Nú kemur þetta hjá okkur!

Erla Edvardsdóttir

Ég hef verið iðkandi, þjálfari, foreldri og sjálfboðaliði í Aftureldingu frá því ég flutti í Mosfellsbæ.
Á þessum tíma, sem spannar nú nokkra áratugi, hef ég upplifað alls konar, eins og gerist og gengur innan íþróttafélaga. En það sem stendur upp úr fyrir mig er allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst.
Að starfa fyrir og í kringum klúbbinn er ofboðslega gefandi en það getur líka verið erfitt. Sérstaklega þegar maður upplifir að hlutirnir gangi ekki eins og maður hafði haft væntingar um, viðhald og uppbygging sé ekki í takt við þarfir félagsins á hverjum tíma sem leiðir af sér alls konar erfiðleika á borð við ófullnægjandi aðstöðu, yfirfullar deildir og biðlista, erfiðleika þegar kemur að því að halda í og laða að góða þjálfara og leikmenn, og síðast en ekki síst, halda í og fjölga sjálfboðaliðum, sem vinna gríðarlega óeigingjarnt og algjörlega ómetanlegt starf í þágu félagsins.

Á næstu árum stendur til að fara í mikla uppbyggingu að Varmá. Strax á næsta ári fær Afturelding langþráða aðstöðu fyrir styrktarþjálfun í takti við nútímaþarfir íþróttafólks. Á næsta ári verður líka hafist handa við að uppfæra vellina þar sem meðal annars verður skipt um gervigras og vökvunarbúnaður settur upp og ráðist í gagngera endurnýjun á aðalvellinum okkar sem er löngu tímabært.
Þjónustubyggingin er á dagskrá eins og ákveðið hefur verið og stefnt að því að hún verði byggð á kjörtímabilinu.
Á næstu dögum verður skipaður starfshópur á vegum Mosfellsbæjar sem hefur það hlutverk að leggja fram fullbúna, tímasetta tillögu að framtíðarskipulagi Varmársvæðisins.
Í þeirri vinnu þarf að taka tillit til hagsmuna og ábendinga allra þeirra sem starfa á svæðinu og umgangast það. Til dæmis Aftureldingar, almennings sem umgengst svæðið sem sitt íþrótta- og útivistarsvæði, grunnskólakennara og grunnskólanema og annarra sem starfa á svæðinu.
Lögð verður áhersla á að hópurinn skili niðurstöðum á skýran og myndrænan hátt. Þessi vinna mun þó ekki hafa áhrif á þau verkefni sem þegar hefur verið ákveðið að ráðast í eins og endurnýjun valla og nýja þjónustubyggingu.

Ég veit og skynja að það er komin þreyta í hópinn og skil það svo vel. Á sama tíma hef ég aldrei verið eins vongóð og spennt fyrir því sem koma skal að Varmá.
Aftureldingarfólk hefur sýnt það og sannað að í því býr seigla, leikgleði og framsýni. Við þurfum á öllu okkar góða fólki að halda og saman sköpum við betra samfélag sem styður við börnin okkar og gefur okkur sjálfum ánægjuna af því að hafa tekið þátt í uppbyggingunni.

Virðingarfyllst,
Erla Edvardsdóttir, formaður íþrótta-og tómstundanefndar.

 

Útsvar og fasteignagjöld

Anna Sigríður Guðnadóttir

Í málefnasamningi Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar segir að álagningarprósentur fasteignagjalda verði lækkaðar til að koma til móts við hækkun fasteignamats og í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er staðið við það markmið meirihlutans.
Það er ánægjulegt að hægt sé að standa við þessa lækkun án þess að þurfa að skera niður í þjónustu við bæjarbúa heldur þvert á móti að geta svarað kalli um aukna grunnþjónustu og áframhaldandi innviðauppbyggingu.

Við fyrri umfjöllun um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fram breytingartillögu um óbreytt útsvar og lækkun álagningar fasteignagjalda þannig að raunhækkun verði ekki umfram vísitölu.
Rétt er að taka fram að hér er um nýja nálgun að ræða sem aldrei hefur verið notuð í Mosfellsbæ. Breytingartillagan myndi þýða 147 milljóna kr. lægri tekjur sveitarfélagsins og til að mæta þessari lækkun leggja þau til að áætlaðar tekjur af byggingarrétti verði hækkaðar.

Fasteignagjöld

Lovísa Jónsdóttir

Í fjárhagsáætlun sem farið hefur í gegnum fyrri umræðu var, við ákvörðun um álagningarprósentur fasteignagjalda, stuðst við sömu aðferð og notuð hefur verið undanfarin ár. Heildarálagning lækkar úr 0,684% í 0,660%.
En hvað þýða breyttar álagningarprósentur fyrir íbúa? Fyrir íbúðarhúsnæði með fasteignamat árið 2023 upp á 99.350.000 kr., og hækkun á fasteignamati frá 2022 um 32,37%, þá hækka fasteignagjöld samtals um 1.657 kr. á mánuði umfram verðlag.
Við viljum ekki gera lítið úr því að þessi hækkun getur verið áskorun fyrir þá tekjulægri en við viljum vekja athygli á því að afslættir Mosfellsbæjar af fasteignagjöldum til eldri borgara og öryrkja eru með þeim hæstu sem veittir eru á höfuðborgarsvæðinu.

Útsvar
Útsvarið er í fjárhagsáætluninni hækkað upp í löglegt hámark eða 14,52%. Það hefur verið helsta gagnrýni ríkisins í samningaviðræðum um tekjustofna sveitarfélaga að á sama tíma og sveitarfélögin eru að óska eftir auknum framlögum frá ríkinu til þess að standa undir lögbundinni þjónustu þá séu sveitarfélögin ekki að fullnýta tekjustofna sína.
Fyrir Mosfellsbæ er mjög mikilvægt að unnt verði að semja við ríkið um hækkun tekjustofna, sérstaklega því að við viljum geta staðið að því með sóma að veita fötluðum íbúum þá lögbundnu þjónustu sem þeir eiga rétt á.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Áhrif á íbúa
Hækkun á útsvarinu þýðir samtals tekjuaukningu upp á 26 milljónir kr. á árinu 2023 eða að meðaltali hækkun um 250 kr. á mánuði fyrir hvern útsvarsgreiðanda.

Ábyrg fjármálastjórn
Í ábyrgri fjármálastjórn sveitarfélags er mikilvægt að tryggja að tekjur af rekstri sveitarfélagsins standi undir kostnaði við þá þjónustu sem sveitarfélög veita enda er hún ótímabundin. Þar af leiðandi þarf að tryggja að veiting þjónustunnar sé ekki háð því að einskiptistekjur, eins og tekjur af byggingarrétti, skili sér til sveitarfélagsins.

Þær tekjur sem sveitarfélagið fær samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun gera okkur kleift að bæta þjónustu við börn, fatlaða og eldra fólk ásamt því að styrkja stjórnsýslu bæjarins svo hægt verði að standa undir þeim stóru verkefnum sem fram undan eru. Eins er hugað að því að dreifa byrðunum af fyrirhugaðri uppbyggingu bæjarins, bæði á núverandi íbúa og íbúa framtíðarinnar, með því að einskiptistekjur eins og af byggingarrétti séu nýttar í þessa uppbyggingu.

Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar

Aðstöðuleysi Aftureldingar

Birna Kristín Jónsdóttir

Ég er í grunninn frekari bjartsýn og jákvæð manneskja sem ég held að hafi komið sér afar vel í starfi mínu sem formaður Aftureldingar en það verður samt að viðurkennast að það verður erfiðara og erfiðara með tímanum.
Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga sl. vor voru væntingar keyrðar upp úr öllu valdi og þar spilar enginn flokkur frítt. Flestir ef ekki allir flokkar vildu allt fyrir okkur gera og lofuðu að bæta aðstöðu iðkenda Aftureldingar.
Nú hafa verið lögð fram drög að fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar næstu fjögur árin. Vonbrigðin eru gríðarleg svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Árið 2019 á 110 ára afmæli Aftureldingar gaf Mosfellsbær okkur það að gjöf að þarfagreina svæðið og aðstöðuna að Varmá.
Eftir mikla vinnu við þarfagreiningar var niðurstaðan sú að byrja á því að reisa langþráða þjónustubyggingu. Þjónustubygging nýtist öllu félaginu mjög vel. Hún myndi rúma það sem okkur vantar hvað sárast:
• Vel búnir búningsklefar og aðstaða fyrir sjúkraþjálfara
• Aðstaða til styrktarþjálfunar fyrir Aftureldingu
• Félagsaðstaða sem sárvantar
• Aðstaða fyrir þjálfara sem er engin í dag

Eins og flestir vita átti að vera byrjað á þessari byggingu en engin tilboð bárust sem þá gáfu fólki færi á að stækka hana sem allir eru ánægðir með. Við fulltrúar Aftureldingar vorum kölluð á fund um miðjan júní þar sem fullyrt var að þetta verkefni myndi ekki tefjast lengur en um ár, við gátum alveg lifað með því þar sem við sáum að það mundi bætast við búningsklefa og rýmið til styrktarþjálfunar stækka svo eitthvað sé nefnt. En frestunin verður greinilega töluvert lengri miðað við framlagða áætlun.
Við erum orðin langþreytt á að bíða eftir tímasettri framtíðarsýn Mosfellsbæjar sem margsinnis hefur verið kallað eftir. Jú, vissulega hljómar það vel að á kjörtímabilinu eru á dagskrá tveir gervigrasvellir, fullbyggð stúka og þjónustubygging. Það sem verra er að aðeins áætlun næsta árs er bindandi og miðað við hvernig verkefni hverfa út af áætlunum þá er erfitt að trúa því og treysta að verkefnin munu raungerast. Ég er því hóflega bjartsýn en vona það besta.
Við í Aftureldingu sjáum okkur því knúin til að boða til opins fundar um aðstöðumálin okkar til þess að freista þess að opna augu fólks fyrir því hvernig raunstaðan er, á sama tíma gefst kjörnum fulltrúum tækifæri á að útskýra betur fyrir okkar félagsmönnum þeirra framtíðarsýn.
Auðvitað er þessi aðstöðuvandi ekki til kominn á stuttum tíma og við gerum okkur grein fyrir að það tekur tíma að vinda ofan af verkefninu en betur má ef duga skal.
Áfram Afturelding.

Birna Kristín Jónsdóttir,
Formaður Aftureldingar

Aldursvænt samfélag

Halla Karen Kristjánsdóttir

Í hvernig samfélagi viljum við búa? Sennilega viljum við öll búa í samfélagi þar sem við upplifum að við séum virt að verðleikum og að þörfum okkar sé mætt þar sem við erum stödd hverju sinni.
Meðalaldur landsmanna fer hækkandi og það er fagnaðarefni. Fjölgun eldri borgara kallar á aukinn fjölbreytileika í þjónustu fyrir þann hóp og mikilvægt er að hafa í huga að eitt hentar ekki öllum.
Það er mjög mikilvægt að einstaklingar sem komnir eru á eftirlaun upplifi að þeir séu enn virkir þátttakendur í samfélaginu hvort sem það er í félagslegu, hagrænu eða menningarlegu tilliti. Einnig að þeim standi til boða stuðningur, örvun og þjálfun svo hreyfigeta verði eins og best verður á kosið og andlega hliðin blómstri.

Í bæjarfélaginu okkar er nú þegar verið að gera marga góða hluti eins og allt það öfluga starf eldri borgara sem fer fram hjá FAMOS ber glöggt vitni um. Mosfellsbær býður einnig þeim sem þess þurfa upp á stuðningsþjónustu sem aðstoðar fólk við daglegt líf og heimsendingu á mat.
Ekki má heldur gleyma að fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf er í boði fyrir eldri borgara hér í bæ. Þá er við hæfi að minna hér á frístundaávísun fyrir eldri borgara og hvetja til þess að eldri bæjarbúar nýti sér hana.

Ólafur Ingi Óskarsson

Að mörgu að hyggja
Við í Framsókn, Samfylkingu og Viðreisn viljum þó gera enn betur og ætlum okkur að gera það. Einn grunnþáttur í því að gera betur er að við ætlum að efla starfsemi öldungaráðs þannig að það geti betur sinnt sínu skilgreinda, lögbundna hlutverki.
Verkefni öldungaráðs eru nefnilega mjög mikilvæg og margskonar eins og t.d. að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra, að samhæfa þjónustu við aldraða og gera tillögur til bæjarstjórnar og annarra um öldrunarþjónustu. Einnig á öldungaráð að leitast við að tryggja að aldraðir fái þjónustu sem þeir þarfnast og kynna öldruðum þá kosti sem í boði eru.
Til þess að öldungaráðið geti sinnt sínum skyldum eins vel og unnt er þá er það okkar skoðun að gera þurfi vandaða þjónustukönnun meðal eldri borgara Mosfellsbæjar til þess að greina stöðuna og hvað megi bæta til að byggja upp og gera Mosfellsbæ að aldursvænum bæ.
Já, það er að mörgu að hyggja og mörg verkefni fram undan. Nú í upphafi fyrsta vetrar nýs meirihluta er ánægjulegt að greina frá því að nú er loksins boðið upp á heimsendan mat um helgar eins og alla aðra daga.
Þá hafa verið gerðar skipulagsbreytingar hjá Eir sem er framkvæmdaaðili stuðningsþjónustu fyrir Mosfellsbæ sem bæta eiga þá þjónustu sem veitt er.

