Jólasýning fyrir yngstu kynslóðina

töfratárið2Í nógu er að snúast hjá Leikfélagi Mosfellssveitar. Viðtökur á leikritinu Mæðrum Íslands fóru fram úr björtustu vonum, Leikgleði námskeiðin eru í fullum gangi og sýningar á nýju jólaleikriti fyrir yngstu kynslóðina eru hafnar.
Leikritið heitir Töfratárið og er eftir Agnesi Wild og í leikstjórn hennar. Töfratárið fjallar um stúlkuna Völu sem þykir fátt skemmtilegra en að leika sér með bangsann sinn. Það er aðfangadagur og móðir Völu sem er læknir þarf að fara í vinnuna. Völu þykir það ósanngjarnt, grætur og bangsi huggar hana. En það sem Vala vissi ekki er að allir bangsar eru gæddir töframætti og þegar barn grætur tárum sem það á alls ekki að gráta, geta bangsar lifnað við.
Töfratárið er fjörug, falleg og fræðandi sýning fyrir börn frá 3 ára aldri og fjölskyldur þeirra. Sýningar verða á sunnudögum til jóla og er hægt að panta miða í síma 566-7788.
Einnig er hægt að fylgjast með leikfélaginu á Facebook, Instagram og Snapchat undir nafninu leikmos.

Tíu þúsund fermetra Íslandslíkan í undirbúningi

Íslandslíkanið verður langstærsta sinnar tegundar í heiminum.

Íslandslíkanið verður langstærsta sinnar tegundar í heiminum.

Tíu þúsund fer­metra Íslands­lík­an í þrívídd gæti orðið að veru­leika inn­an tveggja ára ef áform Ketils Björnssonar forsprakka hug­mynd­ar­inn­ar ganga eft­ir.
Mosfellsbær kemur sterklega til greina sem staðsetning fyrir líkanið sem er í skalanum 1:4000. Líkanið mun þekja um einn hektara lands og verða eina sinnar tegundar í heiminum.
Verið er að kanna staðsetningu á Tungumelum en til að varpa ljósi á stærð þess má nefna að Hvannadalshnjúkur verður um 110 cm á hæð. Áætlað er að framleiða líkanið á staðnum og mun þurfa um 15 þúsund fermetra hús undir það.

Styrkir ferðaþjónustu á svæðinu
Bæjarráð hefur fengið formlegt erindi um málið og fól Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra að vera í samskiptum við forsvarsmenn verkefnisins um staðsetningu verkefnisins í Mosfellsbæ og hvernig Mosfellsbær getur lagt verkefninu lið.
„Mér líst mjög vel á þessa hugmynd og það er fagnaðarefni að Mosfellsbær komi til greina fyrir þetta verkefni. Það myndi sóma sér vel í sveitarfélaginu sem er í alfaraleið og því ákjósanleg staðsetning fyrir afþreyingu af þessu tagi. Ég bind vonir við að svona verkefni myndi styrkja ferðaþjónustu á svæðinu og þar með atvinnulífið og mun því leggja mitt af mörkum til að þetta geti orðið að veruleika,“ segir Haraldur.
Frum­kvæðið kemur frá Katli Má Björns­syni flug­virkja og hef­ur fyr­ir­tækjaráðgjöf PWC unnið að und­ir­bún­ingi máls­ins í sam­vinnu við hann og áhuga­sama fjár­festa.

3. desember

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Ég á góða vini sem eiga afmæli í dag, góðan frænda líka. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa gaman af fótbolta og vera síðastir heim úr gleðskap. Til lukku með daginn kappar!
En það eru fleiri góðir sem eiga afmæli í dag. Lífsförunauturinn minn, hún Vala, á líka afmæli í dag. Við kynntumst fyrir 24 árum og 2 dögum og höfum verið saman síðan. Ég, Árbæingurinn, bjargaði henni úr hinum svarthvíta Vesturbæ og eftir smá millilendingu í Danmörku höfum við búið í sveitinni fögru. Hvað hefur þetta með heilsu að gera? Á þetta ekki að vera heilsumoli? Rólegur minn kæri, þetta hefur allt með heilsu að gera. Góður maki skiptir þig og þína heilsu gríðarlega mikla máli. Ef makinn er letihaugur, hefur engan áhuga á hreyfingu, borðar allt sem að kjafti kemur, djammar allar helgar og sefur fram á miðjan dag, eru minni líkur á því að þú náir að lifa heilsusamlegu lífi.

Ef hins vegar þú ert svo heppinn, eins og ég, að eiga maka sem gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að vera heilsuhraustur, þá vænkast þinn hagur verulega. Það getur verið mjög skemmtilegt og hvetjandi að æfa saman. Við Vala náum vel saman í gegnum ketilbjöllurnar. Við höfum líka gaman af því að ganga saman úti í náttúrunni og synda í heitum sjó. Við æfðum Taekwondo saman í nokkra mánuði, líka brasilískt jiu jitsu. Spinning – sem hún elskaði og ég bara alls ekki. Squash var ævinóvemberem endaði með látum. Sums staðar nær maður saman í hreyfingu, annars staðar ekki. Aðalmálið er að makinn sé á svipaðri línu og þú varðandi heilsuna. Hvetji þig áfram, sendi þig á æfingu frekar en að reyna að halda þér heima í sófanum, æfi með þér, hrósi þér. Til hamingju með afmælið mín eina og takk fyrir árin 24!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 3. desmber 2015

Gummi Braga opnar vefsíðuna Skillsspot.net

Skillsspot.net er nýr vefur eða gagnagrunnur í eigu fyrirtækisins Football Associates Ltd. Guðmundur Bragason er eigandi vefsins ásamt Baldri Sigurðsyni.
„Hugmyndin kviknaði árið 2012 og hefur verið í þróun síðan. Samstarfsaðili minn hefur búið í Bretlandi síðan 1989 og hefur m.a. starfað sem milliliður við kaup og sölu fótboltaklúbba og umsýslu í kringum leikmenn,“ segir Guðmundur.
Skillsspot er í raun gagnagrunnur þar sem fótboltamenn og konur geta sett inn sínar ferilskrár, myndir, myndbönd, meðmæli og fleira sem tengist leikmönnunum. Gagnagrunnurinn verður síðan kynntur fyrir fótboltaklúbbum í Englandi sem auðveldar þeim finna leikmenn. Til að byrja með ætlum við að einbeita okkur að Englandi og fótbolta en framtíðarsýnin er að bæta við fleiri löndum og fleiri íþróttagreinum.“

Margir íslenskir leikmenn sem gætu haft það gott í neðri deild í Englandi
„Við erum ekki umboðsmenn heldur milliliður á milli leikmanna og klúbba. Við komum til með að einbeita okkur að 3. efstu deild Englands og niður, þó svo að gagnagrunnurinn henti öllum deildum.
Það geta allir skráð sig þarna inn, ekki bara Íslendingar. Það er hellingur af leikmönnum hér sem annars staðar sem myndu spjara sig vel í neðri deildunum á Englandi og hafa það fínt. Það er þörf á þessari þjónustu bæði í deildunum í Englandi og fyrir fótboltastráka og stelpur sem hafa kannski ekki getuna í að spila í efstu deild en langar að upplifa að æfa og spila erlendis,“ segir Guðmundur en vefurinn og gagnagrunnurinn er hannaður og forritaður af íslenska fyrirtækinu Habilis.

Frí skráning til 5. desember
„Við erum búnir að kynna hugmyndina fyrir nokkrum klúbbum í Englandi og höfum fengið mjög góð viðbrögð. Klúbbarnir fá aðgang að gagnagrunninum og geta leitað þar að því sem þeir sækjast eftir.
Við hvetjum alla sem áhuga hafa til að skrá sig og setja inn meira en minna af upplýsingum. Árgjaldið fyrir skráningu er 50 pund eða um 10.000 kr. Við ætlum að bjóða lesendum Mosfellings fría skráningu til 5. desember, greiðslulykillinn er XNLGYBCB,“ segir Guðmundur að lokum. Skráningin fer fram á www.skillsspot.net.

Haldið upp á 70 ára afmæli Reykjalundar

Diddú situr í stjórn Hollvinasamtaka Reykjalundar.

Diddú situr í stjórn Hollvinasamtaka Reykjalundar.

Stærsta endurhæfingar- og meðferðarstofnun landsins, Reykjalundur, er 70 ára á þessu ári. Af því tilefni efna Hollvinasamtök Reykjalundar til hátíðar- og styrktartónleika í Grafarvogskirkju þriðjudagskvöldið 24. nóvember.
Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, situr í stjórn hollvinasamtakanna. Hún hefur fengið einvalalið listamanna til liðs við sig, sem kemur fram á tónleikunum. „Þarna verða margar af okkar skærustu og sígildu stjörnum, Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvalds, Hilmar Örn Agnarsson og kórar, Vala Guðna og Þór Breiðfjörð, Karlakór Reykjavíkur, Þórunn Lárusar, Palli bróðir og Monika, Gunni Þórðar, Bubbi, Egill Ólafs og svo náttúrlega ég,“ segir Diddú hlæjandi sínum dillandi hlátri. Kynnir á tónleikunum verður enginn annar en grínistinn Þorsteinn Guðmundsson.

Mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfinu
„Það er mikilvægt að styrkja starfsemi þessarar mikilvægu endurhæfingarmiðstöðvar. Reykjalundur er á landsvísu mjög mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfinu. Ég er ekki viss um að það geri sér allir grein fyrir því að meðalaldur þeirra sem fara þangað í margvíslega endurhæfingu er ekki nema um 50 ár. Þetta er fólk á vinnualdri sem lent hefur í alvarlegu slysi eða veikst lífshættulega og það er mjög mikilvægt að fólkið komist aftur út á vinnumarkaðinn. Það er mikilvægt fyrir sjúklinginn sjálfan, aðstandendur hans og samfélagið allt,“ segir Diddú.
„Ég hvet sem flesta til að koma og njóta ánægjulegrar kvöldstundar í Grafarvogskirkju og styrkja um leið gott málefni“ segir Diddú að lokum. Hægt er að kaupa miða á Miði.is og N1 í Mosfellsbæ.

Undirbýr jólatónleika og nýja plötu

Greta Salóme hefur átt ævintýralegt ár á skemmtiferðaskipi.

Greta Salóme hefur átt ævintýralegt ár á skemmtiferðaskipi.

Greta Salóme er komin heim í bili eftir skemmtilegt ævintýri hjá Disney þar sem hún hefur verið með sína eigin sýningu um borð í skemmtiferðaskipum.
Hún hefur haft í nógu að snúast, sungið með hljómsveitinni Dimmu og Sinfóníu­hljómsveit Norðurlands auk þess sem hún var að gefa út lagið Fleyið. „Lagið var samið um miðja nótt í stúdíóinu sem ég var með um borð í Disneyskipinu. Ég fékk svo svakalega heimþrá og samdi þá þetta lag. Þetta lag ásamt fleirum sem ég hef verið að gefa út eru undanfari að plötu,“ segir Greta Salóme. „Það er nóg að gera hjá mér um þessar mundir, ég verð með stóra tónleika á Akureyri 17. desember og einleikstónleika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands 17. janúar þar sem ég verð m.a. með hluta af Disneysýningunni og önnur verk eftir mig. Svo verð ég með jólatónleika um allt land.“

Jólatónleikar í Hlégarði 3. desember
„Desember verður viðburðaríkur þar sem ég er að fara túra um landið ásamt hljómsveitinni Swing kompaníinu. Við munum halda tónleika í kirkjum um allt land í samstarfi við kóra á hverjum stað. Þetta er með skemmtilegri jólaprógrömmum sem ég hef tekið þátt í. Við verðum í Hlégarði 3. desember og ætlum að vera með mosfellska tónleikadagskrá. Þetta verða mjög flottir tónleikar og er það von mín að við náum að festa jólatónleika í Hlégarði í sessi, að Mosfellingar geti í framtíðinni gengið að því sem vísu,“ segir Greta Salóme. Auk hennar koma fram á tónleikum söngvararnir Jógvan Hansen og Diddú, hljómsveitin Swing kompaníið, Skólakór Varmárskóla og Kammerkór Mosfellsbæjar. Hægt verður að nálgast miða á þessa tónleika á midi.is.

20.000 manns sáu sýninguna í sumar
Greta Salóme hefur undanfarið eitt og hálft ár starfað á skemmtiferðaskipum hjá Disney og verið þar með sína eigin sýningu. „Í júlí 2014 fékk ég sjö vikna samning hjá þeim í gegnum umboðsskrifstofu í Bandaríkjunum. Ég var fyrst á skipinu Disney Dream sem tekur um 4.000 farþega. Þessar sjö vikur urðu að tæpum fimm mánuðum þar sem ég var með sýningu tvisvar í viku. Ég var bæði með verk eftir mig og aðra og einn söngvara með mér.“
Í kjölfarið var Gretu Salóme boðin svokallaður „headliner“ samningur. „Þá fékk ég leikstjóra frá Disney, búningahönnuð og grafískan hönnuð með mér til að skapa mína eigin sýningu. Í þessari sýningu var ég svo með fjóra dansara og einn söngvara.
Við sýndum þessa sýningu á skipi sem heitir Disney Magic, við sigldum frá Karíbahafinu til Evrópu og niður í Miðjarðarhaf. Þetta var ótrúlega gaman og telst mér til að um 20.000 manns hafi séð sýninguna mína í sumar. Það kom mér á óvart hve fjölbreytt mannlífið var um borð. Það var náttúrlega mikið af fjölskyldufólki, mikið af ungu fólki jafnvel í brúðkaupsferðum og svo harðir Disney-aðdáendur,“ segir Greta Salóme. Hún er þakklát fyrir þessa reynslu en er ánægð með að vera komin heim full tilhlökkunar fyrir komandi verkefnum og þá sérstaklega jólatónleikunum í Hlégarði.

Alltaf verið að breyta og bæta

Hákon Örn Bergmann heldur um taumana á Hvíta Riddaranum.

Hákon Örn Bergmann heldur um taumana á Hvíta Riddaranum.

Hákon Örn Bergmann er annar eigenda og rekstrarstjóri á Hvíta Riddaranum sem er veitingastaður í hjarta Mosfellsbæjar.
„Ég hef rekið staðinn frá áramótum og á þeim tíma hafa orðið þó nokkrar breytingar. Nú nýlega breyttum við opnunartímanum, nú opnum við kl. 11 og eldhúsið er opið til kl. 22. Staðurinn sjálfur er opinn til kl. 23:30 alla daga og til kl. 3:00 um helgar.
Þróunin frá áramótum hefur verið sú að við höfum lagt aukna áherslu á veitingastaðinn og matseðilinn frekar en að staðurinn sé bara bar og reynt að vera með fjölbreytta viðburði. Það hefur aukist mikið að fjölskyldufólk sæki staðinn og erum við bæði með barnamatseðil og sérstakt barnahorn sem hefur mælst vel fyrir,“ segir Hákon sem er ánægður með hve kúnnahópurinn er fjölbreyttur.

Hlaðborð í hádeginu
„Það er margt fram undan hjá okkur og nú erum við að byrja með hádegisverðarhlaðborð þar sem hægt verður að fá súpu, salat og fleira. Það er þörf fyrir þessa þjónustu og við erum að bregðast við því. Á næstu mánuðum ætlum við líka að gefa staðnum smá andlitslyftingu þ.e. nýtt gólfefni, skipta yfir í þægilegri stóla, uppfæra borðbúnað og þróa matseðilinn. Við ætlum að bæta inn á matseðilinn kjötréttum og einhverju fleira sem ekki hefur verið hægt að fá hjá okkur áður.“

Helgarleikirnir og meistaradeildin
„Það er alltaf stemning hjá okkur í kringum boltann, hér er góð aðstaða til að taka helgarleikina og meistaradeildina og eru allir velkomnir.
Við reynum að styðja vel við íþróttastarfið í bænum og tökum vel í allar beiðnir frá deildunum hvort sem það er með beinum stuðningi eða góðum tilboðum af matseðlinum hjá okkur,“ segir Hákon að lokum og vonar að Mosfellingar taki vel í þessar breytingarnar á Hvíta Riddaranum.

Fengið frábærar viðtökur

Kalli Tomm tileinkar Línu konu sinni diskinn.

Kalli Tomm tileinkar Línu konu sinni diskinn.

Kalli Tomm hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu sem nefnist Örlagagaldur. Kalli er betur þekktur sem trommuleikari Gildrunnar og forseti bæjarstjórnar en þessa dagana keyrir hann túrista um landið á rútu.
Kalli rær því á önnur mið með þessari 12 laga plötu sem hefur fengið góðar viðtökur. „Níu lög eru eftir mig, tvö eftir Jóhann Helgason og eitt eftir Guðmund Jónsson. Þeir tveir hafa fylgt þessu verkefni með mér frá upphafi. Með okkur hefur myndast góð vinátta og sömdu þeir þessi lög sérstaklega fyrir Örlagagaldur,“ segir Kalli.
Kalli hefur unnið að plötunni í eitt og hálft ár og hefur hún greinilega átt hug hans allan. „Þetta hefur verið mikil áskorun þar sem ég hef hvorki samið sjálfur né sungið mikið þrátt fyrir að hafa verið í tónlist lengi. Þetta var því djúp laug sem ég stökk út í en Lína konan mín hefur hvatt mig óendanlega mikið. Platan er einmitt tileinkuð henni og margir textarnir gefa það glögglega til kynna.“

Örlagagaldur fyllir skarðið
Af hverju ákvaðstu að sökkva þér í þetta verkefni?
„Það kemur í kjölfarið þess að hljómsveitin okkar, Gildran, hætti óvænt störfum eftir 30 ára samstarf þegar Birgir og Sigurgeir yfirgáfu skútuna. Mér fannst ég þurfa að fylla það skarð og er mjög ánægður með útkomuna. Ætli nafn plötunnar, ­Ör­­laga­galdur, hafi ekki orðið til vegna þess.
Viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum og ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir móttökur sveitunga minna. Þau viðbrögð hafa glatt mig mjög mikið.“

Diskurinn seldur beint frá býli
Hvernig tónlist er þetta?
„Platan er frekar lágstemmd heilt yfir þrátt fyrir nokkra spretti. Lögin eru í rólegri kantinum og minna rokk og ról en áður.
Hljóðfæraleikarar í grunninn eru Þórður Högnason kontrabassaleikari, Tryggvi Hübner gítarleikari og svo fékk ég gamla Gildrufélaga minn, Þórhall Árnason, á bassa og Gumma úr Sálinni á gítar.
Þá er ég með frábæra textahöfunda, Bjarka Bjarnason og Vigdísi Grímsdóttur með mér í liði á plötunni.
Svo er gaman að segja frá því að í laginu Góður dagur leiði ég saman þrjár kynslóðir Hólmara, þau Einar Hólm, Ólaf Hólm og Írisi Hólm sem öll eru úr Mosfellsbæ og góðir vinir míni.
Ekki má gleyma Pétri Baldvinssyni sem hannaði plötuumslagið sem hefur vakið verðskuldaða athygli,“ segir Kalli að lokum
Örlagagaldur er seldur beint frá býli í gegnum Kalla sjálfan en einnig er hægt að ná sér í eintak í Fiskbúðinni í Mosó.

