Þátttökumet á Weetos-mótinu

Keppendur og skipuleggjendur ásamt góðum gestum á Tungubökkum.

Keppendur og skipuleggjendur ásamt góðum gestum á Tungubökkum.

Weetos-mótið í knattspyrnu var haldið við frábærar aðstæður á Tungubakkavelli lokahelgina í ágúst. Mótið er hluti af bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima, og var sett þátttökumet í ár.
Um 270 lið í 6. og 7. flokki karla og kvenna tóku þátt í mótinu í ár og komu lið hvaðan­æva af landinu til að taka þátt í þessu árlega móti sem Afturelding hefur staðið að um árabil.

Stærsta íþróttamót árins í Mosfellsbæ
Weetos-mótið er stærsta íþróttamót sem haldið er á hverju ári í Mosfellsbæ. Markmið mótsins er fyrst og fremst að leyfa okkar mikil­vægasta fótboltafólki að njóta sín, skemmta sér og hafa gaman af.
Í ár fengu krakkarnir frábæra heimsókn frá landsliðsfólkinu Birki Má Sævarssyni, Hallberu Gísladóttur og Sif Atladóttur.
Mótahald af þessari stærðargráðu er mikið púsluspil. Til að allt gangi upp treystir knattspyrnudeild Aftureldingar á sjálfboðaliða við skipulagningu mótsins, dómgæslu, sjoppuvaktir, bílastæðavaktir og ótal önnur verkefni sem fylgja móti sem þessu.
Afturelding vill koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sjálfboðaliða sem tóku þátt í að gera mótið í ár að því stærsta frá upphafi.

Knattspyrnufólk framtíðarinnar
Ekki má gleyma aðalstyrktaraðila mótsins, Weetos, sem styrkir mótið myndarlega og hjálpar Aftureldingu við að taka myndarlega á móti framtíðarknattspyrnufólki okkar. Knattspyrnudeild Aftureldingar er í skýjunum með hvernig til tókst og hlakkar til að taka á móti knattspyrnufólki frá öllum landshornum í Mosfellsbæ á næsta ári.

Elskar að vera þar sem kátínan er

mosfellingurinnbadda

Bjarney Einarsdóttir eða Badda eins og hún er ávallt kölluð er mikill fagurkeri og leggur mikinn metnað í allt sem hún gerir. Heimili hennar ber þess sannarlega merki enda er þar fallegt um að litast.
Badda hefur lengi haft brennandi áhuga á öllu sem viðkemur tísku og förðun og fylgist ávallt með því nýjasta á markaðnum. Hún rak kvenfataverslunina Lady hér í bæ í mörg ár en í dag nýtur hún lífsins með fjölskyldu og vinum og veit ekkert skemmtilegra en að taka lagið með söngfélögum sínum í Vorboðunum, kór eldri borgara í Mosfellsbæ og Kirkjukór Lágafellssóknar.

Bjarney er fædd á Akranesi 13. júní 1943. Foreldrar hennar eru þau Elín Elíasdóttir húsmóðir og Einar Magnússon verkamaður. Systkini Böddu eru þau Georg f. 1940, Viðar f. 1942, Einar f. 1944 og Dröfn f. 1945.

Elskaði að vera búðarkona
„Ég er alin upp á Akranesi og það var dásamlegt að alast upp þar. Systkina- og frændsystkinahópurinn var stór svo það var alltaf nóg um að vera.
Æskuminningarnar eru ansi margar, þegar pabbi kom af sjónum og lék við okkur krakkana og svo jólin, þegar mamma sat og saumaði jólafötin á okkur öll.
Við lékum okkur oft á skautum á Petutúni og svo vorum við vinkonurnar duglegar að trampa á háum hælum á frosinni mold til að heyra hljóðið.
Búðarleikur í eldhúsinu var í miklu uppáhaldi og ég elskaði að vera búðarkona,“ segir Badda og brosir sínu fallega brosi.

Kynntist æskuástinni á Akureyri
„Ég gekk í barnaskóla Akraness og svo Gagnfræðaskólann og mér fannst mjög gaman í skólunum. Var meira að segja kladdastjóri allan Gagnfræðaskólann. Uppáhaldsfögin mín voru leikfimi og kristinfræði og uppáhaldskennarinn minn var Þórunn Bjarnadóttir, en hún var tignarleg kona með flott og sítt hár.
Eftir útskrift fór ég að vinna hjá Slátur­félagi Akraness þar sem ég starfaði í tvö ár en árið 1962 lá leið mín til Akureyrar þar sem ég hóf störf á Hótel Kea. Þetta átti að verða 3 mánaða dvöl en varð að 8 árum því ég kynntist æskuástinni minni og eiginmanni til 50 ára þar.“

Bjuggu í vinnuskúr á Álafossi
Badda giftist Páli Helgasyni tónlistarmanni 8. maí 1965 en hann lést úr krabbameini árið 2016. Þau eignuðust þrjú börn, Helga f. 1963, Einar f. 1966 og Anítu f. 1967. Barnabörnin eru 13 og barnabarnabörnin 4.
Fjölskyldan flutti í Mosfellsbæ árið 1973 og bjó fyrst í vinnuskúr á Álafossi í eitt ár á meðan þau byggðu sér raðhús í Byggðarholti. Badda starfaði í barnafataversluninni Anítu í Álfheimum og síðar á Álafossi, Apótekinu í Mosfellsbæ, Kaupfélagssjoppunni, Varmárskóla og leikskólanum Kátakoti á Kjalarnesi.
Badda og Palli voru ákaflega samrýnd hjón, tónlist, söngur og dans voru sameiginleg áhugamál þeirra. Badda söng í öllum blönduðu kórunum sem Palli stjórnaði, Álafosskórnum, Kirkjukór Kjalarness, Kirkjukór Kjósverja, Mosfellskórnum, Landsvirkjunarkórnum og Vorboðunum. Palli spilaði einnig á heimili eldri borgara í Hæðargarði í mörg ár með sveitungum sínum, þeim Úlfhildi og Guðbjörgu.
Badda er þekkt fyrir að vera alltaf með mörg járn í eldinum, hún er mjög listræn og nýtur þess að mála myndir. Hún hefur einnig verið í glerlist, línudansi, spilað boccia, starfað í pólitík, hún söng með sönghópnum Hafmeyjunum í 10 ár og situr nú í menningarnefnd FaMos.

Dugleg að ferðast með fjölskylduna
„Fyrir utan tónlistina þá var hestamennska sameiginlegt áhugamál okkar hjóna en við byrjuðum í hestamennsku þegar Aníta dóttir okkar fékk hest í fermingargjöf.
Palli söng með karlakórnum Stefni og ég var þá formaður Stefnanna, eiginkvenna kórdrengjanna. Við fórum í margar utanlandsferðir með kórfélögum og í útilegur. Við vorum líka dugleg að ferðast með fjölskylduna, þvældumst mikið til Akureyrar og á Akranes. Við hjónin elskuðum að fá til okkar gesti og vinaboðin voru mörg.
Árið 2010 fengum við Palli okkur hjólhýsi og í því áttum við okkar bestu stundir svona á seinni árum, þvældumst víða um landið.“

Lofaði Palla að halda áfram veginn
„Að missa Palla var mér mjög erfitt, það tók tíma að átta sig á hlutunum og vinna úr þessum stóra missi. Ég lofaði Palla að halda áfram veginn og hlúa að öllu okkar og hef gert það, ég er ákveðin í því að njóta lífsins til fulls.
Veistu, mér leiðist aldrei, ég á yndislega fjölskyldu sem er mér allt og stóran og góðan vinahóp sem er mér mjög kær. Ég fer mikið erlendis og skoða mig um með öllu þessu góða fólki í kringum mig.“

Dásamlegur staður fyrir fólk eins og mig
„Í ágúst sl. fór ég til Gdansk í Póllandi ásamt syni mínum og tengdadóttur. Gdansk er dásamlegur staður fyrir fólk eins og mig sem elskar að vera í fólksmergð, fara á markaði, kaffihús, matsölustaði og verslunarmiðstöðvar.
Nú í september er ég að leggja í ferð til Ítalíu með vinum mínum í Vorboðunum þar sem við ætlum að halda tónleika. Í desember ætla ég svo aftur til Gdansk til að njóta aðventunnar en ég ætla að halda jólin hér heima.
Fyrir tveimur árum hélt ég jólin með dóttur minni og fjölskyldu hennar á Tenerife og það var mjög skemmtilegt upplifelsi. Við fórum út að borða á aðfangadag og allir fengu jólapakka.“

Allt í gríni sagt
„Nú er ég að láta mig dreyma um að fara eitthvað á næsta ári, hvert veit ég ekki en það kemur í ljós. Ég elska að vera í margmenni og þar sem kátínan er. Ég hef sagt í gamni mínu við börnin mín að þegar ég kveð þetta jarðríki væri hægt að letra á steininn okkar Palla: Hér hvíla hjónin, Páll Helgason tónlistarmaður og Bjarney Einardóttir gleðikona. En þetta er auðvitað allt í gríni sagt,“ segir Badda og brosir er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 12. september 2019
ruth@mosfellingur.is

 

Fyrirmynd og innblástur fyrir konur í tónlist

gdrnlistamadur

bæjarlistamennlistiÁ sérstakri hátíðardagskrá bæjarhátíðarinnar Í túninu heima var tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyförð, betur þekkt sem GDRN, útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2019.
Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar sér um val bæjarlistamanns ár hvert og veitti Björk Ingadóttir formaður nefndarinnar Guðrúnu verðlaunagrip eftir listakonuna Ingu Elínu ásamt viðurkenningarfé sem fylgir nafnbótinni.

