Eitt af lottóum lífs míns að flytja í Mosfellssveit

beggómosfellingur

Ingibjörg Bergrós eða Beggó eins og hún er ávallt kölluð tók á móti mér á fallegu heimili sínu í Klapparhlíðinni. Sólin lék um okkur er við fengum okkur sæti út á svölum og ekki var útsýnið til að skemma fyrir. Það er gaman að vera í návist Beggó, hún er brosmild, kvik í hreyfingum og hlær dillandi hlátri.
Íþróttir eru hennar ástríða, hún var formaður Ungmennafélagsins Aftureldingar í átta ár, sat í stjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í 15 ár og er í dag formaður Kvennahlaups ÍSÍ.

Ingibjörg Bergrós er fædd í Vestmannaeyjum 6. desember 1953. Foreldrar hennar eru þau Jóhanna Þorsteinsdóttir húsmóðir og Jóhannes Pétur Sigmarsson múrari og vélstjóri. Þau eru bæði látin. Hún á tvö systkini, þau Helgu og Sigmar.

Bjuggum átján manns í sama húsi
„Ég er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Gæti ekki hugsað mér betri stað til þess að alast upp á, þarna er frelsið mikið og frábær náttúra.
Fyrsta minning mín úr æsku er þegar ég sat í tröppunum heima og frænka mín kom til mín og spurði mig hvað væri að. Ég svaraði því til að ég væri sko að bíða eftir að barnið kæmi en á þessum tíma átti ég von á bróður.
Þegar ég var að alast upp þá bjuggum við 18 manns í sama húsi. Móðir mín var elst 16 systkina og bjuggum við fjölskyldan ásamt afa og ömmu og 11 af systkinum mömmu saman. Mér finnst algjör forréttindi að hafa alist upp í svona stórum hópi og það var ávallt mikið líf í tuskunum.“

Skellti mér í að eignast barn
„Ég gekk í Barnaskóla Vestmannaeyja og fór síðan í Gagnfræðaskólann. Mér þótti alltaf gaman í skóla og stærðfræði og handavinna voru mín uppáhaldsfög. Með skólanum starfaði ég við fiskvinnslu og í sjoppu.
Eftir útskrift úr gaggó skellti ég mér í það að eignast barn með Jóni Ólafi Jóhannessyni. Við eignuðumst son í ágúst 1970 sem var skírður Jóhannes. Það kom ekkert annað til greina en að skíra barnið Jóhannes þar sem báðir afarnir hétu því nafni og ömmurnar hétu Jóhanna, allir glaðir,“ segir Beggó og brosir sínu fallega brosi.
„Ég tók þessu nýja hlutverki mjög alvarlega og fór ekki á böll eða neitt, í mesta lagi tók ég hann með mér á handboltaæfingar.
Við Jón slitum samvistum þegar Jóhannes var fimm ára.“

Barfluga á Ásláki
„Við fluttum upp á land 1975 í höfuðborgina og þar bjuggum við í tíu ár. Ég fékk vinnu við verslunarstörf og svo starfaði ég líka í þrjár vertíðar í mötuneytinu í Hval­stöðinni í Hvalfirði. Á Læknavaktinni vann ég í 5 ár og ég var barfluga í 8 ár á Ásláki sem var fyrsta sveitaskráin í Mosfellsbæ. Í dag starfa ég í hlutastarfi hjá endurskoðanda og við heimilishjálp.
Ég kynntist núverandi manninum mínum, Sigurði Óskari Waage, árið 1983 á Skálafelli á Hótel Esju. Hann er húsasmíðameistari og vann við það í áratugi en starfar í dag sem deildarstjóri hjá Bauhaus.“

Sæmd heiðurskrossi ÍSÍ
Áhugamál Beggó hafa löngum verið íþróttir, handavinna og garðrækt. Hún var formaður Ungmennafélagsins Aftureldingar í átta ár, hefur verið formaður Kvennahlaupsins á annan áratug og sat í stjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í 15 ár og var sæmd heiðurskrossi ÍSÍ fyrir vel unnin störf.
„Ég hef haft mikla ánægju af störfum mínum sem viðkoma íþróttum og hef kynnst mikið af góðu fólki sem ég er enn í góðum samskiptum við. Eitt af því sem staðið hefur upp úr í þessu íþróttabrölti mínu eru ferðalög til fjarlægra landa. Toppurinn á tilverunni voru Ólympíuleikarnir í London árið 2012.
Ég hef líka verið þeirrar gæfu aðnjótandi að horfa á barnabörnin mín keppa í hinum ýmsu íþróttagreinum og það er ekkert eins skemmtilegt og að garga úr sér lungum á leikjum hjá þeim.“

Búum öll á sama frímerkinu
„Eitt af lottóum lífs míns var þegar við fluttum í Mosfellssveit að Sólbakka en það var árið 1985. Sólbakki var draumastaður okkar fjölskyldunnar enda bjuggum við þar í tæp 30 ár. Þegar kom að því að hugsa sér til hreyfings þá kom aldrei til greina að flytja frá þessu fallega bæjarfélagi sem Mosfellsbær er. Við ákváðum að selja ekki fyrr en við fengjum íbúð í Klapparhlíð fyrir 50+ og það gekk eftir.
Sonur minn og tengdadóttir hafa líka búið hér í bænum allan sinn búskap og svo eru barnabörnin mín, Benedikt Geir, Sædís Rán, Ingibjörg Bergrós og Anton Örn öll búin að koma sér vel fyrir í Helgafellslandinu. Það er bara dásemdin ein að búa öll svona á sama frímerkinu ef má orða það svo, það gefur mér mikið.“

Draumastaður fjölskyldunnar
„Við byggðum okkur sumarbústað í Svínadal og þar eigum við okkar gæðastundir. Siggi dundar sér þar við smíðar á meðan ég hugsa um garðyrkjuna og grænmetisræktunina.
Það er ekkert eins yndislegt eins og að skella sér upp í bústað eftir vinnu á föstudögum og vera svo út í náttúrunni, kyrrðin er alveg hreint ómetanleg,” segir Beggó er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 27. september 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs