Tökum fagnandi á móti nýju ári

Regína Ásvaldsdóttir

Kæru íbúar og starfsfólk Mosfellsbæjar.
Ég óska ykkur gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir samstarfið á liðnu ári.
Árið 2023 var fyrsta heila árið mitt í starfi bæjarstjóra og er óhætt að segja að það hafi verið viðburðaríkt.

Það var til dæmis ótrúlega gefandi að fylgjast með okkar flotta íþróttafólki vinna hvern sigurinn á fætur öðrum og ýmist sækja bikara heim eða komast í undanúrslit.
Þá var ekki laust við að hjartað tæki hopp af stolti þegar nafnið Afturelding rúllaði á sjónvarpsskjánum mörg sunnudagskvöld í fyrravetur. Afar vel gerðir og leiknir þættir sem vekja athygli á bænum okkar langt út fyrir landssteinana.
Bæjarhátíðin Í túninu heima heppnaðist afar vel og metþátttaka var á flestum viðburðum, þrátt fyrir að veðrið væri aðeins að stríða okkur.
Eitt af því sem ég upplifi að hafi haft mikið gildi fyrir Mosfellinga á síðasta ári er ákvörðun bæjarstjórnar að yfirtaka rekstur Hlégarðs og ráðning viðburðastjóra fyrir húsið. Það má með sanni segja að Hlégarður hafi fljótt náð fyrri sess sem eins konar hjarta Mosfellsbæjar og nýir dagskrárliðir hafi slegið í gegn.
Annar mikilvægur áfangi á árinu var samningurinn við innviðaráðuneytið, mennta-og barnamálaráðuneytið og IOGT um yfirtöku Mosfellsbæjar á þjónustu við íbúa á Skálatúni og sérstakt framlag til þess verkefnis frá Jöfnunarsjóði. Jafnframt var skrifað undir samning um stofnun nýs félags um uppbyggingu á þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur á lóð Skálatúns.
Meðal stofnana sem flytjast á svæðið eru Barna- og fjölskyldustofa, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og Ráðgjafa- og greiningarstöð ríkisins. Það er skýrt í öllum samningum að núverandi íbúar Skálatúns njóti forgangs og þurfi ekki að flytja, kjósi þeir það ekki. Svæðið er það stórt að það er pláss fyrir uppbyggingu samhliða búsetu þeirra á svæðinu.
Á árinu var einnig gerð rekstrar- og stjórnsýsluúttekt sem leiddi til stjórnkerfisbreytinga sem tóku gildi 1. september.
Það væri ekki rétt að segja að árið hafi liðið án nokkurra áskorana. Verkfall aðildarfélaga BSRB hafði til dæmis mikil áhrif á starfið í leikskólunum í vor og í sumar og á árinu var nýtt sorphirðukerfi tekið í notkun í samræmi við ný lög um hringrásarhagkerfið. Þær breytingar kröfðust útsjónarsemi í tengslum við nýtt flokkunarkerfi, ekki síst hjá íbúum.
Það er við hæfi að þakka bæjarbúum sérstaklega fyrir þolinmæðina og samstarfsviljann við innleiðinguna sem hefur gengið mjög vel.

Þjónusta við börn og fjölskyldur
Þjónusta við börn og fjölskyldur er í forgangi í Mosfellsbæ með öflugum leik- og grunnskólum, listaskóla, félagsmiðstöðvum og frístundastarfi. Þá er ótalið það góða starf sem íþróttafélög og önnur frjáls félagasamtök halda úti fyrir börn og unglinga. Það verður áfram haldið á þeirri braut að bjóða börnum sem verða eins árs 1. ágúst eða fyrr leikskólapláss en á árinu 2023 var plássum við einkarekna leikskólann LFA í Grafarvogi fjölgað um fjörutíu. Þá er uppbygging hafin á leikskólanum í Helgafellshverfi sem á að vera tilbúinn haustið 2025.
Á síðastliðnum 10 árum hefur orðið 40% fjölgun barna í leikskólum í bænum á móti 18% fjölgun grunnskólabarna. Á sama tíma hefur kostnaðarhlutdeild foreldra í rekstri leikskóla lækkað úr 32% í 10%.
Áfram verður unnið að innleiðingu menntastefnu Mosfellsbæjar og nýrra farsældarlaga. Þá hefur skólaþjónustan verið efld en á síðasta ári fengu 386 börn aðstoð sérfræðinga á vegum hennar.

Þjónusta við eldri borgara
Á nýju ári munum við taka þátt í verkefninu „það er gott að eldast“ sem er samþætting heimahjúkrunar og heimastuðnings.
Markmið þróunarverkefnisins er að flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin þegar kemur að öldrunarþjónustu. Í Mosfellsbæ erum við með þjónustu á heimilum hjá rúmlega 200 eldri borgurum. Um þessar mundir er verið að gera könnun á upplifun þeirra á þjónustunni sem verður gagnleg inn í áframhaldandi vinnu við samþættinguna.

Þjónusta við fatlaða einstaklinga
Það var töluverð áskorun að taka við þjónustu við íbúa á Skálatúni sem eru 32 í dag og yfir 100 starfsmenn sem skiptu um vinnustað. Verkefnið hefur gengið vel og við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá þjónustuþegum og starfsmönnum. Haustið 2024 munum við opna nýjan búsetukjarna við Úugötu og velferðarsvið er að leggja drög að frekari uppbyggingu í málaflokknum. Þá höfum við bætt aðgengi fyrir fatlað fólk víða í bæjarfélaginu í samstarfi við verkefnið Römpum upp Ísland.

Fjárfestingar
Það eru stór fjárfestingarverkefni fram undan á árinu 2024. Leikskólinn í Helgafellshverfi er stærsta einstaka verkefnið á árinu. Búið er að bjóða út gerð undirlags við Varmárvelli en skipt verður um gervigras á aðalvellinum á árinu 2024 og í framhaldinu verður nýr frjáls­íþróttavöllur lagður. Lóðin við Varmárskóla verður tekin í gegn og framkvæmdum utanhúss lokið við Kvíslarskóla. Þá er fram ­undan endur­skoðun á þarfagreiningu vegna þjónustubyggingar og mótun framtíðarsýnar fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ. Áfram verður unnið að uppbyggingu atvinnusvæðis við Blikastaði, unnið að gerð rammaskipulags fyrir miðbæinn og nýtt aðalskipulag klárað.

Horfum fram á veginn
Frá því að ég hóf störf sem bæjarstjóri hef ég skrifað vikulega pistla sem hafa birst á heimasíðu bæjarins. Þeir eru 53 talsins en ég hef tekið frí frá skrifum þegar bæjarstjórn hefur farið í leyfi. Markmiðið var að gefa innsýn í störf bæjarstjórans. Ég mun halda áfram á þessari braut en gera þær breytingar að birta mánaðarlega pistla og fjalla þá meira um einstök mál í stað yfirferðar um þá fundi og viðburði sem ég hef sótt.
Jarðhræringar hafa einkennt seinni hluta ársins 2023 með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir Grindvíkinga og hugur þjóðarinnar hefur verið hjá þeim. Þá eru blikur á lofti í heimsmálunum, bæði vegna ástandsins í Úkra­ínu og nú síðast á Gasa-svæðinu þar sem við horfum á hræðilegar afleiðingar stríðsins nánast í beinni útsendingu á hverju kvöldi. Á þriðja tug þúsunda íbúa hafa látist, aðallega konur og börn.
Við þessar aðstæður er svo auðvelt að verða vanmáttugur og upplifa að það sé ekkert hægt að gera í þessari stöðu. En það er ýmislegt hægt að gera og það minnsta er að taka utan um þá sem hafa flúið stríðsátökin og veita þeim skjól til að vaxa og dafna.
Mín heitasta ósk fyrir árið 2024 er að við förum inn í nýtt ár með mannúð og kærleik að leiðarljósi. Í því samhengi skiptir hvert og eitt okkar máli, því við höfum öll rödd.
Tökum því fagnandi á móti nýju ári og horfum bjartsýn fram á veginn.

Regína Ásvaldsdóttir
bæjarstjóri