Með sinn eigin feril í þrjú ár
„Þetta er mikill heiður og kom mér virkilega á óvart,“ segir Guðrún Ýr. „Ég er ekki búin að vera með minn eigin feril sem GDRN nema í þrjú ár en ég hef verið að læra tónlist í um tuttugu ár og ég stæði ekki hérna í dag ef ekki væri fyrir allt frábæra tónlistarfólkið og tónlistarkennarana sem eru búnir að miðla af sinni reynslu til mín. Mig langar því að tileinka þeim þessi verðlaun, af því ég væri ekki hér í dag ef það væri ekki fyrir þau.
Það væri gaman að geta nýtt nafnbótina til að hjálpa ungu fólki í Mosfellsbæ sem vill fara í listnám. Þar myndi ég glöð vilja veita einhverjum innblástur og halda áfram að gefa af minni þekkingu sem mér var gefin frá öðru tónlistarfólki.“

Hóf fiðlunám í Listaskóla Mosfellsbæjar
Guðrún Ýr er uppalin í Mosfellsbæ og hefur verið í tónlist frá unga aldri. Hún hóf fiðlunám í Tónlistarskóla Mosfellsbæjar fimm ára, flutti sig síðar í Suzuki skólann og stundaði námið í ellefu ár. Eftir fiðlunámið færði hún sig í djasssöng og djasspíanó í FÍH meðfram námi í menntaskóla.
Hún gaf fyrst út tónlist árið 2017 og sló í gegn með laginu Lætur mig sumarið 2018. Á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrr á þessu ári hlaut Guðrún fern verðlaun. Plata Guðrúnar Hvað ef var valin poppplata ársins, lagið Lætur mig sem hún syngur með Flóna var valið popplag ársins. Að auki var Guðrún Ýr valin söngkona ársins í flokki popp-, rokk-, raf- og hiphopptónlistar og hlaut verðlaun fyrir tónlistarmyndband ársins við lagið Lætur mig.

Magnaður mosfellskur listamaður
GDRN vinnur nú að nýrri plötu sem kemur út á næstu vikum. „Annars hefur verið meira en nóg að gera í sumar. Framundan er vinna í Þjóðleikhúsinu þar sem ég verð hluti af tónlistinni í vetur og svo styttist auðvitað í jólaösina,“ segir Guðrún Ýr sem verður ein af jólagestum Björgvins.
Í rökstuðningi menningar- og nýsköpunarnefndar segir: „Guðrún Ýr er fyrirmynd og innblástur fyrir konur í tónlist, upprennandi stjarna og magnaður mosfellskur listamaður.“

Nýjum lóðum úhlutað til hæstbjóðenda

suluhofdi_mosfellingur

Framkvæmdir við gatnagerð í Súluhöfða hafa staðið yfir í sumar. Mikil eftirspurn hefur verið eftir lóðunum en þær eru nú klárar til úthlutunar. Lóðirnar 19 eru allar skipulagðar fyrir nokkuð stór einbýlishús. Lóðirnar eru með góðu útsýni og neðstar í hverfinu.
Eingöngu einstaklingum verður heimilað að sækja um lóðir og getur hver umsækjandi einungis fengið einni lóð úthlutað. Lágmarksverð fyrir lóðirnar er á bilinu 13,5-18 milljónir. Úthlutun lóða samkvæmt úthlutunarskilmálum fer fram á grundvelli hæsta tilboðs í hverja lóð fyrir sig og eru öll tilboð skuldbindandi.
Stefnt er að því að auglýsa 15 fyrstu lóðirnar á næstu vikum.

Stekkjarflötin

stekkjarflot

Við „týndum“ yngsta syni okkar í gær. Eða þannig. Hann stökk út úr húsi um miðjan dag, hafði verið að leika inni með vini sínum. Kallaði til okkar að þeir væru farnir út að hjóla. Allt í góðu lagi með það. En svo fór okkur að lengja eftir þeim vinunum. Þeir höfðu ekkert gefið upp um hvert leið lægi eða hvað þeir ætluðu að vera lengi.

Skipulagður var leitarflokkur, við keyrðum um hverfið, löbbuðum um nágrennið og heyrðum í foreldrum vina. Það skilaði litlu. Ég hjólaði síðan nokkrar leiðir sem ég hef hjólað með þeim týnda. Ég fann hann að lokum, skælbrosandi og glaðan, hoppandi á ærslabelgnum á Stekkjarflötinni. Þarna var frábær stemning, seinni partinn á sunnudegi. Fullt af krökkum að leika sér í bland við fjölskyldur með minni börn. Allir í góðum fíling.

Það var ótrúlega gaman að upplifa þetta, þessa góðu orku. Og mig langar að hrósa bæjaryfirvöldum fyrir að koma á fót lýðræðisverkefninu „Okkar Mosó“ en ærslabelgurinn vinsæli er einmitt tilkominn á Stekkjarflöt vegna þess að við, íbúar bæjarins, kusum hann þangað.

Það er frábært að við fáum að taka þátt í að skapa umhverfi okkar í beinum kosningum og enn betra að það sem verður ofan á í kosningunum sé notað svona mikið. Ég held að skíða- og brettaleiksvæðið í Ullarnesbrekku sem fékk líka góða kosningu verði tilbúið í vetur, hlakka sjálfur mikið til að prófa það.

En aftur að týnt og fundið sögunni, við feðgar tókum rólegt og gott spjall um mikilvægi upplýsingagjafar og hjóluðum svo saman heim. Hann hafði gjörsamlega týnt tímanum, það hafði verið svo gaman hjá þeim vinum að hjóla, stússast og svo hoppa á belgnum. Og er það ekki akkúrat það sem við erum alltaf að kalla eftir, að börnin okkar séu glöð úti að leika sér með vinum sínum.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. september 2019

„Við hættum ekki fyrr en við komumst á toppinn“

ulfarfellpokar

Skátafélagið Mosverjar vinnur nú að bættri gönguleið, Skarhólamýri eins og þeir kalla hana, upp á Úlfarsfellið frá Skarhólabraut.
Margir hafa velt því fyrir sér hvað þeir sjái hér hvítt í fellinu, hvort þetta sé listaverk eða einhver gjörningur. „Ég var farinn að hallast að því að þetta væru rollur sem stæðu í röð og biðu eftir sláturtíðinni. Þetta eru hinsvegar 600 pokar fullir af möl sem við vinnum nú úr,“ segir Ævar Aðalsteinsson verkefnastjóri Mosverja.
„Verkefnið er unnið í samstarfi við Mosfellsbæ og er leiðin farin upp norðanvert Úlfarsfellið. Þetta er þriðja sumarið sem við vinnum í þessu fyrir alvöru.
Göngustígurinn verður framhald af 202 tröppum sem gerðar voru í fyrra. Við hættum ekkert fyrr en við komumst á toppinn,“ segir Ævar.

Margir farnir að uppgötva gönguleiðina
„Tilgangurinn er að reyna stýra umferðinni inn á stíginn og koma í veg fyrir skemmdir á umhverfinu, slóðinn var orðinn of breiður og víða var farið að myndast flag. Árangurinn er þegar farinn að sjást og fólk tekur þessum stíg fagnandi.
Utanvegahlauparar eru til að mynda búnir að uppgötva leiðina og farnir að nýta tröppurnar í þolþjálfun, hlaupa upp og niður og berjast um besta tímann og maður hefur heyrt að Tommi umhverfisráðherra sé einn þeirra,“ segir Ævar.
Úlfarsfellið er frábært útivistarsvæði og er greinilegt að fólk er búið að uppgötva þessa nýju leið. Margir hafa klórað sér í höfðinu yfir því hvernig pokarnir komumst upp á fjallið en Guðmundur Sverrisson, Gúndi húsvörður, á sinn þátt í því og sá um að koma þeim upp, en enginn veit hvernig,“ segir Ævar léttur í bragði.

Forréttindi að taka þátt í uppbyggingu skólastarfsins

mosfellingurinn_johanna

Lágafellsskóli er samrekinn leik- og grunnskóli fyrir nemendur í Mosfellsbæ og er deildaskiptur í yngsta, mið- og unglingastig ásamt leikskóladeildum. Við skólann starfa um 130 manns en um 730 nemendur eru í skólanum. Jóhanna Magnúsdóttir hefur starfað sem skólastjóri Lágafellsskóla frá því skólinn var stofnaður árið 2001 en hefur nú látið af störfum.

Jóhanna er fædd á Eskifirði 17. nóvember 1953. Foreldrar hennar eru þau Erla Charlesdóttir húsmóðir og skrifstofudama og Magnús Bjarnason framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Eskifjarðar.
Jóhanna er elst þriggja systkina, Agla er fædd 1958 og Charles Óttar er fæddur 1960 en hún á einnig hálfsystur, Sonju f. 1952, samfeðra.

Það var barist með ýmsum áhöldum
„Ég ólst upp á Eskifirði í miklu frjálsræði eins og tíðkaðist á þeim tíma. Við krakkarnir lékum okkur úti allan daginn, dorguðum á bryggjunni, veiddum síli og á vetrum fórum við á skíði.
Það var talsvert um bardaga milli bæjarhluta og þá erum við að tala um alvöru bardaga þar sem barist var með ýmsum áhöldum, m.a. skíðastöfum, og einhverjir bera ör eftir þessar viðureignir.“

Var orðin sjálfstæð í söltuninni
„Síldarævintýrið var í algleymingi þegar ég var barn og ung að árum fékk ég að taka þátt í söltun með mömmu. Ég var 13 ára þegar ég var orðin sjálfstæð í söltuninni en þá var ekkert verið að velta sér upp úr því hvort börnin væru að vinna að nóttu til.
Tvö sumur vann ég svo við flökun í frystihúsinu. Þá naut ég þess mjög að afar mínir og ömmur bjuggu á staðnum og sótti ég mikið til þeirra enda yndislegt fólk. Íþróttir stundaði ég sem unglingur, bæði frjálsar íþróttir og handbolta.“

Ávað tíu ára að verða kennari
„Ég gekk í Barnaskóla Eskifjarðar og fannst gaman að læra. Ég hafði góða og eftirminnilega kennara en nefni helstan Ragnar heitinn Þorsteinsson en ég var líklega 10 ára þegar ég ákvað að verða kennari eins og hann.
Eftir unglingapróf fór ég í landspróf í Alþýðuskólann að Eiðum og útskrifaðist þaðan vorið 1969. Veturinn á Eiðum var afskaplega skemmtilegur, maður eignaðist marga vini, félagslífið var öflugt og mikið íþróttastarf sem ég tók þátt í.“

Æfði frjálsar íþróttir samhliða námi
Haustið 1969 settist Jóhanna í 1. bekk Kennararskóla Íslands og lauk kennaraprófi 1973, 19 ára. Hún ákvað að bæta við sig einu ári í Stúdentadeild skólans til að eiga möguleika á að fara í háskóla. Stúdentsprófið var svo í höfn 1974.
„Samhliða námi æfði ég frjálsar íþróttir og handbolta og keppti í handbolta til 1977 þegar ég varð ófrísk að mínu fyrsta barni.
Á sumrin vann ég á skrifstofu fyrir austan og síðar hjá ferðaskrifstofum í Reykjavík.“

Get enn heyrt glamrið í tönnunum
„Að loknu stúdenstsprófi réði ég mig til kennslu í Hólabrekkuskóla sem þá var ekki fullkláraður. Ég kenndi því 9 ára börnum í Fellaskóla og landsprófs- og verslunardeildum í Réttarholti. Vegna plássleysis í Réttó varð að kenna tveimur bekkjum saman og ég man mjög vel þegar ég stóð í fyrsta sinn frammi fyrir landsprófsnemendum mínum, 46 í bekk og ég tvítug. Ég get enn heyrt glamrið í tönnunum og fundið svitann í lófunum. Það var mikil lífsreynsla en gekk ljómandi vel.
Í skólanum kynntist ég eiginmanni mínum, Edvard Ragnars­syni, sem þar var yfirkennari.“

Áttum yndislegan tíma á Höfn
„Sumarið 1979 fluttum við til Hafnar í Hornafirði með dætur okkar tvær, Erlu f. 1978 og Silju f. 1979. Ætlunin var að vera í tvö ár en árin urðu 12. Edvard hóf störf hjá Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga og ég hóf kennslu við Hafnarskóla.
Við áttum yndislegan tíma á Höfn, tókum virkan þátt í ýmis konar félagsstarfi og eignuðumst vini til lífstíðar. Ég starfaði við kennslu í níu ár auk þess sem ég var með umboð fyrir ferðaskrifstofur.
Meðan við bjuggum þar fjölgaði í fjölskyldunni, Magnús fæddist 1982, Darri 1987 og Mist 1990. Edvard á þrjú börn frá fyrra hjónabandi, Önnu Guðrúnu, Ragnar og Kristinn Nikulás. Barnabörnin eru orðin 12 og 2 barnabarnabörn.“

Nýttum skíðalandið vel
„Sumarið 1991 fluttum við fjölskyldan í Mosfellsbæ. Börnin byrjuðu fljótt í íþróttum, tónlistarnámi og hestamennsku. Okkur fannst frábær kostur að hafa skíðaland í næsta nágrenni og nýttum það vel. Fyrstu þrjú árin eftir flutninginn var ég dagmóðir enda ekki hlaupið að því að koma börnum á leikskóla á þeim tíma.
Haustið 1994 hóf ég störf sem kennari við Varmárskóla þar sem ég vann til 1999. Tekin var ákvörðun á þessum tíma að reisa nýjan grunnskóla en á meðan hann var í byggingu var starfrækt útibú frá Varmárskóla.
Ég var beðin um að taka að mér starf útibússtjóra og gegndi því starfi í tvö ár með 170 nemendur eða þar til Lágafellsskóli tók til starfa.“

Þróunarverkefni í stjórnun
„Haustið 2001 hóf ég síðan starf sem skólastjóri Lágafellsskóla ásamt Sigríði Johnsen og Birgi Einarssyni og var um að ræða þróunarverkefni í stjórnun með undanþágu frá menntamálaráðuneyti. Fyrsta árið voru um 270 nemendur við skólann.
Birgir hætti eftir ár en við Sigríður störfuðum saman til 2007 en það ár fór ég í námsleyfi. Þegar Sigríður lét af störfum 2008 var Efemía Gísladóttir ráðin í hennar stað og starfaði hún við hlið mér þar til hún flutti utan 2010. Þá var tveggja skólastjóra kerfið lagt af við skólann og hef ég því gegnt starfinu ein síðan þá.“

Skólinn eins og eitt af börnunum
„Það hafa verið mikil forréttindi að taka þátt í uppbyggingu skólastarfsins og að vinna með öllu því öfluga og faglega starfsfólki sem unnið hefur við skólann. Þá hefur verið gaman að kynnast og vinna með öllum nemendum skólans í gegnum tíðina og foreldrum þeirra.
Ég hafði alla tíð mikið yndi af að kenna enda starfaði ég við kennslu í 27 ár áður en ég tók við skólastjórnun. Það hefur verið mikil reynsla og afar skemmtilegt og krefjandi starf sem ég hafði gegnt þegar ég lét af störfum 1. ágúst sl.
Skólinn er eins og eitt af börnunum mínum sem ég hef tekið þátt í að „ala upp“ fyrstu 18 árin og hef nú sleppt hendi af, enda í góðum höndum.“

Mun hafa nóg fyrir stafni
En hvað skyldi Jóhanna ætla að taka sér fyrir hendur? „Fyrst og fremst hlakka ég til að verja meiri tíma með manninum mínum og fjölskyldunni en Edvard lét af störfum fyrir 6 árum eftir að starfað sem útibússtjóri í banka og sem grunnskólakennari.
Þá eigum við hjónin bústað í Öndverðarnesi sem okkur finnst frábært að dvelja í.
Okkur þykir gaman að ferðast og höfum farið árlega á skíði til Austurríkis. Kannski sný ég mér að golfinu, hver veit? Ég er viss um að ég mun hafa nóg fyrir stafni og mun njóta þess að vera ekki bundin yfir löngum vinnudegi,” segir Jóhanna og brosir.

Mosfellingurinn 27. ágúst 2019
ruth@mosfellingur.is

Í túninu heima 2019 – DAGSKRÁ

tunid2019

Bæjarhátíðin, Í túninu heima, verður haldin helgina 30. ágúst-1. september. Dagskráin er glæsileg að vanda og þar ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin hefur fyrst og fremst verið byggð upp á framtaki íbúa bæjarins og þátttöku þeirra.
Um helgina verður boðið upp á þekkta dagskrárliði eins og Ullarpartí og markaðsstemningu í Álafosskvos, flugvéla- og fornvélasýningu á Tungubökkum, kjúklingafestival, stórtónleika á Miðbæjartorgi, götugrill og Pallaball. Frítt verður í Strætó allan laugardaginn fyrir Mosfellinga og gesti þannig að það er tilvalið að skilja bílinn eftir heima.

Smelltu hér til að skoða dagskrá bæjarhátíðarinnar (pdf)

 

ÞRIÐJUDAGUR 27. ÁGÚST

17:00-20:00 PERLAÐ MEÐ KRAFTI
Kraftur kemur í Hlégarð og perlar armbönd með Aftureldingu og Mosfellingum. Kraftur er stuðnings­félag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein. Skemmtileg stund fyrir alla fjölskylduna og tilvalið að láta gott af sér leiða.

MIÐVIKUDAGUR 28. ÁGÚST

17:00 LISTAPÚKINN Á BLIK
ListapúkinnÞórir Gunnarsson, opnar sýningu á Blik Bistro (golfskálanum). Listapúkinn er orðinn landsþekktur fyrir líflegar og skemmtilegar myndir sem hann málar af mannlífinu.

18:00 PRJÓNASKREYTINGAR Í MIÐBÆNUM
Kvenfélag Mosfellsbæjar skreytir aspirnar við Háholt í miðbæ Mosfellsbæjar. Íbúar geta tekið þátt og komið með það sem þeir eru með á prjónunum.

20:00-22:00 UNGLINGADANSLEIKUR Í HLÉGARÐI
Upphitun fyrir bæjarhátíðina. Unglingaball fyrir 8.-10. bekkinga. Dj Jooohan og Birnir mæta. Kostar litlar 500 krónur inn.

20:00 GÓSS Í LÁGAFELLSKIRKJU
Hljómsveitin GÓSS kemur fram og syngur hugljúf lög af nýútkominni plötu sinni. Hljómsveitin Góss er tríó, skipað þeim Sigríði Thorlacius, Sigurði Guðmundssyni og Guðmundi Óskari Guðmundssyni. Frítt inn meðan húsrúm leyfir.

FIMMTUDAGUR 29. ÁGÚST

ÍBÚAR SKREYTA HÚS OG GÖTUR Í HVERFISLITUM
GULUR – Hlíðar, Höfðar, Tún og Mýrar
RAUÐUR – Tangar, Holt og Miðbær
BLEIKUR – Teigar, Krikar, Lönd, Ásar, Tungur og Mosfellsdalur
BLÁR – Reykja- og Helgafellshverfi

18:00-21:00 KRYDDBRAUÐSKEPPNI STEINDA JR.
Á pizzastaðnum Blackbox í Háholtinu verður DJ frá kl. 18-21 og fram fer kryddbrauðskeppni Steinda Jr. Hátíðartilboð í boði fyrir gesti og gangandi.

18:00-22:00 SUNDLAUGARKVÖLD Í LÁGAFELLSLAUG
Fjölskyldan skemmtir sér saman. Sundlaugarkvöld fyrir 10 ára og yngri kl. 18-20 og fyrir 11 og eldri kl. 20-22. Leikhópurinn Lotta kíkir í heimsókn með söngvasyrpu kl. 18:15 og 19:30. Blöðrulistamenn sýna listir sínar og gera skemmtileg blöðrudýr. Dj. Baldur verður á svæðinu. Zumba í lauginni kl. 20:15. Frítt inn fyrir alla.

19:00 SKÁLDAGANGA UPP MEÐ VARMÁ
Safnast verður saman við Hlégarð, gengið upp með Varmá, að Stekkjarflöt og í Álafosskvos. Bjarki Bjarnason rithöfundur og forseti bæjarstjórnar leiðir gönguna. Kvennakórinn Stöllurnar tekur lagið og fer með bókmenntatexta á leiðinni.

19:00 FELLAHRINGURINN – FJALLAHJÓLAKEPPNI
Hjólakeppni um stíga Mosfellsbæjar. Keppnin hefst við íþróttahúsið að Varmá. Tvær vegalengdir í boði, 15 km og 29 km. Sjá nánar á netskraning.is/fellahringurinn

20:00 BÍLAKLÚBBURINN KRÚSER VIÐ KJARNA
Bílaklúbburinn Krúser safnast saman á bílaplaninu við Kjarna. Tilvalið að kíkja á flottar drossíur og klassíska bíla frá liðinni tíð. Fjöldi glæsivagna á svæðinu ef veður leyfir og eru heimamenn sérstaklega hvattir til að mæta.

21:00 BUBBI MORTHENS Í HLÉGARÐI
Bubbi Morthens verður með tónleika í Hlégarði. Bubbi gaf nýlega út plötuna Regnbogans stræti sem er hans þrítugasta og þriðja breiðskífa. Miðasala á www.midi.is.

FÖSTUDAGUR 30. ÁGÚST

8:00-20:00 ÆFINGASVÆÐI GOLFKLÚBBSINS
Frítt fyrir alla á nýtt æfingasvæði Golfklúbbs Mosfellsbæjar við Hlíðavöll. Tveir fyrir einn af vallargjaldi á Hlíðavelli og í Bakkakoti.

10:00 og 11:00 BÓKASAFN MOSFELLSBÆJAR
Leikhópurinn Lotta kemur í heimsókn og flytur Söngvasyrpu og skemmtir 5 ára börnum í bænum. Sýningarnar verða tvær. Öll börn fædd 2015 eru hjartanlega velkomin. Dagskrá í samstarfi við leikskólana.

13:00-17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, nag­grísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 800 kr.­

14:00–20:00 ÆVINTÝRI Á GÖNGUFÖR
Ásta Júlía Hreinsdóttir sýnir olíumálverk í gróðurhúsinu að Suðurá í Mosfellsdal.

Kl. 17:00-20:00 SKELJATANGI  26 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Opið hús hjá Hrönn Huld Baldursdóttur spænskukennara sem býður í spænskt ævintýri. Tilvalið fyrir alla þá sem hafa gaman af því að tala spænsku og kynnast nýju fólki. Léttar veitingar í boði.

18:00 HVÍTI RIDDARINN – BJÖRNINN
Knattspyrnulið Hvíta Riddarans leikur fyrsta leik í úrslitakeppni 4. deildar að Varmá.

18:00-21:00 VELTIBÍLLINN Á MIÐBÆJARTORGINU
Veltibíllinn kemur í heimsókn á torgið þar sem Mosfellingum gefst kostur á því að finna hversu mikilvægt er að nota bílbelti.

19:30-23:00 KAFFIHÚS MOSVERJA
Skátafélagið Mosverjar verður með kaffihús í Skálanum í Álafosskvos. Rjúkandi heitar vöfflur og kakó eða kaffi.

19:30-22:30 ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS
Markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi.

20:00-22:00 TRÚBADOR Á BLACKBOX
Trúbadorinn Magnús Hafdal verður með gítarinn á Blackbox. Hátíðartilboð í boði fyrir gesti og gangandi.

20:30 ÍBÚAR SAFNAST SAMAN Á MIÐBÆJARTORGI
GULIR, RAUÐIR, BLEIKIR og BLÁIR. Allir hvattir til að mæta í lopapeysu.

20:45 SKRÚÐGÖNGUR LEGGJA AF STAÐ
Hestamannafélagið Hörður leiðir gönguna með vöskum fákum. Göngustjórar frá Leikfélagi Mosfellssveitar.

21:00-22:30 ULLARPARTÍ Í ÁLAFOSSKVOS
Brekkusöngur og skemmtidagskrá. Skólahljómsveit Mosfellsbæjar tekur á móti skrúðgöngu. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri setur hátíðina. Söngvaborg tekur nokkur lög. Hilmar og Gústi stýra brekkusöng. Björgunarsveitin Kyndill kveikir í blysum. Rauðakrosshópurinn sinnir gæslu ásamt Kyndli.

22:00 BAGGALÚTUR Í HLÉGARÐI
Hljómsveitin Baggalútur heldur tónleika í Hlégarði.
Húsið opnar kl. 21:00 og miðasala fer fram á www.midi.is.

LAUGARDAGUR 31. ÁGÚST

• Frítt í Strætó í boði Mosfellsbæjar • Frítt í Varmárlaug  • Frítt á Gljúfrastein

8:00-20:00 ÆFINGASVÆÐI GOLFKLÚBBSINS
Frítt fyrir alla á nýtt æfingasvæði Golfklúbbs Mosfellsbæjar við Hlíðavöll. Tveir fyrir einn af vallargjöldum á Hlíðavelli og í Bakkakoti.

