Gildran undibýr endurkomu í haust

Þórhallur Árnason, Karl Tómasson, Birgir Haraldsson og Sigurgeir Sigmundsson. 

Mosfellska hljómsveitin Gildran hefur ákveðið að koma saman í haust og blása til tónleika undir yfirskriftinni „Nú eða aldrei“.
Hljómsveitin var stofnuð árið 1985 og fagnar því brátt 40 ára afmæli. Sveitin er skipuð þeim Þórhalli Árnasyni, Karli Tómassyni, Birgi Haraldssyni og Sigurgeiri Sigmundssyni.

Gildran kemur nú saman eftir nokkurt hlé og varð heimabærinn fyrir valinu eins og oft áður. Helgina 6.-7. október er orðið uppselt á tvenna tónleika í Hlégarði og seldust miðar upp á augabragði.
Nú hafa þeir félagar ákveðið að fara norður í land og spila á Græna hattinum tveimur vikum síðar og bæta síðan við tónleikum í Hlégarði 4. nóvember.

„Það er gríðarleg tilhlökkun í okkur félögum að hefja störf á ný við tónleikahald, sköpun og upptökur á nýju efni,“ segir í tilkynningu frá hljómsveitinni. Þessi magnaða rokkhljómsveit, Gildran, hefur á löngum starfsaldri skipað stóran sess í mosfellsku menningarlífi í gegnum tíðina.


NU EÐA ALDREI
6. október – Hlégarður – UPPSELT
7. október – Hlégarður – UPPSELT
20. október – Græni hatturinn, Akureyri
4. nóvember – Hlégarður, Mosfellsbæ
Miðasala á Tix.is og graenihatturinn.is.

Mosfellsbær tekur alfarið við starfsemi Skálatúns

Mosfellingarnir Ásmundur Einar barnamálaráðherra, Sigrún Lóu íbúi á Skálatúni og Regína bæjarstjóra Mosfellsbæjar.

Fimmtudaginn 25. maí var undirritaður samningur um að Mosfellsbær taki alfarið að sér að annast og þróa áfram þjónustu við íbúa Skálatúns en í dag búa þar 33 einstaklingar. Skálatún er rekið af IOGT á Íslandi sem hefur ákveðið að ánafna fasteignir og lóð Skálatúns til nýtingar í málefnum barna og fjölskyldna.
Stofnuð verður sjálfseignarstofnun um fasteignir Skálatúns og verður framsal lóðaréttinda til sjálfseignarstofnunarinnar bundið þeirri kvöð að framtíðaruppbygging á svæðinu verði einungis í þágu hagsmuna barna og fjölskyldna auk þess sem frekari takmarkanir eru á framsali landsins.

Miðstöð barna að Skálatúni
Þá var skrifað undir viljayfirlýsingu milli mennta- og barnamálaráðuneytis og Mosfellsbæjar sem lýtur að því að stofnanir ríkisins sem sinna málefnum barna, samtök sem vinna í þágu barna og þjónustuaðilar barna, verði staðsett að Skálatúni í nokkurs konar miðstöð barna.
Loks var undirritað samkomulag um að jöfnunarsjóður yfirtaki skammtímaskuldir Skálatúns og greiði Mosfellsbæ 240 m.kr. viðbótarframlag árlega næstu 10 árin.

Starfsfólki boðið áframhaldandi starf
„Við í bæjarstjórn Mosfellsbæjar fögnum því að niðurstaða sé komin í viðræður um framtíðarskipan á rekstri Skálatúns,“ segir Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs. „Sú uppbygging sem er ráðgerð á svæðinu mun opna spennandi möguleika á þróun og nýsköpun í þjónustu við börn og fjölskyldur á Íslandi. Í þeim samningum sem liggja fyrir er sérstaklega gætt að hagsmunum íbúa Skálatúns og tryggt að þeir njóti þeirrar þjónustu og aðbúnaðar sem þeir eiga rétt á. Öllu starfsfólki verður boðið áframhaldandi starf og það boðið velkomið í starfsmannahóp Mosfellsbæjar.“

Með virðingu við íbúana að leiðarljósi
Mjög góð samvinna hefur verið um þessi verkefni í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. „Að loknum fundi bæjarráðs var haldinn aukafundur í bæjarstjórn og strax í kjölfarið starfsmannafundur á bæjarskrifstofunum. Í framhaldi var boðað til starfsmannafundar á Skálatúni en þar starfa rúmlega 100 manns. Þar sköpuðust góðar umræður um það mikilvæga starf sem fram undan er og samstaða um að vinna verkin saman,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
Í framhaldi af þeim fundi var fundað með íbúum Skálatúns og aðstandendum þeirra. Eins og við var að búast komu fram fjölmargar spurninga á þeim fundi, meðal annars um hvað verði um þá fötluðu íbúa sem búa á Skálatúni í dag. Okkar svör eru þau að við förum í þetta verkefni með virðingu við íbúana að leiðarljósi og berum hag þeirra fyrst og fremst fyrir brjósti. Þeir sem þess óska fá að búa áfram á Skálatúni en við munum þurfa að bretta upp ermar og bjóða upp á aðra búsetukosti fyrir þá sem vilja búa sjálfstæðar. Næstu vikur og mánuðir fara í að kynnast íbúum og starfsmönnum betur og auglýst hefur verið eftir leiðtoga í málaflokk fatlaðs fólks hjá Mosfellsbæ til að leiða þessar mikilvægu breytingar.“

Uppbygging fyrir börn og fjölskyldur
Sú uppbygging sem stefnt er að felur í sér að aðilar sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu, stofnanir ríkisins, félagasamtök og aðrir aðilar verði staðsettir á sama svæðinu. Markmiðið með því er að auka samstarf og samtal milli aðila, samnýta yfirbyggingu, lækka rekstrarkostnað og bæta aðgengi fyrir börn og fjölskyldur að þjónustu mismunandi aðila á sama stað. Þá stendur einnig til að leita leiða til þess að veita aukna og samþætta þjónustu til þeirra barna sem glíma við fjölþættan vanda og þurfa á miklum stuðningi að halda.

Athygli

Við fórum hjónin í kaupstaðarferð í síðustu viku. Fórum út að borða og í leikhús. Níu líf var mögnuð upplifun. Halldóra Geirharðs var sem andsetin og það var fallegt og sterkt að fá að syngja með okkar eigin Halli Ásgeirs og systkinum hans á sama degi og móðir þeirra kvaddi.

Það vakti athygli okkar í þessari stuttu en góðu ferð hvað við mannfólkið erum orðin miklir símaþrælar. Pör saman úti að borða, annað eða bæði í símanum. Á leiksvæðinu voru krakkar að leika sér, foreldrarnir hoknir yfir símanum á meðan. Fyrir framan okkur í leikhúsinu, sátu foreldrar með unglingsdóttur. Mamman lagði kapal í símanum á meðan hún beið eftir að sýningin byrjaði, rétt náði að slökkva áður en Dóra æddi inn á sviðið. Reif svo strax upp símann þegar hléið kom og hélt áfram með kapalinn alveg þangað til sýningin byrjaði aftur. Dóttirin vafraði í gegnum Instagram í sínum síma. Pabbinn horfði fyrst aðeins út í loftið en fór svo að senda einhverjum einhver skilaboð. Á leiðinni í höfuðstaðinn sáum við marga bílstjóra rífa upp símann á ljósum, nýta tímann, og auðvitað marga líka vesenast eitthvað í símanum á meðan þeir keyrðu.

Það er ekki aftur snúið með símana. Þeir dekka svo stóran hluta af lífinu og athöfnum okkar í dag. Samskipti, upplýsingaöflun, skipulag, tungumálanám, bankaviðskipti, fréttir, afreying, myndavél, upptökutæki – allt þetta og miklu meira til er í símanum okkar.

En við getum sjálf tekið okkur taki. Hætt vera uppvakningar og þrælar. Hætt að láta þetta brjálæðislega öfluga apparat stýra lífi okkar í staðinn fyrir að nýta það til þess góða sem það býður upp á. Hætt að leggja símakapla, skrolla í gegnum Instagram og senda skilaboð þegar við höfum tekið frá tíma til að njóta samveru og alvöru upplifana sem gefa okkur svo miklu meira. Verið lifandi, með athygli.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. júní 2023

Viktoría Unnur nýr skólastjóri Krikaskóla

Viktoría Unnur Viktorsdóttir hefur verið ráðin í starf skólastjóra Krikaskóla frá og með 1. júní. Alls sóttu 11 einstaklingar um starfið og var Viktoría Unnur metin hæfust. Hún er með B.Ed. gráðu frá KHÍ, með áherslu á kennslu yngri barna, með diplóma­nám á meist­ara­stigi í já­kvæðri sál­fræði frá End­ur­mennt­un Há­skóla Ís­lands og er að ljúka meist­ara­gráðu í stjórn­un og for­ystu í lær­dóms­sam­fé­lagi frá HA. Vikt­oría Unn­ur hef­ur starf­að sem grunn­skóla­kenn­ari í Norð­linga­skóla og ver­ið verk­efna­stjóri og tengi­lið­ur við Há­skóla Ís­lands í sam­evr­ópsku verk­efni sem stuðl­ar að seiglu og þraut­seigju hjá nem­end­um. Þá hef­ur hún reynslu af starfi sem deild­ar­stjóri í leik­skóla.

Ég játa mig sigraða

Anita Pálsdóttir segir ótrúlega sárt að geta ekki hugsað um barnið sitt.

Downs-heilkenni er litningafrávik sem veldur þroskahömlun. Um það bil eitt af hverjum 800 börnum fæðast með heilkennið sem þekkt er um allan heim, þvert á heimssvæði og kynþætti.
Anita Pálsdóttir eignaðist barn með Downs-heilkenni árið 2006. Hún segir að það hafi verið henni mikið áfall þegar hún fékk fréttirnar komin sjö mánuði á leið. Hún fór strax að syrgja barnið sitt sem hún hafði ætlað allt önnur tækifæri í lífinu.

Anita er fædd á Akureyri 25. desember 1967. Foreldrar hennar eru Bjarney Steinunn Einarsdóttir og Páll Helgason tónlistar­maður. Anita á tvo bræður, Helga f. 1963 og Einar f. 1966.

Lékum okkur við Varmána
„Ég ólst upp í Mosfellsbæ frá fjögurra ára aldri en fyrstu árin mín bjuggum við fjölskyldan á Akureyri. Við fluttum í vinnuskúr við Álafoss og leiksvæði okkar krakkanna var á Álafosssvæðinu, í gömlu verksmiðjunni og við Varmána.
Ég man þegar ég og bræður mínir ásamt einum vini vorum að leika okkur á heimagerðum plönkum úti í tjörninni Tító sem er á bak við Þrúðvang. Yngri bróðir minn sem var í þykkri úlpu datt útbyrðis í tjörnina og bróðir minn og vinur okkar náðu honum upp úr með erfiðismunum, þetta situr fast í mér,“ segir Anita alvarleg á svip.
„Við færðum okkur svo um set fjölskyldan, í Byggðarholtið.“

Þar með lauk mínum ferli
„Ég gekk mína grunnskólagöngu í Varmárskóla og fannst gaman í skólanum og mér gekk vel að læra. Ég byrjaði sjö ára að læra á píanó í Tónlistarskólanum í Brúarlandi og þar var ég í eitt ár. Ég byrjaði svo að læra á trompet hjá Lárusi Sveinssyni og var í Skólahljómsveit Mosfellsbæjar í átta ár.
Á unglingsárunum langaði mig að breyta til og fara að læra á annað hljóðfæri en foreldrar mínir tóku það ekki í mál og Lárus ekki heldur svo ég gerði mér lítið fyrir og pakkaði saman dótinu mínu og þar með lauk mínum trompetferli.“

Þetta voru skemmtileg ár
„Við vinkonurnar byrjuðum ungar að stunda handbolta en við spiluðum einnig fótbolta á sumrin. Þegar ég fermdist þá fékk ég hest í fermingargjöf frá foreldrum mínum og fékk í framhaldi mikinn áhuga á hestamennsku, þetta voru skemmtileg ár.
Eftir að grunnskóla lauk þá þurftum við krakkarnir að sækja framhaldsskóla til Reykjavíkur. Ég fór með rútunni alla daga í Verslunarskólann, tók tvö ár þar en kláraði stúdentinn frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Ég fór síðar í Tækniskóla Íslands í rekstrarfræði og útskrifast þaðan 2005.
Á sumrin starfaði ég í trefladeildinni á Álafossi, Búnaðarbankanum, skólagörðunum og svo starfaði ég lengi hjá Ragnari Björnssyni á Western Fried en það var aðal kjúklingastaðurinn í Mosfellssveit, ég á góðar minningar þaðan.
Ég ólst upp í dásamlegri sveitasælu sem nú er orðin að stórum bæ sem vex á ofurhraða, hér hefur mikið breyst,“ segir Anita og brosir.

Syngja fyrir eldri borgara
Eftir framhaldsskóla hóf Anita störf hjá Bílasölu Jöfurs, fór þaðan í ritarastarf hjá Sakadómi Reykjavíkur og svo til Alþýðusambands Íslands. Árið 1999 hóf Anita störf sem ritari í Varmárskóla en 2003 færði hún sig yfir á skrifstofu Borgarholtsskóla. Hjá Vátryggingafélagi Íslands starfaði hún í nokkur ár en í dag starfar hún sem móttökuritari hjá Hjartavernd í Kópavogi.
Anita á þrjú börn, Róbert f. 1992, Rakel Dóru f. 1998 og Katrínu f. 2006 og hundinn Pablo Picasso. En hver skyldu vera áhugamál Anitu? „Golfið og tónlistin eru mín áhugamál í dag og svo hjóla ég þegar tími gefst til, öll útivera finnst mér skemmtileg, náttúran, fólkið og dýrin.
Ég hef sungið lengi með Rokkkór Íslands og er líka í sönghóp sem kallar sig Söngelskur. Við höfum verið að syngja mikið fyrir eldri borgara öll gömlu góðu lögin sem þau muna eftir, mjög gefandi og gaman.“

Var nauðbeygð til að fara
Anita var 39 ára er hún gekk með sitt þriðja barn, á meðgöngunni kom í ljós að barnið hafði 3 eintök af litningi númer 21, Downs heilkenni.
„Meðgangan gekk vel og á 20. viku fór ég í sónar eins og ég hafði gert með hin börnin mín tvö. Í sónar virtist allt vera í lagi með litlu skvísuna sem var á leið í heiminn nema það fannst vökvi í brjóstholi sem þurfti að athuga. Eina sem hægt var að gera var að fara í ástungu, því annaðhvort var þetta sýking í fóstrinu eða litningagalli svo ég var eiginlega nauðbeygð að fara í þessa stungu sem ég og gerði, sýking hefði þýtt aðgerð í Svíþjóð. Ég var búin að fara í hnakkaþykktarmælingu og blóðprufu til að athuga með Downs heilkenni en það kom allt vel út.“

Byrjaði strax að syrgja
„Það kom svo á daginn eftir nánari skoðanir að okkar litla snót var með þriðja litning í öllum sínum frumum sem er kallað Downs heilkenni. Þessar fréttir fékk ég þegar tveir mánuðir voru eftir af meðgöngunni. Ég fékk sjokk, grét og byrjaði strax að syrgja litla barnið mitt. Ég hugsaði um hvernig ég gæti verið móðir fatlaðs barns, ég kunni ekkert í þeim efnum. Það tók mig um tvær vikur að syrgja, ég var að syrgja stúlku sem ég hafði ætlað önnur tækifæri í lífinu.
Ég fór í það að læra ýmislegt um Downs heilkennið, hafði samband við foreldra og fékk bara góð viðbrögð. Downs börn geta lifað sómasamlegu lífi alveg eins og við hin og þau geta flest en eru með þroskafrávik, það sem háir þeim mest er samfélagið sem hleypir þeim ekki inn.“

Vildum að þau mynduðu sér skoðun
„Við ákváðum að segja systkinunum ekki frá þessum fréttum, við vildum að þau myndu sjá systur sína áður en þau mynduðu sér skoðun um hana. Katrín fæddist 31. desember 2006, yndisleg mannvera. Viku áður en hún kom í heiminn greindist hún með hjartagalla, þannig að við fórum með hana tveggja mánaða til Boston í hjartaaðgerð sem gekk vel. Ári eftir aðgerðina fór hún að fá flogaköst og svo hefur hún greinst með ýmiss konar önnur frávik, einhverfu, hegðunarröskun og ADHD svo eitthvað sé nefnt.“

Þetta er ótrúlega sárt
„Það er stundum þannig að þegar fólk eignast fatlað barn þá verður það foreldrum ofviða. Hegðun Katrínar minnar var orðin þannig að það var ekki lengur ráðið við, ég játaði mig sigraða og kallaði eftir hjálp, hún er í dag í vistun á Klettabæ og þarf stuðning tveggja aðila allan sólarhringinn.
Að þurfa að ganga í gegnum það að geta ekki hugsað um barnið sitt er alveg ótrúlega sárt því hún er mér alveg jafn kær og hin börnin mín. Við eigum samt okkar góðu gleðistundir saman sem eru gulls ígildi,“ segir Anita að lokum er við kveðjumst.

Nýtt flokkunarkerfi tekið í notkun á næstu vikum

Bjarni, Katrín Dóra og Heiða með nýju tvískiptu tunnuna.

Það styttist í að Mosfellingar fái afhentar nýjar tunnur, körfur og bréfpoka undir matarleifar. Nýtt og samræmt flokkunar­kerfi verður innleitt á næstu vikum þar sem fjórum úrgangsflokkum verður safnað við hvert heimili.
Stærsta breytingin er sú að íbúar fá tunnu fyrir matarleifar ásamt tunnu fyrir pappír og plast. Sorptunnurnar verða endurmerktar en sú gráa verður undir plast, bláa áfram undir pappa og svo bætist við tvískipt tunna fyrir matarleifar og blandaðan úrgang. Öll heimili fá plastkörfu og bréfpoka til að safna matarleifum innanhúss og verður það afhent með tunnunni.

Tunnunum dreift á sex vikna tímabili
„Spennandi skref í hringrásar­hagkerf­inu og til þess gert að lágmarka þann úrgang sem þarf að grafa,“ segir Katrín Dóra Þorsteinsdóttir verkefnastjóri.
Áætlað er að fyrstu tunnurnar komi samhliða sorphirðu fimmtudaginn 25. maí og verður dreift yfir sex vikna tímabil. Katrín Dóra Þorsteinsdóttir, Heiða Ágústsdóttir og Bjarni Ásgeirsson ásamt fleira starfsfólki og fulltrúum úr umhverfis­­nefnd verða á bókasafninu til að spjalla við íbúa, fræða þá og svara spurningum. Þau verða á bókasafninu 25. maí, 1. og 8. júní kl. 16-18 og 3. júní kl. 11-13.
Nánari upplýsingar um dreifingaráætlun fyrir tunnurnar má finna í blaðinu í dag auk þess sem allar helstu upplýsingar um verkefnið eru á mos.is og flokkum.is.

Tónlist og tímabil

Tónlist er mögnuð. Tónlist getur haft upplífgandi, hressandi, róandi, hvetjandi, skapandi og margs konar áhrif á okkur sem hlustum.

Ég er ekki alæta á tónlist, en get hlustað á margt. Ég hef farið í gegnum nokkur ólík tímabil þar sem fátt komst að í einu. Það fyrsta sem kveikti almennilega í mér var þegar Maggi Jóns setti Ísbjarnarblús kassettu í græjurnar hjá Siggu frænku á Hvammstanga. Við vorum báðir á leið í sveitina og sátum þarna saman í sófanum og hlustuðum á þessa snilld. Bubbi fylgdi mér áfram og ég bætti Adam & the Ants, AC/DC, Kiss og Iron Maiden og fleiri góðum á TDK kassetturnar mínar (Spotify þess tíma).

Svo datt ég á unglingsárum inn í nýrómantíkina. Depeche Mode varð þá besta hljómsveit í heimi og Maiden og Kiss fóru upp í hillu. Duran náði mér svo á efri unglingsárum, man enn eftir því þegar það gerðist. Ég sat unglingslega í hægindastól í Brautarásnum þegar tónleikaferðalagsmyndin þeirra, Sing Blue Silver, fór í gang í sjónvarpinu. Planið var ekki að stökkva inn í þennan heim, en Duran náði mér þarna alveg og Depeche Mode fór upp í hillu með hinum.

Það er of langt mál að telja upp öll tímabilin sem fylgdu á eftir, en á meðal þeirra sem komu við sögu í þeim voru Guns N‘ Roses, Jane‘s Addiction, Radiohead og Villi Vill.

Það skemmtilega, þegar ég er búinn með fyrri hálfleikinn í lífinu, er að nú eru þessi tímabil ekki lengur aðskilin, heldur blandast saman í eitt og ég vel þá tónlist sem ég vil hlusta eftir því hvað ég er að gera og í hvernig skapi ég er.

Stand and Deliver í morgunmat, Dans gleðinnar í hádeginu og Mr. Brownstone seinni partinn. Svo lengi sem lagið gerir lífið betra skiptir ekki máli hvaðan það kemur.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. maí 2023

 

Úthlutun lóða við Úugötu í 5. áfanga Helgafellshverfis

Mosfellsbær hefur ákveðið út­hlut­un­ar­skil­mála og lág­marks­verð lóða í 5. áfanga Helga­fells­hverf­is. Inn­an 5. áfanga verða fjöl­breytt­ar gerð­ir íbúða sem mynda bland­aða byggð í hlíð á móti suðri.

