Halldóra Björnsdóttir íþróttafræðingur telur að hreyfing, hugleiðsla og góð næring sé lykillinn að heilbrigði og hamingju
Í byrjun árs var Halldóra sæmd riddarakrossi við hátíðlega athöfn á Bessastöðum fyrir framlag sitt til heilsuverndar og lýðheilsu. Hún hefur sinnt margvíslegu fræðslustarfi í gegnum tíðina, flutt erindi víða og talað máli beinverndar í fjölmiðlum.
Áhugamál hennar tengjast íþróttum og heilsu í víðasta skilningi. Hún æfði júdó og fimleika þar til skíðabakterían greip hana heljartökum en hún hefur kennt á skíði bæði hér heima og erlendis. Hjólreiðar eru nýjasta áhugamál Halldóru en hún hjólar til og frá vinnu eins oft og veður leyfir.
Halldóra er fædd í Reykjavík 12. apríl 1961. Foreldrar hennar eru þau Sigríður Jóna Kjartansdóttir fv. skrifstofustjóri og Björn Blöndal Kristmundsson fv. verslunarmaður. Halldóra á tvö systkini, Kjartan Halldór og Kristínu, en Kjartan lést árið 1974.
Fékk að leika sér í áhaldageymslunni
„Ég er alin upp í Sæviðarsundinu og á góðar minningar þaðan. Mamma æfði handbolta þangað til ég varð 8 ára og ég fór oft með henni á æfingar. Ég fékk að leika mér í áhaldageymslunni innan um bogahesta, kistur og alls kyns leikfimisdót. Ég held að grunnurinn að íþróttafræðunum sem ég lærði síðar og varð minn starfsvettvangur hafi orðið til þarna.
Ég sótti í að vera mest á hreyfingu á æskuárunum og hef verið fremur hreyfanleg síðan,“ segir Halldóra og brosir.
Skíðabakterían greip mig heljartökum
Halldóra æfði júdó frá 6-9 ára aldurs og var á þeim tíma sú yngsta sem tekið hafði beltapróf. „Þegar ég var farin að hafa meiri áhuga á að sníkja mér lakkrís í lakkrísgerðinni sem var í sama húsi og júdóæfingarnar þá létu foreldrar mínir mig hætta og ég skipti yfir í fimleika. Fimleikana stundaði ég af miklum áhuga í tvö ár eða þar til skíðabakterían greip mig heljartökum og ég æfði og keppti á skíðum í rúman áratug.“
Kvennaskólaárin voru dásamleg
Ég hóf skólagönguna í Ísaksskóla og þaðan lá leiðin í Langholtsskóla. Ég átti gott með að læra og var bara ánægð með alla kennarana mína. Að loknu barnaskólaprófi fór ég 13 ára gömul í Kvennaskólann í Reykjavík og lauk þaðan gagnfræðaskólanámi. Kvennaskólaárin voru dásamleg, en í skólanum kynntist ég skemmtilegum stelpum og ein þeirra er ein af mínum bestu vinkonum í dag.“
Ógleymanlegt í Kerlingarfjöllum
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég í Verzlunarskólann og útskrifaðist þaðan 1981. Ég æfði á skíðum öll skólaárin sem náði þó ekki að svala minni skíðafíkn því ég hélt áfram á sumrin og vann þá sem skíðakennari í Kerlingarfjöllum. Þar átti ég ógleymanlegar stundir með yndislegu og skemmtilegu samstarfsfólki.
Ég ákvað að fara til Austurríkis, læra þýsku og taka skíðakennarapróf. Ég kenndi á skíði heilan vetur í austurrísku Ölpunum og hafði sett stefnuna á nám við Íþróttaháskólann í Köln. Áform mín breyttust og fyrr en varði var ég komin hinum megin við Atlantshafið, langleiðina að Kyrrahafinu.“
Í stórbrotnu landslagi Klettafjallana
„Vinkona mín úr Verzló hvatti mig til þess að fylgja sér eftir til Edmonton í Albertafylki í Kanada og þangað fór ég haustið 1982 til þess að læra íþróttafræði. Námsárin urðu fjögur en ég útskrifaðist þaðan sem íþróttafræðingur með áherslu á íþróttir fatlaðra og líkamsþjálfun.
