Mannleg samskipti fram yfir símana

Halla Heimis

Þetta er setning sem ég nota í kennslu hjá mér, oftast virða þau það og við tölum um hversu mikilvægt það er að geta hlustað á hvert annað og hvílt símana á meðan.
Það þarf ekki að segja það hér að „síminn getur eitrað sálina“ við vitum það öll. Við vitum að þetta tæki hefur áhrif á kvíða, einmanaleika og hefur neikvæð áhrif á sjálfsmynd fólks, ekki bara barna og unglinga heldur einnig fullorðins fólk.

Nemendur okkar í FMOS eru hluti þeirrar kynslóðar sem hefur alist upp við símanotkun og það að taka upp síma og hringja til að panta tíma í klippingu eða pizzu, hvað þá að mæta á staðinn til að sækja um vinnu er mjög mikið vandamál hjá mörgum og það er áhyggjuefni.
Við viljum að nemendur okkar tali saman í frímínútum og höfum við því aukið afþreyingu fyrir þá. Hvað höfum við gert? Við keyptum körfuboltaspjald, körfubolta og fótbolta í skotið okkar, við límdum „gamaldags“ borðspil á nokkur borð í anddyrinu, taflborð, badmintonspaða og borðtennisborð.
Er þetta að bera árangur? Já, heldur betur! Það er mjög góð tilfinning þegar gengið er um skólann að sjá borðin þéttsetin af nemendum sem eru búnir að búa til alls kyns nýjar reglur í lúdó og slönguspili, hugsandi nemendur við taflborðin, mikla keppni í borðtennis, keppni í að halda flugunni á lofti í badminton og aðrir að fá sér súrefni og spila körfubolta. Þetta gerir það að verkum að skólabragurinn verður annar og maður heyrir hlátur og samtöl í staðinn fyrir þögnina.
Við fullorðna fólkið þurfum að vera fyrirmyndir og auka afþreyingu sem hvetur til samskipta og á meðan er síminn í hvíld.

Halla Heimis.
íþrótta- og lýðheilsufræðingur hjá FMOS

FMOS: Alltaf á tánum

Björk Margrétardóttir

Í FMOS leggjum við metnað í að þróa kennsluhætti og námsefni reglulega. Námið í FMOS er verkefnamiðað leiðsagnarnám, sem þýðir að nemendur fá leiðsögn eftir hvert verkefni og hluti af námi nemenda felst í því að tileinka sér leiðsögnina, sem leiðir þá áfram skref fyrir skref í átt að framförum (e. feed forward).
Til að leiðsagnarnám sé árangursríkt er nauðsynlegt að virðing og traust ríki á milli nemenda og kennara. Við í FMOS lítum á góð samskipti við nemendur sem órjúfanlegan hluta af leiðsagnarnáminu og leggjum mikla áherslu á umræður og samtal á milli kennara og nemenda.

Starfendarannsókn
Á haustönn 2022 unnu enskukennararnir Björk og Helena María, ásamt Þorbjörgu Lilju íslenskukennara, að starfendarannsókn sem bar heitið Leiðsagnarnám og markviss úrvinnsla nemenda. Tilgangur

Helena María
Smáradóttir

rannsóknarinnar var að skoða hvernig nemendur í þriðja þreps áföngum nýttu leiðsögn frá kennara til að taka framförum í ensku og íslensku. Í rannsókninni var lögð áhersla á aukið samtal á milli kennara og nemenda, munnlega og skriflega úrvinnslu leiðsagnar og nemendur látnir halda ferilmöppu.

Framkvæmdin
Kennari og nemendur hittust þrisvar sinnum yfir önnina í einstaklingsviðtölum þar sem rætt var heildstætt um námsframvindu hvers og eins nemanda, styrkleika hans og hvar væri sóknarfæri. Lagt var upp með heiðarleg og hvetjandi samskipti. Jafnframt voru nemendur beðnir um að leggja mat á hversu vel leiðsögn nýttist þeim og hvers konar leiðsögn skilaði sér best til þeirra.
Lögð var áhersla á að setja leiðsögnina fram á sem fjölbreyttastan máta, þ.e. skriflega, munnlega, í upptökum, í myndböndum, með aðstoð gervigreindarforrita og síðast en ekki síst í samtölum. Lögð var fyrir könnun í lok áfanganna þar sem nemendur áttu að meta gagnsemi hverrar leiðsagnarleiðar fyrir sig.

Þorbjörg Lilja Þórsdóttir

Niðurstaðan
Niðurstaðan var áhugaverð en í ljós kom að nemendur vildu fá hnitmiðaðar skriflegar umsagnir þegar gæði verkefna þeirra voru mikil og leiðsögnin því eðli málsins samkvæmt stutt. Þegar um heimildaverkefni var að ræða þótti nemendum gagnlegt að fá send stutt myndbönd þar sem kennarinn notaði forritið Turnitin til að leiða nemendur áfram varðandi næstu skref í heimildavinnunni.
Öllum þóttu einstaklingsviðtölin afar gagnleg – bæði nemendum og ekki síður kennurunum, sem fannst viðtölin gefa aukið tækifæri til að sníða nálgun verkefna í samráði við nemandann. Þar að auki fengum við kennararnir aukna innsýn inn í það hvers konar verkefni höfðuðu til nemenda og hvers vegna. Gagnsemi þessarar rannsóknar var gríðarmikil og höfum við nú þegar tekið mið af niðurstöðum úr könnunum til að bæta leiðsagnaraðferðir okkar. Þess má til gamans geta að litaglaðir kennararnir hafa jafnframt tileinkað sér litakóðaðar skriflegar leiðsagnir, nemendum til einföldunar.

Næstu skref …
Við erum hvergi nærri fullnuma í leiðsagnarnámsfræðunum en einsetjum okkur að fylgjast með nýjungum í fræðunum, sem og alhliða tækninýjungum sem geta nýst í námi.
Næsta áskorun okkar er að finna leið til að nýta okkur gervigreindarforrit til gagns og framfara. Sú vinna er þegar byrjuð hjá okkur í FMOS og við hlökkum til að takast á við það verkefni af virðingu og einlægum áhuga.

Björk Margrétardóttir, Helena María Smáradóttir og Þorbjörg Lilja Þórsdóttir.
Höfundar eru framhaldsskólakennarar við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.

Korpa – gömul afbökun?

Guðjón Jensson

Í Morgunblaðinu þann 29.3.2023 er sagt frá undirbúningi að nýju hverfi syðst í landi Blikastaða. Þetta nýja hverfi er nefnt Korputún.
Mér þykir þetta heiti alveg ótækt enda mun ábyggilega vera til heppilegra örnefni í landi Blikastaða en að sækja það til Reykjavíkur.
Orðið Korpúlfsstaðaá og stytting í Korpu mun ábyggilega ekki vera gamalt í málinu, líklegast tengt umsvifum Thor Jensen á Korpúlfsstöðum. Úlfarsá hét áin fyrrum alveg frá upptökum í Hafravatni og til ósa þar sem hún rennur í Leiruvog. Áin á ekki að vera kennd við Korpúlfsstaði fremur en Blikastaði enda rennur hún síðasta spölinn á mörkum þessara gömlu bújarða.

Mér þótti ástæða til að skoða betur þetta mál. Fyrst kannaði ég örnefnaskrá Blikastaða sem Magnús Guðmundsson sagnfræðingur og skjalavörður tók saman fyrir rúmum 30 árum: nafnid.arnastofnun.is/ornefnaskra/24867
Á síðu 7 í þessari örnefnaskrá segir að Emil Rokstad hafi fyrstur manna nefnt neðri hluta Úlfarsár Korpu og er Guðmundur Þorláksson (1894-1994) bóndi í Seljabrekku borinn fyrir þessum upplýsingum. Í gamallri grein í Tímanum 31.10.1969 segir Guðmundur: „nafnbreyting sem oft heyrist nú, er Korpa í stað Úlfarsá. Fyrir 40-50 árum var þetta nafn ekki til. Áin hét Úlfarsá eins og hún mun hafa heitið til forna. En í daglegu tali var hún oft kennd við suma bæina, sem áttu land að henni og þó einkum Korpúlfsstaði og Lambhaga. Kunnust mun hún hafa verið sem Korpúlfsstaðaá enda lá þjóðvegurinn yfir hana fram hjá Korpúlfsstöðum og fyrir landi þeirrar jarðar og Blikastaða, var laxveiðin mest og beztu stangveiðistaðirnir. Einnig má á það benda að land Korpúlfsstaða er lengst meðfram ánni, þeirra jarða sem að henni liggja. Þetta Korpunafn mun þannig til komið, að norskur maður, Emil Rokstad, hafði laxveiðina í ánni á leigu yfir langan tíma og af hans vörum heyrði ég Korpu nafnið fyrst, líklega þótt það þægilegra í framburði. Líka má vera að þetta hafi verið eins konar gælunafn hjá honum, því að hann tók miklu ástfóstri við ána og undi þar löngum.“
Heimild: timarit.is/files/64638401
Texti undirritaður GÞ sem er Guðmundur Þorláksson en var fæddur á Korpúlfsstöðum.
Ætli þurfi nánar að grennslast fyrir um þetta Korpu örnefni? Það er væntanlega ekki mikið eldra en aldargamalt. Guðmundur var mikill fróðleiksmaður og ritaði Jón M. Guðmundsson á Reykjum minningagrein um Guðmund látinn sem vert er að vísa til: timarit.is/files/58426187

Eigum við að láta styttingu á heiti Korpúlfsstaðaár/Úlfarsár ráða nafngift á heilu hverfi? Væri ekki nær að kenna það við eitthvað annað örnefni sem er nær eins og Hamrahlíð?

Hvað segja Mosfellingar?
Er bæjarstjórn Mosfellsbæjar með grein þessari hvött til að skoða betur þetta mál.

Staddur á Heilsuhælinu í Hveragerði
Guðjón Jensson tómstundablaðamaður
og eldri borgari – arnartangi43@gmail.com

Menning í mars komin til að vera

Hrafnhildur Gísladóttir

Við sem höfum nú starfað saman í menningar og lýðræðisnefnd í tæpt ár erum einstaklega þakklát fyrir þann heiður sem það er að vinna með þennan mikilvæga málaflokk sem snertir alla íbúa bæjarins.
Gott menningarlíf eflir bæjarbraginn og það er okkur í nefndinni mikilvægt að bæjarbúar hafi tækifæri til að koma saman og njóta lista og menningar í sínum heimabæ.

Síðastliðinn mánuð hefur nýtt verkefni menningar- og lýðræðisnefndar verið í gangi sem gekk undir nafninu Menning í mars. Við nefndarfólk tókum okkur saman og fengum aðila til að vera með stóra og smáa viðburði af ýmsum toga. Einnig gátu þeir sem það vildu skráð sig og sína viðburði sem settir voru inn á viðburðadagatal Mosfellsbæjar.
Haldnir voru tónleikar, opið hús hjá listafólki, söngur og sund, tónleikar Listaskóla Mosfellsbæjar og sögukvöld í Hlégarði svo eitthvað sé nefnt. Viljum við þakka öllum þeim sem komu að því að halda viðburði og taka þátt í að gera menningarlíf bæjarins sýnilegt.
Við hlökkum mikið til að halda áfram að þróa þennan viðburð með bæjarbúum og efla menningarlíf í Mosfellsbæ.

Sérstaklega viljum við þakka öllum þeim sem komu í Hlégarð á sögukvöldið sem var lokaliður í dagskrá Menningar í mars. Að sjá allan þann fjölda fólks sem kom saman vegna áhuga á sögu sveitarinnar okkar og hlusta á sögur frá sveitungum, fékk mosfellska hjartað til að slá hraðar.
Við erum svo lánsöm að fá að búa í sveit í borg og held ég að allir sem mættu á þennan einstaka viðburð í félagsheimilinu okkar Hlégarði geti tekið undir að þetta var stórkostlegt kvöld og vonandi ekki það síðasta. Það að geta tekið þátt í menningarviðburðum í sínum heimabæ er einn af hornsteinum góðs mannlífs og við í nefndinni höfum metnað til að koma því góða starfi sem á sér stað í Mosfellsbæ á framfæri. Menning í mars er því komin til að vera.

Fyrir hönd menningar- og lýðræðisnefndar
Hrafnhildur Gísladóttir formaður

Áframhaldandi uppbygging í Helgafelli

Valdimar Birgisson

Á fundi bæjarráðs þann 16. mars sl. samþykkt bæjarráð úthlutunarskilmála fyrir fyrri hluta útboðs lóða í 5. áfanga Helgafellshverfisins.
Áfanginn samanstendur af fjölbreyttu formi íbúða, alls 151 íbúð við götu sem hefur fengið nafnið Úugata. Byrjað er á því að bjóða út lóðir fyrir raðhús og fjölbýlishús sem verður úthlutað til hæstbjóðenda. Gert er ráð fyrir því að uppbygging á þessum lóðum geti hafist strax í sumar.
Gangi vinna við gatnagerð í síðari hluta áfangans áfram sem horfir verður hægt að úthluta lóðum fyrir par- og einbýlishús í september á þessu ári.
Sérstaklega ánægjulegt er að í þessum áfanga í uppbyggingu Helgafellslands er hugað að fjölbreyttu búsetuformi og gert ráð fyrir bæði íbúðakjarna fyrir fatlaða auk þess sem úthlutað er í fyrsta sinn í Mosfellsbæ lóð til Bjargs íbúðafélags.

Íbúðakjarni fyrir fatlaða
Flestir íbúðakjarnar í bænum hafa ekki verið byggðir sérstaklega sem íbúðir fyrir fólk með langvarandi stuðningsþarfir heldur hefur hentugt húsnæði verið keypt þar sem hægt hefur verið að þjónusta þennan hóp.
Það er því einstaklega ánægjulegt að í fyrsta sinn síðan sveitarfélög tóku yfir málaflokk fatlaðs fólks er nú úthlutað sérstaklega lóð til uppbyggingar á íbúðakjarna fyrir fatlaða í Mosfellsbæ. Mikilvægt er að bæjarfélag eins og Mosfellsbær sinni af metnaði þeirri samfélagslegu skyldu sinni að tryggja fötluðum viðeigandi húsnæði.
Í samræmi við málefnasamning meirihlutans þá hefur velferðarnefnd falið velferðarsviði að greina búsetuþörf fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir til framtíðar svo unnt verði að gera ráð fyrir sambærilegum búsetukjörnum á framtíðaruppbyggingarsvæðum í bænum.

Bjarg íbúðafélag
Bjarg íbúðafélag er sjálfeignarstofnun sem hefur það markmið að bjóða tekjulágum fjölskyldum örugga langatímaleigu á hagstæðum kjörum. Nú hefur lóð fyrir 24 íbúða fjölbýlishús verið úthlutað til félagsins og því styttist í að Mosfellingum standi þetta búsetuúrræði til boða í okkar heimabæ.

Einstakar lóðir fyrir sérbýli
Ekki er hægt fjalla um þennan áfanga í uppbyggingu Helgafells án þess að minnast á hinar einstöku sérbýlislóðir sem verður úthlutað í haust. Hér sameinast þeir tveir kostir í sérbýlishúsalóðum sem eru hvað eftirsóttastir, þ.e. fallegar lóðir mót suðri með einstöku útsýni.
Það er ánægjulegt að uppbygging í Helgafellslandinu haldi áfram og vonir standa til þess að hægt verði að halda áfram með þá áfanga sem enn eru eftir á næstu misserum. Þegar hverfið verður fullbyggt er gert ráð fyrir að þar verði 3.000 íbúðir.

Valdimar Birgisson,
formaður skipulagsnefndar

Niðurstaða ársreiknings 2022

Lovísa Jónsdóttir

Það var ljóst þegar nýr meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar tók við í Mosfellsbæ að fjárhagsstaða bæjarins væri ekki sú besta. Miklar lántökur síðustu ára taka í og hafa eðlilega mikil áhrif á möguleika okkar til frekari uppbyggingar.
Sjálfur rekstur bæjarins hefur verið ágætur, það er að segja veltufé frá rekstri hefur verið jákvætt sem segir okkur að rekstur í þeirri mynd sem hann hefur verið stendur undir sér. Áskorunin í núverandi umhverfi er hins vegar skuldastaða bæjarins. Lán bæjarfélagsins eru verðtryggð og ljóst að þegar verðbólga er í hæstu hæðum þá hefur það mikil áhrif.
Lífið heldur samt áfram þrátt fyrir verðbólgu og verkefnin sem verður að takast á við halda áfram að skjóta upp kollinum.

Stóru verkefnin geta ekki beðið
Stuttu eftir að nýr meirihluti tók við lá 6 mánaða uppgjör fyrir, hallinn af rekstri fyrstu 6 mánaða ársins var 940 milljónir króna. Sú niðurstaða var 500 m.kr. lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir og þar vó þyngst aukinn fjármagnskostnaður um 396 m.kr.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Eins og fyrr segir þá hefur svona staða óneitanlega mikil áhrif á möguleikana til frekari uppbyggingar en sum verkefni eins og mygluskemmdir spyrja ekki að því hvernig rekstrarumhverfið er en það hefur til dæmis reynst vera risastórt verkefni á síðustu mánuðum að hreinsa og endurbyggja í Kvíslarskóla.
Neðri hæðin í skólanum var hreinlega gerð fokheld og þegar framkvæmdum verður lokið þá verður búið að endurbyggja alfarið fyrstu hæð skólans. Þetta er fjárfesting sem á árinu 2022 var 441 milljón króna dýrari en áætlað hafði verið í viðhald skólans.

Verðbólgudraugurinn
Eins og við vitum öll þá hefur verðbólgan ekki hjaðnað á síðari hluta ársins, þvert á móti jókst hún síðustu mánuði ársins.
Það kom því ekki á óvart að rekstrarniðurstaða ársins 2022 yrði mun lakari en áætlanir ársins gerðu ráð fyrir. Hins vegar er það ábyrgri fjármálastjórn að þakka að hallinn varð ekki meiri en raun ber vitni.
Í lok árs var niðurstaðan neikvæð um 898 milljónir en þar af eru 797 milljónir áfallnar verðbætur vegna hærri verðbólgu en spár gerðu ráð fyrir.

Anna Sigríður Guðnadóttir

Framtíðin
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu fyrir árið en það er alveg ljóst að Mosfellsbær, eins og önnur sveitarfélög, á allt undir því að tök náist á verðbólgunni svo unnt verði að ná tilætlaðri niðurstöðu.

Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar

Stöndum saman

Örvar Jóhannsson

Mosfellsbær er eitt af 11 sveitarfélögum sem nú þegar hafa skrifað undir þjónustusamning um samræmda móttöku flóttafólks við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og fleiri sveitarfélög eru á leiðinni.
Það er okkar samfélagslega ábyrgð að hjálpa til og taka á móti fólki á flótta. Þetta er allt fólk sem á sína sögu, vonir og þrár eins og allir aðrir um að geta lifað góðu og hamingjusömu lífi. Það hefur sýnt sig að margt af flóttafólkinu sem við hér á Íslandi höfum tekið á móti kemst auðveldlega inn á vinnumarkaðinn. Þau þrá að vinna fyrir sér og vinna að því hörðum höndum að skila til baka góðri vinnu til þess að efla samfélagið okkar og efnahagslíf. Einnig skapa þau og búa til auðugra mannlíf hér á landi því í fjölmenningarsamfélagi skapast mörg ný tækifæri.

Samræmd móttaka flóttafólks nær til fólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að.

Ólafur Ingi Óskarsson

Lögð er áhersla á nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að fólk fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem með atvinnu, samfélagsfræðslu og námi, þ.m.t. íslenskunámi.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti á dögunum að taka á móti allt að 80 manns og er það þó ekki þannig að þessi hópur komi allur á sama tíma, síður en svo. Það er að sjálfsögðu að mörgu að hyggja og eru húsnæðis- og skólamálin helsta áskorunin. Við munum kappkosta við að huga vel að fólkinu sem kemur til okkar sem og öðrum Mosfellingum. Þetta verkefni verður samvinnuverkefni allra í Mosfellsbæ.
Í samningunum milli ríkis og þeirra sveitarfélaga sem sýna samfélagslega ábyrgð og taka á móti flóttafólki er skýrt kveðið á um það að sveitarfélögin fái greiddan kostnað með fjölskyldunum fyrstu tvö árin. Þar að auki munu koma til sérstakar greiðslur með grunn- og leikskólabörnum auk þess sem Mosfellsbær mun fá framlög sem koma til með að standa undir kostnaði við stöðu verkefnastjóra fyrsta árið en minnka aðeins á árunum á eftir. Þessi verkefnastjóri mun halda vel utan um þennan hóp.
Eins og kunnugt er þá kemur mikill fjöldi flóttamanna til landsins í dag sem kemur jafnt til Mosfellsbæjar hvort sem sveitarfélagið gerir slíkan samning eða ekki. Með því að taka þátt í verkefninu er verið að tryggja það að sveitarfélagið fái fjárframlög frá ríkinu til að standa undir kostnaði.
Við sem samfélag ætlum að sýna styrk okkar í að standa saman og sýna að allir skipti máli.

Örvar Jóhannsson bæjarfulltrúi og Ólafur Ingi Óskarsson formaður velferðarnefndar.

Leikskólabygging í Helgafellshverfi

Ásgeir Sveinsson

Undanfarin ár hefur Mosfellsbær vaxið hratt sem felur í sér margs konar áskoranir, svo sem að innviðir fylgi með, þar á meðal fjölgun leikskólaplássa.
Vel hefur verið haldið á þessum málum undanfarin ár í Mosfellsbæ og hafa flest öll börn 12 mánaða og eldri í bænum fengið dagvistunarúrræði undanfarin ár.

Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn lýsa yfir mikilli ánægju með að loksins hafi verið tekin ákvörðun af meirihlutanum um að bjóða út byggingu leikskóla í Helgafellshverfi, en það útboð var á döfinni síðastliðið sumar.
Nýr meirihluti frestaði útboðinu á síðasta ári, ekkert gerðist í marga mánuði en loks var settur á stofn starfshópur sem var til þess fallinn að skoða stöðu leikskólamála í Mosfellsbæ.
Sú vinna var algjörlega óþörf að okkar mati því upplýsingarnar og áætlanir lágu þegar fyrir á fræðslusviði bæjarins og það hefur verið vandlega og af fagmennsku unnið í þessum málum undanfarin ár eins og góð staða dagvistunarmála í Mosfellsbæ sýnir.

Biðlistar myndast og kostnaður stórhækkar
Bæjarfulltrúar D-lista hafa ítrekað á síðustu átta mánuðum þrýst á að bygging leikskóla hefjist sem fyrst því sú töf sem hefur orðið á framkvæmdum er bæði óheppileg og kostnaðarsöm. Opnun leikskólans mun frestast um allt að eitt ár með tilheyrandi vandræðum með dagvistun auk þess sem kostnaður við bygginguna verður hærri vegna þeirra tafa sem hafa orðið.

Í byrjun kjörtímabilsins lögðu bæjarfulltrúar D-lista til að farið verði í vinnu við að lækka byggingarkostnað og bjóða verkið strax út en það hefði sparað skattgreiðendum háar fjárhæðir í kostnaði við verkefnið. Hugmyndir okkar varðandi lækkun byggingarkostnaðar voru ekki skoðaðar en ljóst er að þær hefðu getað skilað mun meiri lækkun á byggingarkostnaði, bygging leikskólans hefði ekki tafist og kostnaður hefði ekki hækkað eins og nú hefur gerst.

