Umhverfisvernd

Bjartur Steingrímsson

Bjartur Steingrímsson

I.
Umhverfisvernd skipar sífellt stærri sess í samfélaginu okkar. Það sem þótti eitt sinn jaðarpólitík fyrir sérvitringa og draumóramenn er nú orðið að meginstefi í nútímalífi, jafnt í fræðslu skólabarna, lífsháttum fjölskyldna og í stefnuplöggum stjórnmálaflokka og stórfyrirtækja.
Krafan um að náttúran fái að njóta vafans verður háværari með hverjum deginum. Það er ekki eingöngu vegna þess að falleg náttúra og útivist veiti hugarró og færi okkur gleði heldur vegna þeirra gífurlegu hagsmuna sem felast í því að varðveita landið okkar og auðlindir þess fyrir komandi kynslóðir.
II.
Umhverfisvernd hefur verið ein af meginstoðum í stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs frá stofnun. Á þingi, í ríkisstjórn og sveitarstjórnum hefur VG háð ötula baráttu fyrir umhverfissjónarmiðum og sjálfbærni með það að markmiði að gera Ísland að leiðandi ríki á heimsvísu í þeim málaflokki. Rammaáætlun um virkjanakosti, vinna að miðhálendisþjóðgarði og áætlun núverandi ríkisstjórnar um kolefnis­hlutlaust Ísland eru allt dæmi um afrakstur þeirrar baráttu.
Í setu sinni í meirihluta bæjarstjórnar hér í Mosfellsbæ hafa fulltrúar VG lagt áherslu á gerð nýrrar umhverfisstefnu fyrir bæjarfélagið, eflingu almenningssamgangna og betrumbótum í flokkun heimilissorps.

III.
En betur má ef duga skal. Mosfellsbær er blómlegt samfélag í miklu nábýli við ósnortna náttúrufegurð. Sóknarfærin eru fjölmörg. Hér má efla útivistar- og tómstundamöguleika á grænum svæðum, tryggja góðar almenningssamgöngur og tækifæri til vistvænna ferðamáta í öllum hverfum bæjarins og betrumbæta enn frekar sorphirðu- og endurvinnslumál.
Slík vinna mun ekki bara gera bæinn okkar að fallegra og betra heimili fyrir alla íbúa heldur einnig að ákjósanlegri áfangastað fyrir ungar kynslóðir sem forgangsraða meira og meira í átt að umhverfisvernd og sjálfbærum lifnaðarháttum.

Kjósum V-listann!

Bjartur Steingrímsson
skipar 5. sætið á lista VG í komandi kosningum.

Virkt aðhald skapar traust

Lovísa Jónsdóttir

Lovísa Jónsdóttir

Það er vinsæll frasi að tala um bætta, opna og gagnsæja stjórnsýslu í aðdraganda kosninga. Allir geta tekið undir en sjaldnast fylgja frekari skýringar eða útfærslur. Það er einna helst þegar fólk rekst á „computer says no“ vegginn að það minnist þessara óljósu loforða.
Lítt skiljanlegar og órökstuddar ákvarðanir eru teknar í stjórnsýslunni sem við íbúarnir, og ekki síður starfsfólkið sem þarf að svara fyrir málin, eigum bara að sætta okkur við. „Svona eru reglurnar bara, því miður“ eða „nei, því miður þetta fellur ekki innan þess sem við getum aðstoðað þig með“ og eftir sitjum við engu nær um úrlausn okkar mála en óljósar minningar um kosningaloforðin góðu.
Hér er tvennt í stöðunni, að sætta sig við orðinn hlut eða ráðast til atlögu við kerfið með öllu sem því fylgir. Það er hins vegar hægara sagt en gert og hætt við því að fólk treysti sér einfaldlega ekki til þess vegna kostnaðar og þess að baka sér óvild þeirra sem í hlut eiga.

Við í Viðreisn meinum það sem við segjum um að bæta stjórnsýslu í Mosfellsbæ. Við viljum setja á fót embætti umboðsmanns bæjarbúa að fyrirmynd umboðsmanns borgarbúa í Reykjavík. Hlutverk umboðsmanns er þríþætt. Í fyrsta lagi að liðsinna þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem telja á rétti sínum brotið af hendi bæjarfélagsins, í öðru lagi að taka á móti ábendingum frá starfsfólki bæjarins og í þriðja lagi að rannasaka að eigin frumkvæði hvort bæjarfélagið uppfylli skyldur sínar samkvæmt lögum. Þessu til viðbótar getur umboðsmaður einnig sinnt ýmis konar fræðslu um þau mál sem falla undir verksvið hans.
Umboðsmaður bæjarbúa, sem væri óháður stjórnsýslunni, er þannig lögfræðilegur ráðgjafi sem getur aðstoðað bæjarbúa í samskiptum sínum við stjórnsýsluna, hvort sem það er með óháðri ráðgjöf eða með því að leiðbeina og aðstoða íbúa við beiðnir eða kærur. Þá getur umboðsmaður komið að málum sem sáttamiðlari ef hann metur málið þannig að mögulegt sé að leysa úr ágreiningi milli íbúa og bæjar með þeim hætti.
Annað mikilvægt hlutverk umboðsmanns er að starfsfólk bæjarins getur leitað til hans og komið á framfæri í fullum trúnaði upplýsingum um óeðlileg afskipti kjörinna fulltrúa af einstökum málum eða ábendingum um vanrækslu bæjarins eða starfsmanna hans. Þannig verður umboðsmaður mikilvægur hlekkur í því að sporna við spillingu innan stjórnsýslunnar. Hann er óháður regluvörður í þjónustu bæjarbúa.
Okkur í Viðreisn finnst sjálfsagt og eðlilegt að veita virkt aðhald og opna raunhæfar leiðir til þess. Forsenda farsæls og góðs samfélags er traust og vissa fyrir því að allir sitji við sama borð. Það viljum við í Viðreisn tryggja.

Lovísa Jónsdóttir er viðskiptalögfræðingur
og skipar 2. sæti á lista Viðreisnar.

Við munum þekkja okkar vitjunartíma

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Nú líður senn að því að Mosfellingar ganga að kjörborðinu og velja sér nýja bæjarstjórn.

Vinir Mosfellsbæjar bjóða fram krafta sína til starfa í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og sækja fram undir leiðarljósum heiðarleika, þekkingar, lýðræðis og gagnsæis.
Í fyrsta lagi munum við gera þetta með því að handleika öll mál af heiðarleika gagnvart íbúum, öðrum bæjarfulltrúum og starfsmönnum bæjarins.
Í öðru lagi munum við leita þekkingar við alla ákvarðanatöku, búum við ekki yfir henni frá fyrstu hendi.
Í þriðja lagi munum við ástunda lýðræðislega umræðu þar sem við munum bera virðingu fyrir skoðunum íbúa, annarra bæjarfulltrúa og starfsmanna bæjarins.
Í fjórða lagi munum við beita okkur fyrir að fullkomið gagnsæi ríki í allri meðferð ákvarðana og við það beita heiðarleikanum, þekkingunni og lýðræðinu eins og því er lýst hér að framan.

Vinir Mosfellsbæjar setja fjölmörg mál á oddinn en þessi eru okkur ekki hvað síst hugleikin. Við viljum ráðast í að móta nýja skóla- og menntastefnu, ekki af því að engin stefna ríki, heldur af því að í tækniheimi nútímans breytast aðstæður hratt og því þarf sífellt að bregðast við breyttum aðstæðum.
Við viljum sýna festu í deiliskipulagsmálum og draga úr eftir á breytingum nema ríkir hagsmunir standi til annars. Þetta sé gert af virðingu fyrir þeim sem hafa fest sér kaup á eign í góðri trú um gildandi skipulag. Við viljum standa þétt við bakið á íþrótta- og æskulýðsfélögunum sem drifin eru áfram af sjálfboðaliðum sem leggja vinnu sína og þrótt fram til almannaheilla.
Við viljum virkja reynslu eldri borgara og kraft unga fólksins, njóta af viskubrunni þeirra eldri og virkja kraft þeirra sem taka eiga við keflinu. Við viljum síðast en ekki síst hlusta. Hlusta á samfélagið og leita þar þekkingar og ábendinga til gagns fyrir alla.

Vinir Mosfellsbæjar munu ekki gleyma því fyrir hverja þeir vinna, við eigum ekkert og það er ekkert gefið. Við munum þekkja okkar vitjunartíma og glaðir rétta keflið til komandi kynslóðar.

Ég vil að síðustu hvetja þig, ágæti Mosfellingur, til þess að nýta atkvæðisrétt þinn í þessum kosningum lýðræðinu til heilla.

Stefán Ómar Jónsson
skipar 1. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar.

Mosfellsbær er íþróttabær

Ásgeir Sveinsson

Ásgeir Sveinsson

Mosfellsbær er íþróttabær þar sem fram fer kröftugt og fjölbreytt íþróttastarf. Það er afar mikilvægt í okkar samfélagi að stundaðar séu íþróttir og hreyfing um allan bæ.
Það hefur sjaldan verið mikilvægara að hvetja fólk á öllum aldri til reglulegrar hreyfingar sem bætir heilsu og líðan fólks á öllum aldri, ekki bara líkamlega heldur líka andlega. Það er mikil og víðtæk forvörn fólgin í þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi.
Við Sjálfstæðismenn metum þetta starf mikils, erum stolt af okkar íþrótta og afreksfólki og höfum á liðnum árum stutt dyggilega við bakið á okkar íþróttafólki í flestum greinum íþrótta og tómstunda. Þann stuðning ætlum við að efla enn frekar á næsta kjörtímabili.

Eflum lýðheilsu
Það er einnig markmið okkar í heilsueflandi samfélagi að fjölga fólki sem hreyfir sig reglulega og ná til enn fleiri barna og unglinga sem eru ekki í skipulögðu íþrótta- eða tómstundastarfi.
Til þess að gera það höfum við t.d. hækkað frístundaávísunina um 280% á kjörtímabilinu og er hún nú 50 þúsund krónur á ári með hverju barni og mun hærri fyrir barnmargar fjölskyldur.
Það er einnig mjög jákvæð þróun að íþróttaiðkun er sífellt að aukast hjá eldra fólki. Við viljum fjölga möguleikum fyrir þann hóp til íþróttaiðkunar undir leiðsögn faglærðra leiðbeinenda.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Fjölgun íbúa og iðkenda – uppbygging
Íbúum fjölgar ört í Mosfellsbæ og ein af ástæðum þess að ungt fjölskyldufólk kýs að setjast hér að er öflugt íþrótta- og tómstundastarf, og fólk horfir einnig til þeirrar góðu íþróttaaðstöðu sem boðið er upp á.
Við höfum stutt við starfsemi og uppbyggingu margra íþrótta- og tómstundafélaga og má þar t.d. nefna nýtt skátaheimili, uppbyggingu á aðstöðu á golfvöllum í Mosfellsbæ, auk stuðnings og samstarfs við hestmannafélagið Hörð.
Íþróttasvæðið að Varmá er hjarta íþróttaiðkunar í bænum og þar hafa staðið yfir endurbætur og uppbygging á liðnum árum. Má þar nefna nýtt fimleikahús og á þessu ári var sett nýtt gervigras á stóra völlinn, auk þess sem verið er að hefjast handa við byggingu fjölnota knatthúss sem tekið verður í notkun árið 2019. Fleiri framkvæmdir eru fram undan því góð aðstaða er undirstaða þess að íþrótta- og tómstundastarf blómstri og dafni.

Við Sjálfstæðismenn ætlum að halda áfram að bæta og byggja upp íþróttaaðstöðuna í bænum. Við ætlum í góðu samstarfi við íþrótta- og tómstundafélög eins og t.d. Aftureldingu að halda áfram að vinna að uppbyggingu að Varmá. Félagið er að vinna að stefnumótun og forgangsröðun varðandi uppbyggingu á Varmársvæðinu og er knattspyrnudeildin, sem er stærsta deildin, komin lengst í að móta sína stefnu í þeim málum.
Bygging knatthússins er liður í þeirra óskum og stefnu, auk fleiri framkvæmda sem þarf að forgangsraða í samstarfi við félagið eins og t.d. öðrum gervigrasvelli í fullri stærð, fjölgun klefa við íþróttamiðstöðina að Varmá og byggingu félagsaðstöðu, svo dæmi séu tekin.

Uppbygging íþróttaaðstöðu – langtímaverkefni
Miðað við spár um fjölgun íbúa í Mosfellsbæ á næstu árum og þar með fjölgun iðkenda í íþrótta- og tómstundastarfi í íþróttabænum okkar er ljóst að nauðsynleg uppbygging á íþróttaaðstöðu mun halda áfram í takti við þá aukningu.
Við Sjálfstæðismenn ætlum að halda áfram kröftugri uppbyggingu og bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar. Með því stuðlum við að enn frekari þátttöku fólks í heilsueflandi samfélagi sem Mosfellsbær er.

Áfram Mosó!

Ásgeir Sveinsson, framkvæmdastjóri,
2. sæti á lista Sjálfstæðismanna.
Rúnar Bragi Guðlaugsson, framkvæmdastjóri,
4. sæti á lista Sjálfstæðismanna.

Menntamál eru forgangsmál

sammosKæru frambjóðendur!
SAMMOS eru samtök foreldrafélaga gunnskóla í Mosfellsbæ. Hlutverk samtakanna er að stuðla að velferð grunnskólabarna, sameina krafta foreldrafélaga í bænum til góðra verka í skólamálum og vera fræðslunefnd og bæjaryfirvöldum til ráðgjafar varðandi velferð grunnskólabarna. Samtökin vilja með öðrum orðum styðja við og stuðla að uppbyggingu framúrskarandi skóla- og lærdómssamfélags fyrir alla hér í Mosfellsbæ.

Mennt er máttur
Menntun stuðlar að aukinni þekkingu, kunnáttu og færni einstaklinga þannig að þeir búi yfir hæfni til að takast á við áskoranir daglegs lífs á tímum hraðra samfélagsbreytinga. Menntun er þannig lykilþáttur þegar kemur að framþróun samfélaga og því áríðandi að tryggja aðgengi allra að menntun við hæfi og að hún fari fram við viðunandi aðstæður þar sem hlúð er að styrkleikum hvers og eins. Jafnframt er mikilvægt að horfa til fjölbreyttra kennsluhátta, snemmtækrar íhlutunar, gagnreyndra aðferða og faglegrar skólaþróunar til að renna styrkum stoðum undir framúrskarandi skóla- og lærdómssamfélag.

Vellíðan nemenda mikilvæg
Menntun er mikilvæg forsenda heilbrigðis en vellíðan nemenda er að sama skapi mikilvæg forsenda náms og góðs námsárangurs. Af þeim sökum eru heilbrigði og vellíðan einmitt skilgreind sem einn af grunnþáttum menntunar sem allir skólar eiga að hafa að leiðarljósi í starfi sínu. Okkur þykir mikilvægt að skólasamfélagið allt taki höndum saman um skapa jákvæðan skólabrag og umhverfi þar sem markvisst er stuðlað að þroska og andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan barnanna okkar.

Sameinum kraftana
Markmið SAMMOS er að tryggja virka, jákvæða og uppbyggjandi samvinnu við þá hagsmunaaðila er koma að velferð grunnskólabarna í bæjarfélaginu. Það er einfaldlega hagur okkar allra að standa vörð um menntun og vellíðan barnanna sem hér búa og tryggja skýra framtíðarsýn í menntamálum.

SAMMOS skorar á frambjóðendur að setja menntamál á oddinn og tryggja þannig velferð grunnskólabarna hér í Mosfellsbæ því menntamál eru sannarlega forgangsmál.

F.h. SAMMOS: Ágúst Leó Ólafsson, formaður Foreldrafélags Krikaskóla, Helga Magnúsdóttir, formaður Foreldrafélags Varmárskóla, Ólöf Kristín Sívertsen, formaður Foreldrafélags Lágafellsskóla

Hlustum og gerum betur

Valdimar Birgisson

Valdimar Birgisson

Í Mosfellsbæ geta kjósendur valið á milli átta framboða. Alls eru 144 Mosfellingar í framboði og 760 að auki hafa gefið þeim meðmæli til að bjóða fram.
Þetta eru um 900 manns sem annað hvort eru á lista eða meðmælendur, samtals um 12% kjósenda. Vonandi skilar þessi áhugi sér í aukinni kosningaþátttöku en hún var dræm við síðustu sveitarstjórnarkosningar.

Við sem stöndum að framboði Viðreisnar í Mosfellsbæ veltum því vandlega fyrir okkur hvort við ættum að blanda okkur í þennan slag, hvort við ættum brýnt erindi við kjósendur og hvort við gætum látið gott af okkur leiða til að gera mannlífið betra og rekstur sveitarfélagsins skilvirkari og opnari. Niðurstaða okkar var sú að okkar hugmyndir og um framfarir hér í bæ og stefna Viðreisnar um að setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum ættu sannarlega erindi við kjósendur. Listi Viðreisnar er skipaður fólki með fjölbreytta reynslu og þekkingu, konum og körlum til jafns. Við treystum ungu fólki til verka og það finnur sér farveg innan okkar raða.

Við viljum komast að til þess að breyta, ekki til þess að geta sest við borðsendann og skipað fyrir. Framboðið er ekki sett fram til þess að gera einhvern að bæjarstjóra sem gengur með það í maganum eða til höfuðs núverandi bæjarstjóra. Við kærum okkur kollótt um slíkt. Við ætlum einfaldlega að hlusta á fólk og starfa í þeim anda að bæjarfulltrúar séu til þess að þjóna bæjarbúum en ekki til þess að halda í völd eða rífa niður það sem gert hefur verið. Við teljum að með þessum hugsunarhætti og nýjum vinnubrögðum getum við gert betur.

Eitt af því sem við setjum á oddinn eru lýðræðislegar umbætur og ábyrgð í fjármálum. Við ætlum að ráða umboðsmann íbúa sem gætir hagsmuna þeirra og leiðbeinir í samskiptum við bæinn. Við teljum æskilegt að bæjarstjórinn sé ráðinn á faglegum forsendum – ekki pólitískum – en starfi í umboði meirihlutans. Við viljum gagnsæja stjórnsýslu og viljum opna bókhald bæjarins. Það er líka mikilvægt að bjóða íbúum að koma að hugmyndavinnu verkefna sem eru á könnu sveitarfélagsins og sömuleiðis að ákvörðunum í meira mæli en nú er. Við teljum mikilvægt að einfalda ferla í skipulagsmálum og stytta afgreiðslu athugasemda. Við viljum breyta vinnubrögðum.

Við erum frjálslynt fólk sem vill að sérhagsmunir víki fyrir hagsmunum almennings. Við tökum jafnrétti kynjanna alvarlega og höfnum hvers konar kynbundinni mismunun. Við viljum veita öllum jöfn tækifæri og styðja þá sem ekki geta nýtt þau, með öflugu öryggisneti. Á grundvelli jafnra tækifæra geta einstaklingarnir blómstrað og ráðið eigin lífi. Þannig sköpum við réttlátt samfélag í Mosfellsbæ.

Valdimar Birgisson
skipar fyrsta sæti á lista Viðreisnar í Mosfellsbæ.

Öryggismál í forgrunni hjá Miðflokknum

Ásta B. O. Björnsdóttir

Ásta B. O. Björnsdóttir

Hver þekkir ekki þá óþægilegu tilfinningu að óttast um öryggi barna sinna? Hver vill ekki gæta að heimili sínu og munum?
Mosfellsbær er ekki undanskilinn af þeim sem vilja leita skjótfengins gróða eða valda tjóni með einum eða öðrum hætti. Við viljum öll tryggja að heimilið sé öruggt og að börnin geti notið sín óáreitt, í friði og spekt.

Nábýli við náttúruna
Mosfellingar eru lánsamir að búa nær náttúrunni í allri sinni dýrð en flestir aðrir á höfuðborgarsvæðinu. Fegurðin er til staðar hvar sem litið er, ár, sjór, fjöll og vötn. Nútíma samfélag hefur þróast hratt og samhliða hefur bæjarfélagið okkar gert það einnig. Við teljum að það sé ekki aðeins gott að búa í Mosfellsbæ heldur forréttindi. Við veljum þennan griðarstað vegna þess að hann er öruggur staður til að búa á og samheldni íbúa er mikil.

Vágestir
Það er ekkert launungarmál að hingað í okkar fallega bæ hafa komið aðilar og jafnvel sækja í hann til að nálgast muni eða selja það sem ekki má selja og hvað þá börnum og unglingum. Veip hefur aukist mikið og það er dulin hætta í því fólgin þó svo að það sé sjálfsagt skömminni skárra en sígarettur, munn- eða neftóbak og vindlar, en þörf er á að kanna betur. Hvert samfélag þarf að meta hvað skal til bragðs taka og hvernig það ver sig gegn utanaðkomandi hættu og áreiti.

Jón Pétursson

Jón Pétursson

Öryggi í fyrirrúmi
Miðflokkurinn leggur til að málið verði leyst með bæjarbúum og lögreglu þannig að lausnin verði til að takmarka hættuna frá því sem nú er og tryggja að allir séu sáttir með aðferðafræðina. Það er ekki boðlegt að hingað valsi aðilar inn og út í bænum og hafi þannig fullan og óheftan aðgang að börnum og unglingum sem oft leita í breytingar á lífi sínu eða til að leysa sína erfiðleika með stórhættulegum efnum.
Miðflokkurinn vill tryggja öruggari Mosfellsbæ fyrir alla.

Ásta B. O. Björnsdóttir er viðskiptafræðingur
og skipar 7. sæti á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ.
Jón Pétursson er stýrimaður og skipar 16. sæti
á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ.

Af fjölnota íþróttahúsi

Ólafur Ingi Óskarsson

Ólafur Ingi Óskarsson

Skömmu fyrir síðustu kosningar árið 2014 var mikil umræða meðal íbúa í Mosfellsbæ, einkum þó meðal foreldara barna sem æfðu knattspyrnu, um að sárlega vantaði fjölnota íþróttahús í Mosfellsbæ.
Ástæðan var að þeim fannst ekki boðlegt að börn þeirra væru að hrekjast úti í misjöfnum veðrum við æfingar og keppni. Einnig var orðið afar þröngt um alla starfsemi Aftureldingar að Varmá og hafði félagið því sett slíkt hús efst á sinn óskalista.
Greinilega líkaði sjálfstæðismönnum í Mosfellsbæ ekki að ganga til kosninga 2014 án þess að vekja vonir um að slíkt gæti gerst. Bæjarstjóri, Haraldur Sverrisson, lagði þá til að skipaður yrði starfshópur undir hans forystu til undirbúnings byggingar fjölnota íþróttahúss í Mosfellsbæ. Í viðtali við Mosfelling orðaði hann það þannig: „Ekki er spurning um hvort slíkt hús verði byggt heldur aðeins hvenær, hvar og hvernig.“
Hér er ekkert hik. Starfshópurinn tók til starfa fyrir síðustu kosningar og skoðaði m.a. nokkur fjölnota íþróttahús. Eftir kosningar tók Ólafur Ingi sæti í starfshópnum af fyrri fulltrúa Samfylkingarinnar. Í stuttu máli þá varð það niðurstaða starfshópsins að slíkt hús sem helst var áhugi á og passaði við þarfagreiningu Aftureldingar myndi kosta um 1.200 milljónir og það væri heppilegast að byggja að Varmá. Nánar tiltekið yfir stóra gervigrasvöllinn.

Ekki hafði árað vel í rekstri sveitarfélagsins árin 2014 og 2015. Einnig var ljóst að ráðast þyrfti í framkvæmdir við skólabyggingar á næstu árum og lítið svigrúm væri, eins og mál stóðu þá, til frekari fjárfestinga. Að reisa húsið í einkaframkvæmd var rætt sem möguleiki en það hafði ýmsa annmarka, meðal annars hvað varðar aðgengi Aftureldingar að tímum í húsinu. Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu í apríl 2015 og lagði jafnframt til að hann starfaði áfram að verkefninu. Því boði var ekki tekið heldur kaus meirihlutinn að færa verkefnið til embættismanna bæjarins þar sem það dagaði uppi eftir einhverjar vonlausar tilraunir til að fá einkaaðila til að taka að sér framkvæmdina og reksturinn.
Okkur í Samfylkingunni grunaði reyndar frá upphafi að þessu máli hafi ekki fylgt mikil alvara af hálfu meirihluta sjálfstæðismanna og vinstri grænna.

Skipt um kúrs
Í upphafi síðasta árs barst síðan erindi frá Aftureldingu þar sem félaginu var orðið ljóst að ekkert myndi gerast í málinu. Ungmennafélagið lagði fram breytta framtíðarsýn sem fólst m.a. í því að breyta fyrri áformum um fjölnota hús í fullri stærð og sættast á þrisvar sinnum minna hús en fyrirhugað var áður. Lítið hús er betra en ekkert, sagði einhver.
Þessari stefnubreytingu var tekið fagnandi af meirihlutanum og núna er búið að ákveða að reisa stálgrind klædda með dúk yfir lítinn gervigrasvöll. Þrisvar sinnum minni að flatarmáli en upphaflega var ætlunin og áætlað að kosti um 400 milljónir. Gamla gervigrasið þar sem vænlegast þótti að reisa fjölnota íþróttahúsið hefur verið endurnýjað þannig að varla verður reist fjölnota íþróttahús þar á næstu árum.

Hugsum málið upp á nýtt
Um þessar mundir árar betur í rekstri Mosfellsbæjar og framtíðarhorfur eru góðar enda fjölgar íbúum í bænum hratt. Þeirri fjölgun þarf að mæta með aukinni þjónustu og uppbyggingu margvíslegrar aðstöðu. Það er verkefni kjörinna fulltrúa að forgangsraða í þágu íbúanna. Við þá forgangsröðun þarf að líta til ýmissa þátta. Eins og til að mynda þeirra hvort við viljum frekar greiða hratt niður skuldir eða gera það aðeins hægar og byggja í leiðinni upp góða íþróttaaðstöðu fyrir ungmenni okkar eins og t.d. fjölnota íþróttahús í fullri stærð. Í ljósi þessa teljum við að nú eigi að endurmeta getu bæjarins til að koma sér upp fjölnota íþróttahúsi í fullri stærð til að hægt sé að halda uppi þróttmiklu íþróttastarfi sem við getum öll verið stolt af. Það munum við í Samfylkingunni gera á næsta kjörtímabili ef við fáum afl til þess í kosningunum. Setjum X við S á kjördag og kjósum betri Mosfellsbæ.

Ólafur Ingi Óskarsson,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Branddís Ásrún Snæfríðardóttir,
varamaður í íþrótta- og tómstundanefnd.

Lífið er núna

Lóa Björk Kjartansdóttir

Lóa Björk Kjartansdóttir

POWERtalk deildin Korpa hefur fundað 1. og 3. miðvikudag í mánuði í vetur. Síðasti fundur fyrir sumarfrí var mánudaginn 14. maí.
Veturinn hefur verið viðburðaríkur og skemmtilegur. Öflug stjórn leiddi hópinn og á hverjum fundi tóku allir þátt og hafa fundir því verið fjölbreyttir.

Á haustmánuðum stóð seinni fundurinn í október upp úr. Hann var helgaður Bleiku slaufunni og baráttunni gegn krabbameini í konum. Söfnunarfé Bleiku slaufunnar í fyrra rann til Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, sem veitir ókeypis stuðning, fræðslu og ráðgjöf til krabbameinsgreindra og aðstandenda. Rósa Björg Karlsdóttir kom í heimsókn og sagði frá reynslu sinni. Erindi hennar henti fundargestum inn í ískaldan raunveruleika heilbrigðrar og hraustrar konu, sem greindist með fjórða stigs ristil krabbamein er hún var aðeins 41 árs gömul. Og allt í einu var hún ekki mjög heilbrigð lengur. Saga hennar er baráttusaga, saga sem einkennist af einu skrefi áfram og tveimur afturábak. Þótt krabbameinið hafi verið læknað, þá er baráttan ekki búin. Það var enginn ósnortinn af sögu þessarar ljúfu, einlægu konu sem stóð brosandi og jákvæð í pontu og talaði um allt það neikvæða og ljóta ásamt því dásamlega og jákvæða. Saga hennar minnti mjög á hversu mikilvægt er að fá fræðslu, ráðgjöf og ekki síst stuðning þegar fólk greinist með krabbamein, það skiptir öllu máli. En fyrst og fremst minnti hún okkur á hversu dýrmætt lífið er.

Mosfellingar vita að bæjarleikhúsið í Mosfellsbæ er mjög öflugt. Korpur drifu sig eitt föstudagskvöld á sýningu þeirra „Allt önnur Ella“ og fóru saman út að borða áður. Sýningin var samstarfsverkefni tónlistarskólans og leikfélagsins og var að mestu byggð á tónlist Ellu Fitzgerald þar sem leikhúsinu var breytt í jazzklúbb í anda sjöunda áratugarins og tónlistar­atriði fléttuðust saman við leikin atriði. Það er óhætt að segja að fólk hafi skemmt sér konunglega.

Deildin tók þátt í kappræðukeppni samtakanna og gerði sitt besta til að sannfæra dómara um að Borgarlínan væri ekki málið. Litlu munaði en mót­herjar höfðu betur að þessu sinni. Á hverju ári er haldin ræðukeppni í deildinni og sá sem ber sigur úr býtum keppir fyrir hönd deildarinnar á landsþingi samtakanna í byrjun maí. Þátttaka var góð í ár og varð Vilborg Eiríksdóttir hlutskörpust að þessu sinni.

Nú í vor fóru félagar í bíó saman og horfðu á þá stórkostlegu frönsku mynd „Ömurleg brúðkaup“. Fyrir utan að vera mjög fyndin er myndin uppspretta alls konar pælinga og hugleiðinga um mannfólkið, fjölskylduna, ástina, samfélagið, menningarheima, trúarbrögð og fordóma í allar áttir.
POWERtalk fræðslan hefur verið á sínum stað í dagskrá vetrarins og hafa félagar hafa fengið endurgjöf fyrir verkefni sín, fá þannig tækifæri til að bæta sig og halda áfram að gera það sem vel er gert.

Gestagangur var töluverður í vetur hjá Korpu, bæði mættu gestir á fundi en einnig komu nokkrir gestir sem stigu í pontu og fluttu erindi. Það er ávallt tekið vel á móti öllum og fólk er alltaf velkomið á alla fundi.

Það hefur verið mikið að gera hjá deildinni í vetur og erfitt að koma öllum hugmyndum að því veturinn virðist alltaf vera aaaaðeins of stuttur. Hér hefur rétt verið stiklað á stóru. Starfið er búið að vera alls konar, hefðbundið og annað ekki svo hefðbundið. Félagar hafa lært mikið, prófað alls konar og æft sig fullt, en umframt allt skemmt sér vel. Það hefur verið full ástæða til að hlakka til fyrir hvern fund. Félagar Korpu fara sáttir í sumarfrí og munu nota tímann vel til að safna orku fyrir næsta vetur.

Í haust hefst starfið aftur, fundir verða 1. og 3. miðvikudag hvers mánaðar allan næsta vetur. Nánari upplýsingar um starf samtakanna má finna á powertalk.is.

Lóa Björk Kjartansdóttir
Forseti Korpu 2017-2018

Af afrekum annarra

Samson Bjarnar Harðarson

Samson Bjarnar Harðarson

Í bæjarstjórn Mosfellsbæjar sitja 9 kjörnir bæjarfulltrúar. Á kjörtímabilinu, sem er senn á enda, mynda 5 fulltrúar sjálfstæðismanna og einn fulltrúi Vinstri grænna meirihluta bæjarstjórnar.
Meirihluti bæjarstjórnar ákveður stefnu bæjarfélagsins og ræður að sönnu mestu um hvernig mál þróast og hvað hugmyndir fá brautargengi. En bæjarstjórn er skipuð fleirum. Samfylkingin hefur átt 2 bæjarfulltrúa á þessu kjörtímabili sem hafa unnið að framgangi áherslna jafnaðarmanna með málefnalegri umræðu og rökræðum og fengið fram ýmis af sínum áhersluatriðum.
Núna eru kosningar í nánd og áhugavert að skoða hvaða mál framboðin setja á oddinn. Sjálfstæðismenn eru ánægðir með sig eins og fyrri daginn og hreykja sér sérstaklega af góðum málum sem náð hafa í gegn á kjörtímabilinu. Kíkjum á nokkur:
Hækkun frístundaávísunar og hækkun tekjutengds afsláttar af fasteignagjöldum til eldri borgara. Hvort tveggja eru mál sem Samfylkingin gerði tillögur um og fékk samþykkt í bæjarstjórn með málefnalegri vinnu.
Aukið gegnsæi í stjórnsýslu með birtingu fylgiskjala og opnun bókhalds. Hvort tveggja mál sem allir fulltrúar í bæjarstjórn unnu að í sameiningu.

Jónas Þorgeir Sigurðsson

Jónas Þorgeir Sigurðsson

Þá taka sjálfstæðismenn lýðræðisverkefnið Okkar Mosó, sem Samfylkingin lagði til í bæjarstjórn, fastatökum og ætla að tryggja það í sessi. Það eru góð áform því verkefnið er mjög þarft og er þáttur í að auka íbúalýðræði í bænum. Þess vegna lagði Samfylkingin til að farið yrði í það verkefni.
Vinir okkar í Vinstri grænum telja sér sérstaklega til tekna í sínum kosningabæklingi ýmislegt sem vel hefur verið gert á kjörtímabilinu og öll framboð í bæjarstjórn hafa komið að. Einnig margt sem komist hefur á dagskrá og til framkvæmda að frumkvæði Samfylkingarinnar. Þar má nefna upphaf Meetoo-umræðu á vettvangi bæjarráðs, ungmennahús og hækkun frístundaávísunar.
Við látum hér staðar numið. Auðvitað verða tillögur flokka í minnihluta ekki að veruleika nema vilji þeirra sem sitja í meirihluta komi til. Þegar ákvörðun hefur verið tekin er ákvörðunin bæjarstjórnar allrar. En það er óneitanlega mjög sérstakt að sjá Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græna stæra sig sérstaklega í þessari kosningabaráttu af árangri sem rekja má til flokka í minnihluta.
Líki fólki þau verkefni sem talin eru hér að ofan þá leggjum við til að það kjósi það framboð sem kom þeim málum á dagskrá á vettvangi bæjarstjórnar og setji X við S á kjördag.