Ég æfði og keppti með skíðaliði skólans og fékk tækifæri til þess að skíða í stórbrotnu landslagi Klettafjallanna.“
Í Edmonton kynntist Halldóra samlanda sínum, Birgi Þór Baldvinssyni, sem sótt hafði þangað í framhaldsnám. Hann varð síðar eiginmaður hennar en hann starfar sem kennari við Klettaskóla. Þau eiga fjögur börn, Kjartan Þór fæddan 1987, Sigríði Þóru fædda 1991, Halldóru Þóru fædda 1993 og Kristínu Þóru fædda 1998. Barnabörnin eru þrjú, Áslaug Ýr, Elías Kári og Una Rán.
Frábær tími á Reykjalundi
„Á háskólaárunum vann ég á sumrin í heilsusporti á Reykjalundi sem var frábær tími. Það var ekki slæmt að fara á hestbak, sigla á Hafravatni, fara í sund og skemmta sér allan daginn.
Eftir að ég kom heim frá Kanada þá fór ég í Háskólann til að ná mér í kennsluréttindi til að geta kennt í grunn- og framhaldsskóla. Ég kenndi leikfimi í Stúdíói Jónínu og Ágústu í nokkur ár og einnig í Heilsurækt Seltjarnarness. Eins kenndi ég á mínu sérsviði íþróttir fatlaðra í Öskjuhlíðarskóla.”
Hjá Ríkisútvarpinu í 30 ár
Árið 1987 tók Halldóra við morgunleikfiminni hjá Ríkisútvarpinu og hefur haft umsjón með henni síðan eða í rúm 30 ár. Morgunleikfimin hefur nú verið á dagsskrá Ríkisútvarpsins í 61 ár en það var Valdimar Örnólfsson sem byrjaði með hana.
„Mér þykir afar vænt um morgunleikfimina og gleðst alltaf innilega þegar fólk hefur samband við mig og segist hafa verið samferða mér á þeim vettvangi.“
Fræðslustarf hjá Beinvernd
„Árið 2000 tók ég að mér framkvæmdastjórn hjá Beinvernd sem er félag áhugafólks um beinþynningu og afleiðingar hennar en þar starfa ég í hálfu starfi. Hjá félaginu hef ég sinnt margvíslegu fræðslustarfi, flutt erindi víða í félögum og stofnunum og talað máli beinverndar.
Ég tel mig hafa verið óþreytandi í því að upplýsa fólk um mikilvægi þess að hreyfa sig fyrir beinin og gæta þess að fá nóg af kalki og D-vítamíni.“
Tók virkan þátt í starfi Aftureldingar
Halldóra fór í jógakennaranám og kenndi m.a. eldri borgurum jóga á Hlaðhömrum í nokkur ár. Enn leitaði hún sér aukinnar menntunar við Háskóla Íslands, þaðan sem hún útskrifaðist með MA gráðu í menntunarfræðum árið 2005. Þaðan lá leið hennar á Rannsóknarstofu í öldrunarfræðum þar sem hún starfaði á árunum 2005-2008 samhliða starfi sínu hjá Beinvernd. Frá árinu 2008 hefur hún kennt íþróttir við Fjölbrautarskólann í Breiðholti.
„Áhugamál mín tengjast íþróttum og heilsu í víðasta skilningi. Ég tel að hreyfing, hugleiðsla og góð næring sé lykillinn að heilbrigði og hamingju. Ég hef tekið virkan þátt í starfi Aftureldingar, var m.a. í stjórn barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildarinnar til margra ára og starfaði mikið með meistaraflokki kvenna.“
Heilsan það dýrmætasta sem við eigum
Í byrjun árs var Halldóra sæmd riddarakrossi við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. „Fálkaorðan kom mér verulega á óvart en gladdi mig vissulega. Hún var veitt fyrir störf í þágu heilsuverndar og lýðheilsu og finnst mér afar ánægjulegt að þau málefni skulu vekja slíka athygli enda er heilsan það dýrmætasta sem við eigum.”
Mosfellingurinn 22. febrúar 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs