Ég vil hafa fallegt í kringum mig

Það var vel tekið á móti mér á fallegu heimili athafnakonunnar og fagurkerans Maríu Mörtu Sigurðardóttur í Helgafellshverfinu. Við fengum okkur sæti í betri stofunni og María bauð upp á kaffi og ljúffenga ostaköku.
María hefur starfað við innflutning á ýmiss konar varningi í gegnum tíðina en nú er hún að flytja inn falleg þurrblóm og strá í hinum ýmsu litum og gerðum. Hún segir þurrskreytingar mikið í tísku í dag bæði fyrir fyrirtæki og heimili.

María Marta er fædd í Reykjavík 3. október 1964. Foreldrar hennar eru þau María Matthíasdóttir og Sigurður Jónsson en hann lést árið 2003.
Systkini Maríu eru Sigurlína Guðfríður, Jón og Sigríður Hrönn og samfeðra eru þau Valdimar og Hjördís.

Afi sagði mér sögur úr sveitinni
„Ég ólst upp í Vesturbænum en bjó einnig við Nesveg á Seltjarnarnesi, á báðum þessum stöðum var gott að búa. Við mamma fórum oft til trillukarlanna við Ægisíðuna til að kaupa rauðmaga og svo var komið við í mjólkurbúðinni á leiðinni heim.
Ég var lánsöm því á æskuheimili mínu bjó föðurafi minn, ég á margar dýrmætar minningar úr æsku tengdar honum. Afi kenndi mér bænir og vísur og sagði mér sögur úr sveitinni, hann lést þegar ég var 16 ára.“

Alin upp á kristnu heimili
„Ég er alin upp á kristnu heimili, foreldrar mínir voru bæði með kristilegan bakgrunn úr æsku. Borðbænir voru hafðar fyrir máltíðir og sunnudagsmaturinn var vanalega í hádeginu. Heima í stofu var svo lítill sunnudagaskóli fyrir okkur systkinin.
Ég byrjaði skólagöngu mína í Mýrarhúsaskóla og fór síðan í Melaskólann. Tók stúdentspróf frá Kvennaskólanum og fór síðan til Kenýa og var þar í þrjá mánuði hjá systur minni og fjölskyldu sem voru þar sem kristniboðar.
Þegar ég kom heim fór ég að starfa hjá lyfjainnflutningsfyrirtæki í Garðabæ.“

Flutti úr foreldrahúsum
„Árið 1986 fór ég á árshátíð KFUM og K, þar kynntist ég yndislegum manni, Ásgeiri Markúsi Jónssyni, sem síðar varð eiginmaður minn, faðir barna minna og besti vinur. Ásgeir var búsettur í Mosfellsbæ, var ekkill, átti tvö börn og starfaði sem flugvélstjóri hjá Flugleiðum.
Árið 1987 flutti ég úr foreldrahúsum í Bugðutangann og þar bjuggum við Ásgeir okkur heimili til 28 ára. Ég tengdist yngra barni Ásgeirs, Gerði Rós, sterkum böndum enda áttum við sama heimili.“

Aldursmunurinn truflaði okkur aldrei
„Við Ásgeir giftum okkur 1987 og þrátt fyrir 21 árs aldursmun þá truflaði hann okkur aldrei, það var einstök ást á milli okkar sem óx með degi hverjum.
Það sem skipti okkur mestu máli í lífinu voru börnin okkar og þeirra farsæld en við eignuðumst þrjú börn. Davíð f. 1988 starfar í Dalsgarði í Mosfellsdal, Rakel f. 1990 er flugfreyja og förðunarfræðingur og Samúel f. 1996 starfar hjá Bakka í Mosfellsbæ og er nemi í Tækniskólanum. Þau voru öll á leikskólanum Hlaðhömrum og í Varmárskóla og ég verð ævinlega þakklát fyrir hversu vel var haldið utan um þau af einstaklega góðu starfsfólki á báðum þessum stöðum en eitt barna okkar þurfti meiri þjónustu en venjan er.
Ásgeir hóf störf hjá Cargolux 1989 og þá hófst tímabil í lífi okkar þar sem hann var mikið fjarverandi. Í Lúxemborg áttum við okkar annað heimili og við tengdumst borginni fljótt.
Vorið 2003 keyptum við okkur sumarbústaðaland við Hafravatn og byrjuðum á að setja niður tré og gera fínt í kringum okkur. Við keyptum síðan hús frá Danmörku og skiptum því út fyrir gamla bústaðinn. Sæluvíkin okkar eins og hún heitir er griðastaður og er uppfull af góðum minningum.“

