Guðrún Ýr gefur út sitt fyrsta lag

gudrunyr

Mosfellingurinn Guðrún Ýr, 21 árs, gaf á dögunum út sitt fyrsta lag sem ber titilinn Ein.
„Ég byrjaði að læra jazzsöng fyrir um fjórum árum, en hef samt verið í tónlist frá því að ég man eftir mér og lærði á fiðlu í mörg ár. Vinir mínir, þeir Bjarki Sigurðsson og Teitur Helgi Skúlason, sem mynda bandið Ra:tio sömdu lagið en ég samdi textann. Textinn er mjög persónulegur og er saminn út frá líðan minni á ákveðnu tímabili, ég hafði þörf fyrir að koma þessu frá mér.
Við erum rosalega ánægð með viðbrögðin við laginu en hægt er að nálgast það á Spotify. Við erum nú þegar farin að vinna að stærri verkefnum og áætlum að gefa út meira efni fyrir sumarið,“ segir Guðrún Ýr en vert er að fylgjast vel með þessari efnilegu söngkonu.

https://open.spotify.com/track/2uWHEdjgsF6KkP76drkbdT

Senda matinn heim að dyrum

Hvíti riddarinn bætir enn við þjónustuna við Mosfellinga.

Hvíti Riddarinn bætir enn við þjónustuna við Mosfellinga.

Hákon Örn Bergmann eigandi Hvíta Riddarans er ánægður með viðtökurnar við breytingum á matseðlinum og heimsendingarþjónustu sem staðurinn fór nýverið að bjóða upp á.
„Það eru komnir nýir réttir á seðilinn, steikur og fleira sem gerir okkur að meiri veitingastað. Að sjálfsögðu eru ennþá allir vinsælustu réttirnar okkar líka á sínum stað. Við leggjum mikla áherslu á að maturinn og þjónustan hjá okkur sé góð, ánægður viðskiptavinur er besta auglýsinginn,“ segir Hákon og bætir við að staðurinn fái góð ummæli á Tripadvisor.

Frí heimsending til kl. 3 um helgar
„Við erum nýfarin að bjóða upp á heimsendingarþjónustu á öllum matseðlinum okkar. Við bjóðum upp á þessa þjónustu hér í Mosfellsbæ til að byrja með, en erum jafnvel að skoða að bjóða Kjalnesingum upp á heimsendingar ákveðna daga í viku.
Heimsendingin er frí ef pantað er fyrir meira en 2.500 kr. Ég veit ekki til þess að það séu fleiri staðir að senda heim allt það sem er á matseðlinum hjá þeim. Enn sem komið er eru pítsurnar vinsælastar í heimsendingu en þess má geta að við erum með heimsendingu á þeim til kl. 3 á föstudags- og laugardagskvöldum.“

Heimilismatur í hádeginu
Hvíti Riddarinn býður upp á heimilismat í hádeginu og hlaðborð á föstudögum. „Það er yfirleitt þétt setið hjá okkur í hádeginu og við leggjum mikinn metnað í að vera með góðan heimilismat á góðu verði. Á föstudögum erum við með lambalæri, pítsur og fleira og svo kaffi og kökur í eftirrétt.“
Það er heilmikið fram undan á Hvíta Riddaranum. „Við reynum að vera með fjölbreytta dagskrá hjá okkur. Næstu stóru viðburðir eru kvennakvöld í byrjun mars, FIFA-mót, Pubquiz, bingó og fleira,“ segir Hákon að lokum.
Matseðil Hvíta Riddarans er hægt að finna á Facebook-síðu staðarins.

Þremur lóðum í Sunnukrika úthlutað undir hótelbyggingu

Lóðum 3,5 og 7 við Sunnukrika hefur verið úthlutað.

Lóðum 3,5 og 7 við Sunnukrika hefur verið úthlutað.

Lóðum við Sunnukrika 3-7 hefur verið úthlutað undir hótelbyggingu og aðra þjónustu er tengist ferðamönnum.
Lóðirnar við Sunnukrika eru vel staðsettar með tilliti til sýnileika og samgangna og þar er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði. Það er félagið Sunnubær sem er í eigu verðbréfafyrirtækisins Virðingar hf. sem fékk lóðunum úthlutað.
Hafin er vinna við frumhönnun í samræmi við gildandi skipulag sem samþykkt var árið 2005.

Eignir Kaupfélagsins hafa verið seldar.

Eignir Kaupfélags Kjalarnesþings hafa verið seldar.

Uppbygging að hefjast á kaupfélagsreit
Nýlega hafa verið gerðir samningar sem munu hafa mikil áhrif á ásýnd miðbæjarins. Kaupfélag Kjalarnesþings hefur selt eignir sínar á svokölluðum kaupfélagsreit og kaupendur gert samkomulag við Mosfellsbæ um uppbyggingu á íbúðarhúsnæði.
Íbúðirnar bætast við það framboð sem nú þegar er gert ráð fyrir í miðbænum og er í skipulagsferli. Alls munu því rísa um 200 íbúðir á næstu misserum við Háholt, Bjarkarholt og Þverholt.
Meðal annars er gert ráð fyrir því að kaupfélagshúsið sem staðið hefur ónotað í nokkurn tíma víki. Þess í stað verði byggðar 65 íbúðir fyrir 50 ára og eldri.
Samningurinn gerir ennfremur ráð fyrir því að Mosfellsbær fái yfirráð yfir lóðum við Háholt 16-18 þar sem núverandi skipulag gerir ráð fyrir kirkju og menningarhúsi.

Aukin verslun og þjónusta
„Af þessu má vera ljóst að ásýnd miðbæjarins mun breytast til hins betra á allra næstu árum,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Byggingar sem hafa verið áberandi á svæðinu eins og Háholt 23 og áðurnefnt kaupfélagshús við Háholt 24 munu víkja og þess í stað rís íbúðarhúsnæði. Ég held að við getum gert ráð fyrir því að aukin verslun og þjónusta muni fylgja þéttingu íbúðabyggðarinnar og stækkandi bæjarfélagi.“

Afhentu 2.760 undirskriftir

Iðunn Dögg færir heilbrigðisráðherra undirskriftalista sveitunga sinna.

Iðunn Dögg færir heilbrigðisráðherra undirskriftalista sveitunga sinna.

Sólahringsþjónusta Heilsugæslu Mosfellsumdæmis var lögð af þann 1. febrúar í kjölfar samræmingar á þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Hátt í 3.000 íbúar á svæðinu hafa nú ritað nafn sitt á undirskriftalista þar sem því er mótmælt að helgar- og næturvaktirnar leggist af.
Á þriðjudaginn var Óttari Proppé heilbrigðisráðherra afhentur listinn. Það var Iðunn Dögg Gylfadóttir sem fór fyrir söfnuninni og mætti hún í velferðarráðuneytið ásamt hópi Mosfellinga. Iðunn Dögg segir að þjónustan minnki og öryggi íbúa á svæðinu skerðist umtalsvert við þessar breytingar. Nú þurfi rúmlega 10 þúsund manns í Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og í Kjós að leita á Læknavaktina í Kópavogi sem þegar er sprungin.
Óttarr tók við undirskriftalistanum og sagðist koma upplýsingunum á framfæri. Verið væri að fara í fyrirkomulag sem er sambærilegt öðrum heilsugæslum á höfuðborgarsvæðinu. Reynslan af þessum breytingum verði skoðuð síðar.

Bubbi

Gaui_bubbi

Ég er ánægður með að Bubbi Morthens sé að æfa hjá Höllu og Hjalta í Eldingu. Bubbi er fyrirmynd. Lætur ekki festa sig inn í ákveðnum ramma. Ég þekki Bubba ekki persónulega, hef aldrei hitt hann, en hann hefur haft mikil áhrif á mig.

Það var sterk upplifun þegar ég, í stoppi hjá Siggu frænku á Hvammstanga á leiðinni í sveitina, heyrði Ísbjarnarblús í fyrsta skipti. Ég var ellefu ára. Mér fannst þetta geggjað. Hrátt, kraftmikið, lifandi. Fyrsta tónlistin sem ég virkilega tengdi við. MB Rosinn var í sérstöku uppáhaldi. Við fylgdumst að í gegnum unglingsárin, ég og Bubbi. Hann bjó til músíkina, ég hlustaði. Tónleikar með honum voru upplifun. Ég komst því miður ekki á tónleika með Utangarðsmönnum, en sá Egó spila á Lækjartorgi og Bubba sjálfan hér og þar.

Lögin hans hjálpuðu mér þegar ég svæfði og róaði guttana mína fjóra. Hélt á þeim á öxlinni og söng fyrir þá Aldrei fór ég suður og Blindsker. Þeir voru kröfuharðir, þetta þurftu að vera tónleikaútgáfur. Ég þekki nýrri plötur Bubba ekki eins vel og þær fyrstu, en ég hef alltaf dáðst að því hvað hann hefur verið duglegur að fylgja hjartanu. Óhræddur við að prófa nýja hluti. Spila með ólíkum listamönnum, alls konar tónlist. Skrifa texta sem skipta hann máli. Segja það sem honum finnst.

Hann er líka fyrirmynd að því leyti að hann heldur sér líkamlega í formi. Sinnir sjálfum sér í stað þess að leyfa sér að drabbast niður. Bubbi er 13 árum eldri en ég en er í miklu betra formi heldur en margir af jafnöldrum mínum. Hann er gott dæmi um að aldur er afstæður. Maður er eins gamall og maður vill vera. Það að hann sé að æfa í Eldingu er viðeigandi. Hrár, lifandi, heimilislegur æfingastaður í hjarta Mosfellsbæjar. Njótum ferðalagsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. febrúar 2017

Að gefa af sér gerir sálinni gott

huldamargret

Hulda Margrét Rútsdóttir verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ segir að með auknum fjölda ferðamanna sé hætt við að óhöppum fjölgi og því mikilvægt að geta brugðist skjótt við.

Hulda tók á móti mér í húsakynnum Rauða Krossins í Þverholti. Námskeiði í ensku fyrir hælisleitendur var að ljúka og eftir að þeir höfðu kvatt settumst við niður og byrjuðum að spjalla. Ég tók strax eftir því hvað Hulda hefur einstaka nærveru, hún er hlý, brosmild og gefandi.
Rauði krossinn í Mosfellsbæ sinnir ýmsum verkefnum í nærsamfélaginu ásamt því að taka þátt í verkefnum á landsvísu. Kjalarnes og Kjós tilheyra líka starfssvæði deildarinnar svo svæðið er býsna víðfemt.

