Höldum gleðileg jól

Sveinn Óskar Sigurðsson

Sveinn Óskar Sigurðsson

Nú þegar jólin nálgast og aðventan lýsir okkur inn í nýja tíma er rétt að líta örstutt til baka og þakka þann stuðning sem bæjarbúar veittu Miðflokknum í síðustu kosningum til sveitastjórnar.
Hann var ómetanlegur og markmið okkar, sem skipuðum lista flokksins hér í Mosfellsbæ, er að vinna vel fyrir bæjarbúa og tryggja málefnalega og innihaldsríka umræðu.

Fjölskyldan er sú eining sem mikilvægust er öllum og sérstaklega börnum. Friður á heimilum er grunnur að velferð, árangri og ánægju. Fyrirgefningin er eitt af grunngildum kristilegs siðgæðis og trúar. Nú þegar Ísland tekur örum breytingum og þar með bærinn okkar er mikilvægt að opna hjarta sitt og skynja hvað maður getur gert betur.

Við verðum engu að síður að gæta að því að minnsta einingin í samfélaginu, fjölskyldan, nái endum saman og geti búið að börnunum, tryggt framtíð þeirra og velsæld. Það gerist ekki ef áhugi er takmarkaður og fjármagn af skornum skammti. Sameinuðu þjóðirnar hafa löngum stuðlað að því að bæta hag fólks þar sem það býr við mikla fátækt og örbirgð.
Ef allt þrýtur verður að bregðast við, hjálpa. Sú hjálp verður ávallt að miðast við getu þess sem hjálpar, vilja og þor. Við höfum bæði vilja og þor Íslendingar þó svo að við viljum einnig tryggja öðru fólki í landinu velferð.
Miðflokkurinn vill hjálpa, hlúa að og líkna. Til þess að geta gert það verður að tryggja að aðbúnaður og grunnur samfélagsins sé sterkur, að fjármunum sé ekki sóað að óþörfu og það nýtt illa. Því miður er ekki svo að allir nýti fjármuni vel og mörg dæmi eru um það.
Nú skulum við kenna börnum okkar að gleðin og góðir siðir séu mikilvægir þættir sem og fyrirgefningin sem er ómissandi. Mismunandi trúarhópar hafa slíkt í sínum trúarbrögðum og vilja gæta að því að tryggja sátt í samfélaginu. Því þarf ekki sérstaka siðmennt til þó siðfræðin sé mikilvæg og gagnrýnin hugsun.

Dæmisagan um miskunn, iðrun og fyrirgefningu er ekki eitthvað gamalt og úrelt. Fyrir fáeinum vikum gat undirritaður sýnt nokkrum ungmennum hér í bænum hvað fyrirgefning gengur út á. Allir gengu frá með frið í hjarta, nýjan vinskap og lærdóm. Það var vel og enginn, get ég fullyrt, er hamingjusamari en sá sem fyrirgefur. Við Mosfellingar eigum frábært ungt og upprennandi fólk sem er og verður okkur öllum til sóma. Þau eru sprotar lífsins. Gleðileg jól.
Megi góður Guð og aðrar góðar vættir vera með ykkur yfir jólin og um alla tíð.
Virðingarfyllst,

Sveinn Óskar Sigurðsson, fulltrúi Miðflokksins
í bæjarráði og bæjarstjórn Mosfellsbæjar