Mosfellsk menning

Franklín Ernir

Menningarlíf Mosfellsbæjar hefur svo sannarlega verið á hraðri uppleið undanfarna mánuði. Það eru margir þættir sem eiga þar hlut að máli. Óhætt er þó að segja að hugsjón og áhugi Mosfellinga ber þar hæst.
Með tilkomu nýs fyrirkomulags á rekstri Hlégarðs hefur komið í ljós hvað tækifærin til að efla menningu í Mosfellsbæ eru mikil og fjölþætt. Á núverandi kjörtímabili hefur mikil vinna farið í það að skapa fjölbreyttan vettvang til menningariðkunar og er þeirri vinnu aldeilis ekki lokið.

Menning í mars
En nú er marsmánuður genginn í garð og verkefnið okkar „Menning í mars“ þar með hafið.
Það er einlæg von okkar að þetta frábæra framtak muni ýta undir og styrkja menningarlíf Mosfellsbæjar til komandi framtíðar sem og veita listiðkendum tækifæri á því að kynnast öðru áhugafólki um listir og styrkja þar með menningarsamfélagið okkar enn frekar.

Helga Möller

Framtíð mosfellskrar menningar
Þá er mikil vinna fram undan hjá okkur í menningar- og lýðræðisnefnd Mosfellsbæjar sem snýr að því að efla menningarlíf bæjarins og verður spennandi að sjá hvernig fram vindur.
Eitt þeirra verkefna er að móta framtíð Hlégarðs. Sú vinna felur í sér áframhaldandi samræður við bæjarbúa þar sem þeim gefst kostur á því að viðra sínar hugmyndir og sýn á starfið í Hlégarði. Þannig mótum við framtíð mosfellskrar menningar saman.

Franklín Ernir Kristjánsson, fulltrúi D-lista í menningar- og lýðræðisnefnd
Helga Möller, fulltrúi D-lista í menningar- og lýðræðisnefnd