Þetta eru einungis fyrstu skrefin í þeirri vegferð sem mörkuð er í samstarfssamningi Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar. Það er mikilvægt að vera virkur í lífinu, eiga kost á öflugum tækifærum til heilsueflingar, virkrar samfélagsþátttöku, finna til virðingar og það sé hlustað á mann. Það eykur lífsgæðin til muna.
Við lifum einu sinni og því þurfum við að vanda okkur og minna á að samfélagið okkar er betra með alla sem hraustasta, virkasta og glaðasta innanborðs.

Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs
Ólafur Ingi Óskarsson, formaður fjölskyldunefndar

Að reka sveitarfélag

Aldís Stefánsdóttir

Á síðustu vikum hefur sveitarstjórnarfólk af öllu landinu komið saman til að fjalla um rekstur og málefni sveitarfélaga.
Í lok september var haldið Landsþing sambands íslenskra sveitarfélaga og í október var fjármálaráðstefna.
Það er mjög gagnlegt fyrir fólk sem kemur að því að stýra þessum mikilvægu innviðum um allt land að hittast og bera saman bækur sínar. Bæði kjörnir fulltrúar og bæjar- og sveitarstjórar. Áskoranirnar eru miklar en það sést best á því að sveitarfélögum sem uppfylla ekki lágmarksviðmið eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga hefur fjölgað um helming nú í kjölfar heimsfaraldursins. Mosfellsbær er sem betur fer ekki í þeim hópi.
Hluti af skýringunum á þessum rekstrarerfiðleikum er flutningur á málaflokki fatlaðs fólks til sveitarfélaga fyrir um 10 árum. Síðan þá hefur þjónustan þróast í samræmi við breytingar á lögum og verið verið nútímavædd og kostnaðurinn að sama skapi aukist mikið án aukningar á mótframlagi frá ríkinu. Breyting á þjónustu skýrir líka aukinn kostnað í fleiri málaflokkum. Þar er hægt að nefna leikskólamál. Kostnaður sveitarfélaga vegna leikskóla eru um 60 milljarðar króna á landsvísu.
Á síðustu áratugum hafa sveitarfélög byggt upp leikskóla sem standast nútímakröfur þar sem vistunartími hefur verið lengdur bæði með tilliti til aldurs barna og einnig með tilliti til lengdar á vistunartíma. Nú heyrir það til undantekninga ef börn eru ekki komin á leikskóla á öðru aldursári og að þau dvelji þar að minnsta kosti í átta tíma á dag. Hluti af skýringunni á erfiðum rekstri sveitafélaga er líka mikil fólksfjölgun og fjárfestingarþörf sem fylgir henni. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur til að mynda fjölgað um rúmlega 30 þúsund á síðustu 10 árum.

Ég er með þessum skrifum ekki að leggja til neina töfralausn á rekstri sveitarfélaga. Því miður. Heldur er ég frekar að deila þeim upplýsingum sem liggja fyrir og hugleiðingum þeim tengdum. Mér finnst mikilvægt að þau sem taka að sér að taka ákvarðanir um rekstur okkar sameiginlegu sjóða upplýsi um það hvernig gengur og af hverju ekki er hægt að gera allt fyrir alla strax.
En ég er hinsvegar bjartsýn á að okkur muni áfram farnast vel hér í Mosfellsbæ við það krefjandi verkefni að takast á við mikla fjölgun íbúa á sama tíma og við nútímavæðum og bætum þjónustuna.
Það þýðir að við þurfum að vera skynsöm og forgangsraða með tilliti til fjárfestingargetu hverju sinni. Það þýðir líka að við þurfum að leggja áherslu á stefnumótun þannig að við vitum hvert við erum að fara og með samtalinu finnum við út úr því hvernig á að komast þangað.

Aldís Stefánsdóttir
Bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ

Lífrænn úrgangur er auðlind

Brynja Guðmundsdóttir

Mosfellingar bíða eflaust spenntir eftir að innleiðing á samræmdu úrgangsflokkunarkerfi höfuðborgar­svæðisins líti dagsins ljós og verði að veruleika. En hingað til hefur ekki verið samræmi milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í þessum málum.
Lagt er til að almenn sorphirða muni skiptast í lífrænan eldhúsúrgang, blandað heimilissorp, pappír/pappa og plast. Fyrir okkur Mosfellinga er viðbótarflokkun á lífrænum úrgangi mikið framfaraskref.
Hingað til hefur lífrænn úrgangur verið urðaður með blönduðu heimilissorpi en við niðurbrot á lífrænum úrgangi myndast metangas sem við urðun fer óbeislað út í andrúmsloftið, en þess má geta að metan er um 25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur.
Megnið af heimilissorpi sem endar í gráu tunnunni er lífrænn úrgangur og með því að meðhöndla lífræna hlutann rétt, spörum við útblástur og drögum verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ein afurð vinnslunnar er afar næringarríkur jarðvegsbætir sem notaður er við uppgræðslu landsins og skógrækt sem bindur einnig koltvísýring. Flokkunin hefur ekki einungis mikinn umhverfisávinning heldur verður til í ferlinu hágæða eldsneyti, metan, sem hægt er að nota í ýmsum tilgangi.
Vonandi verður flokkun á lífrænum úrgangi hluti af venjum heimila sem allra fyrst, því það er til mikils að vinna.
Það er allra hagur að skerða ekki möguleika komandi kynslóða og með þessum greinaskrifum vil ég hvetja heimili bæjarins til dáða í að minnka framleiðslu á sorpi og flokka rétt, því það þarf bara vilja og getu til að bæta við nýjum og góðum venjum.
Enginn getur allt en allir geta eitthvað!

