt. Ég get ekki hugsað mér að tengdadætur eða sonardætur mínar þurfa að versla í kvennakrónum næstu áratugina. Við konur eigum að standa saman, en karlarnir líka. Það er löngu viðurkennt að konur eru síður en svo lakari starfskraftur og oft betri. Það eru því lélegir viðskiptamenn og stjórnendur sem láta óútskýrðan launamun viðgangast í sínu fyrirtæki eða stofnun.

Elín Hirst, alþingismaður
Sækist eftir 2.-3. sæti í prófkjöri
Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Ólöf Kristín Sívertsen

Göngum, göngum

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Staðfest hefur verið með fjöldamörgum rannsóknum að regluleg hreyfing gegnir lykilhlutverki fyrir heilsu og vellíðan alla ævi.
Hreyfing eykur líkamshreysti, hreyfifærni, vellíðan og lífsgæði almennt fyrir utan það að minnka líkurnar á flestum langvinnum sjúkdómum. Auk beinna áhrifa á heilsu og líðan getur lífsstíll, sem felur í sér daglega hreyfingu, einnig skapað tækifæri til að mynda og styrkja félagsleg tengsl og haft góð áhrif á andlega líðan okkar.

Hvernig aukum við hreyfingu?
Það þarf ekki að vera flókið að auka við hreyfingu í daglegu lífi. Ein einfaldasta leiðin er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup og almenningssamgöngur. Það besta er að ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við líkamlega vellíðan heldur hefur regluleg hreyfing verulega jákvæð áhrif á andlega heilsu okkar. Þess utan er þetta einnig umhverfisvænn og hagkvæmur kostur til að komast á milli staða.

Göngum í skólann
Verkefninu Göngum í skólann var hleypt af stokkunum í tíunda sinn í gær, miðvikudaginn 7. september, og lýkur svo formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 5. október. Eins og segir á heimasíðu verkefnisins þá er markmið þess að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Samhliða því að fræða börnin um ávinning reglubundinnar hreyfingar gefst jafnframt tækifæri til að draga úr umferðaþunga, hraðakstri og mengun nálægt skólum. Munum að þarna erum við fullorðna fólkið mikilvægar fyrirmyndir eins og í mörgu öðru.

Fellaverkefni 2016
Nú blásum við á ný til Fellaverkefnis í samvinnu við Ferðafélag Íslands. Gengið verður á 5 tinda í Mosfellsbæ á 6 vikum frá og með 20. september nk. Við munum leggja leið okkar á Reykjaborg, Helgafell, Reykjafell, Mosfell og Grímannsfell og er nánari upplýsingar um tíma- og staðsetningar að finna í auglýsingu hér í blaðinu.
Við munum aftur vera með fellakort þannig að hver og einn getur safnað stimplum í kortið, skilað því inn í lokin og átt þannig möguleika á glæsilegum vinningum. Allir þátttakendur munu síðan að sjálfsögðu njóta ávinnings í formi betri hreysti, hreyfifærni og góðs félagsskapar.
„Vér göngum svo léttir í lundu, því lífsgleðin blasir oss við,“ kvað Freysteinn Gunnarsson um árið og ef við leggjum textann út frá hreyfingu og vellíðan má segja að þarna hafi hann einmitt hitt naglann á höfuðið. Ganga og önnur hreyfing léttir nefnilega lundina og framkallar jákvæðari sýn á lífið.

Komdu og vertu með
– allir vinna þegar þú tekur þátt!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi
samfélags í Mosfellsbæ

Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Takk fyrir mig en…

Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Þegar ákvarðanir eru teknar liggur oftar en ekki þar að baki ígrunduð hugsun og í mínu tilfelli var það svo.
Ég tók þá ákvörðun í samtali við fjölskyldu mín að hætta í pólitík þegar kjörtímabilinu 2013 -2017 lyki en nú lýkur því fyrr en áætlað var og boðað hefur verið til kosninga þann 29. október n.k.

Við ykkur, kæru sveitungar, vil ég segja, að það hefur verið ótrúlega skemmtilegt og gefandi að hafa fengið tækifæri að starfa sem bæjarfulltrúi og bæjarstjóri í Mosfellsbæ og síðan sem alþingismaður í Suðvestur­kjördæmi.
Mig langar á þessum tímamótum að þakka öllum hér í minni heimabyggð fyrir­ hvatningu og stuðning, fyrir mörg og skemmtileg samtöl sem ég hef átt við ykkur um ólík mál, við ekki alltaf endilega sammála en skilið vonandi þokkalega sátt. Ég hef svo sannarlega notið þess að vera í samfélagsþjónustu sem ég tel að starf bæjarfulltrúa og alþingsmanna sé í raun og veru.

Þúsund þakkir fyrir mig en mig langar líka á þessum tímamótum mínum að minna á að Bryndís Haraldsdóttir gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir Alþingiskosningar þann 29. október­ n.k. og ég hvet ykkur til að veita henni stuðning. Bryndís er heiðarleg, réttsýn, vinnusöm og hún mun verða verðugur fulltrúi okkar á vettvangi Alþingis.
Bestu kveðjur og enn og aftur þúsund þakkir fyrir mig.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Sveinn Óskar Sigurðsson

Sjálfstæðisflokkurinn og fólkið í landinu

Sveinn Óskar Sigurðsson

Sveinn Óskar Sigurðsson

Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir kjörorðinu stétt með stétt. Við þurfum nú að skerpa þessar línur á ný og tryggja bakland flokksins.
Baklandið er bjartsýnt en með bakþanka og vil ég taka upp kjörorðin kynslóð með kynslóð samhliða því að leggja áherslu á að tryggja beri velferð í þessu landi. Velferðin skal mótast af hógværð í skattheimtu, sókn í atvinnulífinu, virðingu fyrir lögum og styrkum grunnstoðum til handa ungu fólki sem og öldruðum.

Sem frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sækist ég eftir að þú, lesandi góður, styðjir mig í 3. – 4. sæti. Ég er sprottin úr jarðvegi verkalýðshreyfingar. Að vera alinn upp innan um menn eins og Pétur Sigurðsson er byggði upp Hrafnistu, Guðmund J. Guðmundsson (Guðmund Jaka) og aðra sem bentu mér á gæskuna óháð stjórnmálum og argaþrasi dagslegs lífs. Vil ég byggja brýr vinskapar við pólitíska félaga sem og andstæðinga til að tryggja velferð á Íslandi, umhyggju og sterkt efnahaglíf. Foreldrar mínir eru mín fyrirmynd hvað þetta varðar. Má benda á baráttu föður míns sem Sjálfstæðismanns, fyrrum varaþingmanns og formanns Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins. Þessi kynslóð er sú sem byggði upp sjóði okkar hinna yngri, lánasjóði fyrir námsmenn, lánasjóði til íbúðarkaupa og umgjörð alla svo að þjóðin næði langt.

Tilfinning mín er sú að þegar við höfum nú gert vel hvað kaupmátt almennings varðar sé það ætlunarverk þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem sest næst á þing, að leiðrétta kjör eldri kynslóðann. Það verður að stagbæta öryggisnet þessa hóps sem byggði upp þetta land. Einnig ber að gæta að barnafólki og hlúa að ungu fólki sem á að geta fjárfest í íbúð eða byggt þak yfir fjölskyldu sína.
Þörf er á að löggjöf varðandi eldri borgara verði endurskoðuð með það að leiðarljósi að skerðingar verði lágmarkaðar og lífsgæðin hámörkuð. Þar spilar einnig inn öll meðferð öldrunarmála. Umönnunarþyngd aldraða mun aukast á næstu árum þegar eldri borgurum fjölgar. Samhliða eykst krafan um aukinn sveigjanleika og minni skerðingar vegna vinnuframlags duglmikilla einstaklinga. Lífeyriskerfið ber að einfalda og auka á sveigjanleika þess til að taka þátt í uppbyggingu innviða samfélagsins með beinum hætti svo ávaxta megi til lengri framtíðar.

Markmið mín eru fleiri og fjölmörg. Legg ég hér þó sérstaka áherslu á málefni aldraða og ungs fólks. Til að við getum náð árangri á því sviði skiptir miklu máli að eiga fyrir þessu, borga niður skuldir hins opinbera svo að breytingar til batnaðar verði varanlegar en ekki teknar að láni. Núverandi forysta Sjálfstæðisflokksins hefur staðið sig vel í að greiða niður skuldir og hefur það nú komið ríkissjóði vel sem stendur betur með hverju árinu sem líður. Höldum þessum kúrs og stefnum áfram að því að bæta hag Íslendinga. Skiptum svo rétt þegar við höfum ráð á slíku og deilum til þeirra sem lögðu til fyrir okkur hin. Við verðum að lækka skatta á eldri borgara og draga úr skerðingum. Framkvæmum þetta með trúverðugum og varanlegum hætti og gætum þess að allir hafi borð fyrir báru í lífsins ólgusjó.

Sveinn Óskar Sigurðsson

Jón Gunnarsson

Forgangsmál að atvinnulífinu og einstaklingunum séu skapaðar aðstæður til sóknar og framfara

Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Kæru sjálfstæðismenn.
Kjörtímabilið sem nú er að renna sitt skeið á enda hefur verið viðburðaríkt. Árangursríkt ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur skilað fjölmörgum framfaramálum í höfn, landsmönnum öllum til hagsbóta.
Verðbólga hefur verið í sögulegu lágmarki, kjör almennings hafa stórbatnað bæði vegna aukins kaupmáttar vegna hækkunar launa og auknum ráðstöfunartekjum vegna skattalækkana sem við sjálfstæðismenn höfum barist fyrir. Nú sér fyrir endann á afnámi fjármagnshafta undir forystu Sjálfstæðisflokksins sem skapar grundvöll til framtíðar fyrir áframhaldi í bættum lífskjörum. Ég hef verið í forystu fyrir Atvinnuveganefnd Alþingis á kjörtímabilinu, en undir nefndina heyra málefni atvinnulífsins í landinu, þ.e. sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar og ferðaþjónustu. Þessar atvinnugreinar eru grundvöllurinn undir þjóðfélaginu sem við lifum í og lífæð samfélagsins.
Ef atvinnulífið skilar ekki sínu; skapar fólki atvinnu og tekjur, framleiðir verðmæti til innanlandsnota og útflutnings og skilar ríkinu beinum og óbeinum skatttekjum, er til lítils barist. Öll opinber þjónusta hverju nafni sem hún nefnist byggir á fjármunum sem atvinnulífið myndar á einn eða annan máta. Þess vegna er það forgangsmál að atvinnulífinu og einstaklingunum séu skapaðar aðstæður til sóknar og framfara.
Í þessu samhengi er grundvallaratriði að fólkið í landinu, atvinnulífið og stjórnvöld séu ásátt um þær leikreglur sem unnið er eftir. Sífelldar deilur um umgjörð atvinnulífsins eru meinsemd sem verður að uppræta. Það verður að ríkja sátt um samspil atvinnulífsins og einstaklinganna. Fyrir slíkri sátt mun ég beita mér af alefli á næsta kjörtímabili, fái ég til þess traust kjósenda.
Umgjörð helstu atvinnugreina landsins, sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar og ferðaþjónustu hefur allt of lengi verið bitbein stjórnmálamanna. Þar hafa of margir farið fram með óábyrgum hætti og lagt fram algerlega óraunhæfar tillögur. Þetta á t.a.m. við um sjávarútveginn. Í þeim málaflokki hef ég kynnt hugmyndir um blandaða leið sem tekur tillit til sjónarmiða beggja aðila, þ.e. þeirra sem halda vilja í gildandi fyrirkomulag um auðlindagjald og hinna sem vilja bjóða upp aflaheimildirnar. Ég vil koma til móts við sjónarmið beggja, án þess þó að raska starfsumhverfi greinarinnar en skapa samt rými fyrir nýja aðila að hasla sér völl í sjávarútvegi.
Landbúnaðurinn og búvörusamningur sem ráðherra gerði við bændur hefur skapað deilur undanfarið. Ég hef barist fyrir sátt um málið, þannig að samningstíminn verði styttur verulega. Næstu þrjú ár verði nýtt til að gera þjóðarsátt um greinina með aðkomu neytenda, verslunar, bænda og verkalýðsfélaga undir forystu Alþingis. Sama á við um samspil orkufreks iðnaðar og náttúruverndar. Þar er forgangsmál að ná sátt um hvaða svæði megi nýta og hver beri að friða. Með það að leiðarljósi mun ég beita mér fyrir umtalsverðri stækkun friðlands á hálendi Íslands sem yrði ósnortið um alla framtíð.

Jón Gunnarsson alþm.

Sema Erla Serdar

Byggjum eitt samfélag fyrir alla!

