Hestar þurfa ekki að kunna allt

Ragnheiður Þorvaldsdóttir reiðkennari og tamningakona hefur sérhæft sig í sirkusþjálfun síðastliðin 10 ár.

Ragnheiður er alin upp í Hvítárholti í Hrunamannahreppi og segir það forréttindi að hafa alist þar upp. Hestamennska er henni í blóð borin því fjölskylda hennar hefur ræktað hross í áratugi ásamt því að reka hestaleigu.
Ragnheiður starfar í dag við reiðkennslu og þjálfun hesta en auk þess hefur hún sérhæft sig í sirkusþjálfun sem hún segir að sé góð tilbreyting frá hinum hefðbundnu störfum.

Ragnheiður er fædd á Selfossi 27. janúar 1980. Foreldrar hennar eru þau Halla Sigurðardóttir fyrrverandi bóndi en starfar í dag sem matráðskona hjá Landstólpa og Þorvaldur Jón Kristinsson smiður.
Ragnheiður á tvær systur, Elínu Ósk Hölludóttur f. 1972 og Rakel Eyju Þorvaldsdóttur f. 1990.

Uppgötvuðu fornleifar í moldarhaugum
„Ég ólst upp í sveit á bænum Hvítárholti í Hrunamannahreppi og á kærar minningar úr sveitinni, ég tel það mikil forréttindi að hafa alist þar upp.
Sumarið sem ég var 10 ára stendur ofarlega í minningunni en það var óvenju sólríkt sumar. Ég og Birgitta frænka mín sem var í sveit hjá okkur eyddum sumrinu við hestagirðinguna daginn út og daginn inn. Við vorum oft klæddar nærbuxum einum fata með pils á höfðinu og þóttumst vera indjánar. Við óðum í skurðum, stöppuðum í drullu og uppgötvuðum fornleifar í moldarhaugum, þá aðallega gömul rollubein. Skemmtilegast fannst okkur þó að hanga upp á hestunum með engin reiðtygi,“ segir Ragnheiður og brosir af minningunni.

Krafturinn í hrossunum engum líkur
„Ég mun aldrei gleyma þegar ég fékk mér blund á Mána gamla en hann var á beit innan um alla hina hestana. Allt í einu fældust hestarnir og ég ranka við mér og næ að grípa í faxið og hestarnir rjúka á harða stökk eftir hólfinu endalöngu. Þetta er það trylltasta sem ég hef lent í, krafturinn í hrossunum var engum líkur og ég gat ekki gert neitt nema að halda mér á baki, enda ekki með neitt beisli.“

Útskrifaðist frá Hólum í Hjaltadal
„Ég gekk í Flúðaskóla og á fínar minningar úr skólanum. Við vorum fá í bekk, 12 nemendur þangað til í 8. bekk þá bættust við 6 krakkar úr nærliggjandi hreppum.
Ég fór síðan í FSU og útskrifaðist þaðan af hússtjórnarbraut, ég fór líka í Iðnskólann og lærði að teikna þar. Leið mín lá síðan í Hóla í Hjaltadal þaðan sem ég útskrifaðist hestafræðingur, leiðbeinandi og tamningakona. Árið 2006 fór ég aftur á Hóla í áframhaldandi nám og kláraði reiðkennarann.“

Giftum okkur öllum að óvörum
„Ég er gift Ara Hermanni Oddssyni, múrarameistara og hann er líka fimmfaldur járnkarl og ofurmenni. Við kynntumst á blindu stefnumóti árið 2000, vorum trúlofuð í 15 ár og giftum okkur svo 2015 öllum að óvörum í sameiginlegu afmæli okkar beggja. Við eigum þrjú börn, Kristján Hrafn f. 2003, Odd Carl f. 2007 og Sigríði Fjólu f. 2011.
Fjölskyldan hefur mjög gaman af því að ferðast og við förum mikið í veiðiferðir. Börnin hafa líka mikla hreyfiþörf eins og pabbi sinn, þau hjóla mikið á fjallahjólum með honum en fara svo í hestaferðir með mér.
Yngstu börnin eru á fullu með mér í hestunum og eru dugleg að ríða út og eru líka farin að keppa töluvert. Sá elsti er efnilegur í þríþraut og svo ætlar hann sér í Laugavegshlaupið í sumar.“

Hún er svona bredda í sér
„Ég starfa við að þjálfa hesta og kenna fólki og tel það mikil forréttindi að geta starfað við mitt aðaláhugamál. Undanfarin 10 ár hef ég sérhæft mig í sirkusþjálfun og blanda saman smelluþjálfun og 7 games með Pat Parelli. Ég hef þjálfað merina mína, Ósk frá Hvítárholti mest í þessu, hún er mikill karakter, stygg, með mikla hlaupaþörf og svona bredda í sér. Hún hefur sem betur fer mikið dálæti á nammi og ég tengi saman smelluþjálfun við nammið, þá er leikurinn auðveldari. Ég hef kennt henni allskonar kúnstir og við höfum komið fram í mörgum sýningum.“

100% traust ríkir
„Hann Svali minn er engum líkur, gæti kannski talist á smá einhverfurófi. Hann var ekki nema fjögurra vetra þegar ég kenndi honum að leggjast. Það er líka það eina sem hann kann og það er líka bara alveg nóg því hestar þurfa ekki að kunna allt. Fljótlega fór ég að prófa að velta honum á bakið og það var ekkert mál í rauninni því hann er svo afslappaður hestur að eðlisfari.
Það er ólýsanleg tilfinning að sitja á maganum á hestinum sínum með alla fætur upp í loft, þar ríkir 100% traust til að þetta sé hægt. Svali hefur komið fram á mörgum sýningum og þá oftast til þess að leggjast niður.
Ég hef líka tekið að mér verkefni í bíómyndum en síðasta mynd sem ég starfaði við var Batman myndin, Justice League, það var alveg magnað ævintýri að taka þátt í því.“

Þeysumst reglulega á Löngufjörum
„Ég held að flestir hestamenn séu sammála um máltækið, „kóngur um stund” sem lýsir best hvað hestamennska snýst um. Þegar sviti og tár gleymast í þjálfunarferlinu, hesturinn bætir við sig eða sýnir sínar bestu hliðar.
Það er líka gæsahúðatilfinning að vera á hraðskreiðum vígalegum gæðingi í stórbrotinni náttúru. Ég á einn svoleiðis hann Hrímni, við þeysumst reglulega um á Löngufjörum. En það er ekkert sem toppar að fara á fjall og smala kindum í Hrunamannaafrétt, það er vikuferðalag í fallegri náttúru með góðu fólki.“

Gef sjálfri mér tíma
„Hestarnir taka nánast allan minn frítíma en ég reyni samt að gefa sjálfri mér tíma og rækta eigin líkama. Ég hef prófað ýmislegt, æft bootcamp, hlaupið New York maraþon, gengið á Hvannadalshnjúk og tekið þátt í Íslandsmóti í hjólreiðum.
Ég tók grunnnámskeið í brasilískri glímu, tekið ýmis konar föndur og hannyrða maníu og málað myndir með olíu, svo hef ég líka óbilandi áhuga á garðrækt þannig að þú sérð að það vantar ekkert upp á áhugamálin,“ segir Ragnheiður og hlær er við kveðjumst.