Hulda Margrét er fædd í Kaupmannahöfn 24. nóvember 1976. Foreldrar hennar eru þau Guðrún Edda Guðmundsdóttir og Finnbogi Rútur Hálfdánarson en þau eru bæði lyfjafræðingar. Hulda á tvö yngri systkini, Guðrúnu fædda 1981 og Guðmund Sigurð fæddan1985.
Foreldrar Huldu fluttu frá Danmörku til Reykjavíkur þegar Hulda var á fyrsta ári. Þau byggðu sér svo hús í Mosfellsbæ og fluttu þangað þegar hún var á sjötta ári.
„Ég lék mér mikið úti þegar ég var barn. Á sumrin var ég nær öll kvöld úti á auða svæði eins og við kölluðum leiksvæðið á milli Bergholts og Barrholts. Þar voru spiluð heilu fótboltamótin með krökkunum úr hverfinu.“

Frábært að alast upp í Mosó
„Það var frábært að alast hérna upp. Ég gekk í Varmárskóla eins og öll börn í Mosfellsbæ í þá daga. Ég lærði á píanó og söng í barnakórnum í nokkur ár en íþróttirnar áttu hug minn allan og ég hætti í tónlistinni og æfði fót- og handbolta af kappi allan grunnskólann.
Ég útskrifast úr Menntaskólanum við Sund 1996. Námið lá vel fyrir mér og þetta var skemmtilegur tími. Ég var enn á kafi í fótboltanum og æfði af krafti öll menntaskólaárin.“

Lærði að standa á eigin fótum
„Að loknu stúdentsprófi ákvað ég að taka mér árs frí og hugsa málið hvað ég vildi læra. Ég flutti til Brussel til að gerast au-pair og læra frönsku. Það var mikil og góð lífsreynsla og ég lærði að standa á eigin fótum. Stuttu eftir að ég flutti út kynntist ég manninum mínum, Allani Richardson.
Eftir tæpa árs dvöl í Brussel ákvað ég að fara í háskólanám til Amsterdam. Ég valdi alþjóðasamskipti með þróunarlandafræði sem aukagrein og útskrifaðist með meistarapróf árið 2003.
Það var ekki auðvelt að fá vinnu tengda náminu í Hollandi, ég vann sem aðstoðarmaður bókara þar til við fluttum heim til Íslands í ágúst 2004.“

Gaman að taka þátt í uppbyggingunni
Við komuna til Íslands hóf Hulda störf sem upplýsingafulltrúi á Gljúfrasteini, heimili Halldórs Laxness, sem búið var að breyta í safn. „Ég vann á Gljúfrasteini í tæp tólf ár. Það var lærdómsríkur tími og virkilega gaman að fá að taka þátt í uppbyggingu á safninu alveg frá upphafi en það opnaði haustið 2004. Verkefnin voru fjölbreytt, allt frá því að taka á móti gestum, skrifa greinar og skipuleggja viðburði og svo fór maður í snjómokstur ef svo bar undir,“ segir Hulda kímin.

Fjögur börn á sjö árum
„Eftir komuna til landsins bjuggum við hjá foreldrum mínum en keyptum okkur svo íbúð í Leirutanga þar sem við búum enn. Eiginmaður minn Allan, sem er menntaður hljóðmaður, fór að vinna sem frístundaleiðbeinandi og skólaliði en hann starfar í dag á Skálatúni.
Ég var rétt tæplega þrítug þegar frumburðurinn, Guðrún Aisha, fæddist 2006. Hin þrjú fylgdu svo í kjölfarið. Anna Malia 2008, Aron Rútur 2011 og Rakel Elaisa 2013. Elstu þrjú spila fótbolta með Aftureldingu og sú yngsta hefur verið í íþróttaskólanum.
Áhugamálin okkar eru að njóta lífsins með fjölskyldu og vinum og okkur finnst gaman að ferðast innanlands og utan. Draumurinn er að komast á æskuslóðir eiginmannsins til Aruba í Karíbahafinu og aldrei að vita nema það verði að veruleika.“

Tryggir virðingu fyrir mannlegu lífi
Í lok febrúar á síðasta ári breytti Hulda um starfsvettvang og starfar nú sem verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ í 60% starfi auk þess sem hún starfar við þýðingar á sjónvarpsefni. Hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á samskiptum og mannúðarmálum.
„Rauði krossinn á Íslandi er hluti af stærstu mannúðar- og hjálparsamtökum heims og reynir að vernda líf og heilsu berskjaldaðra hópa og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi. Hreyfingin er borin uppi af sjálfboðaliðum.
Rauði krossinn í Mosfellsbæ sinnir ýmsum verkefnum í nærsamfélaginu ásamt því að taka þátt í verkefnum á landsvísu.“

Skiptifatamarkaður fyrir börn
„Ég held ég geti fullyrt að við hér í Mosó séum eina Rauðakrossdeildin á landinu sem er með skiptifatamarkað fyrir börn. Fólk getur komið með föt sem börnin eru vaxin upp úr og valið ný í staðinn. Skiptifatamarkaðurinn er opinn þegar starfsemi er í húsinu. Að skiptast á fötum í stað þess að kaupa alltaf ný snýst um meira en bara sparnað því það er líka umhverfisvænt.
Rauði krossinn nýtir allan textíl. Jafnvel götóttir sokkar, gamlar tuskur og ónýtar gardínur fara ekki til spillis heldur nýtast í efnisendurvinnslu og er tekið við því í Sorpu.“

Útbúa fatapakka til fátækra barna
„Prjónahópurinn, Föt sem framlag, hittist hér og prjónar og saumar. Hópurinn útbýr svo fatapakka sem fer til fátækra barna í Hvíta-Rússlandi.
Sjálfboðaliðar Rauða krossins sjá um heimanámsaðstoð fyrir krakka í 1. til 10. bekk. Heimsóknavinir heimsækja fólk vikulega og hlutverk þeirra er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju. Hundavinir eru líka alltaf vinsælir.
Í fyrra byrjuðum við með gönguhóp og sjálfboðaliði frá okkur stýrir göngunni. Það eru allir velkomnir með og gengið er á rólegum hraða. Þetta er upplögð leið til þess að kynnast nýju fólki.“

Höfum öll eitthvað að gefa
„Undanfarna mánuði höfum við opnað fjöldahjálparstöð í Mosfellsbæ vegna slysa eða óhappa sem hafa orðið í nágrenni við okkur. Með auknum fjölda ferðamanna er hætt við að óhöppum fjölgi og því mikilvægt að geta brugðist skjótt við.
Rauði krossinn heldur fjölda námskeiða á ári hverju eins og í skyndihjálp, neyðarvörnum og ýmsu öðru.
Það er auðvelt að gerast sjálfboðaliði, það er hægt að skrá sig á heimasíðunni eða hafa samband í tölvupósti eða síma. Það mikilvægasta sem við eigum er tími og að gefa af sér gerir sálinni gott. Við höfum öll eitthvað að gefa. Mosfellingar eru öflugir þegar þeir standa saman og geta áorkað miklu. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs við þá.“

Mosfellingurinn 2. febrúar 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Íbúar í Mosfellsbæ ánægðastir

Mosfellsbær fær hæstu einkunn.

Mosfellsbær fær hæstu einkunn.

Mosfellsbær er með ánægðustu íbúana og með hæstu einkunn samkvæmt árlegri könnun Capacent Gallup. Könnunin mælir viðhorf íbúa til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins.
Þegar íbúar í Mosfellsbæ eru spurðir hversu ánægðir eða óánægðir þeir séu með Mosfellsbæ sem stað til að búa á eru 97% aðspurðra ánægðir eða mjög ánægðir. Þetta kemur fram í frétta­tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum
Alls eru 86% íbúa í Mosfellsbæ ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar og ánægja með þjónustu í leikskólum bæjarins mælist um 82%. Spurðir um þjónustu Mosfellsbæjar í heild eru 84% mjög eða frekar ánægðir.
Niðurstöður síðustu ára sýna að ánægja íbúa með þjónustuna í Mosfellsbæ hefur aukist jafnt og þétt og er yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum sem spurt er um. Athyglisvert er að þátttakendur í könnuninni sem eru á aldrinum 18-34 ára eru allir ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á. Ætla má að íbúar á þessum aldri séu að jafnaði að nýta þjónustu sveitarfélagsins þegar kemur að leik- og grunnskólum og íþróttaaðstöðu svo eitthvað sé nefnt.

Nýtt hverfi og nýr skóli
Mikil uppbygging á sér nú stað í Mosfellsbæ. Nýtt hverfi í Helgafellslandi rís nú á miklum hraða og samhliða hefur verið ráðist í byggingu skóla í hverfinu. Áætlað er að fyrsti áfangi skólans verði tekinn í notkun haustið 2018. Fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er traust og reksturinn góður. Bæjarstjórn samþykkti nýverið að lækka bæði útsvar og fasteignaskatt í sveitarfélaginu.

Stoltur af niðurstöðunni
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segist ánægður með útkomuna. „Það er virkilega gaman að Mosfellingar mælist ánægðustu íbúar landsins. Ég er afar stoltur af niðurstöðunni í heild og sérstaklega varðandi þjónustu við eldri borgara sem við höfum lagt áherslu á að bæta síðustu ár.
Niðurstöður könnunarinnar benda einnig til þess að íbúar Mosfellsbæjar vilji huga að umhverfinu og til dæmis auka flokkun á sorpi. Við munum skoða það mál sérstaklega á næstunni. Mosfellsbær á 30 ára kaupstaðarafmæli á þessu ári. Það má því til gamans nefna að á síðustu 30 árum hefur íbúafjöldi sveitarfélagsins rúmlega tvöfaldast. Miðað við það verkefni hefur okkur gengið vel að bæta þjónustuna ásamt því að viðhalda góðum rekstri.“
Heildarúrtak í könnuninni er yfir 12 þúsund manns, þar af 350 svör úr Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar má finna á www.mos.is.

Einar Andri og Afturelding gera nýjan 3 ára samning

Pétur, Böðvar, Einar Andri, Ásgeir, Kristinn og Elvar.

Pétur, Böðvar, Einar Andri, Ásgeir, Kristinn og Elvar.

