Afltak hlýtur jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar

kristín ýr og jónas Bjarni  eigendur afltaks

Kristín Ýr og Jónas Bjarni eigendur Afltaks taka við viðurkenningunni. 

Verktakafyrirtækið Afltak í Mosfellsbæ er handhafi jafnréttisviðurkenningar Mosfellsbæjar.
Afltak hefur ráðið konur til starfa sem hefðbundið hefur verið litið á sem karlmannsstörf auk þess að hvetja kvenkyns starfsmenn til iðnnáms. Í dag starfa fjórar konur hjá Afltaki og þrjár þeirra eru faglærðir húsasmiðir. Þá leggur Afltak mikla áherslu á að veita konum og körlum jöfn tækifæri og sömu laun fyrir sömu störf.
Með viðurkenningunni vill fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar hvetja fyrirtæki í Mosfellsbæ til að fylgja góðu fordæmi Afltaks og byggja undir vitundarvakningu og auka umræðu um jafnrétti kynjanna.
Eigendur Afltaks eru hjónin Kristín Ýr Pálmarsdóttir og Jónas Bjarni Árnason og er fyrirtækið staðsett að Völuteigi 1.
Viðurkenningin var veitt á Jafnréttisdegi Mosfellsbæjar þann 21. september. Landsfundur sveitarfélaga um jafnréttismál fór einnig fram á sama tíma í Hlégarði og Kletti.