8:00–17:00 MOSFELLSBAKARÍ
Bakaríið í hátíðarskapi alla helgina og býður gestum og gangandi upp á ferskt brauð og frábæra stemningu. Bakkelsi í hverfalitunum og vöfflur til hátíðarbrigða.

9:00–17:00 FRÍTT Á GLJÚFRASTEIN
Gljúfrasteinn – hús skáldsins opnar dyrnar að safninu upp á gátt og verður frítt inn í tilefni bæjarhátíðar Mosfellsbæjar, Í túninu heima. Gljúfrasteinn var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans um hálfrar aldar skeið. Í nágrenni safnsins eru skemmtilegar gönguleiðir, meðal annars upp að Helgufossi.

9:00-17:00 ÍÞRÓTTASVÆÐIÐ Á TUNGUBÖKKUM
Fótboltamót Aftureldingar og Weetos, 6. og 7. flokkur karla og kvenna.

9:00-16:00 TINDAHLAUP MOSFELLSBÆJAR
Náttúruhlaup sem hefst við Íþróttamiðstöðina að Varmá. Ræst kl. 9:00 og kl. 11:00. Fjórar vegalengdir í boði, 7 tindar (38 km), 5 tindar (34 km), 3 tindar (19 km) og 1 tindur (12 km). Nánari upplýsingar á www.mos.is/tindahlaup og www.hlaup.is.

Kl. 10:00-14:00 REYKJAVEGUR 59 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Hjónin Svandís og Einar verða með opið hús þar sem til sýnis verða handunnar prjónavörur. Einnig tölur og fleira unnið úr kinda- og hreindýrahornum. Heitt verður á könnunni.

10:00-16:00 MOSSKÓGAR Í MOSFELLSDAL
Útimarkaður: Sultukeppni, grænmeti frá Mosskógum, silungur frá Heiðarbæ, rósir frá Dalsgarði o.fl. Kammerkór Mosfellsbæjar tekur nokkur lög kl. 13:30. Úrslit í sultukeppni kl. 15:00. Skila þarf inn sultum fyrir hádegi.

Kl. 10:00-10:45 AKURHOLT 12 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Hildur Ágústsdóttir býður í yoga nidra hugleiðslu í garðinum. Hafið meðferðis dýnu, teppi og kodda. Yoga Nidra er kallað yoga svefn, eða ástand milli svefns og vöku. Þar nær hugurinn og taugakerfið að hvílast og endurnærast.

11:00 AKURHOLT 16 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Síðmorgunstónleikar á heimili Önnu Hilmarsdóttur og Egils Stefánssonar. Fram koma Daniel Pye úr hljómsveitinni Neuromantics og dúettinn Dísa og Viktor sem samanstendur af Dísu Andersen og Viktori Inga Guðmundssyni.

12:00-15:00 ENGJAVEGUR 6 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Myndlistarsýning á verkum Hannesar Scheving. Hann hefur stundað málara­list síðastliðin 30 ár. Verk til sölu og sýnis. Allir velkomnir.

12.00–18.00 ÆVINTÝRI Á GÖNGUFÖR
Ásta Júlía Hreinsdóttir sýnir olíumálverk í gróðurhúsinu að Suðurá í Mosfellsdal.

12:00-14:00 KYNNING Á VETRARSTARFI UMFA
Deildir Aftureldingar koma saman í íþróttahúsinu að Varmá í sal 3. Hægt verður að prófa hinar ýmsu íþróttir sem boðið verður upp á í vetur, fá aðstoð við skráningu og upplýsingar um æfingatíma og frístundaávísun.

12:00-17:00 WINGS AND WHEELS – TUNGUBAKKAFLUGVÖLLUR FORNVÉLASÝNING
Gamlar flugvélar, dráttarvélar úr Mosfellsbæ, mótorhjól, fornbílar og flugsýning. Heitt á könnunni fyrir gesti og karamellukast fyrir káta krakka.

12:00 HÓPAKSTUR UM MOSFELLSBÆ
Ferguson-félagið stendur fyrir hópakstri dráttarvéla og fornbíla. Lagt er af stað frá Tungubakkaflugvelli og keyrður hringur um Mosfellsbæ.

12:00-18:00 KAFFIHÚS MOSVERJA
Skátafélagið Mosverjar verður með kaffihús í Skálanum í Álafosskvos. Rjúkandi heitar vöfflur og kakó eða kaffi. Blaðrarinn kíkir í heimsókn kl. 15 og skemmtir börnum.

13:00 AMSTURDAM 6 VIÐ REYKJALUND – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Kvennakórinn Stöllurnar og María Guðmundsdóttir bjóða til árlegrar garðveislu. Söngur, gleði og gaman.

13:00-17:00 KLIFURVEGGUR Í ÁLAFOSSKVOS
Skátafélagið Mosverjar býður öllum að sigra klifurvegginn sem staðsettur verður við Skálann í Álafosskvos.

13:00-17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, naggrísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 800 kr.

12:00-16:00 ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS
Markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi og ýmsar uppákomur á sviði.
12:00 Blaðrarinn mætir með sín vinsælu blöðrudýr
12:30 Skósveinar (Minions) á röltinu um svæðið
13:00 Krakkar úr Krikaskóla syngja
13:30 Karlakórinn Stefnir
14:00 Hljómsveitin Þristarnir úr Listaskólanum
14:30 Kammerkór Mosfellsbæjar
15:00 Heimatilbúið söngatriði

13:00-15:00 KYNNING Á ÆVINTÝRAGARÐINUM
Kynning á skipulagi Ævintýragarðsins. Fulltrúar bæjarins og hönnuðir verða við Íþróttamiðstöðina að Varmá til að svara spurningum og taka á móti hugmyndum bæjarbúa um framtíð Ævintýragarðsins.

13:00–14:00 LISTAMANNASPJALL
í Listasal Mosfellsbæjar Gerður Guðmundsdóttir segir frá sýningunni sinni Skynjun – Má snerta. Þetta er litrík sýning af lopaverkum þar sem sýningargestir eru hvattir til að upplifa verkin með snertingu.

13:00–16:00 SKIPTIFATAMARKAÐUR RKÍ
Rauði krossinn verður með pop-up barnafatamarkað í Rauða kross húsinu, Þverholti 7. Komdu með heillegar flíkur og skiptu út fyrir aðrar eða gerðu reyfarakaup.

13:00-15:00 EIRHAMRAR – FÉLAGSSTARF ALDRAÐA
Mosfellingar, FaMos-félagar og aðrir gestir velkomnir í heimsókn í þjónustumiðstöðina á Eirhömrum. Fjölbreytt vetrardagskrá kynnt. Kaffi á könnunni og Vorboðarnir taka lagið um kl. 13:00.

13:00-13:30 SIRKÚS ÍSLANDS VIÐ HLÉGARÐ
Sirkús Íslands sýnir listir sínar á túninu við Hlégarð. Fjörug fjölskyldusýning fyrir allan aldur. Aðgangur frír.

13:00 – 15:00 VÖFFLUKAFFI Í FMOS
Nemendafélag Framhaldsskólans Mosfellsbæ verður með vöfflukaffi í skólanum og rennur ágóði til góðgerðarmála.

14:00 – 18:00 REYKJAVEGUR 84 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Opið hús á leirvinnustofu Helgu Jóhannesdóttur, Reykjavegi 84. Keramik og olíumálverk. Kaffi á könnunni og snafs.

14:00 NJARÐARHOLT 10 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Hljómsveitin Piparkorn leikur. Boðið verður upp á létta jass og blues tónlist, bæði þekkt efni og frumsamið. Á píanó er Magnús Þór Sveinsson, trommari er Þorsteinn Jónsson, á gítar og bassa er Gunnar Hinrik Hafsteinsson og söngkona er Þóra Björg Ingimundardóttir.

14:00 FURUBYGGÐ 28 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Kvennakórinn Heklurnar syngur lög í Furubyggðinni. Kórkonurnar koma víða að en stjórnandi kórsins er Dagný Þórunn Jónsdóttir.

14:00 AKURHOLT 21 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Blásið verður til garðtónleika hjá Öldu og Sigga Hansa í Akurholti. Stormsveitin kemur fram og eru allir velkomnir.

14:00-16:00 ARKARHOLT 4 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Frænkurnar Unnur, Hanna og Unnur taka á móti gestum í garðinum. Bara Hanna skartgripahönnuður verður með skartgripi til sýnis og sölu. Bílskúrssala og bakkelsi. Svavar Knútur leikur kl. 15

14:00-24:00 TÍVOLÍ VIÐ MIÐBÆJARTORG

14:00-16:00 KJÚKLINGAFESTIVAL
Stærstu kjúklinga- og matvælaframleiðendur landsins kynna afurðir sínar og gefa smakk við íþróttamiðstöðina að Varmá. Matur og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Ýmis skemmtiatriði, axarkast, kraftaáskorun, harmonikkuleikur, uppistand og fleira.