Sema Erla Serdar

Sema Erla Serdar

Íslenskt samfélag er í stöðugri þróun. Breytt samfélag þýðir breyttar áherslur og nýir tímar þýðir nýjar áskoranir. Krafan um ný stjórnmál og ný vinnubrögð hefur sjaldan verið háværari og hún hefur sjaldan verið réttmætari.
Sérhagsmunaöflin og auðvaldið hafa alltof lengi ráðið för í samfélaginu og við hin höfum um of langan tíma þurft að lúta í lægra haldi. Kerfisbreytingar hafa reynst ómögulegar, loforð eru svikin, gagnsæið er ekkert og lýðræðið hefur orðið undir í keppninni um völd og auð. Niðurstaðan er landflótti ungs fólks, húsnæðismarkaður sem er í molum, ónýtt heilbrigðiskerfi og aðför að menntakerfinu. Niðurstaðan er sú að árið 2016 finnst varla sá hópur sem ekki er enn að berjast fyrir bættum kjörum, virðingu og réttlæti. Má þar m.a. nefna barnafjölskyldur, öryrkja og eftirlaunafólk. Þessu þarf að breyta strax!

Helsta verkefnið fram undan er að endurmóta íslenskt samfélag í anda hugsjóna jafnaðarmanna, byggja þarf upp eitt samfélag fyrir alla þar sem grundvallar lífsgæði almennings eru tryggð, þar sem fólk getur lifað mannsæmandi lífi og grunnstoðirnar eru í lagi. Samfélag þar sem réttlæti, velferð og mannréttindi allra eru tryggð.
Þar á endurreisn heilbrigðiskerfisins að vera forgangsatriði. Aðgengi að slíkri þjónustu á aldrei að vera háð fjárhagsstöðu einstaklinga og því á hún að vera gjaldfrjáls. Útrýma þarf löngum biðlistum sjúklinga og bæta þarf aðgengi. Bæta þarf kjör eftirlaunafólks og öryrkja án tafar og gera þarf betur við barnafjölskyldur. Fjárfesta þarf í menntakerfinu og gera það aðgengilegt öllum, óháð aldri, búsetu eða fjárhag. Greiða þarf úr gríðarlega alvarlegu ástandi á húsnæðismarkaði og gera ungu fólki auðveldara að eignast þak yfir höfuðið.

Áskoranirnar eru margar en áskorunum fylgja tækifæri. Nú er tækifæri til þess að byggja raunverulega eitt samfélag fyrir alla – þar sem ungir Íslendingar vilja og geta byggt sér framtíð og þeir sem eldri eru vilja vera áfram hluti af. Því er mikilvægt að flokkur jafnaðarmanna svari ofangreindum kröfum og mæti sterkur til leiks í komandi kosningum svo hann komist í stöðu til þess að tryggja Íslendingum betra og réttlátara samfélag.
Ég vil leggja mitt af mörkum í því mikilvæga verkefni sem fram undan er og því sækist ég eftir 2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Sema Erla Serdar, formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi
og fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar

Óli Björn Kárason

Vinafáir skattgreiðendur og metnaður þingmanna

Óli Björn Kárason

Óli Björn Kárason

„Ef það hreyfist skattleggðu það. Ef það heldur áfram að hreyfast, settu lög. Ef það stoppar, settu það á ríkisstyrk.“
Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, um skattastefnu vinstri manna.

Skattgreiðendur eiga fáa vini og enga meðal vinstri manna. Útgjaldasinnar og þeir sem standa í þeirri trú að flest vandamál sé hægt að leysa með því að auka útgjöldin, eiga sér hins vegar marga málsvara og harða stuðningsmenn. Millistéttin – burðarásinn í íslensku samfélagi og skattkerfi – getur ekki reiknað með að milliþrep í tekjuskatti verði fellt niður, ef vinstri flokkarnir mynda ríkisstjórn eftir kosningar. Sjálfstæðir atvinnurekendur ættu einnig að hafa áhyggjur líkt og eldra fólk þegar eignaskattar verða innleiddir að nýju undir hatti auðlegðarskatts, líkt og vinstri flokkarnir hóta. Það verður gengið hart fram í anda skattastefnu vinstri stjórnar sem kenndi sig við norræna velferð.

Það virðist vera erfitt fyrir vinstri menn að læra það sem John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, reyndi að kenna samverkamönnum sínum fyrir liðlega 50 árum:
„Efnahagskerfi sem er þrúgað af háum sköttum mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, alveg eins og það mun aldrei búa til nægilegan hagvöxt eða nægilega mörg störf.“
Í komandi alþingiskosningum verður tekist á um stefnuna í skattamálum og þar með möguleika okkar til að byggja sameiginlega upp öflugt heilbrigðis- og almannatryggingakerfi. Það verður tekist á um það hvort við nýtum tækifærin sem hafa skapast til að ráðast í umfangsmiklar innviðafjárfestingar í samgöngum og í menntakerfinu, með því að gæta hófs í álögum ríkisins. Barátta skattgreiðandans að fá að ráðstafa sjálfur sem mestu af sjálfsaflafé sínu er hins vegar ójöfn. Kröftugir sérhagsmunahópar hvetja skattmann áfram og þeir eru studdir af öflugum fjölmiðlum.
Ég mun taka mér stöðu við hlið skattgreiðandans og millistéttarinnar. Verði ég kjörinn þingmaður Suðvesturkjördæmis vil ég brjóta gamla og útelta mælistiku sem notuð er fyrir Alþingi. Mælistiku sem búin hefur verið til af fjölmiðlum og meirihluta þingmanna og miðast við að sem flest mál séu afgreidd. Því fleiri lagafrumvörp og því fleiri þingsályktanir því betra er þinghaldið. Afkastamikið þing er sagt gott þing. Ráðherrar eru vegnir og metnir út frá fjölda lagafrumvarpa sem þeir leggja fram. Fjölmiðlar hampa þeim þingmönnum sem hæst og oftast tala.

Gæði og skýrleiki lagasetningar er orðið aukaatriði en einstaklingum og fyrirtækjum er ætlað að starfa innan ramma óskýrra lagatexta og fyrirmæla og síbreytilegra leikreglna.
Metnaður þingmanna á ekki að vera bundinn við hversu mörg mál þeir afgreiða. Metnaðurinn á að vera bundinn í efni og innihaldi, skýrleika og einfaldleika. Um leið eiga þingmenn að grisja lagafrumskóginn, einfalda gildandi lög og gera þau skýrari, takmarka heimild til setningar reglugerða og vinna að því að auka svigrúm einstaklingsins, í stað þess að sækja að honum.

Óli Björn Kárason
Höfundur býður sig fram í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Karen Elísabet Halldórsdóttir

Tækifæri í ferðaþjónustu

Karen Elísabet Halldórsdóttir

Karen Elísabet Halldórsdóttir

Það eru endalaus tækifæri í auknum ferðamannastraumi til landsins. Í raun má segja að stefna Sjálfstæðisflokksins geti kristallast í þessari þjónustugrein sem miðar að því að hver og einn hafi tækifæri til að stofna fyrirtæki til að sjá sér og sínum farborða.
Það hefur verið ótrúlega jákvætt að fylgjast með hverju fyrirtækinu og frumkvöðlinum á fætur öðrum grípa þessar gullnu gæsir sem hingað koma til að skoða landið og kynnast þjóðinni. Veitingastaðir spretta upp, bæði í þéttbýli sem dreifbýli. Ævintýraferðir seljast eins og heitar lummur, hvort sem þær eru gerðar til að ferðast um í 101 eða víðáttunni á hálendinu. Til að taka á móti miklum fjölda ferðamanna þurfa allir innviðir að vera sterkir.
Allt er þetta jákvætt fyrir íslenskan efnahag en margt má betur undirbúa. Ákveðið ráðleysi hefur einkennt tilraunir til gjaldtöku svo efla megi innviðina. Náttúrupassinn var ágætis hugmynd, nútímaleg en flókin í kynningu sem og hafa komugjöld verið ítrekað rædd en því miður lítið orðið um framkvæmdir í þeim efnum. Gistináttagjaldið þarf mögulega að hækka ef ekkert er að gert í annarri gjaldtöku.
Þegar ég nefni að verðum að efla innviðina þá er ég ekki bara tala um að bæta klósettaðstöðu við Gullfoss. Við verðum að gæta betur að t.d. öryggi ferðamanna sem vafra hér um grunlausir um ýmsar hættur hrjóstugs lands. Ekki getum við endalaust treyst á duglegar björgunarsveitir í sjálfboðavinnu og gengið fram af því góða starfi.
Því miður hafa orðið og verða án efa bæði slys og dauðsföll vegna þess að ekki er farið nægilega varlega. Kynna verður hættur landsins og mögulega hvetja ferðamenn að tryggja sig við komu. Athafnir sem eru okkur tamar og þekktar geta valdið mikilli örvæntingu þeirra sem ekki þekkja íslenskt umhverfi. Einbreiðar brýr, þröngir akvegir og íslenskt veðrátta er eitthvað sem fáir eru undirbúnir fyrir.

