Þolinmæði kennara á þrotum

kennarar

Kennarar í Mosfellsbæ afhentu í vikunni bæjarstjóra ályktun frá öllum grunnskólakennurum bæjarins.
Þar lýsa þeir yfir óánægju sinni með ákvörðun kjararáðs um launahækkanir, nú þegar samningar grunnskólakennara eru lausir. Úrskurður kjararáðs sé kornið sem fylli mælinn og ríki og sveit­ar­fé­lög geti ekki leng­ur vikið sér und­an ábyrgð.
Hljóðið í kennurum er þungt og segjast þeir ekki hafa þolinmæði lengur gagnvart samn­ingaviðræðum við sveit­ar­fé­lög­in. Það sé óháð því hvort kjararáð dragi úrskurð sinn til baka.

Sinna ábyrgðarmiklu starfi
Fram kemur í ályktuninni að kennarar telji sig sinna jafn ábyrgðarmiklu starfi og alþingismenn. Auk þess er grunnskólakennurum skylt að vera með fimm ára háskólanám að baki. Kominn sé tími til að laun grunnskólakennara verði jöfn launum framhaldsskólakennara og annarra háskólamenntaðra stétta.

Fara fram á aðgerðir tafarlaust
„Það er gjörsamlega ólíðandi að finna fyrir þeirri þrúgandi tilfinningu að við getum ekki lifað af launum okkar.“
Kennarar spyrja hvort það geti samrýmst skólastefnu Mosfellsbæjar að bjóða grunnskólakennurum lausa samninga, engar viðræður, lág laun og mikið vinnuálag. „Við höfum fengið nóg og förum fram á aðgerðir tafarlaust af hálfu sveitarfélagsins Mosfellsbæjar til að koma í veg fyrir flótta grunnskólakennara í önnur störf. Skólastarf í Mosfellsbæ er í húfi.“
Að baki ályktuninni standa kennarar í Lágafellsskóla, Krikaskóla og Varmárskóla en tveir af stærstu skólum landsins eru í Mosfellsbæ.
Þá hafa kennarar rætt sín á milli um að taka þátt í hópuppsögnum á verkalýðsdaginn 1. maí.