14:00-17:00 STEKKJARFLÖT
Frítt fyrir káta krakka í hoppukastala og ærslabelg.

15:00 HAMARSTEIGUR 9 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Söngskemmtun fyrir alla fjölskylduna. Sönghópurinn Tóna­fljóð syngur Disney-lög á íslensku úr teiknimyndum sem allir ættu að þekkja, m.a. úr Frozen, Toy Story, Lion King og Aladdin. Dúettinn Bergmál kemur einnig fram.

15:00 ÁLMHOLT 10 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Söngvarar Íslensku óperunnar sem taka þátt í sýningunni Brúðkaup Fígarós mæta og syngja skemmtilega óperutónlist. Anna Guðný Guðmundsdóttir leikur á píanó. Thorvaldsensbasar með kaffisölu til styrktar veikum börnum.

15:00 SÚLUHÖFÐI 1 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Tvíburabræðurnir Ævar og Örvar Aðalsteinssynir halda Kaffibrúsatónleika. Á efnisskránni eru íslensk og erlend lög sem allir kannast við. Með bræðrunum leika Sigurbergur Kárason á saxófón og Drífa Örvarsdóttir á fiðlu.

15:00-16:00 STEKKJARFLÖT – HESTAFJÖR
Teymt undir börnum á Stekkjarflötinni í boði Hestamenntar.

14:00 VARMÁRVÖLLUR – AFTURELDING – NJARÐVÍK
Knattspyrnulið Aftureldingar tekur á móti Njarðvík í 19. umferð Inkasso-deildar karla. Frítt inn í boði KFC. Páll Óskar verður heiðursgestur og Steindi Jr. vallarþulur.

Kl. 16:00 TÚNFÓTUR – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Blúshljómsveit Þorkels Jóelssonar og félagar halda tónleika á garðpallinum í Túnfæti í Mosfellsdal. Tónleikarnir standa yfir í um klukkustund.

16:30 KARMELLUKAST Á FLUGVELLINUM TUNGUBÖKKUM

Kl. 17:00-19:00 BOLLATANGI 2 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Garðtónleikar Sprite Zero Klan verða haldnir hátíðlegir með öllu tilheyrandi.  Gestaatriði, blöðrur og svakalegt show. Sigrún Ermarsundsfari mun setja upp svuntuna og baka ofan í gesti og gangandi eins og venjan er.

17:00-21:00 GÖTUGRILL Í MOSFELLSBÆ
Íbúar í Mosfellsbæ halda götugrill í vel skreyttum götum bæjarins. Tríóið Kókos fer á milli staða og heimsækir heppna íbúa.

21:00-00:00 TRÚBADOR Á BLACKBOX
Trúbadorinn Siggi Þorbergs verður með gítarinn á Blackbox í Háholtinu. Hátíðartilboð í boði fyrir gesti og gangandi.

21:00-23:00 STÓRTÓNLEIKAR Á MIÐBÆJARTORGI
Skemmtun fyrir alla fjölskylduna þar sem Mosfellsbær býður öllum upp á tónleika á Miðbæjartorginu. Fram koma: Stuðlabandið, Katrín Halldóra (Elly), Björgvin Halldórsson, GDRN, Páll Óskar, Huginn og Svala Björgvins. Kynnir verður Greta Salóme. Rauðakrosshópurinn sinnir gæslu ásamt Björgunarsveitinni Kyndli.

23:00 FLUGELDASÝNING KYNDILS

23:30-04:00 STÓRDANSLEIKUR MEÐ PÁLI ÓSKARI
Hinn eini sanni Páll Óskar mætir í íþróttahúsið að Varmá. Miðverð á Pallaball aðeins 2.500 kr. í forsölu og 3.500 kr. við inngang. Forsala á www.afturelding.is.

SUNNUDAGUR 1. SEPTEMBER

8:00–17:00 MOSFELLSBAKARÍ
Bakaríið í hátíðarskapi alla helgina og býður gestum og gangandi upp á ferskt brauð og frábæra stemningu. Bakkelsi í hverfalitunum og vöfflur til hátíðarbrigða.

8:00-20:00 ÆFINGASVÆÐI GOLFKLÚBBSINS
Frítt fyrir alla á nýtt æfingasvæði Golfklúbbs Mosfellsbæjar við Hlíðavöll. Tveir fyrir einn af vallargjöldum á Hlíðavelli og í Bakkakoti.

9:00-17:00 ÍÞRÓTTASVÆÐIÐ Á TUNGUBÖKKUM
Fótboltamót Aftureldingar og Weetos, 6. og 7. flokkur karla og kvenna.

10.00-13.00 GANGA Á REYKJABORG
Létt fjallganga um stikaðar leiðir Mosfellsbæjar. Gengið verður upp með Varmá og stefnan tekin á Reykjaborg, þar sem er hringsjá og frábært útsýni. Lagt verður af stað frá Suður-Reykjum kl. 10:00. Fararstjórar verða Ævar Aðalsteinsson, verkefnastjóri stikaðra gönguleiða og Tómas G. Gíslason umhverfisstjóri Mosfellsbæjar.

Kl. 10:00-14:00 REYKJAVEGUR 59 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Hjónin Svandís og Einar verða með opið hús þar sem til sýnis verða handunnar prónavörur. Einnig tölur og fleira unnið úr kinda- og hreindýrahornum. Heitt verður á könnunni.

11:00 KVÍSLARTUNGA 7 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Stofutónleikar í Kvíslartungu þar sem Mosfellsbæjarkvartettinn kemur fram. Söngkvartettinn eru þannig skipaður: Ásdís Arnalds, sópran, Lilli Dietz, alt, Þórarinn Jónsson, tenór og Reynir Bergmann Pálsson, bassi.

11:00 GUÐSÞJÓNUSTA Í LÁGAFELLSKIRKJU
Guðsþjónusta með léttu ívafi Í túninu heima. Sr. Ragnheiður Jóndóttir. Kirkjukór Lágafellssóknar leiðir safnaðarsöng. Þorvaldur Örn Davíðsson organisti.

11:00-15:00 HINDRUNARBRAUT VIÐ HLÉGARÐ
Frítt í 50 m uppblásna hindrunarbraut og Disney-hoppukastala á túninu við Hlégarð.

12:00–18:00 ÆVINTÝRI Á GÖNGUFÖR
Ásta Júlía Hreinsdóttir sýnir olíumálverk í gróður­húsinu að Suðurá í Mosfellsdal.

13:00-17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, nag­grísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 800 kr.

14:00 HLÉGARÐUR – HÁTÍÐARDAGSKRÁ
• Stórsveit Íslands leikur ásamt Hjördísi Geirs og Önnu Margréti Káradóttur.
• Umhverfis­nefnd veitir umhverfis­-viðurkenningar Mosfellsbæjar 2019.
• Mosfellsbær heiðrar starfsmenn sem eiga 25 ára starfsafmæli.
• Útnefning bæjarlistarmanns Mosfellsbæjar 2019.
• Heitt á könnunni og allir velkomnir.

14:00-15:30 AFMÆLISHÁTÍÐ FIMLEIKADEILDAR
Fimleikadeild Aftureldingar býður alla velkomna í 20 ára afmæli í fimleikasalnum að Varmá. Opið hús.

14:00-16:00 OPIÐ HÚS Á SLÖKKVISTÖÐINNI
Slökkvistöðin við Skarhólabraut verður til sýnis fyrir hátíðargesti. Gestum býðst að skoða bíla, tæki og búnað slökkviliðsins í bílasal. Allir velkomnir.

16:00-22:00 AFMÆLISOPNUN Í UNGMENNAHÚSI MOSANS
Í tilefni af 2 ára afmæli Mosans verður starfið keyrt í gang með opnu húsi í Bólinu. Boðið verður upp á vöfflur, tónlist og geggjaða stemningu. Vonandi sjáum við sem flesta.

Bærinn iðar af lífi Í túninu heima

hatidarmynd

hverfaskiptingAð vanda verður líf og fjör í Mosfellsbæ þegar bæjarhátíðin Í túninu heima fer fram helgina 30. ágúst til 1. september.
Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki í Mosfellsbæ taka virkan þátt í hátíðinni og geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi.
Þekktir liðir verða á sínum stað, svo sem flugvéla- og fornvélasýning á Tungubökkum, kjúklingafestival og Pallaball, en einnig opið hús á slökkvistöðinni við Skarhólabraut sem naut mikilla vinsælla í fyrra.