Meistaraflokksráð Aftureldingar í handbolta karla og Einar Andri Einarsson þjálfari liðsins hafa gert með sér nýjan samning um að Einar Andri þjálfi lið Aftureldingar næstu þrjú árin.
Fyrri samningur Einars Andra rennur út í vor og hefur hann þjálfað liðið síðustu þrjú keppnistímabil með mjög góðum árangri.
Einar Andri er yfirþjálfari yngri flokka félagsins auk þess sem hann hefur umsjón með handboltaakademíunni í FMOS.

Ætla að berjast um alla titla
„Við erum mjög ánægðir að hafa framlengt samninginn við Einar Andra,“ segir Ásgeir Sveinsson formaður meistarflokksráðs Aftureldingar, enda er hann einn albesti þjálfari landsins.
„Árangur hans með liðið frá því hann tók við því hefur verið mjög góður auk þess sem okkar ungu leikmenn hafa tekið miklum framförum undir hans stjórn.
Markmið okkar eru skýr en þau eru að berjast um alla titla sem í boði eru og við væntum mikils af samstarfinu við Einar á næstu árum.
Við ætlum að halda áfram að byggja upp sterkt lið í Mosfellsbæ með okkar frábæra leikmannahópi sem samanstendur að langmestu leyti af uppöldum Mosfellingum.“

Fjórir lykilmenn skrifa undir
Á sama tíma og Einar Andri skrifaði undir nýjan samning framlengdu fjórir lykilmenn Aftureldingar sína samninga við félagið til þriggja ára, til ársins 2020.
Þetta eru þeir Elvar Ásgeirsson, Pétur Júníusson, Böðvar Páll Ásgeirsson og Kristinn Elísberg Bjarkason.
Þessir strákar eru mjög góðir leikmenn með mikinn metnað og hafa þeir leikið með unglingalandsliðum Íslands undanfarin ár. Þeir hafa leikið stórt hlutverk undanfarin ár með meistaraflokki Aftureldingar og ætla sér stóra hluti með sínu uppeldisliði á næstu árum.

2017

2017_gaui

Þetta verður frábært ár. Ég veit það. Ég byrjaði árið reyndar á því að ná mér í leiðindapest sem gerði sitt besta til að draga úr mér mátt og þor, en hún er farin og ég nú sprækur sem lækur. Ég hef alltaf haft gaman af áramótum. Séð þau sem tækifæri til þess að velta fyrir sér lífinu og gera breytingar til góðs. Það er gott að byrja á því að hreinsa aðeins til, þá býr maður til rúm og tíma fyrir það sem mann virkilega langar til að gera.

Eitt af því sem ég ákvað í þessu ferli var að hreyfa mig meira en ég hef gert undanfarin ár. Ég hef farið í göngutúra og æft reglulega, en það er ekki nóg fyrir mig. Ég er búinn að sitja allt of mikið. Mér líður langbest, bæði líkamlega og andlega, ef ég hreyfi mig mikið yfir daginn. Sit minna við skrifborðið. Ég er núna í því að finna bestu blönduna, hvernig ég get látið þetta tvennt vinna sem best saman. Skrifborðsvinnan gefur mér nefnilega mikið svo lengi sem ég sit ekki of lengi við í einu.

Mín leið, sú sem ég er að innleiða hjá sjálfum mér núna í byrjun árs, er ekki flókin. Hún felur í sér að nota skrifborðstímann í að vinna og læra, ekki í afþreyingu eða andlegt hangs. Þannig bý ég mér til tíma til þess að hreyfa mig meira. Sem gefur mér orku og kraft til þess að vinna betur þegar ég sest aftur við. Hausinn virkar betur þegar líkaminn er búinn að fá sitt. Á hreyfilista ársins eru ketilbjöllu- og útiæfingar, körfubolti á planinu, sjósund, jiu jitsu, klifur, skriðsund og köfun. Langar líka að læra á standandi róðrarbretti hjá Stjána Vald og lofa sjálfum mér hér með að gera það í vor. Njótum ferðalagsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 2. febrúar 2017

Lýðræðisverkefnið Okkar Mosó sett á laggirnar

Góðar hugmyndir óskast frá bæjarbúum. Kannski stingur einhver upp á því að útbúa vatnaveröld á Stekkjarflöt eða koma upp drykkjarstöðvum í Hamrahlíð. Myndirnar eru samsettar.

Góðar hugmyndir óskast frá bæjarbúum. Kannski stingur einhver upp á því að útbúa vatnaveröld á Stekkjarflöt eða koma upp drykkjarstöðvum í Hamrahlíð. Myndirnar eru samsettar.

Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur ákveðið að fara af stað með lýðræðisverkefnið Okkar Mosó á árinu 2017.
Verkefnið er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ. Gert er ráð fyrir að 25 milljónum króna verði varið í að framkvæma þær hugmyndir sem fá brautargengi.

Kosið í rafrænni kosningu
Óskað verður eftir snjöllum hugmyndum frá íbúum sem síðan verður kosið um í rafrænni íbúakosningu. Hugmyndirnar geta varðað leik- og afþreyingarsvæði íbúa, vistvænar samgöngur, bætta lýðheilsu eða umhverfið almennt.
Hægt verður að skila inn hugmyndum rafrænt í þar til gerðu kerfi sem verður aðgengilegt á heimasíðu Mosfellsbæjar.
Verkefnið í heild er í fjórum fösum. Hugmyndasöfnun, umræða um hugmyndir og úrvinnsla, kosningar og framkvæmd.

>> Hugmyndasöfnunin hefst 1. febrúar næstkomandi og allar upplýsingar um verkefnið verður að finna á heimasíðu Mosfellsbæjar www.mos.is.

Skilaboðaskjóðan frumsýnd 22. janúar

skilaboða2

Nú er allt að smella saman í Bæjarleikhúsinu, enda styttist óðum í frumsýningu á Skilaboðaskjóðunni þann 22. janúar.
Um 40 áhugasamir listamenn vinna nú hörðum höndum að leik, tónlist, leikmynd, búningum og öllu því sem þarf til að gera stóran söngleik að veruleika.
Sagan, eftir Þorvald Þorsteinsson, fjallar um Putta litla sem býr í Ævintýraskógi, sem langar mest af öllu að verða hugrakkur ævintýraprins. Hann heldur af stað um miðja nótt í leit að nátttrölli, en verður fyrir því óláni að festast inni í helli nátttröllsins.
Maddamamma og allir íbúar ævintýraskógarins taka höndum saman og með hjálp Skilaboðaskjóðunnar ná þau að bjarga Putta litla úr klóm nátttröllsins.
Tónlist Jóhanns G. Jóhannssonar setur líflegan blæ á söngleikinn sem hentar fyrir alla fjölskylduna. Sýningar verða á sunnudögum kl. 14 og miðapantanir í síma 566-7788. Miðaverð er aðeins 2.500 kr.

>> Fylgist með leikfélaginu á samfélagsmiðlunum Instagram, Facebook og Snapchat. Þú gætir unnið miða á Skilaboðaskjóðuna!

„Gott að koma heim og hlaða batteríin“

Jökull með splunkunýjan og sérsmíðaðan gítar eftir gítarsmiðinn Peter Turner. Mynd/Raggi Óla

Undanfarin tvö ár hafa verið viðburðarík hjá strákunum í mosfellsku hljómsveitinni Kaleo. Blaðamaður Mosfellings hitti Jökul Júlíusson, söngvara hljómsveitarinnar, sem staddur er hér á landi í fríi yfir hátíðarnar.
„Það er rosalega gott að koma heim og hlaða batteríin. En ég er líka búinn að nota tímann vel í að semja ný lög og texta. Ég fer ekki aftur út fyrr en eftir þorrablótið, sem er frábært því ég var mjög svekktur að geta ekki komið í fyrra.“

Ferðast um í tveimur rútum
„Þetta er lengsta fríið sem við höfum fengið síðan við fórum út fyrir tveimur árum en við höfum verið á fullu síðan. Við fórum til London í febrúar 2015 til að taka upp nýtt efni fyrir erlendan markað.
Í kjölfarið fluttum við til Texas í Bandaríkjunum þar sem við fengum hús í útjaðri Austin. Þar bjuggum við þangað til í apríl 2016 en þá fluttum við til Nashville. Við erum nú minnst þar því við erum alltaf á ferðinni. Við ferðumst um á tveimur lúxusrútum. Ég er með eina rútu og strákarnir með aðra og við erum alltaf með sirka 10 manna „crew“ með okkur.“

Eru búnir að spila í 48 fylkjum
Kaleo gaf út hljómplötuna A/B í júní en hún hefur nú þegar hlotið gull í Bandaríkjunum og platínu í Kanada. „Við vorum að koma úr fimm mánaða túr um Bandaríkin og Evrópu þar sem við erum að fylgja eftir útgáfu plötunnar. Við höfum svo til spilað upp á hvern einasta dag.
Svo gengur þetta líka mikið út á að komast að hjá útvarpsstöðvunum, hitta fólk og byggja upp tengslanet. Þetta er svo svakalega stór markaður. Þetta er alveg þrotlaus vinna, við erum búnir að spila í 48 fylkjum í Bandaríkjunum á þessum tveimur árum. Við eigum Alaska og Havaí eftir, en við spilum á Havaí í apríl,“ segir Jökull.

Um 200 manns koma að hljómsveitinni
Hljómsveitin hefur verið tilnefnd til ýmissa viðurkenninga en Billboard útnefndi Kaleo sem bestu nýju rokkhljómsveit ársins 2016. Árið 2017 er orðið fullbókað hjá Kaleo og bókanir farnar að berast fyrir árið 2018.
„Umboðsskrifstofan og plötufyrirtækið sjá um öll þessi mál fyrir okkur, þetta er orðið rosalegt batterí. Ég myndi ætla að það séu yfir 200 manns sem koma að hljómsveitinni á einhvern hátt á hverjum degi.“

Vill sjá aðstöðu fyrir unga listamenn
„Það vekur athygli að við komum frá 9 þúsund manna bæ á Íslandi. Og að við séum búnir að vera saman í hljómsveit síðan í Gaggó. Við höfðum æfingaaðstöðu í gamla Selinu sem bærinn bauð upp á, æfðum þar þegar við vildum, meðal annars fyrir Músíktilraunir.
Ég myndi vilja sjá að boðið væri upp á svona aðsöðu fyrir unga listamenn í Mosfellsbæ í dag. Við eigum svo mikið af hæfileikaríkum ungmennum sem þarf að halda vel utan um. Það er mér mjög mikilvægt því ég man hvað þetta gerði mikið fyrir mig. Það er allt annað að spila inni í herbergi eða syngja og spila í míkrafón og magnara,“ segir Jökull að lokum.