Í þess­ari út­hlut­un er ósk­að eft­ir til­boð­um í bygg­ing­ar­rétt ann­ars veg­ar fjög­urra fjöl­býla með 12 íbúð­um hvert, alls 48 íbúð­ir, og hins veg­ar sjö rað­húsa, alls 24 íbúð­ir.
Hverri lóð verð­ur út­hlut­að til þess að­ila sem ger­ir hæst til­boð í við­kom­andi lóð, enda upp­fylli við­kom­andi að­il­ar skil­yrði um fjár­hags­legt hæfi.
Bæði ein­stak­ling­ar og lög­að­il­ar geta lagt fram til­boð í bygg­ing­ar­rétt lóða en hver um­sækj­andi get­ur þó að­eins lagt fram eitt til­boð í hverja lóð.
Áform­að er að síð­ari út­hlut­un lóða á svæð­inu, sem eru að mestu ein­býl­is­húsa- og par­húsa­lóð­ir, fari fram næsta haust. Sú út­hlut­un verð­ur aug­lýst­ síð­ar.

Nán­ari upp­lýs­ing­ar eins og mæli­blöð, hæð­ar­blöð, grein­ar­gerð deili­skipu­lags og upp­drætt­i er að finna á vef Mos­fells­bæj­ar.

Starfsemi eldri kylfinga blómstrar

65+ nefndin með Hrefnu Birgittu í miðið.

Vorið 2022 hófst markviss vinna við að efla og styrkja starfsemi eldri kylfinga Golfklúbbs Mosfellsbæjar og hópurinn GM snillingar 65+ þá stofnaður.
Markmið hópsins er fyrst og fremst að stuðla að betri andlegri og líkamlegri heilsu eldri kylfinga auk þess að efla félagsleg tengsl. Hópurinn hefur aðgang að aðstöðu Golfklúbbsins alla miðvikudagsmorgna, úti á sumrin og inni á veturna. Mikið kapp er lagt í nýta miðvikudagana vel og halda uppi metnaðarfullri dagskrá allan ársins hring.

Félagsmaður ársins
Formaður GM 65+ er Hrefna Birgitta Bjarnadóttir en þess má geta að hún var valin félagsmaður Golfklúbbs Mosfellsbæjar 2022 fyrir vel unnin störf í þágu eldri kylfinga klúbbsins. Það er óhætt að fullyrða að því hafi verið virkilega vel tekið og eru um 180 kylfingar sem taka þátt í starfinu núna. Allir skráðir félagsmenn GM sem eru 65 ára eða eldri geta tekið þátt og nýir félagsmenn bætast stöðugt í hópinn. Ekki er nauðsynlegt að vera með neinn grunn í golfi.
„Við leggjum mikla áherslu á að styrkja félagslega hlutann, sérstaklega hjá þeim sem eru kannski einir eða hafa misst maka”, segir Hrefna Birgitta. Hún bætir við að hópurinn hafi einnig orðið til þess að eldri kylfingar eru ekki eins ragir við að skrá sig í holl á golfvöllinn.

Bætt golftækni eldri kylfinga
Auk heilsueflandi og félagslegra markmiða er einnig unnið að bættri golftækni sem hentar líkamlegri getu og aldri. Boðið er upp á reglulegar púttæfingar og kaffispjall, leikjamót og heimsóknir í aðra klúbba.
Einnig er markmiðið að bjóða upp á einstaklingsmiðaða golfkennslu og mæta hverjum og einum þar sem hann er staddur. GM 65+ hefur síðan frjálsan aðgang í golfherminn miðvikudagsmorgna milli kl. 9 og 11.

Nóg á döfinni í starfinu
Nú fer vetrardagskránni senn að ljúka og sumardagskráin að taka við með aukinni útiveru. Á döfinni er t.d. sumarmót á Hlíðarvelli, leikjadagar í Bakkakoti, vinaferðir á nærliggjandi golfvelli og utanlandsferð svo eitthvað sé nefnt.
Hrefna vill koma á framfæri þökkum til Golfklúbbs Mosfellsbæjar fyrir frábæran stuðning og aðstöðu, einnig hefur Blik stutt starfið með því að gefa félagsmönnum afslátt af veitingum. Eins hafa fyrirtæki í Mosó verið dugleg að skaffa vinninga, s.s. Krónan, GM og Mosfellsbakarí.
Á ársþingi Ungmennasambands Kjalarnesþings sem fram fór á dögunum fékk 65+ starfið hvatningarverðlaun sambandsins.

Danssporið hefur opnað í Kjarna

Danssporið studio opnaði nýverið í Kjarnanum Þverholti en það er Mosfellingurinn Marín Mist sem á og rekur Danssporið.
„Ég opnaði í Sóltúni í Reykjavík síðasta haust en er að flytja í Mosó um þessar mundir. Það er kynningarnámskeið í gangi núna hér í Mosó sem endar með nemendasýningu í lok apríl. Svo byrjar sumarnámskeið 8. maí.
Ég hef fengið mjög góð viðbrögð við studioinu og finn að þörfin fyrir slíku var svo sannarlega til staðar í bæjarfélaginu,” segir Marín Mist sem einungis er 22 ára gömul. Hún rekur einnig vefverslun með dansfatnað og fylgihluti sem tilheyra dansinum.

Viljum að öllum líði vel
Danssporið studio býður upp á fjölbreytta danstíma ásamt því að vera með keppnishóp. „Markmið Danssporsins er að búa til gott umhverfi fyrir dansara á öllum getustigum og leyfa þeim að vaxa og dafna.
Við kennum blöndu af Lyrical, Jazz og Contemporary en stefnum á að bjóða upp líka upp á Acro. Við erum með aldursskipta hópa hjá okkur og mikið er lagt upp á vináttu, stuðning og að skapa öruggan stað fyrir dansara.”

Ánægð með viðtökurnar
Ég er rosalega ánægð með viðbrögðin frá Mosfellingum og hlakka til að auka við fjölbreytnina, í haust ætlum við að byrja að vinna með svokallað “Triple threat”. Þá vinnum við með dans, söng og leiklist og undirbýr nemendur okkar fyrir að geta farið inn í leikhúsin. Þetta er mjög vinsæl nálgun um þessar mundir,” segir Marín Mist að lokum og er spennt fyrir komandi tímum.
Allar upplýsingar um Danssporið má finna á heimasíðunni www.danssporid.is og á samfélagsmiðlum eins og Facebook og Instagram.

Þetta krefst samvinnu og virðingar

Fríða Rut Heimisdóttir eigandi Regalo segir markaðinn alltaf tilbúinn í eitthvað nýtt og ferskt.

Í ársbyrjun 2003 stofnuðu hjónin Fríða Rut Heimisdóttir og Vilhjálmur Hreinsson fyrirtæki undir nafninu Regalo. Þau flytja inn hár- og snyrtivörur fyrir fagfólk og hafa verið óhrædd við að fara ótroðnar slóðir enda með ein bestu vörumerki á markaðnum í dag.
Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað og starfsemin orðið sífellt fjölbreyttari, starfsmennirnir eru 15 talsins, þéttur hópur fagfólks.

Fríða Rut er fædd í Reykjavík 14. janúar 1978. Foreldrar hennar eru Þuríður Bryndís Guðmundsdóttir, ávallt kölluð Lilla, og Heimir Guðbjörnsson skipstjóri.
Fríða Rut á tvo bræður, Ívar f. 1983 og Elvar f. 1990

Hafði mikil áhrif á líf mitt
„Ég er uppalin í Reykjavík og gekk alla mína skólagöngu í Breiðholtsskóla. Ég hafði brennandi áhuga á dansi og keppti lengi í samkvæmisdönsum, rokki og stundaði alla tískudansa sem komu í Dansskóla Auðar Haralds. Samhliða að vera sjálf að dansa þá var ég aðstoðarkennari til margra ára hjá Auði í barna- og hjónahópum og kenndi svo sjálf hjónum til ársins 2002.
Ég skíðaði líka mikið sem krakki og hefur það verið mín slökun og hamingja að komast í fjöllin. Mínar bestu minningar á ég með afa mínum heitnum á skíðum. Ég var nú ekki alltaf ánægð sem unglingur þegar ég vildi fá að sofa út og hann var mættur til að draga mig fram úr helgi eftir helgi til að fara á skíði en er þakklát í dag fyrir þau áhrif sem hann hafði á líf mitt. Eftir að afi kvaddi þennan heim þá varð ég fyrir svo miklu áfalli að ég hætti að skíða.
Fyrir sex árum kynntist ég góðum vinum sem eru mikið skíðafólk, þau drifu mig af stað aftur í fjöllin og það var ekki aftur snúið, ég bætti meira að segja við fjallaskíðum,“ segir Fríða Rut og brosir.

Útskrifaðist sem hárgreiðslumeistari
„Áhugasvið mitt lá alltaf í sálfræði og ég ætlaði mér alltaf að verða sálfræðingur og hóf nám í þeirri grein. En svo fer lífið stundum með mann aðrar leiðir og mér datt í hug einn daginn að sækja um sumarvinnu á hárgreiðslustofu svona til að hjálpa til. Ég gjörsamlega féll fyrir greininni, skellti mér í nám og útskrifaðist sem hárgreiðslumeistari árið 2002.
Samhliða náminu þá starfaði ég í hárgreiðsludeild Þjóðleikhússins sem var ótrúlega gaman enda mitt fólk stundum sagt að það skilji ekki að ég hafi ekki orðið leikari því ég hef svo gaman af öllum skrípaleik. Það er svo gott að fíflast smá og hlæja samhliða öllum þessum hraða og streitu sem við búum við.“

Við vorum ekki að fara að flytja
Fríða Rut er gift Vilhjálmi Hreinssyni, þau eiga þrjú börn. Heimi Snæ f. 2002, Bryndísi Evu f. 2006 og Hilmar Davíð f. 2013.
„Við vorum lokkuð hingað í Mosfellsbæ,“ segir Fríða Rut og brosir. „Við vorum í heimsókn hjá Lilju frænku minni sem býr hér og hún tjáði okkur hjónunum að hún væri búin að finna draumahúsið handa okkur. Við vorum ekkert á þeim buxunum að fara að flytja enda leið okkur vel þar sem við bjuggum en hún gaf sig ekki og hringdi í eigandann. Frænka hafði sannarlega rétt fyrir sér því við kolféllum fyrir húsinu og fluttum inn stuttu síðar. Hér finnst okkur alveg hreint frábært að vera.“

Stór ákvörðun að taka
„Villi minn hefur alltaf haft brennandi áhuga á að starfa sjálfstætt enda starfað þannig til margra ára. Í miðju fæðingarorlofi fær hann þá hugdettu að kaupa litla heildverslun í gjafavörubransanum. Þetta var stór ákvörðun fyrir mig að taka þar sem ég var harðákveðin í að stofna flotta hárgreiðslustofu með vinkonu minni og þetta þýddi að ég þyrfti að kveðja þann draum, sem ég gerði.
Í smá geðshræringu stödd inn í sýningar­sal með blómapottum, styttum og vösum fórum við að skellihlæja og hugsuðum hvað við værum eiginlega að spá. Þetta var árið 2003 og þannig byrjaði okkar ævintýri,“ segir Fríða Rut og hlær.