Karen Elísabet Halldórsdóttir
sækist eftir 3.sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

89% nýttu sér frístundaávísunina – við getum gert betur

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Frá árinu 2010 hefur Mosfellsbær greitt út tæplega 165 milljónir króna í frístundaávísanir til handa börnum og unglingum á aldrinum 6-18 ára í Mosfellsbæ.
Á árinu 2015-2016 var 89% nýting á frístundaávísunum, sem er mesta hlutfall ávísana sem nýtt hefur verið til þessa í Mosfellsbæ. Betur má en duga skal, markmiðið hjá Íþrótta og tómstundanefnd Mosfellsbæjar er að öll börn í Mosfellsbæ sem stunda einhverja frístund nýti sér ávísanirnar.
Nú er nýtt frístundaávísanatímabil að hefast í Mosfellsbæ. Gerðar voru breytingar á úthlutunarreglum sem veita barnmörgum fjölskyldum möguleika á hærri styrk til úthlutunar. Samhliða breytingum á úthlutunarreglum var tekin ákvörðun um að taka upp notkun á Frístundakerfi tengt Nóra til að halda utan um úthlutun frístundaávísana.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti í fjárhagsáætlun 2016 síðastliðið haust að frístundaávísun hækki sérstaklega fyrir barnmargar fjölskyldur. Frístundaávísun fyrir fyrsta barn verður eftir sem áður 27.500 kr. en breytingin felur í sér að heildar upphæð frístundaávísunar hækkar um 25% við annað barn og aftur um 25% við þriðja barn. Þegar foreldri sækir um frístundaávísun á íbúagátt/hjá félagi kemur hækkun á upphæð ávísunar sjálfkrafa fram eftir fjölda barna sem skráð eru með sama lögheimili hjá foreldri.
Skráningar eru nú hafnar hjá flestum félögum fyrir tímabilið 2016-2017 og er hægt að skrá sitt barn í gegnum íbúagáttina á www.mos.is. Ég vek athygli á því að barn sem á rétt á frístundarávísun þarf ekki endilega að stunda sína frístund í Mosfellsbæ.

Rúnar Bragi Guðlaugsson.
Formaður íþrótta- og tómstundanefndar Mosfellsbæjar.

Hulda Margrét Rútsdóttir

„Skottmarkaður“ í Þverholti, gönguvinir og heimanám

Hulda Margrét Rútsdóttir

Hulda Margrét Rútsdóttir

Við þökkum fyrir góðar viðtökur á skottmarkaðnum en við seldum notuð föt og fylgihluti á bæjarhátíðinni 27. ágúst. Það sem var ekki síður mikilvægt var að fá tækifæri til að hitta fólkið í bænum og kynna verkefnin hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ en það er ýmislegt framundan. Það gefur meðbyr fyrir veturinn að finna fyrir jákvæðni í garð deildarinnar.
Við höfum ákveðið að vera með fatamarkaðinn örlítið lengur. Enn er hægt að gera góð kaup á fötum, skóm og fylgihlutum og verður hann opinn næstu tvær vikur þegar starfsemi er í húsinu eða starfsmaður á staðnum. Best er að hafa samband í síma 898 6065 eða senda línu á hulda@redcross.is til þess að ganga úr skugga um að það sé opið.
Mánudaginn 12. september verður opið frá 16:15-18:15. Hægt er að skoða myndir og verð á facebooksíðu Rauða krossins í Mosfellsbæ.
Gengið er frá Rauða kross húsinu í Mosfellsbæ, Þverholti 7 alla mánudaga og fimmtudaga frá klukkan 16:15. Um er að ræða létta göngu í góðum félagsskap en það er gengið í 30-40 mínútur. Okkur vantar sjálfboðaliða til að stýra göngunni öðru hvoru og við viljum einnig gjarnan stækka gönguhópinn. Þetta er upplagt tækifæri fyrir þá sem eiga erfitt með að koma sér af stað en það er alkunna að ferskt loft og hreyfing getur gert kraftaverk fyrir heilsuna. Ekki hika við að hafa samband ef þú hefur áhuga á að taka þátt eða bara mæta á staðinn.
Heimanámsaðstoðin byrjar næsta þriðjudag, 13. september. Aðstaðan verður á bókasafni Mosfellsbæjar og eru allir krakkar í 1-10 bekk velkomnir sem aðstoð þurfa. Það verður létt og afslappað andrúmsloft þar sem hver og einn fer á sínum hraða. Þetta er tilvalið fyrir börn með námsörðugleika eða þá sem hafa íslensku sem annað tungumál – nú eða fyrir þá sem vilja klára lærdóminn snemma í vikunni.

Hulda Margrét Rútsdóttir
Verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