Sjálfboðaliðar á ritaraborðinu síðastliðin 40 ár

Mosfellingarnir Ingi Már Gunnarsson og Gunnar Ólafur Kristleifsson hafa unnið ötult sjálfboðaliðastarf fyrir Aftureldingu síðastliðin 40 ár.
Þeir félagar hafa gengt ýmsum störfum fyrir félagið en þeirra aðalstarf hefur þó verið að sinna ritara- og tímavörslu fyrir handboltadeildina.
„Íþróttahúsið var tekið í notkun 4. desember 1977, ég held að fyrsta klukkan hafi komið í húsið 1978 en það var Búnaðarbankinn í Mosfellsbæ sem gaf Aftureldingu klukkuna, en síðan er nú komin nýr og fullkomnari búnaður í húsið. Við höfum meira og minna sinnt þessu starfi síðan. Við tókum báðir dómarapróf hjá HSÍ í kringum 1980 og dæmdum mikið fyrir félagið og ég dæmdi líka í efstu deild á Íslandi,“ segir Ingi Már.

Æfðu báðir með Aftureldingu
„Við vorum náttúrlega báðir að æfa hérna bæði handbolta og fótbolta og spiluðum fyrir félagið, svo þróast þetta út í það að við tökum að okkur dómgæslu og svo ritara- og tímavarðastörf.
En síðan árið 2000 þá má eiginlega segja að við höfum verið á ritaraborðinu fyrir stákana og svo núna síðust árin líka í kvennaboltanum,“ segir Gunnar. En þeir félagar segja að þetta gefi þeim mikið, að þeir hafi kynnst mörgu skemmtilegu fólki í kringum þetta starf en fyrst og fremst finnst þeim þetta rosalega gaman.

Boðið á heimsmeistaramótið í Katar
Síðastliðin 15 ár hafa þeir Ingi Már og Gunnar starfað á ritaraboðinu fyrir HSÍ á landsleikjum og öllum stórum leikjum sem HSÍ sér um. „Það hefur líka verið sjálfboðaliðastarf en árið 2015 þá var okkur boðið á vegum HSÍ á HM til Katar. Það var í raun þannig að allar þátttökuþjóðirnar fengu að bjóða 20 manns á mótið og hvert sérsamband hafði frjálst val um það hverjum þeir buðu. HSÍ tók þá ákvörðun að bjóða sjálfboðaliðum sem höfðu unnið fyrir sambandið og nokkrum styrktaraðilum.
Þetta var ógleymanleg ferð en þarna vorum við á fimm stjörnu hóteli með öllu inniföldu, vorum keyrðir fram og til baka á alla leiki og dekrað við okkur á allan hátt,“ segir Ingi Már.

Höfum gaman af þessu ennþá
„Það má eiginlega segja að þetta hafi verið bestu launin eða viðurkenningin sem við höfum fengið fyrir okkar sjálfboðaliðastarf, þetta var algjörlega ógleymanlegt ævintýri.
Maður hefur verið tengdur handbolta og Aftureldingu meira og minna alla ævi og það hefur verið gaman að fylgjast með og upplifa allar þessar breytingar sem hafa verið hér á Varmársvæðinu á þessum tíma.
Við höfum nú stundum grínast með það hvort að það sé ekki kominn tími til að hleypa að yngri og ferskari mönnum, en á meðan við höfum gaman af þessu þá höldum við áfram,“ segir Gunnar að lokum.