Við vetrarsólhvörf

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason

Um þessar mundir er skammdegið í algleymingi og sól lágt á lofti.
En á morgun verða vetrarsólhvörf, þá verður tafli tímans snúið við og lífgjafi okkar allra hækkar á himni, jafnt og þétt. Fram undan eru jól og áramót og mikil eftirvænting og tilhlökkun liggur í loftinu, ekki síst hjá yngstu kynslóðinni.
Á þessum tímamótum viljum við undirrituð horfa fram á veginn mót hækkandi sól og nefna nokkur mál sem eru ofarlega á baugi á vettvangi bæjarmálanna.

Fjárhagsáætlun
Fyrir skemmstu var fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar samþykkt í bæjarstjórn og er hún bindandi fyrir næsta ár og stefnumótandi fyrir árin 2020-2022. Ljóst er af áætluninni að þar fer saman ábyrg fjármálastjórn, metnaður og vilji til að styrkja grunnstoðir sveitarfélagsins enn frekar. Áætlunin tekur mið af málefnasamningi V- og D-lista sem gerður var eftir kosningarnar síðastliðið vor.

Ný menningarstefna
Núna stendur yfir vinna við nýja menningarstefnu fyrir Mosfellsbæ þar sem meðal annars verður fjallað um málefni félagsheimilisins Hlégarðs. Þessi vinna byggir að hluta til á niðurstöðum frá opnum íbúafundi sem haldinn var síðastliðið haust en þar komu fram ýmsar áhugaverðar hugmyndir um menningarmál í sveitarfélaginu.

Bryndís Brynjarsdóttir

Bryndís Brynjarsdóttir

Skipulagsmál og umhverfið
Brátt hefst endurskoðun á aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030. Sveitarfélagið stækkar ört, enn frekari uppbygging er fram undan og þörf á að endurskoða aðalskipulagið. Við þá vinnu verða umhverfismálin höfð að leiðarljósi og tekið mið af grænum svæðum, bæði stórum og smáum.
Við Mosfellingar búum einstaklega vel að göngustígum og fræðsluskiltum, tímans tönn hefur nagað sum þeirra en fyrirhugað er að endurnýja þau skilti sem verst eru útleikin.
Vinna við nýja umhverfisstefnu Mosfellsbæjar stendur yfir en þar verður tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Fræðslumál
Fræðslumálin eru umfangsmikil í rekstri allra sveitarfélaga og á næstu árum verður kapp lagt á að efla enn frekar þennan málaflokk hér í Mosfellsbæ. Fjárframlög til fræðslumála verða stóraukin á árinu 2019 og nemur sú hækkun um 17% á milli ára.
Mikilvægt er að gera skólunum okkar kleift að bregðast við því síkvika umhverfi sem þeir starfa í og koma til móts við mismunandi þarfir nemenda. 21. öldin býr við breytt landslag hvað varðar atvinnuhætti framtíðarinnar og við því þarf að bregðast með breyttum kennsluháttum, án þess þó að kasta grunnþáttum menntunar fyrir róða.
Brátt verður fyrsti áfangi Helgafellsskóla tekinn í notkun. Umgjörð skólans er framsækin og hefur til að bera allt sem prýðir nútímalega skólabyggingu, aðbúnaður nemenda og starfsfólks verður fyrsta flokks og ýmsar áhugaverðar lausnir verða í innra skipulagi skólans sem og við útfærslu á skólalóð.
Í málefnasamningi meirihluta bæjarstjórnar er kveðið á um verulega lækkun leikskólagjalda, frá og með næsta hausti munu þau lækka um 5% og aftur síðar á kjörtímabilinu.

Við viljum að lokum óska öllum Mosfellingum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Bjarki Bjarnason, bæjarfulltrúi VG og forseti bæjarstjórnar.
Bryndís Brynjarsdóttir, varabæjarfulltrúi og formaður VG-Mos.