Þetta hefur verið ævintýri líkast
Árið 2005 ákváðu Fríða Rut og Villi að bæta við nýjum vörum í fyrirtækið sem stæðu Fríðu aðeins nær eins og hárvörum. Þau byrjuðu með breska hárvörumerkið TIGI/Bed Head og árið 2012 bættust við Miðjarðarhafshárvörurnar frá Moroccanoil sem er frumkvöðull í hárvörum með argan-olíu. Árið 2017 hófu þau síðan sölu á bandaríska hárvítamíninu Sugarbear Hair og að síðustu bættust við vistvænu hárvörurnar frá Maria Nila, Kérastase, Redken, Koico, L´Oréal, Joico og Lycon. Regalo er einnig umboðsaðili fyrir raftæki eins og hitatæki fyrir hár.
„Við flytjum inn hár- og snyrtivörur fyrir fagfólk, þessar vörur fóru svo vel af stað hjá okkur að við ákváðum að selja gjafavörurnar út úr fyrirtækinu og fórum á flug að sinna hárvörunum enda vinsælar og markaðurinn alltaf tilbúinn í eitthvað nýtt og ferskt. Ég ferðaðist mikið til London með íslensku fagfólki þar sem við sóttum listræn námskeið og eins tók ég litakennarapróf í London og Berlín sem var mjög skemmtilegt. Síðustu ár hef ég aðallega einbeitt mér að markaðssetningu.
Þann 2. mars síðastliðinn varð fyrirtækið 20 ára og við erum ótrúlega þakklát fyrir þessi ár og stolt af Regalo, þetta hefur verið ævintýri líkast skal ég segja þér,“ segir Fríða Rut og brosir. „Hjá okkur starfar frábært fagfólk og er samvinna og teymisvinna okkur mikilvæg.“

Við höfum alltaf virt hvort annað
„Við hjónin erum oft spurð að því hvernig í ósköpunum við getum unnið saman alla daga. Það er mikil tækni og krefst samvinnu og virðingar, við höfum alltaf virt hvort annað og náum að aðskilja vinnu og heimilislíf. Við þrætum til niðurstöðu, ekki til vandamála sem hefur reynst okkur vel enda frábærir vinir og samstarfsfélagar.
Við erum ótrúlega heppin bæði að eiga góðar fjölskyldur sem hafa aðstoðað okkur á ýmsan hátt. Móðir mín hún Lilla er algjör stjarna, hún hefur gert okkur kleift að ferðast erlendis í vinnuferðir, hún kemur til okkar og passar börnin á meðan og hundinn okkar, hana Ronju.“

Tónlist í miklu uppáhaldi
Ég spyr Fríðu Rut að lokum hvað hún geri til að hlúa að sjálfri sér? „Mér finnst mjög gott að fara út úr bænum og slappa af í sveitinni okkar, finna kyrrðina. Góð hugleiðsla eða að hlusta á góða tónlist er líka í miklu uppáhaldi og svo er alltaf gott að hitta góðar vinkonur og eiga gott spjall, það nærir sálina,“ segir Fríða Rut og brosir er við kveðjumst.

Úr úrvalsdeild í Úkraínu í Aftureldingu

Yevgen og Magnús Már þjálfari.

Afturelding hefur fengið markvörðinn Yevgen Galchuk til liðs við sig fyrir átökin í Lengjudeild karla í sumar.
Yevgen er 31 árs gamall Úkraínumaður en hann á yfir hundrað leiki að baki í efstu deild í Úkraínu. Yevgen lék síðast með FC Mariupol í úrvalsdeildinni í fyrravetur en félagið var lagt niður eftir innrás Rússa í Úkraínu í fyrra.
Yevgen hefur verið í leit að nýju félagi síðan þá en hann hefur ákveðið að taka slaginn með Aftureldingu og verður spennandi að sjá hann í Mosfellsbænum í sumar.

Austurríska gulrótin

Um 20 Mosfellingar og reykvískur vinur þeirra ætla að taka þátt í skemmtilega krefjandi Spartan Race þrautahlaupi í Kaprun í Austurríki í september.

Við erum byrjuð að æfa fyrir þrautina, saman og sitt í hvoru lagi. Það er ótrúlega gaman að hafa eitthvað ákveðið að vinna að, eitthvað sem hvetur mann til dáða. Það er langt í september, vorið á eftir að koma fyrir alvöru og sumarið sömuleiðis, en það er bara betra. Það gefur okkur kost á að undirbúa okkur vel og byggja upp þol, styrk og getu til að takast á við þrautirnar skref fyrir skref.

Fellin eru vinir mínir og ég nota þau mikið í undirbúningnum. Kaprun er skíðasvæði og brautin verður brött og hækkunin talsverð. Sem er bara gaman. Ég er búinn að fara nokkrar fellaferðir síðustu vikur. Fyrst var allt frosið og grjóthart en núna síðustu daga hefur færðin verið blaut og drullug. Það er miklu betra, þótt ekki allir hafi skap fyrir mikla og djúpa drullu í fellaferðum (sæl Vala mín :).

Þegar maður hefur eitthvað krefjandi að stefna að, verður allt miklu einfaldara og skemmtilegra. Rigning, rok eða drulla er bara styrkjandi. Kemur líkama og sál í betra stand fyrir alvöruna. Því verra á undirbúningstímabilinu, því betra. Ég myndi ekki vilja vera léttklæddur á bretti inni í hlýjum og kozý sal að undirbúa mig fyrir austurrísku alpana.

Það er gaman að segja frá því að við í undirbúningsnefndinni fyrir BetterYou KB þrautina í Mosfellsbæ í maí erum nánast öll að fara til Kaprun. Þrautirnar í KB þrautinni og pælingarnar á bak við þær hafa margar kviknað í Spartan Race hlaupum sem við höfum tekið þátt í. Okkar nálgun er þó öðruvísi á margan hátt og fellin okkar mosfellsku eru í lykilhlutverki. KB þrautin verður 20. maí, það er enn pláss fyrir þig!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. apríl 2023

 

Ringófjör fyrir 60+

Ringó hefur verið stundað hjá eldri borgurum í Mosfellsbæ í nokkur ár.
Æfingar fara fram í íþróttahúsinu að Varmá á þriðjudögum kl. 12:10-13:10 og á fimmtudögum kl. 11:30-12:30.
Það er íþróttanefnd FaMos sem stendur fyrir þessum æfingum tvisvar í viku. Vel er tekið á móti nýju fólki og er nóg að mæta bara á staðinn og taka þátt.
Hópurinn hefur farið á þónokkur mót en Borgarnes, Hvolsvöllur, Kópavogur og Mosfellsbær hafa skipst á að halda þau. Síðasta var haldið mót hér í Mosfellsbæ í nóvember.
Mikil aukning hefur verið í allri hreyfingu eldri borgara og er ringó ein af íþróttunum sem í boði er.
Ringó er skemmtileg íþrótt sem hentar flestum og svipar til blaks. Í stað bolta eru notaðir tveir gúmmíhringir, sem liðin kasta yfir net og reyna að koma í gólf hjá andstæðingnum. Aðeins má grípa hringina með annarri hendi og þar sem tveir hringir eru á lofti í einu verður oft æði mikið líf og fjör á vellinum.

Nafninu breytt í Bankinn Bistro

Karen Arnardóttir bankastjóri í Þverholti 1.

„Við erum búin að breyta nafninu á staðnum okkar hér í Þverholtinu í Bankinn Bistro, en hér var fyrst opnað í lok árs 2019,“ segir Karen Arnardóttir rekstrarstjóri og nú bankastjóri.
„Staðurinn hét áður Barion og við munum að sjálfsögðu bjóða upp á sömu góðu þjónustuna áfram enda sami góði hverfisstaðurinn í Mosó. Sömu eigendur og sama kennitala en nú færum við okkur nær upprunanum, enda var hér starfræktur banki í fjöldamörg ár, bæði Búnaðarbankinn og síðar Arion banki. Nú verðum við hins vegar eini bankinn í bæjarfélaginu, eins skrýtið og það hljómar. Það verður bara aðeins meiri gleði í okkar banka.“
Í Bankanum er hægt að setjast niður í mat og drykk t.d. í gömlu bankahvelfinguna frá fyrri tíð en hún var flóknasta framkvæmdin á sínum tíma þegar húsnæðinu var breytt í veitingastað.
Bankinn Bistro er veitingastaður, hverfis­bar, sportbar og félagsheimili fullorðna fólksins í Mosfellsbæ.

Öll verð vaxtalaus og óverðtryggð
„Við erum alltaf að betrumbæta matseðilinn okkar og reyna að höfða til sem til flestra. Við bjóðum upp á ýmsar nýjungar og höfum líka náð að lækka verð á einhverju.
Þá erum við komin með pizzur á matseðil sem hafa farið mjög vel af stað en þær eru í boði á kvöldin og um helgar. Í hádeginu alla virka daga bjóðum við svo upp á heitan mat, það hefur mælst einkar vel fyrir og fjöldinn allur af fastaviðskiptavinum sem koma dag eftir dag.
Á föstudögum ætlum við að byrja að bjóða upp á hlaðborð með lambakjöti og meðlæti en ætlunin er að gestir geti tekið hraustlega til matar um leið og þeir koma inn fyrir dyrnar.
Þá verða gerðar einhverjar breytingar hér innanhúss á næstunni og staðurinn fær andlitslyftingu í takt við nýtt nafn.“

Viðburðir í hverri viku
„Viðburðirnir okkar verða einnig á sínum stað áfram en hér eru haldin bingó, pubquiz, prjónakvöld, skákmót, krakkabíó og tónleikar svo eitthvað sé nefnt. Fótbolta­áhugafólk horfir hér líka á helstu kappleiki. Við erum alltaf opin fyrir hugmyndum og hægt er að senda okkur póst á bankinn@bankinnbistro.is.
Hugmyndin að nýja nafninu hefur verið í deiglunni í þónokkurn tíma og verður vel tekið á móti Mosfellingum sem og að sjálfsögðu öllum viðskiptavinum nú sem fyrr í Bankanum,“ segir Karen.