Rafræn kosning um íþróttakarl og -konu Mosfellsbæjar

íþróttakjör_vefur

Búið er að tilnefna 17 einstaklinga til íþróttakarls og -konu Mosfellsbæjar 2016. Sjö karlar eru tilnefndir og tíu konur. Íþróttafólkið er kynnt betur til sögunnar annars staðar í blaðinu. Bæjarbúum gefst kostur á, ásamt aðal- og varamönnum í íþrótta- og tómstundanefnd, að kjósa um tilnefningarnar. Kosningin fer fram á vef Mosfellsbæjar www.mos.is dagana 12.-16. janúar. Velja skal karl í 1., 2. og 3. sæti sem og konu í 1., 2. og 3. sæti. Úrslit verða kynnt fimmtudaginn 19. janúar kl. 19 í íþróttamiðstöðinni að Varmá. Þangað eru allir velkomnir.

HÉR ER HÆGT AÐ KJÓSA

Sterk liðsheild skiptir mestu máli

asgeirsveins

Ásgeir Sveinsson framkvæmdastjóri hjá Halldóri Jónssyni ehf. og formaður meistaraflokksráðs karla í handbolta fullyrðir að bestu áhorfendur á Íslandi séu í Mosó

Ásgeir Sveinsson hóf störf ungur að árum hjá Heildverslun Halldórs Jónssonar en árið 2008 tók hann við framkvæmdastjórastöðu fyrirtækisins. Þarfir viðskiptavina eru ávallt hafðar í öndvegi og kappkostað er að veita framúr­skarandi þjónustu en fyrirtækið skiptist í þrjár deildir, snyrtivöru-, hárvöru-­ og verslunardeild.
Ásgeir segir að rekstur fyrirtækisins sé svipaður því að þjálfa lið í hópíþrótt. Það þarf að vera með rétta liðið í höndunum, allir þurfa að vera vel þjálfaðir og þekkja sín hlutverk.

Ásgeir er fæddur í Reykjavík 23. janúar­ 1967. Foreldrar hans eru þau Áróra Sjöfn Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur og Sveinn Kjartansson framkvæmdastjóri. Áróra lést árið 1989. Ásgeir er miðjubarnið í systkinahópnum en hann á einnig fjögur hálfsystkini.
„Ég er alinn upp í Breiðholti og í Vesturbænum. Þegar ég var sjö ára þá skildu foreldrar mínir og mamma flutti til Danmerkur til að fara í framhaldsnám. Við systkinin fluttum til móðurömmu okkar og afa og ólumst upp hjá þeim þangað til við fluttum að heiman.“

Forréttindi að alast upp í Selvogi
„Mínar helstu æskuminningar eru frá Hlíðarvatni í Selvogi. Föðurafi minn og amma áttu hús við vatnið og þar dvöldum við bræðurnir með þeim öll sumur. Við fórum í silungsveiði, fjallgöngur og önnur spennandi náttúruævintýri.
Það voru algjör forréttindi að hafa fengið að alast upp í þessu umhverfi og læra til verka í þessari náttúruperlu sem Selvogurinn er.“

Íslandsmeistarar upp alla flokka
„Frá tíu ára aldri tóku íþróttirnar við og ég spilaði mest með Víkingi, fótboltinn á sumrin og handboltinn á veturna. Minn árgangur og árgangarnir í kring voru mjög sterkir í handbolta og við urðum Íslandsmeistarar upp alla yngri flokkana sem var mjög gaman.
Afi og amma sem ég ólst upp hjá voru mjög virk í störfum hjá Víkingi og heimilis­lífið var litað af störfum þeirra fyrir félagið. Þau mættu á alla leiki þannig að maður fékk mjög gott íþróttauppeldi og bjó við mikinn stuðning.
Ég byrjaði ungur að þjálfa handbolta og tók allar þjálfaragráður sem í boði voru hér á landi í þeim fræðum. Ég starfaði sem þjálfari hjá Víkingi, Fram og Aftureldingu.“

Ætlaði að verða kennari
Ásgeir gekk í Breiðagerðis­skóla og svo í Réttarholtsskóla. „Mér fannst alltaf gaman í skólanum og eignaðist góða vini sem ég held ennþá sambandi við.
Ég tók þátt í öllu félagslífi, sérstaklega í Réttó, og var formaður nemendaráðs í tvö ár. Eftir Réttó fór ég í Fjölbraut í Ármúla á íþróttabraut. Ég ætlaði að verða íþróttakennari og fara í ÍKÍ á Laugarvatni. Eftir útskrift, sem var um áramót, sótti ég um á Laugarvatni og fékk inngöngu sem var mjög erfitt á þeim tíma.
Þar sem skólinn átti ekki að byrja fyrr en um haustið þá ákvað ég að fara að vinna og sótti um starf hjá Heildverslun Halldórs Jónssonar. Planið var að vera þar þangað til að ég færi í námið. Ég ákvað svo að fresta því um eitt ár en sá frestur lengdist heldur betur því ég er ekki farinn ennþá,“ segir Ásgeir og hlær.
„Ég starfaði einnig í aukavinnu á íþróttadeild Bylgjunnar í 10 ár við lýsingar á hand- og fótboltaleikjum.“

Fluttu til Noregs
„Hjá Halldóri starfaði ég til ársins 1996 en þá ákvaðum við hjónin að flytja til Noregs en ég er giftur Helgu Sævarsdóttur hjúkrunar- og lýðheilsufræðingi. Sonur okkur Elvar var þá orðinn tveggja ára. Í Noregi fór ég í háskólanám í markaðsfræðum og stjórnun. Plön okkar breyttust vegna veikinda í fjölskyldu Helgu og við fluttum heim ári síðar og þá á Egilsstaði þar sem við bjuggum í rúmt ár en Helga er ættuð þaðan. Þetta ár starfaði ég hjá Landflutningum.
Við Helga eignuðumst tvö börn til viðbótar, þau Ásu Maríu sem er fædd 1998, og Hilmar sem er fæddur 2000. Við keyptum okkur hús í Mosfellsbæ og Helga hóf störf á Heilsugæslunni. Heimilislíf okkar gengur mikið út á íþróttir, útivist og ferðalög bæði innanlands og utan.“

Tókum ekki þátt í góðærispartíinu
„Eftir að við fluttum að austan hóf ég störf hjá Lystadún Markó sem var í eigu HJ og starfaði þar til 2001. Þaðan fór ég aftur til Halldórs og byrjaði sem deildarstjóri en tók svo við sem framkvæmdastjóri árið 2008, korteri í hrun.
Þetta er 60 ára gamalt fyrirtæki og hjá okkur starfa 30 manns. Það var mikil áskorun og lærdómur að taka við sem stjórnandi í innflutningsfyrirtæki á þessum tíma.
Við áttum því láni að fagna að hafa ekki tekið þátt í góðærispartíinu og stóðum því styrkum fótum. Þetta reyndist okkur vel, við náðum að bæta við okkur merkjum og stækka fyrirtækið.
Að reka svona fyrirtæki er eins og að þjálfa lið í hópíþrótt. Sterk liðsheild skiptir mestu máli. Það þarf að vera með rétta liðið í höndunum, allir þurfa að vera vel þjálfaðir og þekkja sín hlutverk. Ég hef lagt mikla áherslu á þessa þætti sem stjórnandi.“

Liðið stefnir á að vinna titla á næstunni
Handboltinn hjá Aftureldingu hefur skipað stóran sess í lífi Ásgeirs. Fyrst starfaði hann sem þjálfari en undanfarin ár hef hann verið formaður meistaraflokksráðs.
„Í kringum meistaraflokkinn starfar öflugur hópur sjálfboðaliða sem hefur unnið faglega og með þolinmæði að markmiðum sínum varðandi liðið undanfarin ár. Okkar stefna er að byggja liðið upp á uppöldum Aftureldingarmönnum. Það hefur tekist og við stefnum að því að liðið vinni titla á næstu misserum. Við erum með mjög hæfan þjálfara, Einar Andra Einarsson, sem er með öflugt teymi með sér sem tryggir faglega og góða þjálfun.“

Finnum fyrir miklum stuðningi
Síðastliðið haust tók til starfa handbolta­akademía hjá FMos í samstarfi við Aftureldingu og er því óhætt að segja að það sé í gangi víðtækt, markvisst og öflugt starf í handboltabænum Mosfellsbæ.
„Við finnum fyrir miklum stuðningi bæjarbúa sem hefur aukist að undanförnu vegna góðs árangurs sem okkar unga lið hefur náð. Stemningin á heimaleikjunum er mikil en við myndum gjarnan vilja sjá enn fleiri fjölskyldur á pöllunum.
Ég get fullyrt að bestu áhorfendurnir í handboltanum á Íslandi eru í Mosó, stemningin er alltaf að verða betri og betri sem er okkar markmið.“

Stærsta og flottasta þorrablótið
Ég spyr Ásgeir hvað hann ætli að gera í tilefni tímamótanna en hann á 50 ára afmæli í enda mánaðarins? „Planið er að halda afmælispartí en fyrst þarf ég að huga að enn stærra partíi sem er Þorrablót Aftureldingar, það verður haldið 21. janúar.
Við Helga höfum starfað í þorrablótsnefnd í nokkur ár með frábæru fólki. Í ár er 10 ára afmælisblót sem verður það stærsta og flottasta hingað til. Undanfarin tvö ár hefur verið uppselt og það stefnir í að það verði aftur í ár.“

Mosfellingurinn 12. janúar 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Fyrsti Mosfellingur ársins

fyrstimosfellingurarsins2017

Þann 3. janúar kl. 02:20 fæddist fyrsti Mosfellingur ársins 2017 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Það var drengur sem var 3.474 gr og 52 cm.
Foreldrar hans eru Sigurður Grétar Ágústsson og Svanfríður Arna Jóhannsdóttir og búa þau í Einiteig 1. Drengurinn er þriðja barn þeirra hjóna en fyrir eiga þau Hörpu Dagbjörtu 14 ára og Almar Jökul 6 ára.
„Ég átti að eiga hann 1. janúar en hann ákvað að koma þann þriðja. Fæðingin gekk ótrúlega vel, hann kom í rauninni mjög hratt í heiminn. Hann er mjög rólegur og við erum í skýjunum með hann. Við erum búin að búa hér í Mosfellsbænum í rúmt ár. Okkur líkar mjög vel, hér er rólegt og mjög barnvænt,“ segir Svanfríður Arna.