Brynja Guðmundsdóttir
Áhugamanneskja um umhverfismál

Leiruvogurinn okkar

Úrsúla Jünemann

Loksins er búið að friðlýsa Leiruvoginn. Það var kominn tími til. Þvílík gersemi og útivistarpardís sem við eigum rétt fyrir framan nefið á okkur.
Alveg sama hvort þér finnst gaman að ganga, skokka, hjóla, vera á hestbaki eða spila golf, þetta svæði býður upp á marga möguleika. Áhugamenn í náttúruskoðun geta unað sér vel: Þetta er með bestu fuglaskoðunarsvæðum á landinu og leirurnar bjóða farfuglum, umferðafuglum og staðfuglum ríkulegt fæðuframboð. Selir halda sig sunnarlega í voginum og er gaman að fylgjast með þeim.
Fjörunar eru fjölbreyttar, þangklappir, hrúðurkarlar, margskonar skeljar og svo má lengi telja. Fjórar ár renna í voginn: Leirvogsá, Kaldakvísl, Varmá og Úlfarsá og hver þeirra hefur sín sérkenni.
En hvað þýðir svona friðlýsing? Er þetta alvara eða einungis sýndarmennska? Við Mosfellingar eigum að vera núna á varðbergi gagnvart áætlun um Sundarbrautina og hvernig hún á að vera hönnuð. Ódýrasta lausnin virðist vera að þrengja verulega að voginum og byggja brúna sem stysta. Þrengingar yfir firði hafa ekki alltaf reynst vel og hvaða áhrif þeir hafa á lífríkið. Hæst í minni er mér þegar brú var gerð yfir Kolgrafarfjörðinn á Snæfellsnesi. Í ljós kom að út- og innstreymi sjávar var ófullnægjandi þannig að súrefnismettun í firðinum var ekki nóg. Þannig drápust stórar torfur af síld og strandmengun var skelfileg.
Ódýrasta lausnin er ekki alltaf best þegar horft er til þeirra verðmæta sem gætu glatast. Leiruvogurinn mun örugglega taka miklum breytingum með fyrirhuguðum þrengingum og brú.
Framburðurinn sem árnar koma með mun væntanlega safnast fyrir við þessar þrengingar við brúna og innri vogurinn mun grynnast. Að ekki sé talað um hávaða- og sjónmengun.
Við hér í þessum fallegu útivistarbæ eigum að gera allt sem er hægt að gera til að vernda þessa paradís sem við eigum við bæjardyrnar. Möguleikinn er fyrir hendi að setja Sundabraut í göng og hlífa þannig fallega Leiruvoginum okkar. Það væri þess virði.

Úrsúla Jünemann

Framtíðarsýn í atvinnumálum

Sævar Birgisson

Á yfirstandandi ári náði Mosfellsbær þeim merka áfanga að komast yfir 13 þúsund manns í íbúafjölda, sem er merkilegur áfangi.
Sér í lagi ef við spólum rúma tvo áratugi aftur í tímann eða í kringum aldamót, þá voru íbúar rétt um 6 þúsund. Á þeim tíma voru Leirvogstungu- og Helgafellshverfin enn fjarlægur draumur, sama má segja um Krikahverfið. Eini grunnskóli bæjarins var þá Varmárskóli og aðeins ein almenningssundlaug, okkar kæra Varmárlaug.
Á árinu 1999 leit Atvinnu- og ferðamálastefna fyrir Mosfellsbæ dagsins ljós, var hún gerð til fjögurra ára eða til ársins 2003, með yfirskriftina „Mosfellsbær – heit sveit með sögu“. Síðan hefur heilmikið vatn runnið til sjávar og Mosfellsbær tekið á sig gjörbreytta mynd, með rúmlega tvöfalt fleiri íbúa.
Það er því hægt að fullyrða að Mosfellsbær er sveitarfélag í miklum vexti, ef áætlanir ganga eftir þá mun vöxturinn áfram vera með svipuðum hraða næstu árin. Í dag stöndum við frammi fyrir því að mikil uppbygging á nýju hverfi mun hefjast innan skamms á Blikastaðalandinu. Eins og kynnt hefur verið þá verða fyrstu húsin sem rísa í Blikastaðalandinu á atvinnusvæði sem verður umfangsmeira en við eigum almennt að venjast í Mosfellsbæ. Nú er því lag að móta framtíðarsýn fyrir atvinnu- og nýsköpun í Mosfellsbæ til að skapa það umhverfi sem okkur hugnast helst í þeim málum til framtíðar. Með tilkomu nýrrar atvinnu- og nýsköpunarnefndar þá verða þau verkefni tekin föstum tökum og meðal fyrstu verkefna nefndarinnar verður að leiða vinnu við heildar atvinnu- og nýsköpunarstefnu fyrir Mosfellsbæ.
Þetta er einstakt tækifæri á tímum mikilla breytinga. Tæknibreytingar, umhverfismál, almenningssamgöngur, fjarvinna og stytting vinnuvikunnar hafa haft og munu hafa áhrif á það hvernig fólk kýs að búa og starfa. Við eigum kost á því í þessari vinnu að velta fyrir okkur hvernig samfélag við viljum skapa. Hvað er það í okkar nærumhverfi sem skiptir okkur mestu máli? Hvernig mun Mosfellsbær líta út eftir önnur 20 ár og hvaða áherslur verða hjá íbúum þess tíma?
Í dag er fjöldi fyrirtækja með starfsemi í Mosfellsbæ og þurfum við að hlúa vel að þeim. Vissulega er litið á höfuðborgarsvæðið sem eitt atvinnusvæði, en Mosfellsbær hefur fulla burði til að styrkja sína stöðu sína enn frekar sem eftirsóknarverður kostur fyrir fyrirtæki til að reka starfsemi sína. Tækifærin eru til staðar, það er okkar að stuðla að því að búa til farveg sem ýtir enn frekar undir nýsköpun og framtakssemi.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi

Kære nordiske venner!

