Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ og samstarf við Grænland

Við erum tveir kennarar við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ og undir lok síðasta mánaðar héldum við í nokkurra daga ferðalag til Nuuk á Grænlandi.
Tilgangur ferðalagsins var að kanna möguleikann á samstarfi við grænlenskan framhaldsskóla með þau markmið að leiðarljósi að skapa vettvang fyrir bæði okkar nemendur og grænlenska nemendur til að kynnast sögu landanna, menningu þeirra og náttúru og að sjálfsögðu hvert öðru í gegnum samstarf á netinu og vettvangsferðir. Þetta ferðalag okkar var styrkt af Nordplus Junior sem veitir styrki til þróunarverkefna skóla.
Íslendingar og Grænlendingar eru nágrannaþjóðir og aukinn áhugi er á nánara samstarfi þeirra á milli eins og viljayfirlýsing forsætisráðherra Íslands, Katrínar Jakobsdóttur, og formanns landsstjórnar Grænlands, Múte B. Egede, frá desember 2022 ber með sér. Í yfirlýsingunni eru tilgreind sjö málefnasvið sem sérstök áhersla verður lögð á og eru menntun og menningarsamstarf þar á meðal. Við í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ höfum mikinn áhuga á að leggja okkar af mörkum í þessu aukna samstarfi enda mikilvægt að nemendur fái tækifæri til að kynnast og mynda dýrmæt tengst.
Í heimsókn okkar til Nuuk hittum við meðal annars kennara og stjórnendur í tveimur menntastofnunum, ræðismann Íslands á Grænlandi, skoðuðum Þjóðminjasafn Grænlands og undirbjuggum næstu skref í samstarfsverkefninu.
Heimsóknin til Nuuk var afar lærdómsrík og það var sönn ánægja að hitta grænlensku nágranna okkar og finna gestrisni þeirra og hvað við eigum margt sameiginlegt. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs sem mun vonandi gera okkur kleift að bjóða upp á Grænlands- og Íslandsáfanga styrktan af Nordplus Junior þar sem nemendur fá að fræðast um og ferðast til Grænlands með okkur í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.

Dóra Þorleifsdóttir, dönskukennari og Halldór Björgvin Emmuson Ívarsson, sögukennari