Mikilvægar samgöngubætur fyrir Mosfellinga komnar á samgönguáætlun

sssasd fasd fa sdf

Vesturlandsvegur liggur í gegnum Mosfellsbæ. 

Nú liggur fyrir að tvær mikilvægar samgöngubætur eru komnar á áætlun samkvæmt drögum að samgönguáætlun sem nú liggja fyrir Alþingi.
Samhliða þeirri vinnu rituðu framkvæmdastjórar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og samgönguráðherra undir viljayfirlýsingu þann 21. september um að hefja viðræður um uppbyggingu samgangna á höfðuborgarsvæðinu.
Þær framkvæmdir sem um er að ræða eru annars vegar að ljúka við tvöföldun Vesturlandsvegar þar sem hann liggur í gegnum Mosfellsbæ. Með þeirri framkvæmd mun draga verulega úr þeim umferðateppum sem íbúar Mosfellsbæjar hafa gjarnan orðið fyrir á álagstímum á einum umferðamesta þjóðvegi landsins.
Hins vegar er um að ræða endurbyggingu Þingavallavegar með það að markmiði að auka öryggi vegarins m.a. með gerð tveggja hringtorga auk undirganga. Báðar þessar framkvæmdir eru áætlaðar á fyrsta hluta tímabilsins eða 2019-2023.

Hefja framkvæmdir við borgarlínu 2020
„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur Mosfellinga að þessar samgöngubætur séu núna komnar á áætlun enda höfum við unnið jafnt og þétt að því á síðustu árum að tryggja þá niðurstöðu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Það er líka ánægjulegt að sjá hversu framarlega á áætlunartímabilinu þessar framkvæmdir eru, sem sýnir vel hversu brýnar þær eru.
Þá skiptir ekki síður máli að sameiginleg vinna innan höfuðborgarsvæðisins um uppbyggingu samgangna til næstu 10 ára er nú komin í formlegan farveg.“
Markmið viðræðna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er að ná samkomulagi um fjármagnaða áætlun um fjárfestingar í stofnvegum og kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Í viljayfirlýsingu er talað um að hefja framkvæmdir við það sem heitir hágæða almenningssamgöngur og stundum er nefnt borgarlína árið 2020.

Eyða flöskuhálsum og bæta flæði
Unnið verður að því að eyða flöskuhálsum í umferðinni með því að bæta umferðarflæði og efla umferðaröryggi og eru ráðherra og sveitarstjórnarmenn sammála um að bæta almenningssamgöngur. Í yfirlýsingunni segir: „Jafnframt verði skoðaðar nýjar fjármögnunarleiðir m.a. með nýrri gjaldtöku ríkisins og gjaldtökuheimildum til handa sveitarfélögunum.“
Að loknum viðræðum um ofangreind viðfangsefni er starfshópnum falið að leiða til lykta málefni Sundabrautar undir forystu Hreins Haraldssonar.