Undirbúningur fyrir Þorrablótið í fullum gangi

thorrablot2017

Undirbúningur fyrir Þorrablót Aftureldingar 2017 stendur nú sem hæst en blótið verður sem fyrr haldið í Íþróttahúsinu að Varmá, laugardaginn 21. janúar.
Þetta er í tíunda sinn sem blótið er haldið með þessu sniði en í fyrra voru um 700 manns á blótinu og komust færri að en vildu.
„Stór hluti nefndarinnar hefur verið sá sami frá upphafi. Það hafa orðið einhverjar breytingar en það er svo gaman að standa í þessu að það vill engin hætta. Það hefur skapast ákveðin hefð fyrir góðri verkaskiptingu en mitt aðalhlutverk er að sjá til þess að miðasala og borðapantanir gangi vel,“ segir Anna Ólöf.

Breytingar á fyrirkomulagi
Búið er að ráða veislustjóra og hljómsveit, en einhverjar nýjungar verða á dagskránni í tilefni 10 ára afmælis sem verða kynntar síðar. Breytingar verða á miðasölu en ekki mun fara fram forsala á blótið sjálft en þó verður hægt að kaupa miða á ballið í forsölu.
„Nú í ár mun miðasala fara fram um leið og borðapantanirnar og einungis verður hægt að taka frá borð gegn keyptum miða. Í fyrra var uppselt og mikil aðsókn. Nú gildir bara fyrstir koma fyrstir fá. Nánari upplýsingar um hvar og hvenær miðasala mun fara fram verður vel auglýst síðar.
Nú er um að gera fyrir fólk að fara að undirbúa sig og sína hópa en við búumst við að það verði fljótt uppselt.“