Það er ánægjulegt að það hafi tekist að lækka núverandi áætlaðan byggingarkostnað um 15% en sú lækkun og sá sparnaður sekkur allur í hafið vegna hækkana sem hafa orðið m.a. á byggingarvístölu, verðbólgu, byggingarkostnaði, launa- og fjármagnskostnaði verkefnisins á síðustu mánuðum.
Auk þess var ákveðið, fyrir eingöngu fjórum vikum síðan, að bjóða út stoðveggi sem eru hluti af byggingunni í sérútboði sem er mjög óhagkvæmt, í stað þess að bjóða allt verkið út í einu lagi.

Slæm stjórnsýsla og hærri kostnaður
Fulltrúar meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar tóku ranga ákvörðun í þessu máli og er það miður fyrir skattgreiðendur í Mosfellsbæ og foreldra ungra barna sem því miður munu lenda á biðlistum eftir dagvistun vegna tafa sem hafa orðið á byggingu leikskólans.

Reikna má með að útgjöld sveitarfélagsins muni áfram hækka til muna vegna ákvarðanafælni nýs meirihluta því búið er að fresta til dæmis nauðsynlegum framkvæmdum að Varmá, m.a. bygging 1.200 m2 þjónustuhúss og lagning nýs gervigrasvallar. Þær framkvæmdir eru í algjörri óvissu og gæti kostnaður orðið tugum eða hundruðum milljóna króna hærri þegar loks að framkvæmdum kemur og er það afar slæmt fyrir skattgreiðendur í Mosfellsbæ.

Er þetta meirihlutinn og vinnubrögðin sem kjósendur Framsóknar völdu í kosningunum síðastliðið vor?

Ásgeir Sveinsson
Oddviti D-lista
Bæjarfultrúi Mosfellsbæ

Mikið um að vera í vetrarfríi grunnskólanna

Erla Edvardsdóttir

Það var nóg um að vera í vetrarfríi grunnskóla Mosfellsbæjar 16.-19. febrúar síðastliðinn.
Ungmennaráð bæjarins fékk málið til umfjöllunar og kom með afar skemmtilegar hugmyndir að afþreyingu. Starfsfólk íþrótta- og tómstundanefndar, í samvinnu við íþrótta- og tómstundafélög Mosfellsbæjar og félagsmiðstöðina Bólið, útbjó síðan frábæra dagskrá fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra.

Mikið stuð var í sundlaugum og íþróttahúsum bæjarins. Boðið var upp á kennslu í skák og borðtennis, hægt var að fara í Zumba, Yoga, flot, slökun og ilmsána, auk þess sem hin sívinsæla Wipeout braut var sett upp. Bólið sá um sundlaugapartý, Afturelding bauð börnum að koma í fimleika- og körfuboltafjör, taekwondodeildin var með opnar æfingar og handknattleiksdeildin setti upp þrautabraut og æfingar. Hestamannafélagið Hörður bauð krökkum að koma og kynnast hestamennsku, fá að klappa hestunum og láta teyma undir sér. Golfklúbburinn bauð fjölskyldum að spreyta sig í golfi og Skátarnir og Björgunarsveitin Kyndill sáu um fjölskyldugöngu á Úlfarsfell.

Það hafa ekki allir tök á að fara með fjölskylduna í frí þegar skólarnir eru í vetrarfríi. Því er dagskrá sem þessi afar kærkomin og nýttu fjölmargir krakkar, foreldrar, afar, ömmur, frænkur og frændur þetta einstaka tækifæri til að eiga góðar samverustundir í bænum okkar.
Íþrótta- og tómstundanefnd þakkar öllum sem komu að hugmyndavinnu, skipulagningu og framkvæmd þessarar glæsilegu dagskrár kærlega fyrir.

Erla Edvardsdóttir,
formaður íþrótta- og tómstundanefndar.

9 mánuðir

Halla Karen Kristjánsdóttir

Mosfellsbær er sjöunda stærsta sveitarfélag landsins. Íbúar voru 13.470 þann 1. febrúar síðastliðinn og hefur íbúafjöldinn ríflega tvöfaldast á tuttugu árum.
Mosfellsbær er ört vaxandi sveitarfélag og öll teikn á lofti um að sú þróun haldi áfram. Tölurnar segja okkur að vöxturinn er gífurlegur og íbúar finna fyrir fjölguninni á ýmsa vegu. Með auknum íbúafjölda eykst þjónustuþörfin á öllum sviðum, það er augljóst hverjum manni. Innviðir sveitarfélags þurfa því að fylgja fólksfjöldanum og eflast í takti við hann.

Hlutverk sveitarfélagsins
Meginhlutverk sveitarfélaga er að sjá um grunnþjónustu við íbúana. Umfangsmestu verkefnin eru fræðslu- og uppeldismál, velferðarmál, æskulýðs- og íþróttamál og skipulagsmál. Verksviðið er víðfeðmt og áskoranirnar margar ef gera á verkefnunum góð skil. Íbúar verða að hafa greiðan aðgang að upplýsingum um þjónustuna, réttindi sín og skyldur.

