Þolinmæði Aftureldingar á þrotum

Varmársvæðið í sumar með aðalvöllinn í forgrunni.

Formannafundir Aftureldingar fóru fram á dögunum þar sem formenn allra 11 deilda Aftureldingar hittust og fóru yfir málin.
Mikill órói er meðal Aftureldingarfólks eftir að hafa séð drög að fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem tekin hefur verið til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Samráðsvettvangur Mosfellsbæjar og Aftureldingar var settur á laggirnar haustið 2018 um uppbyggingu og nýtingu íþróttamannvirkja að Varmá.
Afturelding hefur nú ákveðið að draga sig úr þessum vettvangi og segir þá vinnu sem þar sé unnin litlu sem engu skila fyrir félagið.

Áskorun til bæjarstjórnar
Formannafundur Aftureldingar skorar á bæjarstjórn að við uppbyggingu að íþróttasvæðinu að Varmá á árinu 2024 verði sú framkvæmd fullkláruð í einum áfanga og til staðar verði bæði knattspyrnuvöllur og frjálsíþróttasvæði við verklok.
Það er að öllu leyti óásættanlegt að ekki eigi að vera til æfingaaðstaða til frjáls­íþróttaiðkunar og með því að bíða með uppbyggingu er Mosfellsbær að stuðla að því að leggja niður starf frjálsíþróttadeildar Aftureldingar, segir í áskoruninni.
Þá skorar Afturelding jafnframt á bæjaryfirvöld að hefja þegar í stað vinnu við að skipuleggja uppbyggingu íþróttasvæðisins að Varmá og fara í hönnun þeirra bygginga sem vitað er að þarf að reisa, þ.e. hönnun þjónustubyggingar og stúku.

Kallað eftir heildarsýn
„Mikill órói hefur verið í mínu kæra félagi, Aftureldingu, síðustu vikur,“ segir Birna Kristín Jónsdóttir formaður Aftureldingar.
„Í langan tíma höfum við kallað eftir heildarsýn og skipulagningu á því hvernig tímalínan á að vera varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja að Varmá.
Það er sannarlega verið að setja 700 milljónir í framkvæmdir á árinu 2024 og fögnum við því sannarlega. En við fögnum því alls ekki að verið sé að taka alveg aðstöðuna af einni deild og óbeint verið að leggja niður frjálsíþróttadeild félagsins.
Ég brenn fyrir því að sjá félagið mitt blómstra og aðstöðuna batna en viðurkenni að það er nett bugun í gangi en saman komumst við vonandi áfram,“ segir Birna Kristín.

Uppsöfnuð uppbyggingarþörf
Eftir holskeflu neikvæðrar umræðu á samfélagsmiðlum á dögunum sá meirihlutinn í bæjarstjórn Mosfellsbæjar sig knúinn til að svara.
„Eftir kosningar í maí 2022 voru miklar væntingar bundnar við að nýr meirihluti hæfi umtalsverða uppbyggingu að Varmá enda var mikil uppsöfnuð uppbyggingarþörf á svæðinu,“ skrifar Halla Karen formaður bæjarráðs.
„Á síðastliðnu eina og hálfa ári hefur gervigrasvöllurinn verið endurnýjaður að fullu og settur upp vökvunarbúnaður. Þá fékk Afturelding afhenta styrktaraðstöðu sem óskað hefur verið eftir í fjöldamörg ár og eins hefur félagið fengið aukið fjármagn til þess m.a. að mæta auknum kostnaði við starfsmannahald.
Í fjárhagsáætlun 2024 er gert ráð fyrir tæpum milljarði í framkvæmdir, þ.á m. að aðalvöllurinn verði endurgerður að fullu auk þess sem í þriggja ára fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir bæði þjónustubyggingu og stúkubyggingu við aðalvöllinn.
Við erum með stórhuga hugmyndir um framtíð Varmársvæðisins og teljum mikilvægt að horfa á svæðið í heild og horfa til framtíðar en bæta ekki við enn einum bútnum í bútasauminn.“