Setning og ullarpartý á föstudagskvöld
Dagskrá hátíðarinnar verður æ veglegri með hverju árinu og hefst nú á þriðjudegi, en hátíðin er þó formlega sett á föstudag. Skrúðgöngur í hverfalitunum fjórum leggja af stað frá Miðbæjartorgi kl. 20:45 á föstudag með hestamannafélagið Hörð í broddi fylkingar. Þaðan liggur leiðin í Álafosskvos þar sem hátíðin er sett. Að því loknu verður Ullarpartý með brekkusöng og skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Í Álafosskvos fer fram markaður og skátafélagið Mosverjar skapar notalega kaffihúsastemningu. Hin árlega sultukeppni er á sínum stað á útimarkaðnum í Mosfellsdal. Gljúfrasteinn opnar dyrnar að safninu upp á gátt og verður frítt inn í tilefni bæjarhátíðarinnar.

Heilsueflandi dagskrárliðir
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og því vel við hæfi að á dagskrá hátíðarinnar eru bæði fjallahjólakeppnin Fellahringurinn, fótboltamót og Tindahlaupið, en það er eitt vinsælasta utanvegahlaup landsins. Fjórar vegalengdir eru í boði, einn, þrír, fimm eða sjö tindar á fellunum umhverfis bæinn.

Mosfellingar bjóða heim
Mosfellingar taka vel á móti gestum og gangandi, skreyta hús og garða sína í hverfislitunum og bjóða heim.
Fjölbreytileg dagskrá er í görðum bæjarbúa og má þar nefnda spænskt ævintýri, myndlistarsýningu, handverkssýningu og söngsyrpu úr Disney teiknimyndum.

Hápunktur á torginu
Stórtónleikar á Miðbæjartorgi eru hápunktur hátíðarinnar. Þar skemmta landsþekktar hljómsveitir ásamt heimamönnum og björgunarsveitin Kyndill stendur fyrir glæsilegri flugeldasýningu.
Frítt verður í strætó­leiðir 7, 15 og 27, í Varmárlaug og á Gljúfrastein allan laugardaginn. Dagskrá hátíðarinnar er að finna í miðopnu blaðsins og á vefsíðu Mosfellsbæjar www.mos.is.

Smelltu hér til að skoða dagskrá hátíðarinnar!

Endurbætur og viðhald Varmárskóla á lokametrunum

Varmárskóli tekinn í gegn í sumar eftir að í ljós komu rakaskemmdir í hluta húsnæðisins.

Varmárskóli tekinn í gegn í sumar eftir að í ljós komu rakaskemmdir í hluta húsnæðisins.

Frá því í júní hafa staðið yfir margháttaðar endurbætur og viðhald á Varmárskóla sem nú sér fyrir endann á.
Framkvæmdirnar byggja á tveimur ólíkum úttektum. Annars vegar úttekt Verksýnar sem tekur til almenns viðhalds og endurbóta á elstu hlutum skólahúsnæðisins. Hins vegar heildarúttekt EFLU á rakaskemmdum og afleiðingum þeirra.
Dagleg verkefnisstjórnun var í höndum umhverfissviðs Mosfellsbæjar og voru Verksýn og EFLA til ráðgjafar við framkvæmdir, röðun þeirra og leiðbeiningar um vinnubrögð á rakaskemmdum svæðum og þeim stöðum þar sem örveruvöxtur hafði greinst.
Samkvæmt upplýsingum frá EFLU var öllum verklagsreglum fylgt í hvívetna og fram fóru sérhæfð alþrif á húsnæðinu fyrir skólasetningu föstudaginn 23. ágúst.
Verktakar við framkvæmdirnar í Varmárskóla í sumar voru ÁS-Smíði ehf., Ístak hf. og Kappar ehf. og Pétur og Hákon ehf.

Gluggaskiptum lokið í suðvesturálmu
Framkvæmdunum er nú að mestu lokið og gluggaskiptum sem í síðustu viku var talið að þyrftu að eiga sér stað í vetrarfríinu í október er nú lokið í suðvesturálmu yngri deilda.
Vinna við gluggaskipti í bókasafni hófst mánudaginn 26. ágúst og gluggar í starfsmannaálmu verða endurnýjaðir næstu helgar. Þessi verkþáttur tafðist vegna tafa á afhendingu glugga frá framleiðanda.

Heildarskimun og loftgæðamælingar
Á fundi bæjarráðs 22. ágúst var samþykkt að ganga til samninga við annars vegar verkfræðistofuna EFLU og hins vegar við Orbicon um frekari úttektavinnu og heildarskimun á skólahúsnæði Mosfellsbæjar auk loftgæðamælinga.

Róum okkur aðeins

heilsumolar27agust

Heilsa og heilbrigði snýst ekki um að vera alltaf á miljón. Við þurfum að kunna að hvíla okkur alveg eins og að taka vel á því. Ég spjallaði við tvo Mosfellinga í vikunni sem báðir töluðu um muninn á því að búa erlendis, annars vegar í Danmörku og hins vegar Hollandi, og á Íslandi. Þeir töluðu báðir um að þeir hefðu fundið svo mikinn mun á daglegu lífi við það að flytja aftur til Íslands. Allt hefði einhvern veginn skrúfast upp. Hlutir þurfa að gerast svo hratt hjá okkur.

Við höfum litla þolinmæði fyrir því að bíða eftir því að hlutir hafi sinn gang, fari sinn farveg. Við, og ég er svo sem engin undantekning, reynum alltaf að stytta okkur leið. Komast að því hvern við þekkjum eða könnumst við svo við getum skautað fram hjá kerfinu. Fengið internet-tenginguna eða læknisvottorðið strax í dag. Eða alþjóðlega ökuskírteinið sem mamma reddaði á methraða í vor þegar ég var staddur í Japan og áttaði mig á því á allra síðustu stundu að heimamenn viðurkenndu ekki íslenska ökuskírteinið mitt. Mamma og bróðir konununnar sem vinnur við hraðflutninga gengu í málið og unnu svo hratt og vel með, eða hugsanlega, aðeins til hliðar við kerfið að alþjóðlega ökuskírteinið barst yfir hafið á tíma sem aldrei hefði átt að geta gengið upp. Þetta er svona haltu mér, slepptu mér dæmi. Við erum úrræðagóð, hugsum hratt í lausnum, þorum að framkvæma og erum ekki þrælar kerfisins.

En á móti býður einmitt þetta upp á að við tökum okkur ekki tíma til að anda. Stoppa og hvíla okkur á meðan hlutir gerast. Við megum alveg taka Danina, Hollendingana og aðra sem kunna þá list okkur til fyrirmyndar. Finna jafnvægi í daglegu lífi og njóta þess betur að vera til. Njóta náttúrunnar og kyrrðarinnar. Lifa.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. ágúst 2019

Kvenfélagið fagnar 110 ára afmæli

kvenfélag

Kvenfélagskonur í Reykjadal.

Kvenfélagskonur í Reykjadal.

„Vorið og sumarið hefur verið viðburðaríkt hjá Kvenfélagi Mosfellsbæjar. Í ár fagnar félagið 110 ára afmæli.
Við vorum svo lánsamar að fá úthlutað styrk frá samfélagssjóði KKÞ og var það okkur mikils virði að fá viðurkenningu fyrir okkar störf,“ segir Sólveig Jensdóttir formaður kvenfélagsins.
Konur í félaginu hafa í vetur prjónað sjúkrabílabangsa sem afhentir voru starfsfólki á slökkvistöðinni á Skarhólabraut. Sjúkrabílabangsar eru gefnir börnum sem þurfa að ferðast með sjúkrabílum og hafa þeir veitt þeim styrk og hlýju á ferðalaginu.
Kvenfélagskonur tóku til hendinni í skógarreitnum sínum við Skarhólabraut en félagið hefur haft reitinn til umráða til margra ára og nýverið var endurnýjaður samningur til 25 ára við Skógræktarfélagið.

Tekið vel á móti nýjum félögum
Kvenfélagskonur úr Kvenfélagssambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu færðu sumarbúðum í Reykjadal að gjöf þvottavél í samráði við forstöðumann. Tilefni gjafarinnar er 90 ára afmæli KSGK á þessu ári en á aðalfundi sambandsins 2. mars var þetta einróma samþykkt og voru Mosfellingarnir mjög glaðir að gjöfin kæmi í bæjarfélagið.

Færa gjafir á slökkvistöðinni.

Færa gjafir á slökkvistöðinni.