Anna Sigríður Guðnadóttir

Mikilvægt er að á íbúa sé hlustað og greitt, eins hratt og auðið er, úr öllum erindum sem berast stjórnsýslunni. Samkvæmt málefnasamningi meirihlutans á að vinna að því að stjórnkerfið og skipulag þess endurspegli umfang þeirrar þjónustu sem því er ætlað að veita. Þannig verði sjónum beint að því efla og auka þann mannauð sem býr í starfsfólki bæjarins í samræmi við aukinn íbúafjölda. Til að veita þjónustu þegar og þar sem hennar er þörf var ákveðið að fjölga um fimm stöðugildi í stjórnsýslunni og gert ráð fyrir þeirri aukningu inni í fjárhagsáætlun ársins 2023.
Um er að ræða eitt stöðugildi á fræðslusviði, til að koma til móts við börn sem þurfa á stuðningi að halda, og annað á velferðarsviði til að svara uppsafnaðri þjónustuþörf hjá fjölskyldum fatlaðra barna. Stafrænn fulltrúi var ráðinn til að halda utan um stafræna þróun stjórnsýslunnar til að efla þjónustu við bæjarbúa og auka hagkvæmni í rekstri.
Þá var ljóst að fjölga þyrfti á lögfræðisviði enda mörg og umfangsmikil lögfræðileg úrlausnarefni á borði stjórnsýslunnar. Aukinn vöxtur kallar líka á styrkingu í skipulagsmálum og þar höfum við einnig aukið við stöðugildi. Síðastliðið sumar var einnig skilgreint hlutverk aðgengisfulltrúa.

Verkefnin
Viðfangsefni síðustu níu mánaða eru mörg og stór. Að baki upplýstum ákvörðunum liggja margar vinnustundir sem oft eru ekki sýnilegar bæjarbúum. Eitt af þeim er öll sú vinna sem farið hefur í að koma Kvíslarskóla í gott horf. Að loknum þeim framkvæmdum munum við í raun eiga nýjan og endurbættan skóla sem svarar kröfum nútímans um kennslu- og námsaðstæður. Nýlega samþykkti bæjarráð að bjóða út byggingu leikskólans í Helgafellslandi eftir mikla rýnivinnu sem hafði í för með sér lækkun áætlaðs byggingarkostnaðar. Skipulag íþróttasvæðisins að Varmá er í skoðun í góðu samtali við Aftureldingu. Fyrsta verkefnið hefst í vor þegar nýr púði, nýtt gervigras og vökvunarbúnaður verður settur upp í stað eldra gervigrass.
Önnur stór verkefni eru m.a. rekstur Hlégarðs, úthlutun lóða í 5. áfanga Helgafellslands, innleiðing farsældarhringsins og verkefnisins barnvænt samfélag sem bæði verða til hagsbóta fyrir öll börn og fjölskyldur þeirra, framtíðarskipulag Skálatúns, og áskoranir varðandi verkefni byggðasamlaganna Sorpu og Strætó. Þá má nefna uppbyggingu í Blikastaðalandi sem er viðamikið verkefni sem unnið verður í áföngum og mun taka sinn tíma.
Gott sveitarfélag að okkar mati er sveitarfélag sem hlustar á íbúana, bregst tímanlega við þjónustuþörfum þeirra og byggir upp innviði á hagkvæman og skilvirkan hátt til hagsbóta fyrir okkur öll í nútíð og framtíð. Gott sveitarfélag styður við góðan bæjarbrag sem einkennist af virðingu, samheldni og tillitssemi við náungann.

Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs
Anna Sigríður Guðnadóttir forseti bæjarstjórnar

Nýr leikskóli í Helgafellshverfi

Lovísa Jónsdóttir

Í síðustu viku var tekin ákvörðun í bæjarráði Mosfellsbæjar um að fela umhverfissviði að fara í útboð á byggingu nýs leikskóla í Helgafelli.
Er þessi ákvörðun tekin í framhaldi af því að endurskoðun hönnunar leiksskólans, með það að markmiði að lækka áætlaðan byggingakostnað, skilaði tilætluðum árangri. Þar með er ljóst árangurinn af vinnu starfshóps um uppbyggingu leikskóla í Mosfellsbæ hefur skilað bæjarbúum að minnsta kosti 15% sparnaði við verkefnið.
Ef við hefðum haldið áfram með byggingu leikskólans, með óbreyttum teikningum, eins og bæjarfulltrúar D lista hafa ítrekað kallað eftir síðan að ákvörðun um stofnun starfshópsins var tekin í október 2022, hefði ekki reynst mögulegt að ná þessum sparnaði.

Lóðaval
Endurskoðunin leiddi jafnframt í ljós að í fyrri kostnaðaráætlunum vegna byggingar leikskólans var ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði vegna jarðvegsframkvæmda á erfiðri lóð. Þrátt fyrir það var tekin ákvörðun um halda áfram undirbúningi byggingarinnar og ljúka hönnun án þess að uppfærð kostnaðaráætlun hafi verið lögð fyrir bæjarráð, jafnvel þó að bent hafi verið á að kostnaður vegna lóðarvalsins yrði umtalsverður.
Aðrar lóðir fyrir leikskóla, sem ekki eru jafn erfiðar til uppbyggingar, voru mögulegar og hefði verkefnið ekki verið komið á lokastig þegar nýr meirihluti tók við völdum í júní 2022 er alveg víst að önnur lóð hefði verið valin.
Vinna starfshópsins skilar því, auk beins sparnaðar af þessu ákveðna verkefni, að verkferlar við kostnaðaráætlanir verða endurskoðaðir. Mikilvægt er að kostnaðarmat sé reglulega uppfært og lagt fyrir bæjarráð.

Betri aðstæður á markaði
Til viðbótar við þá lækkun byggingarkostnaðar sem náðst hefur eru í dag mun betri aðstæður á útboðsmarkaði fyrir sveitarfélög en voru í haust, þegar jafnvel engin tilboð bárust í verk eða þau voru vel yfir áætlunum. Við erum því vongóð um að ásættanleg tilboð berist.
Þrátt fyrir að byggingarvísitala hafi hækkað um tæp 5% þá hefur annar kostnaður, svo sem verð á stáli, lækkað. Það er alrangt sem haldið hefur verið fram að þeir rétt rúmu 5 mánuðir sem voru teknir til þess endurskoða hönnun og kostnað við byggingu leikskólans hafi leitt til þess að kostnaðurinn við byggingu hans verði mun meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Sú verðbólga sem er nú í landinu var til staðar í haust og ljóst að fjármagnskostnaður myndi vaxa hvort sem hafist var handa í haust eða núna á vormánuðum. Þá lá einnig fyrir að laun myndu hækka enda kjarasamningar lausir. Hækkun af þessum völdum skýrist því ekki af endurskoðunartímanum.