Alltaf haft brennandi áhuga á stjórnmálum

annasiggavefur

Anna Sigríður hefur verið virk í starfi Samfylkingarinnar til margra ára og gegnt ýmsum ábyrgðarstörfum fyrir flokkinn. Hún situr í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og hennar helstu áherslumál snerta málefni barna og ungmenna ásamt íbúalýðræði og stjórnsýslu.

Anna Sigríður er fædd í Reykjavík 22. júlí 1959. Hún er dóttir hjónanna Katrínar ­Ólafsdóttur tækniteiknara og húsmóður og Guðna Guðmundssonar fyrrverandi rektors Menntaskólans í Reykjavík en þau eru bæði látin.
Hún er fimmta í röðinni af sjö systkinum en þau eru Guðmundur Helgi, Guðrún, Ólafur­ Bjarni, Hildur Nikólína, Sveinn Guðni og Sigurður Sverrir. Fjölskyldan bjó fyrstu fjögur ár Önnu á Óðinsgötu í Reykjavík en fluttist síðan á Laufásveginn.

Líf og fjör á heimilinu
„Í sjö systkina hópi er ávallt líf og fjör eins og vænta má. Skýrustu æskuminningarnar tengjast samveru fjölskyldunnar í gleði, hlátri og söng. Við fórum oft í göngutúra með pabba niður á höfn, svo í bíltúra eftir að bíll koma á heimilið. Skuturinn á Skodanum var fylltur af börnum, engin bílbelti og allir áhyggjulausir.
Kakó með rjóma og fjall af smurðu brauði á sunnudagskvöldum, þar sem iðulega duttu inn vinir og kunningjar á kvöldgöngu, er yndisleg minning.“

Hófu búskap í Reykjavík
Anna Sigríður hóf skólagöngu sína í Miðbæjarskólanum í Reykjavík sem hýsir nú Kvennaskólann en síðan lá leiðin í Austur­bæjarskóla en vorið 1975 tók hún landspróf frá Vörðuskóla. Hún lauk stúdentsprófi árið 1979 frá Menntaskólanum í Reykjavík og síðar námi í bókasafns- og upplýsingafræði frá Háskóla Íslands.
Anna Sigríður er gift Gylfa Dýrmundssyni rannsóknarlögreglumanni. Börn þeirra eru Guðni Kári fæddur 1976, tvíburasysturnar Ásdís Birna og Kristrún Halla eru fæddar 1993 og yngstur er Gunnar Logi fæddur 1996. Þá teljast einnig til fjölskyldunnar læðan Milla og tíkin Kolka.
Þau hjón hófu sinn búskap við Bergstaðastrætið í Reykjavík og bjuggu þar til ársins 1992.

Minnumst dvalarinnar með mikilli gleði
Anna og Gylfi dvöldu með elsta son sinn í Michigan í Bandaríkjunum um tveggja ára skeið, þar sem Gylfi var við nám. „Að búa í öðru landi er mjög lærdómsríkt, við kynntumst fjölda fólks víða að úr veröldinni sem hafði aðra siði og venjur en við og opnaði augu okkar fyrir fjölbreytileika mannlífsins á okkar kæru jörð. Við gátum ekki hugsað okkur að ílengjast ytra en minnumst dvalarinnar með mikilli gleði.
Ég held að það lærdómsríkasta sem ungt fólk geti gert sé að hleypa heimdraganum, ferðast til fjarlægari landa og helst að prófa að búa erlendis áður en það festir rætur.“
Eftir heimkomu fluttu þau til Hafnarfjarðar og síðar til Reykjavíkur en í júní 1999 flutti fjölskyldan í Mosfellsbæ og hefur búið þar síðan.

Börnin völdu öll knattspyrnu
„Þegar maður flytur í nýtt bæjarfélag þar sem maður þekkir engan er nauðsynlegt að finna sér vettvang fyrir félagsstörf til að komast inn í samfélagið. Fyrir utan þátttöku í foreldrasamfélagi í Varmárskóla þá má segja að þátttakan í sjálfboðastarfi innan Aftureldingar hafi opnað samfélagið fyrir okkur hjónin og við höfum kynnst fjölmörgum bæjarbúum og eignast góða vini.
Ég sat í stjórn BUR og var síðan kjörin í aðalstjórn Aftureldingar árið 2009, lengst af sem ritari eða til ársins 2013. Börnin þrjú völdu sér öll knattspyrnu sem sína íþróttagrein og við foreldrarnir fylgdum náttúrulega með. Það má segja að við höfum dvalið langdvölum öll sumur á mismunandi fótboltavöllum víða um land. Upp úr stendur bara indæl samvera og þroskandi íþróttaiðkun barnanna.“

Lifandi og fjölbreyttur vinnustaður
Anna Sigríður stundaði framhaldsnám í upplýsingamiðlun á heilbrigðissviði við Háskólann í Wales á árunum 2004-2006 en söðlaði síðan um og hóf meistaranám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands meðfram vinnu og vinnur hún nú að meistararitgerð sinni.
Anna hefur lengst af starfað á heilbrigðis­vísindabókasafni Landspítalans og starfar þar enn. Í tvígang hefur Anna hætt á spítalanum og skipt um starfsvettvang en í bæði skiptin komið til baka enda segir hún Landspítalann vera sérlega lifandi og fjölbreyttan vinnustað.

Allir hafi jöfn tækifæri
„Ég hef allt frá unglingsaldri haft brennandi áhuga á stjórnmálum, enda pólitík talsvert rædd á mínu æskuheimili. Foreldrar mínir voru jafnaðarmenn og má segja að ég hafi drukkið þá lífssýn í mig með móður­mjólkinni.
Jafnaðarstefnan felur í sér að skipuleggja samfélagið þannig að allir hafi jöfn tækifæri til að nýta hæfileika sína til að ná markmiðum sínum, leita lífshamingju og að lifa með reisn. Efnahagsleg staða má til dæmis ekki standa í vegi fyrir því að ungmenni sæki sér menntun og fólk á ekki að þurfa að teysta á ölmusu eða brauðmola sem hrjóta af borðum hinna velmegandi til að draga fram lífið.“

Tveir fulltrúar í bæjarstjórn
Anna Sigríður hóf ekki þátttöku í pólitík fyrr en eftir að hún flutti í Mosfellsbæinn. Hún hefur starfað með Samfylkingunni allt frá árinu 2004 og hefur setið í nefndum fyrir flokkinn, þá lengst af í fræðslunefnd. Hún hefur setið í stjórn og var formaður um árabil. Hún hefur einnig verið formaður kjördæmisráðs SV-kjördæmis, verið varaformaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og varamaður í fyrstu stjórn kvennahreyfingar flokksins.
Hún skipaði fyrsta sætið á framboðslista Samfylkingarinnar vorið 2014 í bæjar­stjórnar­kosningunum en flokkurinn náði tveimur kjörnum fulltrúum inn, hinn fulltrúinn er Ólafur Ingi Óskarsson.

Samtalið er mikilvægt fyrir lýðræðið
Hvað varðar bæjarstjórnarmálin þá segir Anna Sigríður það bæði auðga og dýpka umræðuna um bæjarmálin að ræða við fólk sem aðhyllist aðrar stjórmálaskoðanir og horfi á viðfangsefnið frá annarri hlið. Hún segir það þó ekki þýða að það náist sameiginleg niðurstaða eða skilningur í öllum málum. Mismunandi áherslur og ágreiningur sé eðlilegur í stjórnmálum en samtalið sjálft sé mikilvægt fyrir lýðræðið.
„Samræða um hugmyndir, forgangsröðun og leiðir að markmiðum er leið til betri ákvarðana því lýðræðið getur aldrei falist í því að meirihlutinn virði ekki minnihlutann viðlits, það heitir bara yfirgangur og eru löngu úrelt vinnubrögð.“

Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Eva kveður stjórn­málin í Mosfellsbæ

evamagnusdottir

Eva Magnúsdóttir varabæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar til margra ára hefur beðist lausnar. „Ég stofnaði fyrir um ári síðan ráðgjafarfyrirtækið Podium ehf. Það hefur farið mjög vel af stað sem þýðir að ég sé mér ekki fært að sinna starfi mínu sem varabæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar,“ segir Eva. „Ég verð því miður að biðjast lausnar frá því að vera varabæjarfulltrúi í Mosfellsbæ. Á næstu vikum og mánuðum mun ég vinna í því að þróa enn frekar framtíðarstefnu fyrir fyrirtækið mitt.“
Eva hefur starfað til fjölda ára í þágu Mosfellinga sem varabæjarfulltrúi, formaður fræðslunefndar og formaður fimleikadeildar og hefur starfið gefið henni mikið. „Ég vil þakka núverandi meirihluta og minnihluta fyrir farsælt og afar skemmtilegt samstarf og óska þeim alls hins besta í framtíðinni. Kjósendum mínum vil ég einnig þakka traustið og nota tækifærið að segja að þó það sé kannski gott að búa í Kópavogi þá er samt best að búa í Mosfellsbæ,“ segir Eva.
Podium sérhæfir sig í almannatengslum, markaðsmálum, stefnumótun og breytingastjórnun. Eva hefur margra ára reynslu af þessum málaflokkum en hún sat í framkvæmdastjórn Mílu og starfaði sem forstöðumaður samskipta og talsmaður hjá Símanum í alls 14 ár. Hún starfaði auk þess sem ráðgjafi í markaðs- og almannatengslum hjá KOM og var blaða- og fréttamaður um langt skeið.

Óperukór Mosfellsbæjar stofnaður

óperukór

Óperukór Mosfellsbæjar var formlega stofnaður þann 24. október af stjórnandanum Julian Hewlett. Kórinn er samsettur af tveim kórum sama stjórnanda, karlakórnum Mosfellsbræðrum og sönghópnum Boudoir, auk fleira fólks
Á döfinni framundan eru fyrstu formlegur tónleikar óperukórsins sem eru afar glæsilegir og hátíðlegir jólatónleikar undir yfirskriftinni „Jól í bænum” sem haldnir verða í Aðventkirkjunni í Reykjavík þann 29. nóvember kl.16.
Fluttir verða m.a. 2 kaflar úr Messíasi eftir Handel, tveir kafla úr kantötunni „Sjá himins opnast hlið” eftir Julian Hewlett, Jólanótt eftir Berlioz, Torches e. J.Joubert, Vögguljóð á jólum, Slá þú hjartans hörpustrengi og annað vel kunnugt jólaefni. Antonia Hevesi sér um meðleik með kórnum.
Hægt er að nálgast frekari upplýsinga um kórinn á fésbókarsíðu kórsins og getur kórinn bætt við sig röddum eftir áramót.

Nýjar reglur um hænsnahald í þéttbýli

Nú hafa tekið gildi nýjar reglur um hænsnahald í þéttbýli í Mosfellsbæ, samþykkt um hænsnahald í Mosfellsbæ, utan skipulagðra landbúnaðarsvæða. Þar kemur fram að leyfishafa er heimilt að halda allt að sex hænur í þéttbýli, en að ekki fáist leyfi til að halda hana (þ.e. karldýr). Leyfið er veitt til fimm ára í senn, og þar eru gerðar kröfur um aðbúnað og tekið sé tillit til nágranna varðandi staðsetningu og umhirðu hænsnanna. Reglurnar er að finna á vef bæjarins.

Prestar Lágafellssóknar sendir í leyfi til áramóta

Sr. Ragnheiður og sr. Skírnir að störfum.

Sr. Ragnheiður og sr. Skírnir að störfum.  Mynd/RaggiÓla

Séra Ragnheiður Jónsdóttir sóknarprestur og séra Skírnir Garðarsson prestur verða í leyfi frá Lágafellssókn til áramóta. Tveir nýir prestar hafa þegar tekið til starfa tímabundið og munu þjóna söfnuðinum næstu vikurnar.
Samkvæmt heimildum Mosfellings hefur óánægja ríkt í töluverðan tíma innan sóknarinnar og því gripið til þess ráðs að gefa báðum prestunum frí meðan unnið er að úrbótum. Ágreiningur hefur ríkt meðal þjóna kirkjunnar og komst Biskupsstofa að þeirri niðurstöðu á dögunum að ráða inn tvo afleysingapresta.
„Ég get staðfest það að báðir prestarnir eru í leyfi fram til áramóta. Þetta er niðurstaða af samtali við þau bæði og vinnur nú Biskups­stofa að farsælli lausn,“ segir Þorvaldur Víðisson biskupsritari.

Sr. Birgir og sr. Kristín leysa af
Ragnheiður var skipaður prestur í Mosfellsprestakalli 1. mars 2004 og Skírnir hefur starfað sem prestur í Mosfellsbæ frá ársbyrjun 2009.
Athygli hefur vakið að sá síðar­nefndi hefur sótt um tvö önnur prestaköll á síðustu misserum.
Séra Birgir Ásgeirsson og séra Kristín Pálsdóttir munu leysa þau af til áramóta. Séra Birgir þjónaði um árabil í Mosfellsprestakalli og þjónaði síðast sem prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Séra Kristín hefur víðtæka reynslu sem prestur í sóknum og á stofnunum, síðast í Árbæjarprestakalli.

 

Hér fyrir neðan er hægt að lesa Mosfelling (12. nóv. 2015)

„Þakklátur fyrir hvern einasta sjúkdómsfría dag“

Kári örn hefur barist við krabba- mein í yfir áratug.

Kári örn hefur barist við krabbamein í yfir áratug. Styrktartónleikar Kirkjukórs Lágafellssóknar fara fram laugardaginn 15. nóvember.

Jólaljós, árlegir styrktar- og jólatónleikar Kirkjukórs Lágafellssóknar verða haldnir þann sunnudaginn 15. nóvember og verður dagskráin létt, hátíðleg og fjölbreytt.
Diddú, María Ólafsdóttir, Hugi Jónsson, Bjarni Ara, Páll Rósinkranz, Greta Salóme, Hafdís Huld, Matthías Stefánsson, Jónas Þórir og að sjálfsögðu Kirkjukórinn munu koma fram ásamt mjög spennandi leynigesti.
Að þessu sinni eru tónleikarnir haldnir til styrktar Kára Erni Hinrikssyni sem er 27 ára Mosfellingur sem hefur barist við illvígt krabbamein í yfir áratug.

Gott að finna fyrir samkennd
„Það er erfitt að koma því í orð hvað ég er þakklátur. Ég hef fjórum sinnum greinst með krabbamein, síðast fyrir rúmum tveimur árum. Undanfarnir sex mánuðir hafa verið góðir hjá mér, sjúkdómsfríir, en rannsóknir sem ég fór í úti í Kaupmannahöfn í apríl komu vel út. Ég fer aftur í rannsóknir í nóvember og vona að þær komi vel út,“ segir Kári Örn.
„Tónleikarnir eiga eftir að verða geggjaðir enda ótrúlega mikið af hæfileikafólki sem ætlar að koma fram og á meðan ég kvíði mikið fyrir rannsóknunum þá hlakka ég til þessara tónleika. Styrkurinn á eftir að koma sér vel í baráttunni sem snýst um að lifa af, mögulega eignast barn ef örlögin leyfa og lenda í ævintýrum með ástinni minni henni Júlíönu. Að finna fyrir svona samkennd frá góðhjörtuðu fólki út í bæ er alveg sérstök tilfinning.“

Þakklátur fyrir hvern dag
Kirkjukór Lágafellssóknar hefur síðan 1999 haldið styrktartónleika í aðdraganda jólanna til styrktar ýmsum einstaklingum og málefnum undir nafninu Jólaljós en í ár fara þeir fram í Guðríðarkirkju og hefjast klukkan 16:00. Aðgangseyrir er 3.000 krónur og miðar eru seldir við innganginn.
„Ég hvet alla til að mæta og njóta fjölbreyttrar tónlistar og upplifa frábæra jólastemningu. Ég er þakklátur fyrir hvern einasta sjúkdómsfría dag sem ég fæ og óendanlega þakklátur öllum þeim sem koma að þessum styrktartónleikum,“ segir Kári Örn að lokum.

Alhliða styrkur

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Líkamlegan alhliða styrk er hægt að mæla með nokkrum vel völdum æfingum með eigin líkamsþyngd. Þessar æfingar eru rödd sannleikans, segja þér nákvæmlega hvar þú stendur. Þær eru öruggar og ef þú getur ekki framkvæmt þær 100%, þá er einfalt að finna auðveldari útgáfur sem þú getur gert til þess að bæta þig og styrkja.

Byrjum á upphífingum. Við erum að tala um dauðar upphífingar, engar sveiflur. Þú hangir á slá, hendur beinar, lófar snúa að, togar þig upp þannig að hakan komist yfir slána. Ef þú getur eina ertu í góðum málum, ef fleiri í enn betri málum, ef enga, þá þarftu að vinna í því ná þessu markmiði. Kannski þarftu að létta þig, kannski auka gripstyrk, kannski að læra að nota stóru bakvöðvana. En þú getur þetta ef þú virkilega vilt.

Næsta æfing er handstaða við vegg. Þú getur bakkað upp vegginn ef hefðbundna leiðin er of erfið. Ein mínúta í handstöðu er gott takmark. Næsta takmark er að láta þig síga þannig að haus nemi við jörðu, þriðja takmarkið að pressa þig aftur upp í handstöðu.

Hnébeygjur með eigin líkamsþyngd segja manni margt. Ef þú kemst alla leið niður þannig að rass nemi nánast við jörðu ertu í góðum málum, ef hælar lyftast ekki frá jörðinni. Þetta krefst liðleika. Ef þú getur þetta, prófaðu hnébeygju við vegg, andlitið snýr að veggnum, þú stendur nokkra sentimetra frá veggnum. Byrjar í efstu stöðu, sígur niður í neðstu stöðu á 30 sekúndum, togar þig upp á 30 sekúndum og sígur svo aftur niður á 30 sekúndum. Án þess að slaka á á milli. Ef þú getur híft þig upp, pressað eigin líkamsþyngd upp í handstöðu og framkvæmt 30/30/30 hnébeygju, fullyrði ég að þú búir yfir alhliða líkamlegum styrk sem geti nýst þér á margan hátt í daglegu lífi.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. nóvember 2015