Uppskera ársins

Birna Kristín Jónsdóttir

Það er komið að þessum skemmtilega tíma ársins þar sem við förum yfir uppskeruna okkar.
Árið hjá Aftureldingu er búið að vera bæði gott og erfitt. Í vor uppskárum við bikarmeistaratitil í handboltanum eftir ansi langt hlé, stelpurnar stoppuðu stutt í Grillinu og eru komnar aftur í efstu deild og strákarnir í fótboltanum náðu sínum besta árangri en fóru ekki upp um deild þó svo að þeir hafi endað í 2. sæti. En við förum betur yfir þetta allt saman á uppskeruhátíðinni 27. desember.

Þegar ég horfi til baka yfir árið þá finnst mér þetta hafa verið mitt erfiðasta ár sem formaður Aftureldingar, en ég held að því sé um að kenna að við erum með mikla vaxtarverki í félaginu. Það fylgir því þegar bæjarfélagið stækkar og iðkendum fjölgar að við erum öll að berjast um sömu krónurnar og að aðstöðumálin þurfa að fylgja með.
Betri árangur og þátttaka í efstu deildum kallar á betri aðstöðumál. Það kallar líka á fleiri hendur af okkar hálfu, hvort sem er sjálfboðaliðar á leiki eða starfsfólk á skrifstofu. Við til dæmis slógum hvert metið á fætur öðru í fjölda áhorfenda í vor og sumar bæði í handbolta og fótbolta, og umgjörðin maður minn hjá þessum ráðum var til fyrirmyndar.

Það stærsta í aðstöðumálum fram undan er að fá gervigras á gamla aðalvöllinn sem er langþráð og verður allt annað líf. Við vonum svo að björtustu vonir haldi og við verðum komin af stað með þjónustubyggingu og stúku áður en langt um líður.
Þó svo að það hljómi þannig að við í Aftureldingu séum aldrei kát og ekkert sé nógu mikið fyrir okkur þá erum við mjög þakklát fyrir allt sem er gert í aðstöðumálunum okkar, það er mjög myndugt framlag bæjarins á árinu 2024 til aðstöðumála og það að fá styrktarþjálfunaraðstöðuna aðlagaða að afreksstarfinu okkar er þvílík lyftistöng.

Aðstöðuvandinn er hins vegar uppsafnaður vandi og það verður að segjast alveg heiðarlega að það er rosalega slítandi að vera alltaf að berjast fyrir sömu hlutunum aftur og aftur og aftur.
Ég ætla rétt að vona að núna sé að koma fram tímalína framkvæmda við Varmá þannig að við í Aftureldingu getum farið að sinna okkar innri uppbyggingu af því að allt okkar púður hefur farið í aðstöðumál og að bregðast við bráðavanda undanfarin ár.

Ég er búin að vera í aðalstjórn í tæp 9 ár og formaður Aftureldingar í tæp 6 ár, ég hef lagt mig alla fram um að vinna af heiðarleika fyrir Aftureldingu og tel mig geta horft stolta til baka.
Ég veit að ég er ekki alltaf vinsæl og það getur verið sárt þegar fólk hættir tímabundið að heilsa mér út af erfiðum ákvörðunum sem snúa að heildinni, en ef ég væri í vinsældakeppni þá væri ég örugglega ekki búin að vera svona lengi. Mér þykir undurvænt um félagið mitt og ég hreinlega elska að sjá það vaxa.
Ég met það svo að það sé kominn tími á aðra rödd í forsvari félagsins og ég mun hætta sem formaður á næsta aðalfundi. Ég veit að það er alltaf erfiðara og erfiðara að fá sjálfboðaliða en ég vona svo innilega að einhver góð(ur) taki að sér að taka við keflinu.
Ég hlakka til að sjá ykkur á uppskeruhátíð félagsins milli jóla og nýárs og óska þess að þið eigið öll gleðileg jól.
Áfram Afturelding.

Birna Kristín Jónsdóttir,
formaður Aftureldingar