Af vettvangi sveitarstjórnarmála

Dagný Kristinsdóttir

Nú er liðið eitt og hálft ár af kjör­tímabilinu og fyrir græningjann er gott að líta yfir farinn veg. Þessi tími hefur verið krefjandi en umfram allt áhugaverður og lærdómsríkur.
Það er ákveðin upplifun að fá brautargengi inn í bæjarstjórn og vera treyst fyrir því að taka ákvarðanir fyrir hönd fólksins í bænum. Ég hef nálgast verkefnið á þann veg að starfa í þjónustu samfélagsins, en þannig var mér seld hugmyndin að því að gefa kost á mér.

Verkefnin
Áður en aðild að sveitastjórnarmálum kom til var ég svona temmilega áhugasöm um málefni sveitarfélagsins en núna velti ég öllu fyrir mér. Við hjónin höfum tekið ófáa rúnta þar sem þessi framkvæmdin og hinn húsgrunnurinn er skoðaður.
Allt í einu er ég komin á kaf í skýrslur um urðun sorps á Álfsnesi, hvernig sé best að úthluta lóðum, hvernig lýsing eigi að vera í bænum (LED eða ekki), hvað Strategía leggur til í breytingum á skipuriti, hvort sorpið sé losað í dag eða á morgun. Að ég tali ekki um flokkun á sorpi (sem reynist mér mikill hausverkur) en maðurinn minn hefur sem betur fer tekið verkefnið fastari tökum en ég.
Svo koma aðrir hlutir eins og fjárfestingaráætlun og fjárhagsáætlun heils sveitarfélags. Þá er maður boðaður á undirbúningsfund þar sem fyrir liggja glærur í tugatali og enn fleiri blaðsíður af fjárhagsáætlun komandi árs. Svo þarf að kafa ofan í öll gögnin, skoða og ekki síst að mynda sér skoðun á þessu öllu saman. Ég viðurkenni það fúslega að mér féllust hendur á þessum fyrsta undirbúningsfundi sem fór fram fyrir ári síðan.

Reglurnar
Svo eru það reglurnar og það er nú eins gott að læra þær! Til allra funda er boðað með tilteknum hætti, með lögbundnum fyrirvara og hefðbundinni dagskrá … og það er alveg nóg af fundum. Kosturinn er sá að þeir eru haldnir innan tiltekins tímaramma og það er gengið út frá því að fólk mæti undirbúið.
Bæjarráð fundar til dæmis einu sinni í viku í 90 mínútur í senn og með góðu skipulagi er hægt að keyra mörg mál í gegn. Einu fundirnir sem eru án hefðbundins tímaramma eru fundir bæjarstjórnar. Þá er hægt að sjá í beinu streymi og eftir á á Youtube og það hef ég nýtt mér það óspart. Það er lærdómsríkt að skoða gamlar upptökur og læra formið og tungumálið.

Fyrsta árið og rúmlega það fer í að læra á umhverfið og aðlagast vinnubrögðunum, það á ekki bara við um mig heldur svotil allt nefndafólk í mínu framboði. En nú er festan komin.
Við erum búin að læra hvernig hlutirnir virka og til hvers er ætlast af okkur. Við hlökkum til nýs árs og þess að vinna að hagsmunum bæjarins.

Fyrir mína hönd og míns hóps óska ég bæjarbúum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ár.

Dagný Kristinsdóttir
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar