Blikastaðaland – samráð við íbúa mikilvægt

Valdimar Birgisson

Áform um íbúðabyggð á Blikastaðalandi hafa verið á aðalskipulagi í Mosfellsbæ í áratugi. Samhliða kynningu á drögum að nýju aðalskipulagi sl. vor voru frumdrög að rammahluta aðalskipulags fyrir Blikastaðaland kynnt.
Gert er ráð fyrir að Blikastaðir verði eitt þéttbýlasta íbúðarsvæði Mosfellsbæjar til samræmis við markmið svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og samgöngusáttmála sveitarfélaganna. Áhersla deiliskipulagsins verður á:
• Samspil byggðar og náttúru.
• Blágrænar ofanvatnslausnir.
• Samfélagsleg gæði.
• Gæði byggðar.
• Aukinn líffræðilegan fjölbreytileika grænna svæða
• Fjölbreytt íbúðarhúsnæði.

Skipulagsnefnd samþykkti 1. desember sl. að auglýsa skipulagslýsingu deiliskipulags. Tilgangur skipulagslýsingar er „að tryggja aðkomu almennings og hagsmunaaðila að skipulagsferlinu á fyrstu stigum þess”.
Athugasemdir sem bárust voru lagðar fyrir skipulagsnefnd 19. janúar sl.

Tímalína verkefnisins er eftirfarandi:
• Desember 2023. Skipulagslýsing auglýst.
• Nóvember 2023 – ágúst 2024. Skipulagstillögur unnar og samráð haft við umsagnar- og hagsmunaaðila.
• September 2024. Skipulagstillögur kynntar á forkynningarstigi, móttaka og úrvinnsla ábendinga. Almennur kynningarfundur.
• Október 2024 – maí 2025. Skipulagstillögur unnar áfram, frekara samráð við hagsmunaaðila, m.a. vegna mögulegra ábendinga.
• Vor 2025. Skipulagstillögur auglýstar og kynningarfundur haldinn. Móttaka og úrvinnsla athugasemda og ábendinga.
• Sumar 2025. Samþykktarferli og gildistaka. KYNNING, SAMRÁÐ OG SKIPULAGSFERLIÐ.

Þær athugasemdir sem bárust við skipulagslýsinguna voru mest ábendingar, m.a. á mikilvægi þess að fráveitumál væru vel skipulögð. Einnig kom ábending frá Umhverfisstofnun um að samkvæmt Náttúrufræðistofnun Íslands er heit uppspretta á skipulagssvæðinu. Náttúrufræðistofnun vekur athygli á því að ekki er ólíklegt að fuglalíf sé töluvert á svæðinu og eðlilegt að leggja mat á þá breytingu sem verður. Þá bárust jafnframt athugasemdir frá nýstofnuðum Hagsmunasamtökum íbúa í Mosfellsbæ.
Helstu athugasemdir þeirra eru að þau telja að skipulagsnefnd þurfi að útskýra fyrir almenningi hver sé ástæða þess að nefndin telji mikilvægt að hefja deiliskipulagsvinnu sem ekki er í samræmi við gildandi aðalskipulag.
Rétt er að benda á að í lögum er heimild til að vinna deiliskipulag á sama tíma og aðalskipulag er endurskoðað.
Önnur athugasemd samtakanna lýtur að því að þau telja nauðsynlegt að skipulagsnefnd útskýri fyrir almenningi af hverju nefndin telur tímabært að skipuleggja svona þétta byggð þegar augljóst er að uppbygging vegna Borgarlínu er ekki komin á það stig að hún sé tímabær.
Í þessu samhengi má benda á að pólitískur einhugur ríkir í bæjarstjórn Mosfellsbæjar um að hágæða samgöngur séu nauðsynlegar ætlum við að þróa bæinn okkar.
Þriðja athugasemd hagsmunasamtakanna lýtur að því að ekki hafi verið haft samráð við íbúa.
Hvað þetta varðar vil ég árétta að í gegnum þetta ferli hafa rammahlutinn, drög að aðalskipulagi og skipulagslýsingin verið auglýst og hafa íbúar geta kynnt sér þessar tillögur á vef Mosfellsbæjar eða Skipulagsstofnunar. Eins og fram kemur hér að ofan þá eru fyrirhugaðir að minnsta kosti tveir kynningarfundir og ekki verður hikað við að hafa þá fleiri ef þurfa þykir.
Hvað varðar þéttleika byggðarinnar er mikilvægt að finna jafnvægi á milli þéttleika byggðar, innviðauppbyggingar og mannlífs, og mun það verða leiðarljós í þeirri vinnu sem fram undan er. Þrátt fyrir meiri þéttleika en í öðrum hverfum Mosfellsbæjar, má benda á að þéttleiki verður samt sem áður minni en víða í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þéttari byggð skapar möguleika á fjölbreyttari íbúðargerðum og við þurfum sannarlega húsnæði fyrir alla. Það er ekki valkostur fyrir fyrstu kaupendur að kaupa fyrstu eign í sérbýli, eða stórar, dýrar íbúðir í fjölbýli. Betri nýting á landi skapar meiri þjónustu og styttra er fyrir íbúa að sækja þjónustu.

Valdimar Birgisson,
formaður skipulagsnefndar í Mosfellsbæ