Samson Bjarnar Harðarson
skipar 4. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar.
Jónas Þorgeir Sigurðsson
skipar 6. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar.

Traust fjárhagsstaða Mosfellsbæjar

Haraldur Sverrisson

Haraldur Sverrisson

Fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er góð og sveitarfélagið nýtur hvarvetna trausts. Á undanförnum árum hefur þessi trausta fjárhagsstaða verið nýtt til að auka þjónustu við bæjarbúa og lækka álögur.
Grettistaki hefur t.d. verið lyft í þjónustu við yngstu börnin m.a. með því að setja á laggirnar ungbarnadeildir á leikskólunum og lækka leikskólaaldurinn niður í 13 mánaða aldur. Álagningarhlutföll fasteignaskatts hafa lækkað um rúm 15%, heita vatnið og leikskólagjöldin lækkuð um 5%, afsláttur af fasteignagjöldum til eldri borgara hefur hækkað verulega, frístundaávísun hækkað um 280% og útsvar verið lækkað svo eitthvað sé nefnt.
Á næsta kjörtímabili ætlum við Sjálfstæðisfólk í Mosfellsbæ að halda áfram á sömu braut. Við ætlum m.a. að miða við að öll börn 12 mánaða og eldri eigi kost á leikskólaþjónustu og við ætlum að halda áfram að lækka álögur á íbúa og tryggja áfram trausta og ábyrga fjármálastjórn með gegnsæi að leiðarljósi.

Góð afkoma bæjarsjóðs
Forsenda þess að hægt sé að lækka álögur og stórauka þjónustuna eins og raun ber vitni er að fjárhagur sveitarfélagsins sé traustur og afkoma góð. Á síðasta ári var um 560 mkr. rekstrarafgangur af bæjarsjóði og á árunum 2015-17 var samtals um 900 mkr. rekstrarafgangur. Á sama tíma var veltufé frá rekstri jákvætt um samtals 3.500 mkr. en veltufé frá rekstri er ein mikilvægasta kennitala sveitarfélaga. Hún mælir hvað miklir fjármunir eru eftir á bankareikningnum þegar búið er að greiða allan kostnað og leiðrétta fyrir reiknuðum liðum eins og verðbótum og afskriftum.
Heildarfjárfestingar á þessu tímabili voru hinsvegar um 3.240 mkr. eða töluvert lægri upphæð en veltufé frá rekstri. Þetta þýðir að allar fjárfestingar á þessum tíma voru fjármagnaðar með eigin fjármunum og afgangur til upp í afborganir skulda. Þetta á sér stað á einum af mestu uppbyggingartímum bæjarins sem hlýtur að teljast afar góður árangur.

Skuldahlutfall lækkar
Þegar vinstri menn stjórnuðu bænum fram til ársins 2002 var skuldahlutfallið komið í 200%. Samkvæmt núverandi fjármálareglum sveitarfélaga hefði slík staða kallað á alvarlegar aðgerðir eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga gagnvart Mosfellsbæ og væri stutt í að bænum yrði skipuð fjárhaldsstjórn.

Sjálfstæðismenn tóku við stjórnartaumunum í Mosfellsbæ árið 2002 og hefur skuldaviðmið farið hríðlækkandi allt frá því og var komið niður í 109% af tekjum í árslok 2017. Árið 2002 var veltufé frá rekstri neikvætt um rúmar 100 mkr. á núvirði sem þýddi að taka þurfti lán fyrir venjubundnum rekstri eins og greiðslu launa. Það var afar alvarleg staða.
Nú er öldin önnur og allt annar bragur á fjárhag Mosfellsbæjar og sem dæmi er tekið að miðað við núverandi hlutfall veltufjár frá rekstri tæki það sveitarfélagið um 6 ár að greiða niður allar skuldir bæjarins ef um engar fjárfestingar væri að ræða. Það þætti góð staða á hverju heimili.

Mosfellsbær nýtur trausts
Mosfellsbær nýtur mikils og góðs trausts sem sést best á því að fjármögnun framkvæmda hefur gengið vel og að bænum bjóðast vextir sem eru með því lægsta sem býðst. Fyrr á þessu ári var tekið lán til endurfjármögnunar á 2,58% vöxtum sem er með því allra lægsta sem þekkist hjá sveitarfélögum.
Gott lánstraust og lágir vextir eru meðal annars vegna góðs og trúverðugs rekstrar bæjarins og þess að bærinn hefur og getur staðið við skuldbindingar sínar. Bærinn hefur aðgang að hagkvæmum lánalínum hjá bönkum og lánastofnunum sem stuðlar að lægri vaxtakostnaði sem gerir bænum unnt að spara sér vaxtakostnað og hafa veltufjárhlutfallið undir einum sem fátítt er meðal sveitarfélaga.

Á þessum trausta grunni viljum við Sjálfstæðisfólk halda áfram að byggja bæinn okkar upp í góðu samstarfi við frábært starfsfólk Mosfellsbæjar. Settu X við D þann 26. maí n.k. Það skiptir máli hverjir stjórna.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri og oddviti sjálfstæðisfólks í Mosfellsbæ.

Geta allir búið í Mosfellsbæ?

Sigrún Pálsdóttir

Sigrún Pálsdóttir

Eitt af verkefnunum fram undan er að takast á við húsnæðisvanda tekjulægri hópa í Mosfellsbæ.
Á undanförnum árum hefur íbúðaverð og leiga hækkað langt umfram launahækkanir og neyðarástand skapast sem bitnar hvað harðast á þeim sem hafa minnstar og lágar meðaltekjur.

Sveitarfélög eru í lykilstöðu til að hafa áhrif til lækkunar á húsnæðisverði. Þau hafa skipulagsvaldið og ber lagaleg skylda til að sjá þeim efnaminnstu fyrir húsnæði. Undir stjórn D- og V-lista hefur Mosfellsbær sýnt litla fyrirhyggju þegar kemur að því að ráða bót á þessum vanda og beita sér fyrir lækkun íbúða- og leiguverðs.

Félagslegt húsnæði í lágmarki
Samkvæmt könnun Velferðarráðuneytisins frá árinu 2016 er framboð á félagslegu húsnæði misjafnt eftir sveitarfélögum. Samt er það verkefni lögbundið. Mosfellsbær kom illa út úr könnuninni og er framboðið hér með því lægsta sem gerist. Orsökin er sú að meirihluti D- og V-lista hefur fylgt þeirri stefnu að byggja hvorki né kaupa íbúðir.

Frá árinu 2002 hefur Mosfellsbær keypt eina félagslega íbúð til viðbótar við þær þrjátíu sem fyrir voru. Viðkvæðið hefur verið að taka frekar íbúðir á leigu með tilliti til fjölskyldustærðar. Sú stefna heldur þó ekki vatni í sveitarfélagi þar sem framboð á leiguhúsnæði hefur nánast ekki verið neitt þar til nú. Í dag er leigumarkaðurinn að glæðast og nýlega tók Mosfellsbær á leigu þrjár félagslegar íbúðir til viðbótar. Reyndar leysir það ekki málið því leiguverð stóru leigufélaganna er himinhátt og þau misjafnlega viljug til að leigja sveitarfélögum íbúðir í félagslegum tilgangi. Eina úrræðið er því að kaupa húsnæði eða setja kvaðir í skipulag um að byggjendur fjölbýlishúsa geri ráð fyrir svo og svo mörgum íbúðum fyrir tekjulægri hópa.
Unga fólkið og tekjulægstu 25%-in
Á Norðurlöndum er almennt miðað við að íbúar greiði ekki meira en 25% af launum sínum eftir skatta í húsnæðiskostnað. Á Íslandi er þetta hlutfall 50% samkvæmt upplýsingum Íbúðalánasjóðs. Margir búa því við lítið húsnæðisöryggi og eiga í erfiðleikum með að standa í skilum. Í þessum hópi er mest af ungu fólki, eftirlaunaþegum og námsmönnum.

Sveitarfélög hafa ýmsar leiðir til að hafa áhrif á verðþróun á húsnæðismarkaði. Mosfellsbær á reyndar ekki mikið af skipulögðu landi innan byggðarmarka en með örlítið meiri fyrirhyggju í kjölfar hrunsins hefði verið hægt að hafa áhrif þegar stór hluti byggingarlands varð eign bankastofnana. Það er umhugsunarefni af hverju Mosfellsbær nýtti ekki þetta tækifæri. Helgafellsland, Leirvogstunga, Lágafellsland og Blikastaðaland voru og eru að stórum hluta í eigu skilanefnda, banka og sparisjóða.

En hvað hefði sveitarfélagið getað gert?
Í fyrsta lagi að semja um kaup á landi og gera heildarendurskoðun á fyrirliggjandi skipulagi. Í kjölfarið setja kvaðir í skipulag. Í öðru lagi semja við byggingar- og leigufélög sem ekki eru hagnaðardrifin. Samkvæmt lögum um almennar íbúðir frá 2016 hafa Íbúðalánasjóður og sveitarfélögin heimild til að niðurgreiða húsnæði fyrir tekjulægri hópa um samtals 30% með svokölluðu stofnframlagi til byggingaraðila.

Nú er lag Mosfellingur góður til að rjúfa kyrrstöðu í húsnæðismálum ungs fólks og tekjulægri hópa. Með því að setja X við Í á kjördag kjósið þið stjórnmálaafl sem starfar af festu og heiðarleika fyrir alla.

Sigrún H. Pálsdóttir er oddviti
á Í-lista íbúahreyfingar og Pírata.

Framtíðin er í Mosfellsbæ

Friðfinnur Finnbjörnsson

Friðfinnur Finnbjörnsson

Mosfellsbær er fallegt samfélag með vinalegu fólki. Við konan mín fluttum í bæinn fyrir áramót með börnin okkar, Eric þriggja ára og Leiu fimm ára.
Leikskólinn sem þau eru á er einn sá besti sem við höfum kynnst og grunnskólinn sem þau munu sækja virkar mjög traustvekjandi. Ég vona að börnin fái að njóta þess tómstundastarfs sem í boði er þegar fram líða stundir, en umfram allt vil ég að þeim líði vel.

En það eru blikur á lofti
Ég hef áhyggjur af þróun skólamála í Mosfellsbæ þrátt fyrir stutta búsetu í bænum. Ég horfi á hverfi rísa þar sem tvö hundruð börn búa og er þeim ætlað að sækja skóla í öðru hverfi sem þegar er yfirsetinn. Önnur hverfi eru einnig í byggingu þar sem upphaflega var gert ráð fyrir 52 íbúðum en er samkvæmt deiliskipulagi er búið að hækka þá tölu í 212 íbúðir. Ekki er fyrirsjáanlegt í hvaða skóla börnin í því hverfi eiga að fara. Þessu hef ég áhyggjur af.

Það sem heillaði okkur fjölskylduna við bæinn var hugmyndin um heilnæmt og heilsusamlegt samfélag fyrir fjölskyldu okkar. Nánd við náttúru, barnvænt umhverfi og ásýnd bæjarins hafði áhrif á val okkar. Nú viljum hvergi annars staðar búa en ég hef áhyggjur. Þörfin fyrir nýtt húsnæði má ekki ganga á gæði skólaumhverfisins og upplifun barna okkar. Við megum ekki gefa eftir í skipulags- og skólamálum þó að við séum undir pressu að fjölga íbúðum í Mosfellsbæ.

Það eru blikur á lofti um að líðan barna og ungmenna fari versnandi og það sem kom okkur á óvart hvað einelti virðist vera algengt. Það er mikilvægt að við sýnum gott fordæmi og ráðumst saman í að vinna bug á þessum vanda fyrir börnin, unga fólkið og bæinn okkar.
Hluti af þessu er að huga að samhliða uppbyggingu hverfa séu leikskólar og grunnskólar til staðar sem taki við nýjum nemendum.
Skólarnir þurfa að vera vel mannaðir og hver skóli að hafa íþrótta- og tónlistar­aðstöðu. Umfram allt verðum við að passa að börnunum okkar líði vel í skólanum sínum og heildræn samvinna sé milli fagaðila í málefnum skólabarna.

Mín framtíðarsýn fyrir bæinn er einföld. Ég vil heilnæmt og heilsusamlegt umhverfi fyrir börnin og að Mosfellsbær verði skipulagður af sérfræðingum í samstarfi við bæjarbúa. Taka þarf tillit til allra þátta sem eru nauðsynlegir hverju samfélagi, eins og skóla í nýjum hverfum.
Mosfellsbær á að vera með gagnsæja stjórnsýslu sem nýtir þátttöku bæjarbúa sem vegvísi til framtíðar. Með gegnsæi, fagmennsku og íbúaþátttöku að leiðarljósi verður bæjarfélagið okkar betra.
Við sköpum vettvang fyrir einstaklinga og hópa til að taka þátt í umræðum um málefni Mosfellsbæjar. Við sýnum fordæmi hvernig við komum saman og leysum úr málum. Það væri gott veganesti fyrir unga fólkið okkar. Það væri mér heiður að fá að taka þátt í því starfi fyrir börnin okkar, nýja vini og nágranna. Framtíðin er í Mosfellsbæ.

Friðfinnur Finnbjörnsson er í 3. sæti Í-lista
Íbúahreyfingarinnar og Pírata í Mosfellsbæ.

Hvers vegna Framsókn?

Sveinbjörn Ottesen

Sveinbjörn Ottesen

Við sem skipum lista Framsóknar hér í Mosfellsbæ stöndum fyrir hefðbundin gildi flokksins. Frjálslynda félagshyggju, umbætur og samvinnu, manngildi ofar auðgildi. Framsókn hefur hagsmuni heildarinnar í fyrirrúmi.
Stefna flokksins í orði og verki byggist á jákvæðni sem leitast við að sætta ólík sjónarmið og vinna gegn öfgum. Við viljum að duglegt fólk hafi svigrúm til athafna um leið og við tryggjum að þeir sem þarfnast aðstoðar njóti liðsinnis samfélagsins. Í okkar augum er samfélag samvinna, þar sem fólk hjálpast að um leið og það fær að njóta sín sem einstaklingar.
Árið 2014 lögðu við Framsóknarmenn mikla áherslu á byggingu nýs fjölnota íþróttahúss. Nú sé ég að aðrir flokkar eru á sömu línu og er það gott. Mosfellsbær verður að sjá sóma sinn í að nýtt fjölnotahús rúmi þá miklu aðsóknaraukningu sem orðið hefur t.d. í fótbolta. Samnýting verður svo að vera við sem flestar aðrar íþróttir og má síðan nýta sem skjól fyrir veðrum til lýðheilsuverkefna t.d. léttra íþrótta eldri borgara.
Arðsemi af heilbrigði aldraða er mikil. Framlög til íþrótta- og tómstundamála þeirra er því baráttumál okkar Framsóknarmanna enda kemur slíkt margfalt til baka í lægri umönnunarkostnaði og ekki síst ánægðari borgara.
Yfirleitt þegar skóla bæjarins ber á góma hefur fólk ákveðnar skoðanir og auðvitað vilja foreldar að börnin séu í góðum skólum. Skólastarf er einn mikilvægasti málaflokkur sérhvers sveitafélags. Annars vegar vegna þess að sá málaflokkur er stór útgjaldaliður sveitafélagsins. Hins vegar vegna þess að gott skólastarf leggur grunn að framtíð barnanna okkar. Skólar verða aldrei betri en starfsfólkið sem þar vinnur. Við ætlum að forgangsraða í þágu menntunar og gera kennarastarfið eftirsótt á ný.

Það er hreint til skammar hversu núverandi meirihluti hefur látið heilbrigðisþjónustu og þjónustustig drabbaðst niður. Engu hefur verið bætt við og þó aðallega verið skorið niður … með Sjálfstæðisflokkinn í helstu ráðuneytum, m.a. heibrigðisráðuneytið, og á sama tíma með meirihluta í Mosfellsbæ. Já, þetta er til skammar, við getum gert miklu betur og það ætlum við Framsóknarmenn að gera.

Elskurnar mínar, það eru 8 listar í boði en það er bara einn XB.

Sveinbjörn Ottesen
oddviti Framsóknarflokksins í Mosfellsbæ.

Öflug og fagleg uppbygging í Mosfellsbæ

Ásgeir Sveinsson

Ásgeir Sveinsson

Um þessar mundir er mikil umræða um húsnæðisskort á höfuðborgarsvæðinu sem er auðvitað áhyggjuefni.
Fram til ársins 2040 er því spáð að það muni fjölga um 70 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt könnun Samtaka iðnaðarins verða fullgerðar 6.713 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á ári til 2020, eða að meðaltali rúmlega 2.200 íbúðir á ári. Flestar íbúðir eru í byggingu í Reykjavík samkvæmt talningunni, eða 1.726 talsins. Það er um 3,3% af heildarfjölda íbúða í sveitarfélaginu. Það er þó talsvert undir meðaltali sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem er 4,7%.

Hlutfallslega mest byggt í Mosfellsbæ
Í Mosfellsbæ er hlutfallið hæst, en þar eru í byggingu 550 íbúðir sem gerir um 15,3% af heildarfjölda íbúða í sveitarfélaginu. Á þessum tölum sést að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hafa staðið sig mjög vel í að skipuleggja hverfi til uppbygginga á lóðum til þess að mæta þessari miklu þörf sem er á lóðum undir nýtt íbúðarhúsnæði. Þessi þróun mun halda áfram næstu árin og því er mikilvægt að halda vel utan um skipulags- og umhverfismál í Mosfellsbæ eins og gert hefur verið undanfarin kjörtímabil.

Helgafellshverfið byggist hratt upp
Þegar ný hverfi eru að byggjast upp getur verið álag á þá íbúa sem fyrst flytja inn í hverfið vegna allra þeirra framkvæmda sem eru í gangi. Það nýja hverfi sem er í hraðastri uppbyggingu þessi misserin er Helgafellshverfið sem verður glæsilegt suðurhlíðarhverfi undir Helgafellinu.

Helga Jóhannesdóttir

Helga Jóhannesdóttir

Hverfið verður blanda af nýtísku fjölbýlishúsum í miðju hverfisins (auganu) með nýja og öðruvísi götumynd en í eldri hverfum bæjarins. Út frá þessum miðjukjarna sem er að byggjast fyrst upp í hverfinu koma svo lágreistari hús með áherslu á sérbýli. Með því að horfa á hverfið eins og það er í dag í miðri uppbyggingu þá höfðum við áhyggjur af útliti hverfisins og einnig af byggingamagninu. Þær áhyggjur reynast óþarfar því byggingamagn hefur ekki verið aukið sem neinu nemur frá upphaflegum áætlunum. Þegar uppbyggingu hverfisins verður lokið þá verður það mjög fallegt og nýtískulegt með nýjan glæsilegan Helgafellsskóla í hjarta hverfisins og náttúruna allt um kring.

Nýr miðbær í Mosfellsbæ
Nýr miðbær er einnig að rísa í Mosfellsbæ með um 250 íbúðum ásamt þjónustu og verslunarrýmum. Þessi framkvæmd mun gjörbreyta ásýnd miðbæjarins og þjónusta mun aukast bæjarbúum til hagsbóta.
Mikil uppbygging hefur verið í atvinnuhúsnæði að undanförnu í Mosfellsbæ og má þar nefna lóðir í Desjamýri og á Tungumelum. Í stefnu okkar Sjálfstæðisfólks eru áform um áframhaldandi úthlutun á lóðum undir atvinnuhúsnæði til þess að mæta þeim þörfum sem eru á þeim markaði, og til þess að fá í bæinn fjölbreytt og öflug fyrirtæki.

Áframhaldandi fagleg uppbygging.
Stækkun Mosfellsbæjar mun halda áfram á næstu árum og ný hverfi þurfa að byggjast upp í sátt við íbúa, umhverfi og náttúru. Við eigum einstaka náttúru allt í kringum bæinn okkar og þurfum að gæta að grænu svæðunum sem eru okkur mikilvæg. Við viljum að bærinn okkar verði áfram sveit í borg með fjölbreytta útivistarmöguleika þrátt fyrir fjölgun fólks og uppbyggingu nýrra hverfa. Hagsmunir Mosfellinga þurfa að vera í fyrirrúmi í þessari uppbyggingu og því er mikilvægt að skipulags- og umhverfismál verði áfram í traustum höndum okkar Sjálfstæðisfólks eftir kosningarnar 26. maí. Til þess að svo verði þurfum við þinn stuðning, kjósandi góður.

Ásgeir Sveinsson er í 2. sæti á lista
Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ og
Helga Jóhannesdóttir er í 7. sæti listans.