Á 17. júní tóku fimm konur úr félaginu, ásamt öðrum kvenfélagskonum frá Kvenfélagasambandi Íslands, þátt í að skera niður 75 m langa hátíðartertu í miðborg Reykjavíkur í tilefni 75 ára lýðveldisafmælis Íslands.
„Gaman væri að fleiri konur tækju þátt í okkar frábæra starfi. Við tökum vel á móti nýjum félögum í haust en í stað hefðbundins fundar í byrjun október ætla félagskonur í ferð til Riga í Lettlandi í tilefni 110 ára afmælis okkar.
Fyrsti hefðbundni fundur haustsins verður því 4. nóvember í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3, 3. hæð kl. 20:00.“

Nýr vefur fyrir íþróttafólk sem vill ná langt

biggivefur

Þau hjónin Linda Svanbergsdóttir og Birgir Arnaldur Konráðsson, betur þekktur sem Biggi Boot Camp, opnuðu á dögunum nýja vefsíðu þar sem áhersla er á tilbúin æfingaprógrömm fyrir íþróttafólk.
Þau hafa búið í Kaupmannahöfn í fjögur ár þar sem þau hafa kynnt og fylgt eftir Boot Camp-inu ásamt því að þjálfa, en Birgir fagnar um þessar mundir 25 ára þjálfaraafmæli.
„Það var alltaf einn og einn íþróttamaður í þjálfun hjá mér og svo fór að fjölga í þeim hópi. Það var orðin mikil eftirspurn eftir prógrömmum á netinu en við höfum verið að selja þau út um allan heim,“ segir Birgir.
Eins og staðan er núna er einna mest áhersla á handboltann þó svo að við sinnum vel öllum íþróttagreinum. Meðal þeirra sem hafa verið í þjálfun hjá Birgi eru Guðjón Valur handboltamaður og Rúnar Alex fótboltamaður.

Persónulegri þjálfun
„Við erum með tilbúin sérprógrömm fyrir undirbúniningstímabil og keppnistímabil, prógrömm með og án þyngda, fyrir unglinga og einnig úthaldsíþróttafólk, s.s. hlaupara og hjólara. Þessir stóru klúbbar eru flestir bara ótrúlega aftarlega hvað varðar styrktarþjálfun fyrir fólkið sitt, yfirleitt eitt prógram á alla, óháð stöðum og áherslum,“ segir Birgir.
Einnig bjóða þau upp á fjarþjálfun fyrir íþróttafólk sem byggist meira á daglegum samskiptum þar sem allt er sérsniðið að þörfum og dagsformi hvers og eins.
„Við stefnum svo á að gera aðra síðu á íslensku þar sem fókusinn er meiri á almenning.“

Undirbúningur fyrir Tindahlaupið
Birgir hefur yfirumsjón með Tindahlaupi Mosfellsbæjar fram fer laugardaginn 31. ágúst á bæjarhátíðinni Í túninu heima.
„Þar er allt á sínum stað, við erum alltaf að gera hlaupið betra og betra. Við vorum að fá vottun á hlaupaleiðirnar frá alþjóðasamtökum um utanvegahlaup.
Þá eru leiðunum gefnir punktar eftir erfiðleikastigi. Sjö tindarnir fengu tveggja punkta viðurkenningu og 5 og 1 tindur fengu einn punkt,“ segir Birgir.
„Þessir punktar nýtast t.d. hlaupurum sem stefna á erfið utanvegahlaup erlendis, t.d. 100 km í Ölpunum. Þá þarf að vera búið að safna ákveðið mörgum punktum til að mega hlaupa.
Þessi vottun er virkilega mikill gæðastimpill á Tindahlaupið, en fá hlaup á Íslandi teljast til tveggja punkta hlaupa.“

Hægt er að kynna sér nýja vefsíðu á slóðinni www.coachbirgir.com

Carpet í endurnýjun lífdaga

carpet á tónleikunum á akureyri 1998

Hljómsveitin Carpet á tónleikunum á Akureyri árið 1998.

Snemma á tíunda áratug síðustu aldar stofnuðu fjórir ungir piltar hljómsveit í Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Það er svo sem ekki í frásögur færandi.
Þetta voru þeir Hallgrímur Jón Hallgrímsson (trommur), Eyþór Skúli Jóhannesson (gítar), Arnar Ingi Hreiðarsson (bassi) og Jón Þór Birgisson (gítar, söngur).
Jón Þór yfirgaf hljómsveitina 1994 til að stofna aðra hljómsveit. Kristófer Jensson tók við míkrafóninum og síðar var kallaður til sögunnar Egill Hübner á gítar. Fékk hljómsveitin að lokum nafnið Carpet.

Upptökur að mestu glataðar
Hljómsveitin spilaði rokktónlist af miklum móð og var um tíma hálfgerð húshljómsveit í Rósenbergkjallara Sigurjóns Skæringssonar.
Ásamt reglulegu tónleikahaldi um víðan völl var hljómsveitin dugleg við lagasmíðar og tók upp nokkur lög fyrir fyrirhugaða plötuútgáfu, í hljóðverinu Núlist í Borgartúni undir handleiðslu fyrrum söngvarans Jóns Þórs og Kjartans Sveinssonar. Svo fór þó að pródúsentarnir urðu of uppteknir af tónleikahaldi um víða veröld að upptökur döguðu uppi og eru nú að mestu glataðar.

Tónleikar sem fæddu af sér Airwves
Árið 1998 urðu kaflaskil hjá hljómsveitinni þegar henni bauðst að koma fram á tímamótatónleikum í íslenskri tónlistarsögu. Þetta voru tónleikar sem Guðmundur Sesar heitinn Magnússon hélt á Akureyri og hafði honum tekist að fá til landsins útsendara erlendra útgáfurisa svo nokkuð sé til tekið.
Tónleikahaldið og allt sem því tengdist var mikil upplifun fyrir unga og óharðnaða tónlistarmenn. Þarna mynduðust tengsl sem á endanum fæddu af sér Iceland Airwaves hátíðina.

Hljómsveitin lognaðist út af
Ekki hlaut Carpet heimsfrægð að launum og lognaðist svo út af ekki mjög löngu síðar. Þrátt fyrir dauða Carpet hafa meðlimir sveitarinnar þó ekki sagt skilið við íslenska tónlistarsögu. Kristófer Jensson varð söngvari Lights On the Highway, Hallgrímur trommaði með Tenderfoot og núna Sólstöfum, Arnar spilaði á bassa í um 10 ár með Hljómsveitinni Ég. Egill hefur að mestu leyti leikið með ballhljómsveitum en gaf nýverið út sitt fyrsta sólóefni undir nafninu Sporfari. Eyþór er eini meðlimur Carpet sem lítið hefur fengist við tónlist undanfarin ár.

Boðin þátttaka 20 árum síðar
Það var því óvænt ánægja þegar hljómsveitinni var boðið að taka þátt á Airwaves 2018 í tilefni þess að 20 ár voru liðin síðan tónleikarnir frægu á Akureyri fóru fram.
Æfingar og tónleikar gengu vonum framar og var ákveðið að loka þessari löngu sögu með því að taka upp lag frá árdögum hljómsveitarinnar.
Lagið heitir Ocean og er eftir Eyþór Skúla Jóhannesson. Það varð fyrst til í bílskúr í Mosfellsbænum, sennilega ´92 eða ´93. Það hefur fylgt hljómsveitinni í gegnum tíðina.

 

Verslunin Coral.is opnar í Kjarna

coral

Verslunin Coral.is opnaði nýverið í Kjarnanum þar sem Dýralæknirinn var áður til húsa. Verslunin hefur verið starfrækt síðan 2012 en aðallega sem netverslun.
„Ég hef verið eigandi Coral.is síðastliðið ár og hef eingöngu rekið búðina á netinu. Það hefur gengið rosalega vel en til að geta veitt viðskiptavinum betri þjónustu og í framtíðinni aukið vöruvalið þá ákvað ég að stíga þetta skref og opna verslun,“ segir Berglind Rich­ardsdóttir sem er mjög ánægð með viðtökurnar.

Mikið úrval af vönduðum vörum
Coral.is býður upp á mikið úrval af kvenfatnaði, snyrtivörum og skartgripum. „Ég er fyrst og fremst með netverslun og allar vörur er hægt að skoða og panta á netinu. En ég fann að það er ákveðinn hópur sem vill koma og máta og skoða vörurnar. Það er rúmur skilatími á öllum okkar vörum þannig að fólk þarf ekki að vera hrætt við að panta á netinu en það er ekkert mál að skila eða skipta vörum. Hér er góð aðstaða, húsnæðið rúmgott, góðir mátunarklefar og nóg af bílastæðum.“

Fastur opnunartími og eftir samkomulagi
„Við erum með fastan opnunartíma á miðvikudögum og fimmtudögum á milli klukkan 16 og 18. Svo samkvæmt samkomulagi en það er hægt að panta tíma til að koma og skoða, máta eða sækja pantanir þegar það hentar viðskiptavininum. Ég hef fengið mjög góð viðbrögð eftir opnunina og finn að Mosfellingar eru ánægðir með þessa viðbót í bæjarfélaginu,“ segir Berglind að lokum og býður alla Mosfellinga sérstaklega velkomna.