Getur þú hjálpað þegar á reynir?

Margrét Lúthersdóttir

Margrét Lúthersdóttir

Eitt af mörgum verkefnum Rauða kross deilda er að standa fyrir fjölbreyttum námskeiðum í skyndihjálp. Slys gera ekki boð á undan sér og því er þekking á skyndihjálp mikilvæg fyrir alla.
Sé rétt að skyndihjálp staðið getur hún skipt sköpum og skilið á milli lífs og dauða. Oftast eru það vinir og ættingjar sem koma fyrstir á vettvang þegar einhver slasast eða veikist alvarlega. Stutt skyndihjálparnámskeið getur gert þér kleift að bjarga mannslífi þegar aðstæður kalla á skjóta ákvarðanatöku. Með skyndihjálp má tryggja öryggi og rétt viðbrögð við slysum og áföllum á heimilinu.
Þann 7. febrúar næstkomandi mun deildin standa fyrir námskeiðinu Slys og veikindi barna þar sem tekið er á helstu vörnum gegn slysum á börnum, orsökum slysa almennt svo og þroska barna og aldurstengdum slysum. Þátttakendur fá leiðbeiningar í skyndihjálp við slysum barna og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna og andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús. Enn eru nokkur pláss laus svo það er um að gera að skrá sig á skyndihjalp.is.
Útbreiðsla skyndihjálparþekkingar hefur verið eitt af meginverkefnum Rauða kross Íslands í meira en 80 ár og á hverju ári sækja um 5.000 manns skyndihjálparnámskeið á hans vegum. 11. febrúar næstkomandi er einnig þekktur sem 112-dagurinn og miðar að því að efla vitneskju landsmanna um mikilvægi skyndihjálpar í slysum og áföllum. Stutt athöfn fer fram í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð þar sem skyndihjálparmaður Rauða krossins verður einnig tilkynntur. Nánar má kynna sér málið á raudikrossinn.is eða skyndihjalp.is.
Þann 24. apríl verður 4 klukkustunda námskeið í almennri skyndihjálp þar sem farið verður yfir grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þátttakendur verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað og viti í hvaða tilfellum er nauðsynlegt að hringja í 112. Við hvetjum alla til að skrá sig á skyndihjalp.is.
Skyndihjálp skiptir máli.

Fyrir hönd Rauða krossins í Mosfellsbæ,
Margrét Lúthersdóttir, deildarstýra