Hann fól Drottni þetta verkefni
„Í maí 2008 hófst erfitt tímabil í lífi okkar þar sem Ásgeir greindist með krabbamein. Við tóku aðgerðir og lyfjameðferðir en við litum á þetta sem okkar sameiginlega verkefni eins og allt annað. Ásgeir sýndi einstakt æðruleysi í veikindum sínum og fól Drottni þetta verkefni eins og öll önnur í lífinu.
Hann lést 2015 og höggið var gríðarlegt og sorgin og söknuðurinn óbærilegur. Eftir stóð ég ung ekkja með börnin þrjú en það sem hjálpaði mér mest var hvað við hjónin höfðum talað mikið saman og ákveðið margt áður en hann lést.
Ég fékk einstakan kraft til þess að takast á við framhaldið og ákvað að standa upprétt gagnvart börnunum mínum og tengdabörnum. Við vorum umvafin fjölskyldu og vinum sem studdu okkur.
Með hækkandi sól kom inn í líf mitt ömmuprinsessa, Sigurbjörg María, sem hefur veitt mér mikla gleði. Ég hef líka verið lánsöm með börnin mín því þau hafa staðið þétt við bakið á mömmu sinni, bæði í gleði og sorg.“

Gekk í gegnum sömu lífsreynslu
„Þótt áföllin í lífi mínu hafi verið mörg þá hef ég líka upplifað mikla gleði og hamingju. Haustið 2015 kynntist ég góðum manni, Tryggva Þorsteinssyni sölustjóra, sem er ástin mín og kletturinn í lífi mínu. Á árum áður vissum við af hvort öðru í gegnum dætur okkar sem spiluðu saman knattspyrnu með Aftureldingu.
Tryggvi gekk í gegnum sömu lífsreynslu og ég en hann missti maka sinn, Jóhönnu Gunnlaugsdóttur, úr krabbameini. Hana þekkti ég og hún var vel gerð kona. Tryggvi og Jóhanna eignuðust eina dóttur, Kristínu.“

Útbjuggum myndavegg á heimilinu
„Við Tryggvi ákváðum að fara ekki hratt út í hlutina barnanna vegna og eins þurftum við tíma til að vinna úr sorginni. Við höfum staðið við hlið hvors annars og hjálpast að við að halda minningu Ásgeirs og Jóhönnu á lofti. Fyrir jólin útbjuggum við myndavegg á heimili okkar þar sem þau eru í miðjunni og út frá þeim koma myndir af okkur og börnunum okkar.
Við eigum saman vel gerðan og skemmtilegan hóp af glæsilegu ungu fólki sem eru börnin okkar, tengdabörnin Einar, Lovísa og Guðmundur og tvær dásamlegar ömmu- og afaprinsessur, þennan hóp köllum við söfnuðinn.“

Hef alltaf haft áhuga á blómum
„Ég starfaði sem ritari í Lágafellsskóla í nokkur ár og svo hef ég lengi starfað við ýmiss konar innfluting. Núna er ég að flytja inn þurrblóm og strá í mörgum litum og stærðum. Þessar vörur eru mikið í tísku í dag bæði fyrir fyrirtæki og heimili. Ég hef einnig verið að gera samúðargjafir, skreyti trékrossa, geri vendi og leiðisskreytingar.
Ég hef mikla ánægju af að skreyta heimili mitt og vil hafa fallegt í kringum mig. Ég hef haft áhuga á blómum allt mitt líf og hef sótt nám í tengslum við þau. Ætli áhugi minn á þeim og að raða saman litum sé ekki hugmyndin að þessu öllu saman.
Ég vona að Mosfellingar taki mér vel og komi og skoði úrvalið hjá mér en hægt er að hafa samband við mig á stilkur.is. Ég kem til með að vera með sérstakt tilboð fyrir Mosfellinga út maí,“ segir María og brosir um leið og við kveðjumst.