Anna Sigríður Guðnadóttir

Dagana 22. og 23. september fór fram vinabæjarráðstefna í Noregi. Mosfellsbær er eins og kunnugt er í vinabæjarkeðju með bæjunum Thisted í Danmörku, Loimaa í Finnlandi, Uddevalla í Svíþjóð og Skien í Noregi en þar fór ráðstefnan fram að þessu sinni.
Ekki þarf að hafa um það mörg orð að samstarf og samband við erlenda vinabæi getur verið mjög gagnlegt og lærdómsríkt. Þema daganna að þessu sinni var merkingarbær þátttaka ungs fólks, eða eins og yfirskriftin hljóðaði: Meaningful young participation. Með samtali og samstarfi getum við speglað okkur og okkar verkefni í þeim verkefnum sem vinabæir okkar standa að og lært ýmislegt. Allir bæirnir kynntu hvað þeir væru að gera í málefnum ungs fólks, hvað varðar þátttöku bæði í sveitarstjórnarmálum og í eflandi félagsstarfi. Þá voru góðar kynningar á valdeflandi ungmennastarfi á landsvísu í Noregi s.s. Alle med, sem einmitt einblínir á mikilvægi þátttöku í uppbyggilegu frístundastarfi fyrir öll börn án tillits til efnahags foreldra. Það er nefnilega staðreynd að börn í fátækt hafa ekki sama aðgang að samfélaginu og önnur börn og mikilvægt að haga uppbyggingu frístundastarfs þannig að öll geti verið með. Mosfellsbær vinnur nú að innleiðingu verkefnisins Barnvænt samfélag sem í stórum dráttum gengur einmitt út á að umfaðma öll börn og ungmenni og efla til þátttöku í samfélaginu í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Hrafnhildur Gísladóttir

Raddir ungmenna
Allir vinabæirnir hafa innan sinna vébanda s.k. ungmennaráð. Umfjöllun um hlutverk ráðanna var okkur áminning um að leggja meiri áherslu á samtal við okkar ungmennaráð og skoða nánar hvernig við getum eflt þátttöku þess í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku.
Á ráðstefnunni í Skien var fagnað útkomu bókar sem inniheldur skrif ungmenna frá öllum vinabæjunum fimm um upplifun ungs fólks af COVID19 faraldrinum. Bókin ber heitið Alone together, together apart sem vísar t.d. til fjarkennslu, fjarfunda og fjarsamskipta sem urðu nýr raunveruleiki okkar allra og ekki síst ungs fólks á tíma faraldursins. Í bókina skrifa þrjú mosfellsk ungmenni og verða þeirra skrif eflaust innlegg í rannsóknir framtíðarinnar á upplifun ungs fólks af lífi í faraldri.
Í mosfellsku sendinefndinni voru einmitt fjögur mosfellsk ungmenni sem tóku þátt í ungmennastarfi ráðstefnunnar ásamt ungu fólki frá hinum bæjunum. Erlent samstarf er mikilvægt. Með norrænu samstarfi fáum við glugga inn í önnur samfélög sem eru svipuð okkar og við getum speglað okkur í, lært af og myndað tengsl sem nýtast okkur við að byggja upp og bæta okkar samfélag.

Anna Sigríður Guðnadóttir, forseti bæjarstjórnar
Hrafnhildur Gísladóttir, formaður menningarmálanefndar

Fjárhagur og lóðaúthlutun í Mosfellsbæ

Ásgeir Sveinsson

Það er gott og vinsælt að búa í Mosfellsbæ, íbúar hafa verið með þeim ánægðustu á landinu undanfarin ár samkvæmt könnunum og í gangi hefur verið mikil uppbygging innviða og viðhalds og endurnýjun eigna auk þess sem þjónusta við bæjarbúa er alltaf að aukast.
Mosfellsbær stendur vel fjárhagslega, þökk sé ábyrgri fjárhagsstjórn undanfarinna ára og þrátt fyrir mikið tekjufall vegna Covid var ákveðið samhljóða af fyrrverandi bæjarstjórn að halda áfram að vinna eftir gildandi framkvæmdaáætlun við uppbyggingu innviða eins og t.d. að klára Helgafellskóla og halda áfram viðamikilli endurnýjun og viðhaldi á öðrum fasteignum Mosfellsbæjar.
Þessi sama bæjarstjórn ákvað einnig að auka þjónustu við íbúa eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Álögur á íbúa hafa verið lækkaðar á líðandi kjörtímabili m.a. fasteignaskattar á íbúðar- og atvinnuhúsnæði, auk þess sem álögur á barnafólk voru lækkaðar verulega.
Þetta voru að mínu mati réttar og góðar ákvarðanir og það þurfti sterkan samheldinn meirihluta og pólitískan kjark til þess að koma þessu í framkvæmd. Í Mosfellsbæ sem er ört stækkandi sveitarfélag hafa verið framkvæmdir upp á u.þ.b. tvo til þrjá milljarða árlega undanfarin ár m.a. í uppbyggingu innviða og viðhaldi fasteigna sveitarfélagsins. Hluti af þeim kostnaði hefur komið með aukinni lántöku auk fjármagns úr eigin rekstri sveitarfélagsins. Það er því eðlilegt að skuldir sveitarfélagsins hafi aukist tímabundið.

Niðurstaða 6 mánaða uppgjörs 2022
Árshlutareikningur Mosfellsbæjar fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2022 sýna að almennur rekstur gekk vel og var í samræmi við þau markmið um þjónustu við íbúa sem sett voru.
Skatttekjur fyrstu 6 mánuði ársins eru hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það endurspeglar áframhaldandi hraðari viðsnúning atvinnulífsins í kjölfar heimsfaraldursins. Kostnaður er í takti við áætlanir með litlum frávikum.
Rekstur málaflokka gekk vel og er í góðu samræmi við fjárhagsáætlun. Þá var áfram mikið framkvæmt á tímabilinu og þá sérstaklega í viðhaldi og endurbótum fasteigna sveitarfélagsins.
Há verðbólga gerir það að verkum að útkoma fyrstu 6 mánaða ársins er lakari hjá Mosfellsbæ en áætlanir gerðu ráð fyrir vegna aukins fjármagnskostnaðar, og er sú staða uppi hjá flestum sveitarfélögum á landinu um þessar mundir.
Íbúum í Mosfellsbæ fjölgar áfram en traustur daglegur rekstur á fyrri hluta ársins og sterk fjárhagsstaða þrátt fyrir tímabundin ytri áföll gera samfélaginu kleift að veita íbúum góða þjónustu sem hefur verið að aukast og mun vonandi gera áfram.

Tekjur af lóðaúthlutun
Fram undan er úthlutun lóða í 5. og 6. áfanga Helgafellshverfis og á Hamraborgarsvæði. Um er að ræða lóðir á landi í eigu Mosfellsbæjar og er heildarfjöldi um 250 íbúðareiningar, mest sérbýlislóðir undir einbýli, par- og raðhús.
Ráðgert var af fyrri meirihluta að úthluta lóðum úr 5. áfanga Helgafells strax eftir kosningar en tafir hafa orðið á því en nú er búið að leysa þau dómsmál sem ollu þeim töfum með fullnaðarsigri Mosfellsbæjar. Það ætti því ekkert að vera til fyrirstöðu fyrir nýjan meirihluta að úthluta lóðum þar fyrir lok þessa árs.
Úthlutun og sala á lóðum á þessum áðurnefndu svæðum mun tryggja Mosfellsbæ mörg hundruð milljóna króna tekjur á hverju ári á næstu 2-3 árum og er það mjög jákvætt fyrir fjárhag bæjarins.
Það er góð vöggugjöf fyrir nýjan meirihluta að fá þessar miklu lóðatekjur á næstu misserum og munu þær ásamt öðrum tekjum sem eru að aukast á hverju ári með stækkun bæjarfélagsins klárlega skipta miklu í þeirri áætlun sem er í gildi frá fyrri meirihluta að greiða hratt niður skuldir á næstu árum. Það ætti að tryggja að nýr meirihluti getur haldið áfram á sömu braut og undanfarin ár að auka þjónustu við íbúa, lækka álögur og tryggja að það verði áfram best að búa í Mosfellsbæ.

Ásgeir Sveinsson.
Bæjarfulltrúi.
Oddviti D-lista í Mosfellsbæ.

Skólarnir okkar

Aldís Stefánsdóttir

Skólar eru grunnstoðir í okkar samfélagi. Þeir gegna mörgum hlutverkum þó að meginmarkmiðið sé að sjálfsögðu að mennta börnin okkar í þeim grunngreinum sem skilgreindar hafa verið í aðalnámsskrá.
Menntun og fræðsla fer þó fram víða annars staðar en í skólastofum og jafnframt fer ýmislegt annað fram í skólastofunum en eingöngu kennsla í fögum. Það þarf nefnilega þorp til að ala upp barn en það orðatiltæki lifir enn góðu lífi þó að þorpið okkar sé orðið að fullvaxta bæ.
Fræðslumálin eru umfangsmikill málaflokkur í öllu tilliti. Um 66% af rekstrarfé bæjarins fer til fræðslu- og frístundamála. Langmestur fjöldi starfsmanna tilheyrir sviðinu og flestar fasteignir bæjarins tilheyra skólum og leikskólum.
Við getum verið og eigum að vera stolt af því skólasamfélagi sem fyrirfinnst í Mosfellsbæ. Hér er fjölbreytni í skólastarfi. Leik- og grunnskólar bæjarins leitast við að efla nýsköpun í sínu starfi og taka þátt í ýmsum þróunarverkefnum. Við eigum frábært fagfólk og reynda stjórnendur. Einnig er mikilvægt að eiga öflug foreldrafélög sem láta sig starfið varða og láta gott af sér leiða. Í vetur verður unnið að gerð aðgerðaáætlunar með nýrri menntastefnu sem er ætlað að styðja við starfið og efla það enn frekar. Auk þess verður lögð mikil áhersla á innleiðingu farsældarlaganna með það að markmiði að bæta þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra.

Sævar Birgisson

Til hamingju Varmárskóli
Bæjarfulltrúar fengu send gullfalleg handskrifuð boðskort í afmæli Varmárskóla á dögunum. Skólinn skipar sérstakan sess í skólasamfélaginu okkar þar sem hann er elsti starfandi skólinn og þar stunduðu flestir fullorðnir Mosfellingar sína skólagöngu.
Það er skemmtilegt að velta fyrir sér þeim breytingum sem orðið hafa á kennsluháttum á líftíma skólans. En það er efni í aðra grein. Við óskum Varmárskóla innilega til hamingju með 60 ára afmælið og hlökkum til að fylgjast áfram með og taka þátt í þróun skólastarfs þar.

Áskoranir Kvíslarskóla
Eins og flestir vita hefur verið unnið mikið starf við lagfæringar á Kvíslarskóla á síðustu mánuðum. Allir eru sammála um að verkefnið er stórt og kom óvænt upp en ekkert annað er hægt að gera en að snúa bökum saman og leysa þetta.
Stjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skólans hafa sýnt af sér einstaka þrautseigju og gengið lausnamiðuð til sinna starfa á síðustu vikum. Þau sem hafa farið í framkvæmdir þekkja það vel að það getur verið erfitt að áætla umfangið í upphafi. Sú hefur einnig verið raunin í þessu verkefni. Það er að sjálfsögðu ósk allra sem hlut eiga að máli að skólastarf geta farið í eðlilegt horf sem allra fyrst og frekara rask verði í lágmarki.
Það er þó mikilvægt að taka fram að verkefnið verður klárað með sómasamlegum og metnaðarfullum hætti og við verklok, sem verða líklega ekki fyrr en seint á skólaárinu, munu nemendur og starfsfólk taka til starfa í stórendurbættu og nútímalegu húsnæði með nýjum búnaði.

Við höfum nýverið tekið sæti í fræðslunefnd Mosfellsbæjar og sitjum þar ásamt öðru góðu fólki. Nefndin er metnaðarfull og hefur sett sér starfsáætlun sem er aðgengileg fyrir alla á vef Mosfellsbæjar.

Aldís Stefánsdóttir, formaður fræðslunefndar og bæjarfulltrúi
Sævar Birgisson, varaformaður fræðslunefndar og bæjarfulltrúi

Neikvæð niðurstaða en við erum jákvæð!

Lovísa Jónsdóttir

Í byrjun mánaðarins voru birtar rekstrarniðurstöður bæjarins fyrir fyrstu sex mánuði ársins.
Því miður er niðurstaðan sú að bæjarfélagið var rekið með tæplega milljarð í mínus, sem er 500 milljón krónum meiri halli en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun bæjarins.

Verðbólgan bítur
Eins og gefur að skilja þá vega verðbætur vegna aukinnar verðbólgu á árinu þyngst í þessari miklu hækkun enda Mosfellsbær með næst hæsta skuldahlutfallið af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu árið 2021 eða 134%, sem í krónum talið þýðir 1.391.595 kr. á íbúa.
Gjaldfærður kostnaður vegna reiknaðra verðbóta af langtímalánum á fyrstu sex mánuðum ársins er 466 m.kr. hærri en gert var ráð fyrir. Því miður er ekki útlit fyrir annað en að verðbólgan haldist há það sem eftir lifir árs þannig að ljóst er að árið 2022 er þungt í rekstri bæjarfélagsins.

Anna Sigríður Guðnadóttir

Stór verkefni
Nýr meirihluti, sem tók við þann 1. júní, fékk stór verkefni í vöggugjöf. Þar má til dæmis nefna viðgerðir á Kvíslarskóla. Kostnaður bæjarfélagsins vegna þess verkefnis féll ekki til á fyrstu sex mánuðunum nema að litlu leyti og er því ekki í þessari rekstrarniðurstöðu.
Það er því ljóst að það hefur ekki mikla þýðingu að fara mikinn í aðdraganda kosninga um vel rekið sveitarfélag þegar viðnám þess við stórum verkefnum er ekki meira en raun ber vitni. Við rekstur samfélags, þar sem skylduverkefnin eru mýmörg, er það ein af frumskyldum kjörinna fulltrúa að sýna ábyrgð í meðferð sameiginlegra sjóða samfélagsins. Það verður því að gera raunhæfa áætlun til framtíðar til að bæta stöðuna.

Framtíðarsýnin
Rekstrarniðurstaðan sýnir okkur ótvírætt að sýn meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar um sterka atvinnustefnu fyrir Mosfellsbæ er gríðarlega mikilvæg. Engin slík stefna hefur verið gerð fyrir bæinn þar sem kjörnir fulltrúar í samvinnu við atvinnurekendur í bænum, íbúa og aðra hagaðila draga fram skýra sýn og markmið til framtíðar í málaflokknum.
Möguleikum sveitarfélaga til tekjuöflunar eru takmörk sett af löggjafanum og þess vegna verðum við að nýta öll þau tækifæri sem við höfum. Það er sýn okkar að sterkt atvinnulíf laði fleiri íbúa að bænum og skapi þannig fjölbreytt og blómlegt líf í bæjarfélaginu.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Spennandi tímar
Í málefnasamningi meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar er kveðið á um að ný nefnd, Atvinnu- og nýsköpunarnefnd, taki til starfa, nefnd sem mun á kjörtímabilinu vinna markvisst að málaflokknum. Við lítum svo á að jafn mikilvægt sé að fela ákveðinni nefnd skýrt umboð til að móta stefnuna og að vinna með stjórnsýslunni til þess að hægt verði að ná árangri í málaflokknum.
Það eru til dæmis vonbrigði að ekki hafi byggst upp fjölbreytt starfsemi á Tungumelum sambærileg þeirri sem við höfum á sama tíma séð byggjast upp á Esjumelum. Þessu viljum við breyta.
Á kjörtímabilinu hefst ein umfangsmesta uppbygging sem ráðist hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu í áraraðir, uppbygging Blikastaðalandsins. Fyrsti áfanginn í þeirri uppbyggingu er einmitt uppbygging atvinnusvæðis sem er gríðarlega vel staðsett auk þess sem stefnt er að uppbyggingu þar sem sjálfbærni og umhverfisvernd er í fyrirrúmi. Við teljum að mörg fyrirtæki vilji taka þátt í uppbyggingu á slíku svæði en það gerist ekki af sjálfu sér.

Sérstaðan
Við viljum líka hampa sérstöðu Mosfellsbæjar sem heilsueflandi samfélags. Samfélags sem hefur þá sérstöðu á höfuðborgarsvæðinu að nánast allir íbúar eru í mikilli nálægð við náttúruna, lífsgæði sem sífellt verða verðmætari.
Þessi sérstaða Mosfellsbæjar er að okkar mati vannýtt auðlind sem við viljum beina sjónum okkar að. Í undirbúningi er stofnun Áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins og sjáum við mikil tækifæri í því að vinna á þeim vettvangi að nýsköpun og þróun Mosfellsbæjar sem áfangastaðar. Hér er til mikils að vinna og mun ný nefnd Atvinnu- og nýsköpunar vinna ötullega að þessum málum.

Jákvæðnin að leiðarljósi
Á sama tíma og við finnum til mikillar ábyrgðar vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem rekstrarniðurstaða fyrstu sex mánuði ársins svo sannarlega sýnir, þá trúum við engu að síður á að framtíð Mosfellsbæjar sé björt og vaxandi.
Við munum halda áfram að takast á við þau stóru verkefni sem lágu fyrir okkur í upphafi kjörtímabilsins en ekki síður munum við stefna ótrauð að því, með jákvæðnina að leiðarljósi, að styrkja enn frekar undirstöður bæjarfélagsins þannig að við verðum betur í stakk búin til þess að takast á við áskoranir framtíðarinnar

Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar
Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar

Gaman saman í Mosó

Franklín Ernir Kristjánsson

Eftir tveggja ára bið og mikla tilhlökkun var bæjarhátiðin okkar, Í túninu heima, loksins haldin dagana 26. – 28. ágúst síðast liðinn.
Það var fjöldinn allur af áhugaverðum, fjölbreyttum og flottum viðburðum í boði auk þess sem gamlir siðir voru teknir upp á ný með endurkomu Útvarps Mosfellsbæjar, sem ég vona að verði áframhaldandi siður á bæjarhátíðinni.
Við hjá menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar fengum það heiðurshlutverk að ferðast um bæinn og dæma í hinni árlegu skreytingakeppni hverfanna. Það var yndislegt að sjá fólk á öllum aldri þeysast um bæinn okkar og njóta þeirrar dagskrár sem var í boði.
Það er ekki spurning að allir þeir sem voru með viðburði eða tóku þátt í að skreyta húsin sín eiga margfalt hrós skilið því það er einmitt það sem gerir bæjarhátíðinni í Mosfellsbæ kleift að standa undir heitinu „Í túninu heima“.
Við í dómnefndinni vorum svo sannarlega látin hafa fyrir því að velja sigurvegarana þar sem auðséð var að mikill metnaður og vandvirkni hafði verið sett í að skreyta hús bæjarbúa.
En svona hátíðir þarfnast mikillar vinnu, bæði frá þeim sem eru með viðburði en ekki síst þeirra sem skipuleggja hátíðina og vil ég hrósa þeim sem komu að því að skipuleggja hátíðina og þá sérstaklega honum Hilmari Gunnarssyni. Í Mosó hefur alltaf verið best að búa en nú leikur enginn vafi á því, takk fyrir mig Mosó.

Franklín Ernir Kristjánsson,
menningar- og nýsköpunarnefnd

Hamrahlíðarskógurinn

Guðjón Jensson

Hamrahlíðarskógurinn er stolt okkar Mosfellinga. Fjölmargir erlendir ferðamenn aka framhjá Hamrahlíðinni og þarna er einna best hægt að sjá hversu góðan árangur unnt er að ná í skógrækt á Íslandi.
Fyrir framsýni og dugnað frumherjanna var hafist í þetta góða starf á sínum tíma en plöntun mun hafa hafist 1957 eða á öðru ári eftir að Skógræktarfélagið í Mosfellssveit var stofnað.
Þarna í hlíðinni hafa yfir 1.000.000 trjáplantna verið plantað á þeim 65 árum sem nú eru liðin og árangur verður að teljast mjög góður. Mest hefur verið plantað af stafafuru, sitkagreni og ösp en þarna eru auk þess fjölmargar aðrar tegundir að finna sem þrifist hafa misvel. Má t.d. nefna að í fyrstu var plantað um 8.000 birkiplöntum en nú hafa fáar lifað af enda sótti sauðfé bænda stíft í spilduna.
Eftir að ég fluttist frá Reykjavík ásamt unnustu minni í ársbyrjun 1983 í Mosfellssveitina var eitt af fyrstu verkunum okkar að ganga til liðs við Skógræktarfélagið. Við tókum mjög oft þátt í sjálfboðaliðastarfi við útplöntun og sitthvað annað tengt starfinu eins og við árlegu jólatrjáasöluna.
Vorið 1983 var plantað aðallega stafafuru norðan við núverandi bílastæði og þar sem rafmagnslínan liggur meðfram hitaveitustokknum. Má sjá vöxtinn í dag en nokkuð af trjánum hefur mátt þoka til að trufla ekki rafmagnsflutninginn. Fyrir mörgum árum hefði mátt huga að setja línuna í jörð til að tryggja betur öryggi en margt hefur verið láta mæta afgangi við framkvæmdir eins og gengur.
Eftir að börnin okkar komu til sögunnar þá voru þau tekin með og tóku þátt í gróðursetningum með okkur. Er fátt ungum börnum jafn hollt og að vera í sem nánustu tengslum við gróðurinn sem vex upp fyrir tilstuðlan þeirra. Þau læra með móðurmjólkinni að virða náttúruna og gróður landsins, víða vex viðkvæmur meiður sem eftir atvikum er orðið að vöxtulegu tré eða visnað sem annað.
Þessi grein er ágrip af stærri grein sem birtast mun í Skógræktarritinu sem Skógræktarfélag Íslans gefur út.

Guðjón Jensson

Framkvæmdir í Mosfellsbæ, frestun og aukinn kostnaður

Jana Katrín Knútsdóttir

Ásgeir Sveinsson

Nýr bæjarstjóri í Mosfellsbæ, Regína Ásvaldsdóttir, tók til starfa þann 1. september sl. og bjóða sjálfstæðismenn hana velkomna til starfa.
Fyrir kosningar lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram ígrundaða og fjölbreytta stefnuskrá og mun reyna að tryggja sínum málum framgang á kjörtímabilinu.
Mikilvæg mál bíða nýrrar bæjarstjórnar í stækkandi sveitarfélagi í samfélagi sem einkennist af verðbólgu og óstöðugleika. Áhersla ætti að vera á að halda álögum á íbúa eins lágum og kostur er, viðhafa ábyrga stjórn fjármála og taka upplýstar og faglegar ákvarðanir um mál sem snerta hagsmuni bæjarins. Það er ljóst að Mosfellsbæ verður ekki stjórnað eingöngu á brosi og bjartsýni.

Uppbygging að Varmá – frestun
Fyrirhuguð uppbygging að Varmá er mikilvægt verkefni. Núverandi meirihluti hefur stöðvað þær áætlanir og er með í endurskoðun uppbyggingu á þjónustuhúsi sem hefja átti sl. vor. Við útboð bárust ekki tilboð í verkið en í stað þess að hefja samningaviðræður við verktaka eða breyta forgangsröðun var verkinu frestað. Ástæðan sem gefin var fyrir þeirri frestun var sú að endurskoða ætti meðal annars stærð og notkun hússins.

Helga Jóhannesdóttir

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Það er skemmst frá því að segja að í janúar fór fram endurskoðun á teikningum og gerðar breytingar í samráði við Aftureldingu. Þær teikningar voru samþykktar í bæjarstjórn og bæjarráði en þá höfðu fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar, sem nú eru í meirihluta engar athugasemdir. Meirihlutinn veit ekki í hverju möguleg stækkun á að felast, hver nýting stækkunarinnar ætti að vera og þá hefur ekki komið fram hver viðbótar kostnaður verður.
Ákvörðunin um frestun framkvæmda að Varmá kemur sér illa fyrir Aftureldingu. Kostnaður mun aukast vegna verðbólgu og hærri vaxta og framkvæmdir munu tefjast a.m.k. um eitt ár. Til þess að lágmarka skaðann af þessum töfum lögðu bæjarfulltrúar D-listans fram tillögu í bæjarráði um að breyta forgangsröðun og byrja á að leggja nýjan gervigrasvöll sem fyrsta áfanga uppbyggingarinnar. Þeirri tillögu var því miður hafnað.

Fimmti áfangi Helgafells­hverfis – tafir á úthlutun lóða
Annað hagsmunamál Mosfellsbæjar er úthlutun lóða í fimmta áfanga Helgafellshverfis. Í ár var á dagskrá hjá fyrri meirihluta að úthluta lóðum undir 140 íbúðareiningar, aðallega einbýli, par- og raðhús, strax að loknum kosningum.
Úthlutun lóðanna hefur ekki getað átt sér stað vegna málaferla. Fyrir nokkrum dögum féll dómur í málinu þar sem fallist var á öll sjónarmið Mosfellsbæjar.
Málið hefur verið óþægilegt og erfitt í meðferð og meðhöndlun fyrir nýjan meirihluta vegna náinna tengsla og hagsmuna oddvita Framsóknarflokksins. Það er eflaust einsdæmi að sitjandi formaður bæjarráðs sé í málaferlum við bæinn sem hafa haft í för með sér mikinn kostnað og tafir fyrir sveitarfélagið. Það hefði verið heiðarlegra af oddvitanum að upplýsa kjósendur um þessi málaferli fyrir kosningar þar sem upplag Framsóknarflokksins í sinni kosningabaráttu var einmitt heiðarleiki, gagnsæi og góð upplýsingagjöf.
Við erum öll að vinna að sama markmiði sem er að vinna að hagsmunum Mosfellsbæjar og gera það sem í okkar valdi stendur til að gera samfélagið okkar enn betra. Ekki má gleyma að bæjarstjórn er fjölskipað stjórnvald þar sem meiri- og minnihluti bera sameiginlega ábyrgð og eiga að vera jafn upplýstir. Von okkar er sú að samvinna bæjarstjórnar verði árangursrík og farsæl og að upplýsingagjöf, gagnsæi og heiðarleika verði raunverulega fylgt eftir svo að bæjarfulltrúar minnihlutans þurfi ekki að halda áfram að lesa fréttir af málefnum bæjarins í fjölmiðlum.

Bæjarfulltrúar D-lista,
Ásgeir, Jana, Rúnar og Helga.