Góð reynsla til framtíðar
Á heildina litið er því árangurinn af vinnu starfshópsins óumdeilanlegur. Hvort sem það er lækkaður byggingarkostnaður, bættir verkferlar til framtíðar eða þau verðmætu gögn og upplýsingar sem var safnað saman við vinnuna þá er ljóst að undir stjórn núverandi meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar verður vandaður undirbúningur, gagnsæi og eftirfylgni leiðarstef í allri frekari uppbyggingu.

Lovísa Jónsdóttir,
bæjarfulltrúi Viðreisnar

Vinalegt raunsæi

Dagný Kristinsdóttir

Umræðuefni Kveiks í síðustu viku var helgað málefni sem hefur verið til umræðu meðal bæjarbúa og í stjórnsýslunni árum saman, það er urðunarsvæðið á Álfsnesi.
Í þættinum kom meðal annars fram að samkvæmt eigendasamkomulagi sem nú er í gildi eigi að loka urðunarsvæðinu í lok þessa árs. Jafnframt kom fram að nýr staður hafi ekki verið fundinn. Þessi fréttaflutningur er ekki nýr og á ekki að koma okkur Mosfellingum á óvart enda hafa fulltrúar Vina Mosfellsbæjar ítrekað bent á þetta undanfarin ár.
Fyrir okkur Mosfellinga þurfa eftirfarandi atriði að vera á hreinu. Álfsnes sem urðunarstaður er ekki að fara neitt. Þetta er eins og þaulsetinn gestur í partýi sem við getum ekki hent út. Þá er tvennt í stöðunni; að pirra sig á honum eða búa þannig um hnútana að viðveran sé þolanleg. Við erum í þeirri stöðu núna. Þegar nýr urðunarstaður finnst tekur 3-5 ár að undirbúa hann til notkunar. Það að ekki sé búið að finna nýjan stað þýðir ósköp einfaldlega að ekki verður hægt að hætta urðun á svæðinu í lok þessa árs. Þá þarf að horfa til skynsamari leiða og hvað sé raunhæft að gera. Það er að sætta okkur við nærveru þaulsetna gestsins og gera hana eins bærilega fyrir okkur og hægt er, á meðan unnið er að varanlegri úrlausn mála. Eitt það brýnasta sem vinna þarf með er lyktarmengunin en það er sjálfsagður réttur okkar Mosfellinga, og ekki síst þeirra sem búa í Leirvogstungu og á öðrum nærliggjandi svæðum, að neikvæð áhrif frá urðunarstaðnum séu í lágmarki. Lyktarmengun kemur úr meðhöndlun á lífrænum úrgangi á urðunarstað og til þess að lykt verði sem minnst þarf að vinna úrganginn innanhúss og sleppa urðun. Fram kom í Kveik að gas- og jarðgerðarstöðin Gaja sé rekin á fullum afköstum og því liggur beinast við að ganga þurfi rösklega í það verk að skapa leiðir til að lífrænn úrgangur sé allur unninn hjá Gaju eða öðrum jarðgerðarstöðvum. Því þurfum við að ganga úr skugga um það að stjórn Sorpu hafi stækkun Gaju á teikniborðinu eða aðrar færar leiðir sem verða klárar fyrir lok árs. Það er forgangsatriði þessa árs.

Dagný Kristinsdóttir
Oddviti Vina Mosfellsbæjar

Er brjálað að gera?

Aldís Stefánsdóttir

Það var ótrúlega vel heppnað að gera þessa spurningu að hálfgerðum brandara í auglýsingum frá Virk. Húmor getur haft mikil áhrif á daglegt líf okkar í hinum ýmsu aðstæðum, hvernig við eigum samskipti við aðra og hvernig okkur líður í krefjandi umhverfi.
En ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að ég var að velta fyrir mér hvað ég ætti að skrifa um í bæjarblaðið okkar að þessu sinni. Hvað er búið að vera í gangi síðustu vikur? Alls konar verkefni í fræðslumálunum og svo eru það úrgangsmálin, atvinnumálin og menningarmálin að ég nefni nú ekki íþrótta- og tómstundamálin. Maður minn hvað þetta er allt mikilvægt og spennandi.

Úrgangsmál eru loftslagsmál
Nýleg umfjöllun um úrgangsmál hefur líklega vakið athygli margra. Þetta er góð og tímabær umræða. Í allri stefnumótun, áætlunum og góðum fyrirætlunum í loftslagsmálum þá eru úrgangsmál mikilvægur þáttur.
Til að setja hlutina í samhengi þá nam kolefnislosun vegna urðunar Sorpu í Álfsnesi um 2% af heildarlosun Íslands á árinu 2021. Það jafngildir útblæstri frá 45 þúsund bifreiðum. Sem betur fer hefur löggjöfin í þessum málum tekið miklum breytingum og núna um áramótin tóku gildi ný lög sem krefja okkur um miklar breytingar. Þar er meðal annars búið að banna urðun á lífrænum úrgangi.
Það hefur þau áhrif að við þurfum að hefja flokkun á heimilisúrgangi og ég veit að margir Mosfellingar eru löngu tilbúnir í það. Nýjar tunnur eru væntanlegar á hvert heimili með vorinu.

Fjárfesting í innviðum er nauðsynleg
Það sem við þurfum núna eru raunhæfar og metnaðarfullar áætlanir um það hvernig úrgangsmálum verður háttað á höfuðborgarsvæðinu, og reyndar á landinu öllu, til framtíðar. Þar stendur upp á okkur stjórnmálafólk bæði hjá ríki og sveitarfélögum.
Það er orðið bráðnauðsynlegt að ráðast í mikilvæga innviðauppbyggingu til að standa með sóma að þessum málum. Stór skref hafa verið stigin með byggingu á gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi (GAJA) og fyrir liggur að hefja útflutning á brennanlegum úrgangi síðar á þessu ári. Stóru verkefnin fram undan eru meðal annars að þroska umræðuna um sorpbrennslu hérlendis og að finna nýjan urðunarstað fyrir höfuðborgarsvæðið.

Hefjumst handa
Okkur er ekkert að vanbúnaði. Við þurfum að veita þessum málaflokki tíma og athygli og að sjálfsögðu munum við koma að umræðunni um fjármagn. En eins og staðan er núna þá er ekki í boði að gera ekki neitt.
Stjórn Sorpu er skipuð kjörnum fulltrúum úr öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er metnaðarfullur hópur sem hefur fullan hug á því að leggja sitt af mörkum bæði þegar kemur að mótun stefnu í úrgangsmálum og innleiðingu hringrásarhagkerfisins.
Þannig að til að svara spurningunni, jú það er bara brjálað að gera.

Aldís Stefánsdóttir
Bæjarfulltrúi Framsóknar
í Mosfellsbæ og stjórnarkona í Sorpu

Sjálfboðaliðinn

Birna Kristín Jónsdóttir

Íþróttafélag eins og Afturelding sem er líklega stærsti vinnustaður bæjarins fyrir utan Mosfellsbæ sjálfan er rekið að langmestu leyti af sjálfboðaliðum.
Félagið er með tvo starfsmenn á skrifstofunni, framkvæmdastjóra og íþróttafulltrúa sem sjá um allan daglegan rekstur og faglegt íþróttastarf.
Það vantar alltaf góða sjálfboðaliða og það verður að viðurkennast að það verður alltaf erfiðara og erfiðara að fá fólk til starfsins. Það er staðreynd að það er mikil ábyrgð að taka að sér sjálfboðaliðastarf, við viljum allt fyrir íþróttafélagið okkar gera og oftar en ekki erum við komin í þá stöðu að vera að taka á köflum mjög óvinsælar ákvarðanir og stundum spyr ég mig hvers vegna í ósköpunum ég er að þessu.
Oftar en ekki fer stór hluti frítímans í að hafa áhyggjur af einhverju ráðinu eða deildinni. En svo koma tímabil sem eru svo gefandi og uppskeran er svo sæt að það eru þessi augnablik sem gera þetta allt þess virði og oft eftir erfiða fundi þá þarf ekki nema einn sætan sigur og lífið er aftur dásamlegt. Fyrir utan það hvað maður kynnist mikið af frábæru fólki.
Nú stöndum við frammi fyrir því að þurfa að manna meistaraflokksráð kvenna í knattspyrnu og það verður fundur á mánudaginn kemur í Vallarhúsinu. Það er ótrúlega mikilvægt fyrir okkur að halda úti góðu starfi í meistaraflokkunum okkar til þess að yngri iðkendur hafi fyrirmyndirnar til þess að líta til. Ég hvet ykkur sem eruð með stelpur í yngri flokkum að kíkja við af því að tíminn líður hratt og stelpur í 3. og 4. flokki eru steinsnar frá meistaraflokki.
Ég lofa ykkur því að þetta er krefjandi, erfitt á köflum en langoftast er þetta bara skemmtilegt og gefandi starf í góðum félagsskap.
Áfram Afturelding!

Birna Kristín Jónsdóttir
Formaður Aftureldingar

Eru fjármál Mosfellsbæjar komin í rugl?

Hákon Björnsson

Þann 10. janúar 2023 sendi ég svohljóðandi tölvupóst til allra bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ:

„Sælir allir bæjarfulltrúar í Mosfellsbæ.

Ég var að skoða hvað ég á að reikna með að þurfa að greiða í fasteignagjöld til Mosfellsbæjar á árinu 2023. Mig rak í rogastans. Hér til hliðar er tafla sem sýnir fasteignagjöld mín vegna Akurholts 1 árið 2022 og árið 2023.

Taflan sýnir að:
Fasteignaskattur hækkar um 27,3%
Lóðaleiga hækkar um 28,7%
Sorpgjald hækkar um 16,1%
Vatnsgjald hækkar um 23,0%
Fráveitugjald hækkar um 25,5%

Ég mótmæli þessum yfirgengilegu hækkunum og skora á alla bæjarfulltrúa að takast á við rekstur bæjarins af meiri hagsýni og festu en lesa má út úr þeim gerræðislegu skatta­álögum sem fram koma hér að framan.

Kveðja,
Hákon Björnsson
Akurholti 1“

Sama dag og ég sendi þennan tölvupóst til bæjarfulltrúanna fékk ég viðbrögð frá Ásgeiri Sveinssyni oddvita Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn þar sem hann bregst við tölvupósti mínum fyrir hönd bæjarfulltrúa Sjálfstæðismanna. Í tölvupóstinum segir Ásgeir að Sjálfstæðismenn í bæjartjórn hafi barist „með kjafti og klóm“ gegn svo miklum hækkunum á fasteignagjöldum.

Ég hef engin viðbrögð fengið frá öðrum bæjarfulltrúum.

Ofangreindar hækkanir á fasteignaskatti og lóðaleigu eru langt umfram almennar kostnaðarhækkanir. Hafa ber sérstaklega í huga að 27–29% hækkun á þessum gjöldum er langt umfram launahækkanir og er bein árás á lífskjör fólks.

Sorpgjald, vatnsgjald og fráveitugjöld eru þjónustugjöld sem eiga að standa undir rekstri á sorphirðu, neysluvatnskerfi og fráveitukerfi. Þegar þessi gjöld hækka um 16–25,5% spyr maður sig hvað sé að gerast. Er kostnaður við rekstur þessara málaflokka farinn úr böndunum? Eru fjármál og rekstur Mosfellsbæjar komin í rugl?

Fulltrúar meirihlutans í bæjarstjórn verða að koma með rökstuddar skýringar á þessu miklu hækkunum. Kannski er skýringin að þeir bæjarfulltrúar sem skipa meirihlutann í bæjarstjórn eru ekki þeim vanda vaxnir að bera ábyrgð á rekstri Mosfellsbæjar.

Hákon Björnsson